2010–2019
Hlusta á rödd hans
Apríl 2019


Hlusta á rödd hans

Himneskur faðir hefur gert okkur kleift að heyra rödd sína og fylgja sér, í heimi svo margra stríðandi radda.

Fyrr í morgun, gaf bróðir konu minnar henni miða sem hún hafði skrifað móður sinni fyrir mörgum árum síðan. Á þeim tíma var systir Homer einungis lítil stúlka. Á þessum miða sagði meðal annars: „Elsku mamma, fyrirgefðu að ég gaf ekki vitnisburð minn í dag – en ég elska þig.“ Þegar við fórum í hádegisverð fannst mér þetta vera mjög áhugavert. Ég settist því niður, skrifaði miða sem á stóð: „Kæri Nelson forseti, fyrirgefðu að ég flutti ekki ræðuna mína í dag – en ég elska þig.“ Þetta virtist samt ekki vera alveg í lagi. Því erum við hér og ég er ánægður að bæta orðum mínu við þeirra sem hafa talað á þessum ráðstefnuhluta í dag.

Fyrir mörgum árum flaug ég með lítilli flugvél, þar sem nývottaður flugmaður sat við stjórntækin. Í lok flugsins fengum við lendingarleyfi. Þegar við nálguðumst jörðina, heyrði ég aðvörunarhljóð í stjórnklefanum til flugmannsins um að „hækka flugið.“ Flugmaðurinn horfði á reyndari aðstoðarflugstjórann, sem gaf bendingu niður og í burtu frá flugbrautinni, og sagði: „Núna.“

Vélin sveigði snöggt til vinstri og niður, klifraði síðan aftur upp í viðeigandi hæð, kom aftur inn í lendingarferlið og komst örugglega á ákvörðunarstað. Við komumst síðar að því að önnur flugvél hafði fengið leyfi fyrir flugtak. Hefðum við fylgt aðvöruninni, hefðum við stefnt beint á hina flugvélina, en ekki sveigt hjá henni. Þessi reynsla kenndi mér tvær mikilvægar lexíur: Í fyrsta lagi munum við heyra fjölda radda í samkeppni um athygli okkar á tvísýnum augnablikum. Í öðru lagi er mikilvægt að hlýða á þær réttu.

Raddir í samkeppni

Við lifum í heimi þar sem margar raddir keppa um athygli okkar. Með nýjustu fréttum, tísti, bloggi, hlaðvörpum og sannfærandi ábendingum frá Alexu, Siri og öðrum, getum við átt erfitt með að vita hvaða röddum má treysta. Stundum söfnum við að okkur fjölda leiðbeininga og höldum að meirihlutinn muni veita bestu uppsprettu sannleika. Á öðrum stundum „[höltrum við] til beggja hliða,“1 og kjósum að vera „hvorki [köld] né [heit].“2 Á enn öðrum tímum fylgjum við því sem er þægilegt, einblínum á eina rödd eða málefni til leiðbeiningar, eða við reiðum okkur eingöngu á eigin hæfni til að hugsa.

Þótt sérhvert af þessu geti reynst gagnlegt, þá segir reynslan okkur að þetta sé ekki ætíð áreiðanlegt. Það sem er vinsælt, er ekki ávallt það besta. Það markar ekki fasta stefnu að vera á báðum áttum. Hentugleiki leiðir sjaldnast til þess sem máli skiptir. Að einblína á eina rödd eða málefni, getur brenglað hæfnina til að sjá. Að treysta eingöngu á eigin hugsanir, getur leitt til ofurgáfulegs andvaraleysis. Ef við höfum ekki varann á, geta rangar raddir leitt okkur frá kjarna fagnaðarerindisins, að stöðum þar sem erfitt er að viðhalda trú sinni og við finnum lítið annað en tómleika, birturleika og óánægju.

Hlusta á rangar raddir

Leyfið mér að sýna hvað ég á við með því að nota líkingu og dæmi úr ritningum. Fjallaklifurmenn tala gjarnan um hæðina yfir 8.000 metra sem „dauðabeltið,“ vegna þess að í slíkri hæð er ekki nægt súrefni til að viðhalda lífi. Það er til andleg samsvörun við dauðabeltið. Ef við verjum of miklum tíma á stöðum vantrúar, munu raddir, sem virðast vel meinandi, svipta okkur því andlega súrefni sem við þörfnumst.

Í Mormónsbók lesum við um Kóríhor sem upplifði slíkt. Hann naut mikilla vinsælda vegna þess að kenningar hans voru „holdlegu hugarfari [geðþekkar].“3 Hann sagði að foreldrar og spámenn kenndu heimskulegar erfikenningar sem gerðar væru til að hefta frelsi og viðhalda fáfræði.4 Hann færði rök fyrir því að fólki ætti að vera frjálst að gera hvaðeina sem því langaði, vegna þess að boðorð væru einungis upphugsaðar hömlur til að hagnast á.5 Fyrir honum var friðþæging Jesú Krists „órar truflaðrar hugsunar,“ sköpuð til að trúa á veru sem ekki gæti verið til, því ekki væri hægt að sjá hana.6

Kóríhor skapaði svo mikinn æsing að hann var færður fyrir æðsta dómarann og háprestinn. Þar reis hann upp „með mörgum fjálglegum orðum,“ gagnrýndi leiðtogana og krafðist tákns. Honum var veitt tákn. Hann var lostinn þannig að hann gat ekki talað. Kóríhor gerði sér þá grein fyrir að hann hafði verið blekktur og er hann leiddi hugann að dýrmætum sannleika sem hann hafði yfirgefið, kveinaði hann: „Ég vissi.“7

Kóríhor betlaði síðan mat, þar til hann var troðinn til bana af hópi Sóramíta.8 Síðasta vers sögunnar inniheldur skynsamlega athugun: „Og þannig sjáum við, að djöfullinn stendur ekki með börnum sínum á efsta degi, heldur dregur þau hratt niður til heljar.“9

Hinn rétta rödd

Himneskur faðir gerir okkur kleift að heyra rödd sína, því hann óskar okkur betri örlög. Oftast heyrum við í honum í gegnum hughrif heilags anda. Heilagur andi er þriðji aðili Guðdómsins. Hann vitnar um föðurinn og soninn,10 var sendur til að „kenna [okkur] allt,“11 og „sýna [okkur] allt, sem [okkur] ber að gjöra.“12

Andinn talar til mismunandi fólks á mismundandi vegu og hann getur talað til sama einstaklings á mismunandi vegu og á mismunandi tímum. Það er því ævilangt verkefni að læra hvernig hann talar til okkar á mismunandi hátt . Stundum talar hann „í huga [okkar] og hjarta“ 13 með röddu sem er lágvær, en samt áhrifamikil, sem nístir „[þá] … að innstu hjartarótum … sem hana [heyra].“14 Á öðrum tímum munu hughrif hans „fylla huga [okkar]“ eða „sækja sterkt á [okkur].“15 Á öðrum tímum mun brjóst okkar „brenna hið innra.“16 Á enn öðrum tímum fyllir hann sál okkar gleði, upplýsir huga okkar 17 eða veitir okkur hugarró.18

Finna rödd hans

Við getum fundið rödd föðurins á mörgum stöðum. Við munum finna hana er við biðjum, lærum ritningarnar, mætum í kirkju, tökum þátt í trúarlegum samræðum eða förum í musterið. Við munum áreiðanlega finna hana í ráðstefnunni einmitt þessa helgi.

Í dag studdum við 15 karlmenn sem spámenn, sjáendur og opinberara. Andríki þeirra og reynsla veitir þeim einstaka sýn, sem við nauðsynlega þörfnumst. Boðskap þeirra er auðvelt að finna og hann er algjörlega auðskilinn. Þeir segja okkur það sem Guð vill að við vitum, hvort sem það er vinsælt eða ekki.19

Gott er að leita raddar hans á einhverjum þessara staða, en jafnvel enn betra er að leita hennar á mörgum þessara staða. Þegar við heyrum hana, verðum við að fylgja þeim leiðbeiningum sem gefnar eru. Jakob postuli sagði: „Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess.“20 Thomas S. Monson forseti kenndi líka eitt sinn: „Við horfum. Við bíðum. Við hlustum á hina hljóðu, lágværu rödd. Þegar hún talar, hlýða vitrir karlar og konur.“21

Þegar dráttur verður á leiðbeiningum

Snemma á starfsframa mínum voru systir Homer og ég beðin um að gera breytingu á starfi okkar. Á þeim tíma fannst okkur það vera ógnarstór ákvörðun. Við lásum, við föstuðum og við báðumst fyrir, en svarið dróst á langinn. Að lokum tókum við ákvörðun og framkvæmdum eftir því. Þegar við gerðum svo, skynjuðum við ró og síðar komumst við að því að þetta var ein besta ákvörðun lífs okkar.

Af þessu leiddi að við lærðum að svörin dragast stundum. Það gæti verið af því að tíminn var ekki réttur, af því að svar er ekki nauðsynlegt eða af því að Guð treystir okkur til að taka ákvörðunina sjálf. Öldungur Richard G. Scott kenndi eitt sinn að við ættum að vera þakklát á slíkum stundum og gaf okkur loforð: „Þegar þið lifið verðugu lífi og val ykkar samræmist kenningum frelsarans og þið þurfið að framkvæma, haldið áfram í trausti. … [Guð mun] ekki láta ykkur halda of lengi áfram án þess að veita aðvörunarboð, ef ákvörðun ykkar var röng.“22

Við verðum að velja

Þannig verðum við að ákveða hverri hinna mismunandi radda við viljum hlýða. Munum við fylgja hinum óáreiðanlegu röddum, sem heimurinn styður, eða munum við gera það sem þarf til að leyfa rödd föðurins að leiðbeina okkur í ákvörðunum og vernda okkur frá hættu? Því meira sem við leitum raddar hans af kostgæfni, því auðveldar verður að heyra hana. Ekki þannig að rödd hans verði háværari, heldur hefur hæfni okkar til að heyra hana aukist. Frelsarinn lofaði að þeim sem „hlusta á setningar [hans] og ljá ráðum [hans] eyra,“ mun hann „gefa meira“.23 Ég ber vitni um að þetta loforð er raunverulegt – fyrir sérhvert okkar.

Fyrir tæpu ári misstum við eldri bróður minn í hörmulegu bílslysi. Fyrri ár Johns voru full væntinga og afreka. Er hann varð eldri, gerði brotinn líkami og ósamvinnuþýður hugur líf hans erfitt. Þó að lækningin sem hann vonaðist eftir kæmi ekki í þessu lífi, hélt John engu að síður í trú sína, staðráðinn í að standast allt til enda eins vel og hann gæti.

Ég veit að John var ekki fullkominn, en ég hef íhugað hvað það var sem veitti honum slíkt þolgæði. Margar raddir buðu honum að verða bitur, en hann ákvað að verða það ekki. Þess í stað gerði hann sitt besta til að rótfesta sig við kjarna fagnaðarerindisins. Þannig lifði hann lífi sínu, því hann vissi að þannig myndi hann finna rödd meistarans; hann lifði lífi sínu þannig, því hann vissi að þannig hlyti hann kennslu.

Lokaorð

Bræður og systur, ég ber vitni um að himneskur faðir hefur gert okkur kleift að heyra rödd sína og fylgja sér, í heimi svo margra stríðandi radda. Ef við erum kostgæfin, mun hann og sonur hans veita okkur þær leiðbeiningar sem við leitumst eftir, þann styrk sem við þörfnumst og þá hamingju sem við öll þráum. Í nafni Jesú Krists, amen.