2010–2019
Líta til Jesú Krist
Apríl 2019


Líta til Jesú Krist

Ef við lítum til Jesú Krists mun hann hjálpa okkur, sem öldungum í Ísrael, að lifa eftir sáttmálum okkar og efla kallanir okkar.

Þegar Jesús gekk um stræti nærri Kapernaum1 með mikinn mannfjölda umhverfis sig, kom til hans kona, sem hafði búið við alvarlegt ástand í tólf ár, og snerti klæðafald hans. Hún læknaðist samstundis.2

Ritningin segir að Jesús hafi fundið „að kraftur fór út frá [honum],“3 og því hefði „hann [snúið] sér við í mannþrönginni“4 og „litaðist um til að sjá, hver þetta hefði gjört.“5 „Er konan sá, að hún fékk eigi dulist,“6 „féll [hún] til fóta honum og sagði honum allan sannleikann.“7

Jesús sagði við hana: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði.“8

Jesús Kristur bjargaði konunni. Hún var læknuð líkamlega, en þegar Jesús sneri sér við til að líta hana augum, lýsti hún yfir trú sinni á hann og hann læknaði hjarta hennar.9 Hann talaði við hana af ástúð, fullvissaði hana um velþóknun sína og blessaði hana með friði sínum.10

Bræður, sem handhafar hins heilaga prestdæmis, erum við skuldbundnir starfi sáluhjálpar. Þetta síðasta ár hefur Drottinn lagt leiðtogahlutverk þessa verks alfarið á axlir öldunganna í Ísrael.11 Við stöndum frammi fyrir hvetjandi boði frá Drottni – í samstarfi við systur okkar, eigum við að þjóna á helgari hátt, hraða samansöfnun Ísraels beggja vegna hulunnar, gera heimili okkar að griðarstað trúar og trúfræðslu og búa heiminn undir síðari komu Jesú Krists.12

Frelsarinn hefur, líkt og í öllu, sýnt okkur leiðina. Okkur ber að líta til og þjóna Jesú Kristi, líkt og hann leit til og þjónaði föður sínum.13 Frelsarinn orðaði það svo við spámanninn Joseph:

„Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki.

Sjáið sárin er nístu síðu mína og einnig naglaförin á höndum mér og fótum. Verið trúir, haldið boðorð mín og þér skuluð erfa himnaríki.“14

Í fortilverunni lofaði Jesús föður sínum að hann myndi gera vilja föður síns og vera frelsari okkar og lausnari. Þegar faðir hans spurði: „Hvern á ég að senda?“15 svaraði Jesú:

„Hér er ég, send mig.“16

„Faðir, verði þinn vilji og þín sé dýrðin að eilífu.“17

Jesús lifði eftir þessu loforði allt sitt jarðneska líf. Af auðmýkt, hógværð og kærleika, kenndi hann kenningu föður síns og gerði verk föðurins, með þeim krafti og valdi sem faðir hans hafði veitt honum.18

Jesús gaf föður sínum hjarta sitt. Hann sagði:

„Ég elska föðurinn.“19

„Ég gjöri ætíð það sem honum þóknast.“20

„Ég [kom], … ekki til að gjöra minn vilja, heldur vilja [föðurins], er sendi mig.“21

Í þjáningum sínum í Getsemane bað hann: „En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“22

Þegar Drottinn býður öldungum Ísraels „beinið öllum hugsunum yðar til mín og „sjáið sárin“ á þessum upprisna líkama, er það boð um að láta af synd og yfirgefa heiminn og koma til hans og elska hann og hlýða honum. Það er boð um að kenna kenninguna hans og gera verk hans að hans hætti. Það er því boð um að setja allt traust á hann, afsala sér eigin vilja og fela honum hjarta sitt og verða eins og hann er, fyrir endurlausnarkraft hans.23

Bræður, ef við horfum til Jesú Krists, mun hann blessa okkur til að verða hans öldungar í Ísrael – auðmjúkir, hógværir, undirgefnir, fullir elsku.24 Við munum færa fjölskyldum okkar, bræðrum okkar og systrum hinu megin hulunnar gleði og blessanir fagnaðarerindis hans og kirkju hans.

Russel M. Nelson forseti hefur kallað okkur til að líta til Jesú Krists á nákvæmlega þann veg: „Það er ekkert auðvelt eða sjálfkrafa við það að verða svo kröftugir lærisveinar. Við verðum að einblína á frelsarann og fagnaðarerindi hans. Það er erfitt fyrir hugann að reyna að líta til hans í sérhverri hugsun. Efi okkar og ótti munu þó hverfa ef við gerum það.“25

Festa er dásamlegt orð. Merking þess er að festa tryggilega, að draga að sér og halda föstu.26 Við festum auglit okkar á Jesú Krist og fagnaðarerindi hans með því að lifa eftir sáttmálum okkar.

Þegar við lifum eftir sáttmálum okkar, hafa þeir áhrif á öll orð okkar og verk. Við lifum sáttmálslífi27 fyllt einföldum daglegum verkum trúar, með Jesú Krist að þungamiðju: Biðjumst einlæglega fyrir í hans nafni, nærumst á orði hans, komum til hans til að iðrast synda okkar, höldum boðorð hans, meðtökum sakramentið og höldum hvíldardag hans heilagan, tilbiðjum í hans heilaga musteri, eins oft og við getum, og iðkum hans heilaga prestdæmi, með því að þjóna börnum Guðs.

Þessi verk sáttmálshollustu ljúka upp hjarta okkar og huga fyrir endurlausnarkrafti frelsarans og helgandi áhrifum heilags anda. Frelsarinn mun, skref fyrir skref, breyta okkar eigin eðli og við verðum stöðugt trúfastari honum og sáttmálar okkar verða að lifandi afli í hjörtum okkar.28

Loforðin sem við gefum himneskum föður, verða bjargfastar skuldbindingar, okkar dýpsta þrá. Loforð himnesks föður fyrir okkur, fylla okkur þakklæti og gleði.29 Sáttmálar okkar verða ekki bara reglur sem við fylgjum, heldur kærar lífsskoðanir sem innblása og leiða okkur og festa auglit okkar á Jesú Krist.30

Þessi hollustubreytni stendur öllum til boða, bæði ungum og öldnum. Þið, ungu menn sem hafið hið heilaga Aronsprestdæmi, allt sem ég hef sagt í kvöld á við um ykkur. Ég þakka Guði fyrir ykkur. Þið gerið helgiathafnir og sáttmála tiltæk milljónum Síðari daga heilagra í hverri viku. Þegar þið undirbúið, blessið og útdeilið sakramentinu; þjónið; skírið í musterinu; bjóðið vini á viðburð; eða komið meðlimi til bjargar í sveit ykkar, eruð þið að vinna starf sáluhjálpar. Þið getið líka einblínt á Jesú Krist og lifað dag hvern eftir sáttmálum ykkar. Ég lofa ykkur, ef þið gerið það, að þið verðið tryggir þjónar Drottins núna og á komandi tíð, máttugir öldungar í Ísrael.

Bræður, ég veit að allt þetta gæti hljómað yfirþyrmandi. Minnist þá þessara orða frelsarans: „Þó er ég ekki einn, því faðirinn er með mér.31 Það á líka við um okkur. Við erum ekki einir. Drottinn Jesús Kristur og himneskur faðir elska okkur og eru með okkur.32 Þar sem Jesús einblíndi á föður sinn og lauk hinni miklu friðþægingarfórn, þá getum við horft til Jesú Krists í fullvissu um að hann liðsinni okkur.

Enginn okkar er fullkominn. Stundum stöðnum við. Við látum truflast eða missum kjarkinn. Við hrösum. Ef við horfum til Jesú Krists, af hjarta fullu iðrunar, mun hann lyfta okkur upp, hreinsa okkur af synd, fyrirgefa okkur og græða hjörtu okkar. Hann er þolinmóður og góðviljaður; endurleysandi elska hans er ótakmörkuð og algild.33 Hann mun hjálpa okkur, sem öldungum í Ísrael, að lifa eftir sáttmálum okkar og efla kallanir okkar.

Faðirinn mun blessa okkur með öllu sem þarf til að framfylgja tilgangi hans: „Bæði [því sem er] á himni og á jörðu, [lífinu og ljósinu, andanum og kraftinum], sem sendur er að vilja föðurins með syni hans Jesú Kristi.“34

Þegar guðlegt ljós og kraftur streyma í líf okkar, gerist þrennt dásamlegt:

Í fyrsta lagi, fáum við séð! Með opinberun tökum við að sjá eins og Jesús sá konuna: Lengra hinu ytra auga, inn í hjartað.35 Þegar við sjáum eins og Jesús sér, blessar hann okkur til að elska þá sem við þjónum sinni elsku. Með hans hjálp, munu þeir sem við þjónum sjá frelsarann og skynja elsku hans.36

Í öðru lagi, höfum við prestdæmiskraft! Við höfum umboðið og kraftinn til að koma fram í nafni Jesú Krists, til að „blessa, leiða, vernda, styrkja og lækna aðra og kalla fram kraftaverk í lífi þeirra sem [við] elskum og varðveita hjónaband okkar og fjölskyldu.“37

Í þriðja lagi, fer Jesús Kristur með okkur! Hann fer þangað sem við förum Hann kennir þegar við kennum. Hann huggar þegar við huggum. Hann blessar þegar við blessum.38

Bræður, höfum við ekki ástæðu til að fagna? Við höfum hana! Við höfum hið heilaga prestdæmi Guðs. Ef við lítum til Jesú Krists, lifum eftir sáttmálum okkar og festum auglit okkar á hann, munum við sameinast systrum okkar og þjóna á helgari hátt, safna saman hinum dreifða Ísrael, beggja vegna hulunnar, styrkja og innsigla fjölskyldur og búa heiminn undir síðari komu Drottins Jesú Krists. Það mun gerast. Ég ber vitni um það.

Ég lýk með þeirri hjartans bæn, að hvert og eitt okkar megi beina öllum hugsunum til Jesú Krists. Efist ekki. Óttist ekki. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. James E. Talmage staðsetur Jesú „nærri Kapernaum“ þegar þessi lækning átti sér stað (sjá Jesus the Christ [1916], 313).

  2. Sjá Lúkas 8:43–44; sjá einnig Matteus 9:20–21; Markús 5:25-29.

  3. Lúkas 8:46.

  4. Markús 5:30.

  5. Markús 5:32.

  6. Lúkas 8:47.

  7. Markús 5:33.

  8. Lúkas 8:48.

  9. James E. Talmage ritaði að dýrmætari hinni líkamlegu lækningu konunnar, hefði verið fullvissan um að frelsarinn hafði uppfyllt hjartans þrá hennar og meðtekið trú hennar (sjá Jesus the Christ, 318). Jesús læknaði hana líkamlega og andlega og lauk upp fyrir henni vegi sáluhjálpar.

  10. Áhugavert er að Jaríus, stjórnandi samkunduhússins, var með Jesú þegar þessi lækning átti sér stað. Jesús var á leið til húss Jaríusar, þar sem hann myndi reisa dóttur Jaríusar upp frá dauðum. Konunni sem Jesús læknaði hafði líklega verið varpað út úr samkunduhúsinu vegna sjúkdóms hennar. Þegar Jesús læknaði hana, gerði hann öllum viðstöddum ljóst, þar á meðal Jaríusi, að hún væri ástkær dóttir, kona trúar og heil í líkama og anda.

  11. Sjá D. Todd Christofferson, „Öldungasveitin,“ (aðalráðstefna, apríl 2018), til umræðu um þá breytingu að hafa eina sveit Melkísedeksprestdæmishafa í deild. Tilgangi þessarar breytingar var lýst þannig í hlutanum Algengar spurningar, á vefsíðu hirðisþjónustu: „Að hafa eina sveit Melkísedeksprestdæmisins í deild, sameinar prestdæmishafa í því að vinna að öllum þáttum sáluhjálparstarfsins, þ.m.t. musteris- og ættarsögustarfs, sem áður var samræmt af leiðtoga háprestaflokks“ („Þetta er hirðisþjónusta: Algengar spurningar,” spurning 8, ministering.ChurchofJesusChrist.org).

    Breytingar í kjölfar þessa hafa sett deildartrúboðsleiðtoga og hinn nýja leiðtoga musteris- og ættarsögustarfs undir stjórn forsætisráðs öldungasveitar. Þar sem hirðisþjónustan er þegar í höndum forsætisráðsins, þá hafa þessar breytingar sett leiðtogastarf þessa sáluhjálparstarfs í hendur öldungasveita með aðstoð Líknarfélaga. Auðvitað hefur biskup lykla sáluhjálparstarfsins í deildinni en hann úthlutar ábyrgð og valdsumboði þess starfs til forseta öldungasveitar, svo að biskup geti varið auknum tíma með fjölskyldu sinni, eflt æskufólkið og þjónað sem dómari í Ísrael.

  12. Sjá Russell M. Nelson, „Fylkjum liði,“ aðalráðstefna, apríl 2018; Russell M. Nelson, „Verum fyrirmyndar Síðari daga heilagir,“ aðalráðstefna, okt. 2018; Quentin L. Cook, „Aukinn og varanlegur viðsnúningur til himnesks föður og Drottins Jesú Krists,“ aðalráðstefna, okt. 2018.

  13. Faðirinn sendi Jesú Krist í heiminn (sjá Jóhannes 17:18).

  14. Kenning og sáttmálar 6:36–37.

  15. Abraham 3:27.

  16. Abraham 3:27.

  17. HDP Móse 4:2.

  18. Það er til fjöldi ritningarversa þar sem Jesús lýsir yfir að hann geri verk föður síns og kenni kenningu föður síns. Sjá t.d. Jóhannes 5:19 (Jesús gerir það sem hann sér föður sinn gera); Jóhannes 5:36 (faðirinn fól syni sínum verk að vinna); Jóhannes 8:26 (Jesús kenndi það sem hann meðtók frá föður sínum); Jóhannes 14:28 (Jesús sagði: „Faðirinn er mér meiri“); 3. Nefí 11:32 (kenning hans er kenningin sem faðir hans gaf honumi).

  19. Jóhannes 14:31.

  20. Jóhannes 8:29.

  21. Jóhannes 6:38; sjá einnig Jóhannes 5:30.

  22. Lúkas 22:42.

  23. Hugtakið líta í þessum versum (sjá Kenning og sáttmálar 6:36–37) hefur merkingu sem samsvarar boði Drottins: Að horfa (eða snúa sér að); að ná athygli einhvers; að reiða sig á; að leita að; að sýna biðlund í von; að hafa í huga sem endi; að vænta (sjá “Look,” Merriam-Webster.com).

  24. Sjá Kenning og sáttmálar 121:41–42. Þeir kristilegu eiginleikar sem fjallað er um í ritningunni, eru gjafir andans sem veitast fyrir miskunn og náð Jesú Krists. Þeir eru það sem gera öldunga Ísraels að hans öldungum.

  25. Russell M. Nelson, „Að færa kraft Jesú Krists inn í líf okkar,“ aðalráðstefna, apríl 2017.

  26. Sjá merriam-webster.com, “rivet.”

  27. Til umræðu um hvað felst í sáttmálslífi, sjá Donald L. Hallstrom, „Living a Covenant Life,“ Ensign, júní 2013, 46–49. Þessi grein var skrifuð eftir lengri ræðu sem flutt var í Brigham Young háskóla – Idaho í maí 2011. Fyrir lengri útgáfuna, sjá Donald L. Halstrom, A Covenant Life” (Brigham Young háskóli – Idaho, hugvekja, 10. maí, 2011), byui.edu.

  28. Sjá Jeremía 31:31–33, þar sem Drottinn lýsir yfir að hann muni gera nýjan sáttmála við hús Ísraels, ritaðan á hjörtu þeirra. Þessi líking um sáttmála ritaðan á hjörtu okkar, eða sáttmála sem vekja okkur til lífs í hjörtum okkar, er líka í ritum Páls (sjá 2. Korintubréfið 3:3; Hebreabréfið 8:10). Fyrir umræðu um umbreytingu og hjartað, sjá David A. Bednar, “Converted unto the Lord,” Liahona, nóv. 2012, 106–9.

  29. Sakramentisbænin fyrir brauðið tjáir fagurlega eðli sáttmálssambands okkar við himneskan föður. Í sáluhjálparáætlun föðurins gerum við sáttmála við himneskan föður, en tilgangur sáttmálanna verður ljós og við verðum hæf fyrir þær blessanir sem lofaðar eru fyrir Drottin, Jesú Krist; hann er milligöngumaðurinn. Í helgiathöfn sakramentis vitnum við fyrir föðurnum (gerum í raun aftur sáttmála við hann) um að við séum fús til að taka á okkur nafn Jesú Krists, hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans, svo að andi hans (heilagur andi) sé ætíð með okkur.

    Gjafirnar sem bundnar eru loforði föðurins, veitast fyrir endurleysandi og styrkjandi kraft Jesú Krists. Russell M. Nelson hefur t.d. kennt að Jesús Kristur sé uppspretta allrar gleði (sjá „Gleði og andleg þrautseigja,“ aðalráðstefna, okt. 2016). Ef við því einblínum á Jesú Krist, mun það færa gleði í líf okkar, hverjar sem aðstæður okkar eru.

  30. Ezra Taft Benson forseti ræddi um áhrif þessarar viðhorfsbreytingar og sagði: „Á þeirri stundu sem hlýðni hættir að vera áreitandi og verður okkur eftirsóknarverð, mun Guð gæða okkur krafti“ (í Donald L. Staheli, “Obedience—Life’s Great Challenge,” Ensign, maí 1998, 82).

  31. Jóhannes 16:32.

  32. Til frekari umræðu um þá staðreynd að faðirinn og sonurinn beri umhyggju fyrir okkur, hafi áhuga á okkur, elski okkur og hafi áhrif á líf okkar, sjá Jeffrey R. Holland, „The Grandeur of God,“ Liahona, nóv. 2003, 70–73; Henry B. Eyring, „Gakk með mér,“ aðalráðstefna, apríl 2017. Sjá einnig Matteus 18:20; 28:20; Kenning og sáttmálar 6:32; 29:5; 38:7; 61:36; 84:88.

  33. Sjá Rómverjabréfið 8:35–39; 1. Korintubréfið 13:1–8; Moróní 7:46–47.

  34. Kenning og sáttmálar 50:27. Athugið að Drottinn gefur hverjum sem er vígður og sendur af stað þetta loforð sem hefur að gera með og umlykur það verkefni sem honum er ætlað:

    „Sá, sem Guð hefur vígt og sent út, hann er útnefndur til að vera mestur, enda þótt hann sé sístur og þjónn allra.

    Hann er þar af leiðandi eigandi alls, því að allt er honum undirgefið, bæði á himni og á jörðu, lífið og ljósið, andinn og krafturinn, sem sendur er að vilja föðurins með syni hans Jesú Kristi.

    En enginn maður er eigandi alls nema hann sé hreinsaður og laugaður af allri synd.

    Og séuð þér hreinsaðir og laugaðir af allri synd, skuluð þér biðja hvers sem þér óskið í nafni Jesú, og það skal gjört“ (Kenning og sáttmálar 50:26–29).

  35. Sjá 1. Samúel 16:7; 1. Korintubréfið 2:14. Finna má dæmi um þá blessun að sjá með augum Jesús í frásögn Henrys B. Eyring forseta um reynslu hans sem biskup ungs manns, sem framið hafði glæp. Drottinn sagði við Eyring biskup: „Ég ætla að leyfa þér að sjá með mínum augum“ („Gakk með mér,“).

  36. Þetta er loforðið og boðið sem frelsarinn gaf fólkinu við musterið við Nægtarbrunn. Hann bauð þeim að lifa þannig að ljós hans og fyrirmynd væri í þeim, svo það gæti haldið honum á lofti sem ljósi heimsins með eigin lífi og boði til annarra um að koma til hans. Á sama hátt og fylgjendur hans lifðu á þann máta og buðu á sama hátt, þá myndu aðrir skynja hann og sjá hann í þjónum Drottins. Sjá 3. Nefí 18:24–25.

  37. Sjá Russell M. Nelson, „Gjaldið fyrir prestdæmiskraftinn,“ aðalráðstefna, apríl 2016.

  38. Sjá Kenning og sáttmálar 84:88.