2010–2019
Byggja andlegt varnarvígi
Apríl 2019


Byggja andlegt varnarvígi

Þegar við lifum fagnaðarerindi Jesú Krists, þegar við beitum friðþægingu frelsarans og höldum áfram í trú, erum við víggirt gegn vélabrögðum óvinarins.

Kæru bræður mínir og systur, þegar dregur að lokum þessarar ráðstefnu, þakka ég himneskum föður fyrir leiðsögnina, sannleikann og opinberanirnar sem borist hafa frá þessum ræðustól síðustu tvo daga. Þjónar Guðs, kallaðir til að flytja hans heilögu orð, hafa kennt okkur. Í síðari daga opinberun hefur Drottinn minnt okkur á: „Hvort sem það er sagt með minni eigin rödd eða með rödd þjóna minna, það gildir einu.“1

Er ég horfi yfir þennan mikla söfnuð heilagra og sé fyrir mér meðlimi víða um heim horfandi á ráðstefnuna, verður mér hugsað um söfnuðinn í Mormónsbók, er Jesús Kristur birtist Nefítunum eftir krossfestingu sína. Hann kenndi þeim fagnaðarerindið og hvatti: „Farið þess vegna til heimila yðar og íhugið það, sem ég hef sagt, og biðjið föðurinn í mínu nafni að veita yður skilning.“2

„Farið þess vegna til heimila yðar og íhugið,“ er næsta skref þess að taka á móti orðum spámanna og kirkjuleiðtoga þessa helga vettvangs. Kristsmiðuð heimili eru vígi Guðsríkis á jörðu, á tíma, eins og spáð hefur verið, er djöfullinn mun „ólmast í hjörtum mannanna barna og reita þau til reiði gegn því, sem gott er.“3

Í rás sögunnar hefur fólk byggt vígi til að halda óvininum fjarri. Þessi vígi voru oft með varðturni, þar sem varðmenn – eins og spámenn – vöruðu við ógnandi herjum og aðsteðjandi árásum.

Ljósmynd
Thomas Rasband

Á fyrstu landnámsárunum í Utah voru langaafi minn, Thomas Rasband og fjölskylda hans, með fyrstu landnemunum sem komu til Heber-dalsins, í hinum fallegu Wasatch-fjöllum í Utah.

Árið 1859 hjálpaði Thomas við byggingu Heber-vígisins, þeim til verndar. Það var einföld bygging úr trjábolum aspartrjáa, reistum upp hlið við hlið, sem mynduðu útveggi virkisins. Bjálkahús voru byggð í víginu, upp að þeim sameiginlega vegg. Mannvirkið veitti landnemafjölskyldum þessum öryggi er þau settust þar að og tilbáðu Drottin.

Ljósmynd
Vígi frumbyggjanna

Þannig er okkur einnig farið. Heimili okkar eru vígi gegn illsku heimsins. Á heimilum okkar komum við til Krists með því að læra að fylgja boðorðum hans, með því að nema ritningarnar og biðja saman og með því að hjálpa hvert öðru að halda okkur á sáttmálsveginum. Þessum nýju áherslum einkanáms og fjölskyldunáms á heimilinu, með námsefninu Kom, fylg mér, er ætlað að „dýpka okkar trúarlega viðsnúning og hjálpa okkur að verða líkari Jesú Kristi.“4 Þegar við gerum svo verðum við það sem Páll kallaði „[sköpuð] á ný,“5 samstillt Guði í sál og hjarta. Við þörfnumst þessa styrks til að takast á við árásir óvinarins og afstýra þeim.

Þegar við lifum af þeirri trúmennsku sem á rætur í trú á Jesú Krist, munum við finna hina friðsælu nærveru heilags anda, sem leiðir okkur til sannleikans, innblæs okkur til að lifa verðug blessana Drottins og ber vitni um að Guð lifir og elskar okkur. Allt þetta er að finna í vígi heimila okkar. Munum hins vegar að heimili okkar eru einungis eins öflugt og andlegur styrkur hvers okkar er innan veggja þess.

Nelson forseti hefur sagt: „Á komandi tíð verður ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta stöðugrar handleiðslu, huggunar og áhrifa heilags anda.“6 Sem lifandi spámaður, sjáandi og opinberari Drottins á þessum tíma, sem varðmaður í vígisturni okkar, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, sér hann framrás óvinarins.

Bræður og systur, við erum í stríði við Satan um sálir mannanna. Orrustulínurnar voru lagðar í fortilveru okkar. Satan og þriðjungur barna himnesks föður afþökkuðu loforð hans um upphafningu. Allt frá því hafa fylgjendur óvinarins barist við hina trúföstu, sem velja áætlun föðurins.

Satan veit að dagar hans eru senn taldir og tíminn styttist. Eins lævís og slunginn sem hann er, þá mun hann ekki sigra. Orrusta hans um sálir okkar geisar hins vegar enn.

Okkur til varnar verðum við að byggja andlegt varnarvígi fyrir sálir okkar, vígi sem hinn illi fær ekki brotist í gegn.

Satan er lúmskur höggormur, sem læðist inn í huga okkar og hjörtu þegar við höfum sofnað á verðinum, staðið frammi fyrir vonbrigðum eða misst von. Hann lokkar okkur með skjalli, loforði um vellíðan, þægindi eða tímabundna vímu þegar við erum langt niðri. Hann réttlætir hroka, óvingjarnleika, óheiðarleika, óánægju og siðleysi og að því gæti komið að við verðum „[tilfinningalaus].“ 7 Andinn getur yfirgefið okkur. „Og þannig svíkst djöfullinn að sálum þeirra og leiðir þá lævíslega niður til heljar.“8

Á hinn bóginn skynjum við andann oft svo sterkt að við syngjum Guði lof með orðum eins og þessum:

Hið mikla vígi vort er Guð,

það virkið best mun halda.

Hjálpari æðstur er vor Guð,

illu mun sigri gjalda.9

Þegar við byggjum vígi andlegs styrks, getum við sneitt hjá framrás óvinarins, snúið í hann baki og fundið frið andans. Við getum fylgt fordæmi Drottins okkar og frelsara, sem sagði, þegar hans var freistað í óbyggðunum: „Vík frá mér Satan.“10 Við þurfum öll að læra af eigin lífsreynslu hvernig það er gert.

Slíkum réttlátum tilgangi er vel lýst í Mormónsbók, er Moróní hershöfðingi bjó Nefíta undir árás hins sviksama, blóðþyrsta og valdagráðuga Amalikkía. Moróni byggði vígi til að vernda Nefítana, svo þeir „gætu lifað Drottni Guði sínum og gætu varðveitt það, sem óvinir þeirra kölluðu málstað hinna kristnu.“11 Moróní var „staðfastur í trú sinni á Krist,“12 og var trúfastur við að „halda boðorð Guðs … og standa gegn misgjörðum.“13

Þegar Lamanítarnir komu til orrustunnar voru þeir undrandi yfir viðbúnaði Nefítanna og biðu ósigur. Nefítarnir þökkuðu „Drottni Guði sínum fyrir óviðjafnanlegan kraft hans við að bjarga þeim úr höndum óvinanna.“14 Þeir höfðu byggt vígi sér til varnar hið ytra og trú á Drottin Jesú Krist sér til varnar hið innra – djúpt í sálum þeirra.

Hvernig getum við víggirt okkur á erfiðleikatímum, svo að við getum verið „verkfæri í höndum Guðs til að vinna þetta mikla verk?“15

Við erum hlýðin. Drottinn bauð Lehí að senda syni sína aftur til Jerúsalem til að „leita heimildaskrárnar uppi og koma með þær hingað niður í óbyggðirnar.“16 Lehí efaðist ekki; hann velti ekki fyrir sér afhverju eða hvernig. Það gerði Nefí ekki heldur, sem svaraði: „Ég mun fara og gjöra það, sem Drottinn hefur boðið.“17

Bregðumst við við af sömu hlýðni og Nefí? Eigum við það frekar til að efast um boðorð Guðs, eins og bræður Nefís, sem létu á endanum trúleysi sitt snúa sér frá Drottni? Hlýðni, iðkuð „af fullum heilagleika hjartans,“18 er það sem Drottin krefst af okkur.

Við treystum Drottni, sem sagði við Jósúa, er hann bjó sig undir að leiða Ísraelsmenn inn í fyrirheitna landið: „Vertu djarfur og hughraustur, óttastu ekki … láttu ekki hugfallast því að Drottinn, Guð þinn, er með þér hvert sem þú ferð.“19 Jósúa treysti þessum orðum og sagði við lýðinn: „Helgið yður, því að á morgun mun Drottinn gjöra undursamlega hluti meðal yðar.“20 Drottinn klauf ána Jórdan og 40 ára ferðalagi Ísraelsmanna um óbyggðirnar lauk.

Við stöndum fyrir sannleikann eins og spámaðurinn Abinadí í Mormónsbók. Eftir að hafa verið fangelsaður og færður fyrir Nóa konung og rangláta presta hans, kenndi Abinadí boðorðin tíu og boðaði kröftuglega að Kristur myndi „sjálfur stíga niður meðal mannanna barna og endurleysa fólk sitt.21 Með þá djúpu trú sem innra með honum var, sagði hann: „Ó Guð, tak þú við sálu minni“22 og Abinadí „[leið] dauða á báli.“23

Ljósmynd
Rómarmusterið, Ítalíu

Við gerum og endurnýjum sáttmála okkar með því að meðtaka af sakramentinu og með því að tilbiðja í musterinu. Sakramentið er miðpunkturinn í sunnudagstilbeiðslu okkar, þegar við meðtökum loforðið um að „andi hans sé ætíð með [okkur].“24 Í þessari helgiathöfn lofum við að taka á okkur nafn Jesú Krists, að fylgja honum og axla ábyrgðir okkar á guðlegu verki hans eins og hann gerði. Í musterinu getum við „[lagt] til hliðar það, sem þessa heims er“25 og skynjað nærveru Drottins og óviðjafnanlegan frið hans. Við getum einbeitt okkur að áum okkar, fjölskyldum og eilífu lífi í návist föðurins. Því er engin furða að Nelson forseti hafi sagt nýlega í Róm: „Það góða sem mun streyma frá þessu musteri er ómælanlega stórkostlegt.“26

Við ættum að gera allt af kostgæfni. Við ættum að þroska með okkur dómgreind og aga, svo að við þurfum ekki að vera sífellt að ákveða hvað er rétt og hvað rangt. Við ættum að taka orð hins forna postula kirkjunnar, Péturs, til okkar: „Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt.“27

Er við styrkjum varnarvígi okkar, verðum við lík Jesú Kristi, sem sannir lærisveinar hans, með sálir okkar undir hans verndarvæng.

Vitnisburður ykkar um Jesú Krist er ykkar persónulega víggirðing, öryggi fyrir sálir ykkar. Þegar langafi minn og félagar hans byggðu Heber-vígið, settu þeir einn trjástaur upp í einu, þar til trén „[tengdust] öll … saman“28 og urðu varnarveggur. Þannig er það með vitnisburð. Við öðlumst vitnisburð frá heilögum anda, einn í einu, er hann talar til okkar eigin anda og kennir „hreinskilni hið innra.“29 Þegar við lifum fagnaðarerindi Jesú Krists, þegar við beitum friðþægingu frelsarans og höldum áfram í trú, óttumst ekki, þá erum við víggirt gegn vélabrögðum óvinarins. Vitnisburðir okkar tengja okkur við himnana og við erum blessuð með „sannleiksgildi allra hluta.“30 Eins og með varnarvígin sem vernduðu landnemanna, þá erum við örugg og umvafin kærleika frelsarans.

Spámaðurinn Eter sagði: „Sá, sem tryði á Guð, gæti því með vissu vonast eftir betri heimi, já, jafnvel samastaðar til hægri handar Guði, en sú von sprettur af trú og er sálum mannanna sem akkeri, er gjörir þá örugga og trúfasta og ætíð ríka af góðum verkum, Guði til dýrðar.“31

Kæru bræður og systur, ég skil blessun mína eftir hjá ykkur, um að þið haldið áfram í trausti á Drottin og fagnaðarerindi hans. Faðmið þá sem hrasa og með styrk andans innra með ykkur, leiðið þá full kærleika aftur til hins andlega varnarvígis. Leitist við að „líkjast Jesú“32 í öllu sem þið takið ykkur fyrir hendur, forðist hið illa og freistingar, iðrist, eins og okkar kæri spámaður hvatti okkur til í gær, verið heiðarleg í hjarta, upprétt og hrein, sýnið samúð og kærleika og elskið Drottin Guð ykkar með tilbeiðslu hins sanna lærisveins.

Vitnisburðir okkar um fagnaðarerindi Jesú Krist, heimili okkar, fjölskyldur og hlutverk okkar í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, mun vera okkur persónulegt varnarvígi gegn valdi hins illa. Um það ber ég hátíðlegt vitni, í nafni Drottins okkar og frelsara, já, Jesú Krists, amen.