2010–2019
Endurnærast af orði Krists
Apríl 2019


Endurnærast af orði Krists

Við getum endurnærst af orðum Krists hvar og hvenær sem er, ef við undirbúum hjörtu okkar.

Himneskur faðir elskar okkur. Hann hefur séð okkur fyrir fullkominni áætlun til að njóta blessana hans. Í þessu lífi er okkur öllum boðið að koma til Krists og meðtaka endurreist fagnaðarerindi Jesú Krists í gegnum skírn, gjöf heilags anda og að lifa trúfastlega eftir fagnaðarerindinu. Nefí segir að með skuldbindingu okkar í skírninni förum við inn á hinn „krappa og þrönga veg,“ og hann minnir okkur á að halda áfram að „sækja fram, [staðföst] í Kristi, … [endurnærð] af orði Krists, og [að standa stöðug] allt til enda,“ svo við getum meðtekið allar þær blessanir sem himneskur faðir hefur lofað okkur (2 Ne 31:19–20).

Nefí minnir okkur áfram á að ef við munum „[endurnærast] af orði Krists,“ þá „[mun það] segja [okkur] að fullu, hvað [okkur] ber að gjöra“ (2 Ne 32:3) og að við munum hafa kraftinn til að sigrast á „[eldtungum] andstæðingsins“ (1 Ne 15:24).

Hvað er að endurnærast?

Þegar ég var ungur hélt ég að það að endurnærast væri bara að borða stóra máltíð með hrísgrjónum, sushi og sojasósu. Ég veit nú að sönn endurnæring er meira en að njóta bragðgóðrar máltíðar. Það er upplifun gleði, næringar, fögnuðar, samnýtingar, kærleikstjáningar gagnvart fjölskyldu og ástvinum, tjáning á þakklæti okkar til Guðs og að byggja sambönd á sama tíma og við njótum ríkulegs, ótrúlega bragðsgóðs matar. Ég trúi því að þegar við endurnærumst af orði Krists, ættum við að hugsa um samskonar upplifun. Að endurnærast af ritningunum er ekki bara að lesa þær. Það ætti að færa okkur raunverulega gleði og byggja upp samband okkar við frelsarann.

Þetta er greinilega kennt í Mormónsbók: Minnist draums Lehís þegar hann sá tré „sem bar girnilegan ávöxt til þess fallinn að færa mönnum hamingju.“ Þessi ávöxtur táknar elsku Guðs og er Lehí bragðar á ávextinum, var hann „sætari en allt annað, sem [hann] hafði nokkru sinni áður bragðað.“ Og „sál [hans varð] gagntekin ákaflega miklum fögnuði.“ og var nokkuð sem hann vildi deila með fjölskyldu sinni (1 Ne 8:10–12).

Þegar við endurnærumst er líklegt að við munum einnig finna að magn eða tegund matarins sem við neytum mun ekki skipta máli, ef hjörtu okkar eru fyllt þakklæti. Fjölskylda Lehís nærðist á hráu kjöti í óbyggðunum, en Nefí lýsti þessum erfiðu raunum, er hann sagði: „Blessun Drottins hvíldi yfir okkur í svo ríkum mæli“ að „[eiginkonum] okkar… óx svo þrek,“ að þær ólu börn „möglunarlaust“ (1 Ne 17:1–2).

Endurnæring felst stundum í tilraunum og að smakka. Alma segir frá góðu sáðkorni sem gróðursett er í hjörtum okkar. Þegar við gerum tilraun með það, munum við finna að sáðkornið fer að verða okkur „unun“ (sjá Alma 32:28–33).

Endurnærast af orði Krists

Blessanir þess að endurnærast af orði Krists eru kröftugar og lífsumbreytandi. Það eru sérstaklega þrjár sem mig langar að bjóða ykkur að heimfæra yfir á ykkar líf.

Til að byrja með þá geta orð Krists „[aukið] andlega hæfni [okkar] til að meðtaka persónulega opinberun“ (Russell Nelson, „Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf,“ aðalráðstefna apríl 2018) og leitt okkur örugglega í gegnum líf okkar. Mormón kennir að orð Krists hafi „tilhneigingu til að leiða fólkið í réttlætisátt,“ og að þau séu öflugri en „sverðið“ geti nokkru sinni orðið (Alma 31:5). Er ég hef leitað að visku Guðs í baráttu við eigin áskoranir, hef ég alltaf fundið fyrir hvatningu og getu til að taka viturlegar ákvarðanir þegar ég hef látið reyna á „kraft Guðs orðs,“ (Alma 31:5) sigrast á freistingum og blessað líf mitt með aukinni trú á Krist og kærleika til þeirra sem í kringum mig eru. Spámaður okkar, Russel M. Nelson forseti, hefur kennt okkur að „á komandi tíð verður ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta stöðugrar handleiðslu, huggunar og áhrifa heilags anda“ („Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf“). Þarfar opinberanir munu koma er við reynum „kraft Guðs orðs“ og það orð mun vera kröftugra en nokkuð annað sem við gætum reynt eða ímyndað okkur.

Í öðru lagi, þegar við kljáumst við okkar eigin auðkenni og skort á sjálfsvirðingu, þá mun hið „velþóknanlega orð Guðs (Jakob 2:8) í ritningunum, hjálpa okkur að vita hver við erum í raun og veita okkur styrk umfram okkar eiginn. Að gera mér grein fyrir auðkenni mínu sem barn Guðs, var eitt af ljúfustu augnablikum sem ég hef nokkru sinni upplifað. Er ég var á mínum yngri táningsárum, vissi ég ekkert um kenningar frelsarans. Þegar ég las Nýja testamentið í fyrsta sinn, læknuðu orð Krists sannarlega særða sál mína. Ég gerði mér grein fyrir því að ég var ekki einn og að ég er barn Guðs. Þegar ég kynntist hinu sanna auðkenni mínu frammi fyrir Guði, gerði ég mér grein fyrir óendanlegum möguleikum mínum í gegnum friðþægingu Krists.

Á sama hátt deildi Enos sinni persónulegu upplifun af uppljómun þeirri sem hlýst af því að íhuga orð Krists. Þegar Enos leyfði orðunum sem faðir hans kenndi honum um „eilílft líf og gleði heilagra, [að smjúga] djúpt inn í hjarta [hans], hungraði sál hans, og [hann] kraup niður frammi fyrir skapara [sínum] og ákallaði hann í … auðmjúkri bæn“ (Enos 1:3–4). Í þeirri bæn kynntist hann frelsaranum og lærði að við erum mikils virði, erum elskuð og getum fengið fyrirgefningu fyrir mistök okkar og erum sannarlega börn Guðs.

Í þriðja lagi, getum við lyft öðrum í gegnum orð Krists. Eins og Enos átti sinn tíma og stað þar sem orð Krists snertu hjarta hans, þá mun Drottinn gera sitt til að snerta hjörtu þeirra sem við viljum deila fagnaðarerindinu með. Mörg okkar gætum hafa upplifað vonleysi þegar við reyndum að bjóða einhverjum að hlusta á fagnaðarerindið, vegna þess að viðbrögðin urðu önnur en við höfðum vonast eftir. Þrátt fyrir viðbrögðin, býður Drottinn okkur að tjá okkur og deila fagnaðarerindinu með öðrum.

Fyrir tveim árum snerti Drottinn hjarta móður minnar og það hjálpaði henni að taka ákvörðun um að meðtaka helgiathöfn skírnar. Ég hafði þurft að bíða eftir þessum degi í næstum 35 ár. Til að aðstoða hana við að taka þessa ákvörðun, höfðu margir meðlimir kirkjunnar þjónað henni samviskusamlega, eins og Kristur hefði gert. Sunnudag einn fannst henni að hún ætti að fara í kirkju. Hún fylgdi þeirri hvatningu. Á meðan hún sat í fremstu röð og beið eftir að sakramentissamkoman hæfist stóð fjögurra ára drengur fyrir framan hana og horfði á hana. Hún heilsaði honum með brosi. Litli drengurinn fór snögglega frá henni og gekk aftur í sitt eigið sæti, sem var á hinum enda raðarinnar sem móðir mín sat á. Þessi litli drengur náði í eitthvað úr sæti sínu, kom aftur og rétti móður minni sálmabók og gekk svo til baka í sæti sitt. Móðir mín tók eftir því að sálmabækur höfðu verið settar í annað hvert sæti í kapellunni. Hún hefði einfaldlega getað náð í bók á stólnum við hlið sér. Hún var hins vegar mjög hrifin af saklausu góðverki drengsins, sem hann hafði lært á heimili sínu og í kirkju. Þetta var ljúf stund fyrir hana. Hún hafði sterka tilfinningu fyrir því að Guð væri að bjóða henni að koma og fylgja frelsaranum. Henni fannst hún ætti að láta skírast. Þessi litli drengur leitaði ekki viðurkenningar á því sem hann hafði gert, heldur gerði sitt besta til að lifa eftir orði Guðs og elska náunga sinn. Góðmennska hans olli mikilvægri hugarfarsbreytingu hjá móður minni.

Orð Krists munu snerta hjörtu djúpt og opna augu þeirra sem sjá hann ekki enn. Tveir lærisveinar gengu með Jesú á veginum til Emmaus. Þeir voru sorgmæddir og gerðu sér ekki grein fyrir því að frelsarinn hafði sigrað dauðann. Í sorg þeirra þekktu þeir ekki að hinn lifandi Kristur gekk með þeim. Þó að Jesús „útlagði fyrir þeim það sem um hann er ritað í öllum ritningunum,“ þekktu þeir hann ekki enn sem hinn endurreista frelsara, fyrr en þeir sátu og brutu brauð með honum. Þá opnuðust „augu“ þeirra. Er við – eða vinir okkar, kunningjar og nágrannar – endurnærumst og brjótum brauð með honum, munu augu skilnings okkar opnast. Þegar lærisveinarnir við Emmaus hugleiddu tíma sinn með frelsaranum, sögðu þeir að hjörtu þeirra hefðu brunnið er hann lauk upp fyrir þeim ritningunum (sjá Lúk 24:27–32). Þetta verður svo fyrir okkur öll.

Lokaorð

Í lokin ber ég vitni um að við getum endurnærst af orðum Krists hvar og hvenær sem er, ef við undirbúum hjörtu okkar undir að meðtaka þau. Að endurnærast af orði Krists mun færa okkur lífgandi opinberun, staðfesta eiginlegt auðkenni okkar og virði frammi fyrir Guði sem barn hans og leiða vini okkar til Krists og eilífs lífs. Mig langar að enda með því að bergmála boð Nefí er hann sagði: „Þess vegna verðið þér að sækja fram, staðfastir í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna. Ef þér þess vegna sækið fram, endurnærðir af orði Krists og standið stöðugir allt til enda, sjá, þannig fórust föðurnum orð: Þér munuð öðlast eilíft líf“ (2 Ne 31:20). Í nafni Jesú Krists, amen.