2010–2019
Svör við bænum
Apríl 2019


Svör við bænum

Faðirinn er meðvitaður um okkur, þekkir þarfir okkar og mun aðstoða okkur fullkomlega.

Mikilvæg og hughreystandi kenning í fagnaðarerindi Jesú Krists er sú að himneskur faðir okkar elskar börn sín fullkomlega. Vegna þessarar fullkomnu elsku, blessar hann okkur ekki einungis samkvæmt þrá okkar og þörfum, heldur einnig samkvæmt óendanlegri visku sinni. Eins og Nefí segir á einfaldan hátt: „Ég veit að [Guð] elskar börn sín.“1

Einn þáttur þessarar fullkomnu elsku er aðild himnesks föður í smáatriðum lífs okkar, þó við séum hvorki meðvituð um það né skiljum það. Við leitum guðlegrar leiðsagnar og aðstoðar föðurins í gegnum innilegar og einlægar bænir. Þegar við heiðrum sáttmála okkar og vinnum að því að verða líkari frelsara okkar, eigum við rétt á stöðugum2 straumi guðlegrar leiðsagnar í gegnum áhrif og innblástur heilags anda.

Ritningarnar kenna okkur: „Faðir yðar veit hvers þér þurfið áður en þér biðjið hann,“3 og hann „veit alla hluti, því að allt er fyrir augum [hans].“4

Spámaðurinn Mormón er dæmi um þetta. Hann lifði það ekki að sjá niðurstöður vinnu sinnar. Samt hafði hann skilning á því að Drottinn var að leiða hann vandlega áfram. Þegar Mormón skynjaði að hann ætti að varðveita litlu töflur Nefís með heimildum sínum, þá skrifaði hann: „Og þetta gjöri ég í viturlegum tilgangi, því að svo hvíslar andi Drottins, sem í mér býr. Og ekki veit ég alla hluti, en Drottinn veit allt, sem koma mun. Og hann starfar í mér, svo að ég gjöri vilja hans.“5 Þó að Mormón hafi ekki vitað um framtíðarhvarf hinna 116 handritasíðna, þá gerði Drottinn það og undirbjó leið til vinna bug á þeirri hindrun, löngu áður en það gerðist.

Faðirinn er meðvitaður um okkur, þekkir þarfir okkar og mun aðstoða okkur fullkomlega. Stundum fáum við þá aðstoð þegar við þörfnumst hennar eða rétt eftir að við biðjum um hana. Stundum er einlægum og verðugum óskum okkar ekki svarað eins og við myndum óska, en við komust að raun um að Guð hefur enn betri blessanir í huga fyrir okkur. Stundum uppfyllast réttlátar þrár okkar ekki í þessu lífi. Ég mun fjalla um þrjár mismunandi frásagnir sem sýna mismunandi leiðir sem faðirinn gæti svarað einlægum bænum okkar.

Yngsti sonur okkar var kallaður til að þjóna í trúboði í Parísartrúboðinu í Frakklandi. Í undirbúningnum fyrir þjónustu hans, fórum við með honum til að versla þetta venjulega, skyrtur, jakkaföt, bindi og sokka og úlpu. Því miður var úlpan sem hann langaði í ekki til á lager í réttri stærð. Hins vegar gaf starfsmaðurinn það til kynna að úlpan myndi koma eftir nokkrar vikur og verða send í trúboðsskólann í Provo, áður en að sonur okkar færi til Frakklands. Við greiddum fyrir úlpuna og hugsuðum ekki meira um það.

Sonur okkar fór í trúboðsskólann í júní og úlpan kom nokkrum dögum áður en að áætlaður brottfarardagur rann upp í ágúst. Hann mátaði ekki úlpuna en flýtti sér að pakka henni í töskuna sína með fötunum og öðrum munum.

Þegar tók að vetra í París, þar sem sonur okkar þjónaði, skrifaði hann okkur og sagði að hann hefði náð í úlpuna og mátað hana en að hún hefði verið allt of lítil. Við urðum því að leggja inn á hann meira fé svo að hann gæti keypt sér aðra úlpu í París, sem hann og gerði. Í nokkurri gremju skrifaði ég honum og sagði honum að gefa einhverjum fyrstu úlpuna þar sem hann gæti ekki notað hana.

Síðar barst okkur þessi netpóstur frá honum: „Það er afskaplega kalt hér. … Vindurinn virðist nísta í gegnum okkur, þó að nýja úlpan mín sé frábær og talsvert hlý. … Ég gaf [öðrum trúboða í íbúð okkar] gömlu úlpuna sem sagði að hann hefði verið að biðja fyrir því að fá betri úlpu. Hann gekk í kirkjuna fyrir nokkrum árum síðan og á eingöngu móður sína að … og trúboðinn sem skírði hann styrkir hann á trúboðinu, svo úlpan var svar við bænum hans, svo ég var mjög ánægður með það.“6

Himneskur faðir vissi að þessi trúboði sem þjónaði í Frakklandi, 10.000 kílómetrum að heiman, myndi nauðsynlega þurfa úlpu fyrir kaldan veturinn í París, en að þessi trúboði myndi ekki hafa efni á því að kaupa hana. Himneskur faðir vissi einnig að sonur okkar myndi fá úlpu úr fataverslun í Provo, Utah, sem yrði allt of lítil. Hann vissi að þessir tveir trúboðar myndu þjóna saman í París og að úlpan myndi vera svar við auðmjúkri og einlægri bæn trúboða sem var í brýnni þörf.

Frelsarinn kenndi:

„Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar.

Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin.

Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“7

Í öðrum tilfellum, þegar verðugum þrám okkar er ekki svarað eins og við hefðum óskað, þá gæti það í raun verið okkur endanlega fyrir bestu. Til dæmis var Jósef, sonur Jakobs, svo öfundaður og hataður af bræðrum sínum að þeir skipulögðu morð Jósefs. Í staðinn seldu þeir hann til Egyptalands í þrældóm.8 Ef einhverjum gæti fundist að bænum hans hefði ekki verið svarað eins og hann hefði helst óskað sér, þá gæti það hafa verið Jósef. Í raun þá varð augsýnileg ólukka hans honum til mikillar blessunar og bjargaði fjölskyldu hans frá því að verða hungurmorða. Seinna, eftir að hafa orðið virtur leiðtogi í Egyptalandi, sagði hann við bræður sína, af mikilli trú og visku:

„En látið það nú ekki fá yður hryggðar, og setjið það ekki fyrir yður, að þér hafið selt mig hingað, því að til lífs viðurhalds hefir Guð sent mig hingað á undan yður.

Því að nú hefir hallærið verið í landinu í tvö ár, og enn munu líða svo fimm ár, að hvorki verði plægt né uppskorið.

En Guð hefir sent mig hingað á undan yður til þess að halda við kyni yðar á jörðinni og sjá lífi yðar borgið, til mikils hjálpræðis.

Það voruð því ekki þið sem senduð mig hingað heldur Guð.“9

Þegar elsti sonur okkar var í háskóla, var hann ráðinn í mjög áhugavert hlutastarf sem nemandi, sem lofaði góðu fyrir frábært framtíðarstarf eftir útskrift. Hann lagði sig hart fram í þessu nemendastarfi í fjögur ár, varð mjög hæfur og mikils metinn af samstafsmönnum sínum og yfirmönnum. Í lok síðasta árs hans í skólanum opnaðist fasta staðan upp, eins og þessu hefði verið stjórnað af himnum (a.m.k. samkvæmt hugsun sonar okkar) og hann var líklegasti umsækjandinn og allt benti til þess að hann myndi fá stöðuna.

Hann var hins vegar ekki ráðinn. Ekkert okkar skildi þetta. Hann hafði undirbúið sig vel, gekk vel í viðtalinu, var hæfasti umsækjandinn og hafði beðið með mikilli von og væntingum! Hann var miður sín og niðurbrotinn og öll þessi reynsla skildi okkur eftir forviða. Því hafði Guð yfirgefið hann og réttláta þrá hans?

Það var ekki fyrr en nokkrum árum seinna að svarið kom í ljós. Hefði hann fengið draumastarfið eftir útskriftina, hefði hann misst af mikilvægu, lífsmótandi tækifæri sem nú hefur sannað sig að var honum til eilífðar blessunar og hagsbóta. Guð þekkti endann frá upphafinu (eins og hann gerir alltaf) og í þessu tilfelli, þá var svarið við mörgum réttlátum bænum, nei, til að opna fyrir enn betri niðurstöðu.

Stundum eru svo svörin sem við þráum og leitumst svo heitt eftir í réttlæti og einlægni, ekki veitt í þessu lífi.

Systir Patricia Parkinson fæddist með eðlilega sjón, en um sjö ára aldur fór hún að missa sjónina. Um níu ára aldur hóf Pat nám við ríkisrekinn skóla fyrir heyrnarlausa og blinda í Ogden, Utah, um 145 kílómetrum frá heimili hennar, sem gerði það nauðsynlegt fyrir hana að búa á heimavist – sem fól í sér alla þá heimþrá sem níu ára barn gat nokkru sinni upplifað.

Þegar hún var 11 ára gömul, var hún orðin alveg blind. Þegar Pat var 15 ára gömul, flutti hún heim til að stunda nám við framhaldsskólann í hverfinu. Hún fór áfram í háskóla og útskrifaðist með grunnnám í samskiptaröskun og sálfræði og eftir að hafa barist við efasemdir í inngöngudeild háskólans, fór hún í framhaldsnám í háskóla og kláraði mastersgráðu í talmeinafræðum. Pat vinnur nú með 53 grunnskólanemum og stýrir fjórum talþjálfum í skólaumdæmi hennar. Hún á sitt eigið heimili og eigin bíl, sem vinir og fjölskyldumeðlimir keyra þegar Pat þarf á samgöngum að halda.

Ljósmynd
Systir Patricia Parkinson

Þegar Pat var 10 ára gömul var ákveðið að hún færi í enn aðra læknismeðferð til að takast á við hrakandi sjón hennar. Foreldrar hennar höfðu alltaf sagt henni nákvæmlega hvað var að gerast í læknismeðferðum hennar, en af einhverri ástæðu sögðu þau henni ekki frá þessari meðferð. Þegar foreldrar hennar sögðu henni frá því að búið væri að skipuleggja þessa meðferð þá var Pat „alveg í rusli“ svo notuð séu orð móður hennar. Pat hljóp inn í næsta herbergi en kom aftur tilbaka seinna og sagði foreldrum sínum reiðilega: „Nú skal ég segja ykkur nokkuð. Ég veit það, Guð veit það og það er eins gott að þið vitið það líka. Ég er að fara að vera blind allt mitt líf!“

Fyrir nokkrum árum síðan ferðaðist Pat til Kaliforníu til að heimsækja ættingja sem bjuggu þar. Á meðan hún var útivið, spurði þriggja ára frændi hennar: „Pat frænka, af hverju biðurðu ekki bara himneskan föður að gefa þér ný augu? Því ef þú biður himneskan föður, mun hann gefa þér hvað sem þú biður um. Þú þarft bara að spyrja hann.“

Pat sagðist hafa orðið hissa yfir spurningunni, en svaraði: „Sko, stundum virkar himneskur faðir ekki þannig. Stundum vill hann að þú lærir eitthvað svo að hann gefur þér ekki allt sem þú vilt. Stundum verður maður að bíða. Himneskur faðir og frelsarinn vita best hvað er gott fyrir okkur og hvers við þörfnumst. Þannig að þeir eru ekki að fara að gefa þér allt sem þú vilt þegar þú vilt það.“

Ég hef þekkt Pat í mörg ár og nýlega sagði ég henni að ég dáðist að því hvað hún væri alltaf jákvæð og hamingjusöm. Hún svaraði: „Þú hefur nú ekki alltaf verið með mér heimavið, er það? Ég á mínar stundir. Ég hef tekist á við alvarlegt þunglyndi og ég hef grátið mikið.“ Hins vegar bætti hún við: „Það var skrítið, en frá því að ég fór að missa sjónina, þá vissi ég að himneskur faðir og frelsarinn væru með mér og fjölskyldu minni. Við tókum á þessu eins og við best gátum og að mínu mati gerðum við það á réttan máta. Ég hef náð að verða nægilega farsæl manneskja og yfir höfuð hef ég verið hamingjusöm. Ég minnist þess að hans hönd hafi verið með í öllu. Þegar fólk spyr hvort að ég sé reið yfir því að vera blind, þá svara ég: ‚Hvern ætti ég að vera reið við? Himneskur faðir er með mér í þessu, ég er ekki ein. Hann er alltaf með mér.‘“

Í þessu tilfelli mun þrá Pat um að endurheimta sjón sína ekki rætast í þessu lífi. Kjörorð hennar eru hins vegar: „Þetta mun einnig líða hjá.“ Það lærði hún frá föður sínum.10

Henry B. Eyring forseti sagði: „Faðirinn veit af ykkur á þessari stundu, tilfinningum ykkar og andlegum og stundlegum þörfum allra umhverfis ykkur.“11 Þennan merka og hughreystandi sannleika má finna í þessum þremur reynslusögum sem ég hef sagt ykkur frá.

Bræður og systur, stundum koma svör við bænum okkar fljótt og eins og vonir okkar stóðu til. Stundum er bænum okkar ekki svarað á þann hátt sem við vonuðumst til, en samt lærum við er fram líða stundir, að Guð er með enn stórkostlegri blessanir fyrir okkur en að við höfðum átt von á. Svo er það stundum að réttlátar óskir okkar til Guðs munu ekki uppfylltar í þessu lífi.12 Eins og öldungur Neal A. Maxwell sagði: „Trú felur einnig í sér traust á tímasetningu Guðs.“13

Við eigum þá fullvissu að á hans hátt og í hans tímaáætlun, mun himneskur faðir blessa okkur og leysa öll áhyggjumál okkar, óréttlæti og vonbrigði.

Ég vitna í Benjamín konung: „Og enn fremur langar mig til, að þér hugleiðið blessun og hamingju þeirra, sem halda boðorð Guðs. Því að sjá. Þeir njóta blessunar í öllu, jafnt stundlegu sem andlegu. Og ef þeir haldast staðfastir allt til enda, er tekið á móti þeim á himni, og þeir fá dvalið með Guði í óendanlegri sælu. Ó, munið og hafið hugfast, að þetta er sannleikur, því að Drottinn Guð hefur talað það.“14

Ég veit að Guð heyrir bænir okkar.15 Ég veit að hann, sem alvitur, ástkær faðir, svarar bænum okkar fullkomlega, eftir hans óendanlegu visku og á þann hátt sem mun verða okkur endanlega til farsældar og blessunar. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.