2010–2019
Æfa okkar andlegu vöðva
Apríl 2019


Æfa okkar andlegu vöðva

Rétt eins og það er ekki nóg að lesa og læra um vöðvana til að byggja upp vöðva, er ekki nóg að lesa og læra um trú án þess að leggja til verkin til að efla trú.

Ég er þakklátur fyrir blessanir efnislegs líkama, sem er undursamleg gjöf frá föður okkar á himnum. Í líkamanum eru rúmlega 600 vöðvar.1 Marga vöðva þarf að þjálfa til að haldast í formi fyrir daglega starfsemi. Við getum eytt mikilli hugarvinnu í að lesa og læra um vöðvana, en við verðum vonsvikin ef við höldum að það styrkir þá. Vöðvarnir vaxa eingöngu þegar við notum þá.

Ég hef gert mér ljóst að andlegar gjafir virka á svipaðan hátt. Þær þarf líka að nota til að auka við þær. Til að mynda þá er hin andlega gjöf trúarinnar ekki einungis tilfinning eða hugarástand; hún felur í sér verk og er regla sem oft kemur fyrir í ritningunum í tengslum við sagnorðið iðka.2 Rétt eins og það er ekki nóg að lesa og læra um vöðvana til að byggja upp vöðva, er ekki nóg að lesa og læra um trú án þess að leggja til verkin til að efla trú.

Þegar ég var 16 ára kom elsti bróðir minn, Ívan, 22ja ára á þeim tíma, heim dag einn og færði fjölskyldunni fréttir. Hann hafði ákveðið að skírast í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Foreldrar okkar horfðu nokkuð vantrúuð á hann, en ég man að ég skildi ekki fyllilega hvað um var að vera. Ári síðar, eða svo, kom hann okkur enn á óvart: Hann hafði ákveðið að þjóna í trúboði fyrir kirkjuna, sem þýddi að við sæjum hann ekki í tvö ár. Foreldrar mínir voru ekki hrifnir af þessu, samt sá ég að hann var mjög staðráðinn og það jók aðdáun mína á honum og ákvörðun hans.

Mánuðum síðar, er Ívan var í trúboðsþjónustu, gafst mér tækifæri til að skipuleggja sumarfrí, ásamt nokkrum bekkjarsystkinum. Okkur langaði að halda upp á útskrift okkar úr menntaskóla og eyða nokkrum dögum á ströndinni.

Ég skrifaði bróður mínum í trúboði og minntist á sumarleyfisáætlanir mínar. Hann skrifaði til baka og sagði að bærinn sem hann þjónaði í væri í leiðinni að ákvörðunarstað mínum. Ég taldi að það vera góða hugmynd að koma við og heimsækja hann. Það var ekki fyrr en síðar að ég komst að því að trúboðar ættu ekki að fá heimsókn frá fjölskyldunni.

Ég kom öllu í kring. Ég man að ég sat í rútunni og hugsaði um hvernig Ívan og ég gætum skemmt okkur saman á þessum fagra sólardegi. Við myndum borða morgunmat saman, spjalla, leika okkur í sandinum, fara í sólbað – við myndum aldeilis eiga saman ánægjulegan tíma!

Þegar rútan kom á áfangastað, sá ég Ívan standa við hlið annars ungs manns og báðir voru í hvítum skyrtum og með bindi. Ég fór úr rútunni, við föðmuðumst og hann kynnti félaga sinn. Án frekari bollalenginga sagði ég bróður mínum frá áætlunum dagsins, en vissi lítið um hvað Ívan hafði áætlað að gera. Hann horfði á mig, brosti og sagði: „Vissulega! Samt þurfum við að sinna hinu og þessu fyrst. Viltu koma með okkur?“ Ég samþykkti og hugsaði að tíminn væri nægur til að njóta strandarinnar á eftir.

Á þessum degi gekk ég rúma 10 klukkustundir um götur bæjarins ásamt bróður mínum og félaga hans. Ég brosti til fólks allan daginn. Ég heilsaði fólki sem ég hafði aldrei á ævi minni séð. Við töluðum við alla, bönkuðum á dyr ókunnugra og heimsóttum fólk sem bróðir minn og félagi hans voru að kenna.

Í einni slíkri heimsókn voru bróðir minn og félagi hans að kenna um Jesú Krist og sáluhjálparáætlunina. Skyndilega gerði Ívan hlé og horfði á mig. Mér til undrunar bað hann mig kurteislega að deila skoðun minni á því sem kennt hafði verið. Allt datt í dúnalogn, öll augu hvíldu á mér. Með erfiðismunum fann ég loks orðin og deildi tilfinningum mínum um frelsarann. Ég vissi ekki hvort það sem ég sagði væri satt eða ekki. Bróðir minn leiðrétti mig aldrei; þvert á móti, hann þakkaði mér fyrir að deila hugsunum mínum og tilfinningum.

Á þessum klukkustundum vörðu bróðir minn og félagi hans alls engum tíma í að kenna mér sérstaklega einhverja lexíu, samt hlaut ég meiri þekkingu en í öllum fyrri samtölum við hann. Ég varð vitni að því hvernig andlit breyttust er fólk tók við andlegu ljósi í lífi sínu. Ég sá hvernig sumir öðluðust von í boðskapnum og ég lærði hvernig þjóna skal öðrum og gleyma sjálfum sér og eigin þörfum. Ég var að gera það sem frelsarinn kenndi: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér.“3

Er ég lít til baka, geri ég mér grein fyrir því að trú mín óx þennan dag, vegna þess að bróðir minn gaf mér tækifæri til að færa hana yfir í verk. Ég iðkaði hana eins og við lesum um í ritningunum, leitaði að fólki til að kenna, gaf vitnisburð, þjónaði öðrum og svo framvegis. Við fórum ekki í sólbað þennan dag, en hjarta mitt var baðað ljósi frá himnum. Ég sá ekki eitt einasta sandkorn á ströndinni, en fann að trú mín óx eins og mustarðskorn.4 Ég varði þessum sólardegi ekki eins og ferðamaður, en ég öðlaðist dásamlega reynslu og án þess að gera mér grein fyrir því var ég trúboði – jafnvel án þess að vera meðlimur kirkjunnar!

Tækifæri til að styrkja andlega vöðva

Við getum hlotið skilning á því hvernig himneskur faðir hjálpar okkur að þroska andlegar gjafir, þökk sé endurreisn fagnaðarerindisins. Líklegra er að hann muni veita okkur möguleika á að þroska þessar gjafir, frekar en að gefa okkur þær bara án andlegrar og líkamlegrar áreynslu. Ef við erum samstillt anda hans, munum við læra að koma auga á þau tækifæri og síðan að bregaðst við þeim.

Ef við keppum að aukinni þolinmæði, gætum við þurft að iðka hana meðan við bíðum eftir viðbrögðum. Ef við keppum að auknum náungakærleika, gætum við lagt rækt við hann með því að sitja við hlið nýkomins einstaklings í kirkju. Sama gildir um trúna: Þegar efasemdir sækja á hugann, er þess krafist að við treystum á fyrirheit Drottins er við sækjum fram. Þannig æfum við og þroskum andlega vöðva, svo þeir verði afl til styrktar í lífi okkar.

Það verður áreiðanlega ekki auðvelt til að byrja með og gæti jafnvel reynst mikil áskorun. Orð Drottins, gefin spámanninum Moróní, eiga við um okkur í dag: „Og komi menn til mín, mun ég sýna þeim veikleika sinn. Ég gef mönnum veikleika, svo að þeir geti orðið auðmjúkir. Og náð mín nægir öllum mönnum, sem auðmýkja sig fyrir mér. Því að ef þeir auðmýkja sig fyrir mér og eiga [eða iðka] trú á mig, þá mun ég láta hið veika verða styrk þeirra.“5

Ég er þakklátur bróður mínum Ívan, sem ekki aðeins deildi fagnaðarerindinu með mér, heldur bauð mér á óbeinan hátt að lifa eftir því og koma auga á veikleika mína. Hann hjálpaði mér að meðtaka boð meistarans: „Kom, fylg mér“6 – að ganga eins og frelsarinn gekk, leita eins og frelsarinn leitaði og elska eins og frelsarinn elskaði. Mánuðum síðar, eftir trúboðsreynslu mína, ákvað ég að láta skírast og þjóna sjálfur í trúboði.

Meðtökum boð Russells M. Nelson forseta um að koma einlæglega til frelsarans,7 með því að koma auga á þá vöðva sem þarfnast aukinnar andlegrar virkni og byrja að þjálfa þá. Þetta er langhlaup, maraþon frekar en spretthlaup, gleymið því ekki hinum smáu og stöðugu andlegu æfingum, sem styrkja munu hina mikilvægu andlegu vöðva. Ef við viljum auka við trú okkar, skulum við iðka þá hluti sem krefjast trúar.

Ég vitna um að við erum börn kærleiksríks föður. Sonur hans, Jesús Kristur, elskar okkur. Hann kom til þessa heims til að vísa okkur veginn og gaf síðan líf sitt sjálfviljugur til að veita okkur von. Frelsarinn býður okkar að fylgja sínu fullkomna fordæmi, að iðka trú á sig og friðþægingu sína og efla allar þær andlegu gjafir sem við höfum verið blessuð með. Hann er vegurin. Þetta er vitnisburður minn, í nafni Jesú Krists, amen.