2010–2019
Undir það búin að öðlast allt sem gagnlegt er
Apríl 2019


Undir það búin að öðlast allt sem gagnlegt er

Blessanir munu hljótast, er við reynum að framfylgja þeirri persónulegu ábyrgð að læra og elska hið endureista fagnaðarerindi Jesú Krists.

Úrræði og athafnir kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu eru að verða stöðugt heimilismiðaðri og kirkjustyrktari, eins og hefur sýnt sig með fjölda breytinga sem tilkynntar hafa verið á nýlegum aðalráðstefnum. Russell M. Nelson forseti hefur leiðbeint okkur: „Margt fleira er fyrir höndum. … Takið vítamíntöflurnar ykkar. Slakið á. Þetta á eftir að verða spennandi.“1

Ég bið um liðsinni heilags anda, er við hugleiðum saman nokkra þætti þessara samfelldu breytinga í hinni endurreistu kirkju Drottins.

Heimilismiðuð og kirkjustyrkt trúarfræðsla

Öldungur Craig C. Christensen var nýlega félagi minn á prestdæmisráðstefnu leiðtoga og notaði tvær einfaldar spurningar til að leggja áherslu á þá reglu að verða heimilismiðuð og kirkjustyrkt. Hann lagði til að í stað þess að fara til heimila okkar eftir kirkjusamkomur á sunnudögum og spyrja: „Hvað lærðum við í kirkju í dag um frelsarann og fagnaðarerindi hans? Þá ættum við að spyrja á kirkjusamkomum okkar: „Hvað lærðum við á heimili okkar þessa viku um frelsarann og fagnaðarerindi hans?“ Viðeigandi hvíldardagstilbeiðsla, nýtt námsefni og breytt fyrirkomulag samkoma, auðveldar okkur allt að læra fagnaðarerindið, bæði heima og í kirkju.

Hver meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu ber sjálfur ábyrgð á því að læra og lifa eftir kenningum Drottins og taka á móti helgiathöfnum sáluhjálpar og upphafningar, með réttu valdsumboði. Við ættum ekki að vænta þess að kirkjan, sem félagssamtök, kenni eða upplýsi okkur um allt sem við þurfum að vita og gera, til að verða sannir lærisveinar og standast trúfastlega allt til enda.2 Okkar persónulega ábyrgð er fremur að læra það sem við þurfum að læra, að lifa eins og við vitum að okkur ber að lifa og verða að því sem meistarinn óskar af okkur. Heimili okkar eru grundvallarumgjörð til að læra, lifa og verða.

Sem barn lærði Joseph Smith um Guð af fjölskyldu sinni. Sú viðleitni Josephs að þekkja vilja Guðs, leiddi til þess að hann leitaði sannleikans meðal ólíkra kristinna safnaða, ígrundaði ritningarnar af kostgæfni og bað til Guðs af einlægni. Þegar hinn ungi Joseph Smith snéri aftur til heimilis síns frá Lundinum helga, strax eftir vitjun föðurins og sonarins, ræddi hann fyrst við móður sína. Þegar hann „hallaði [sér] að arninum, spurði móðir [hans], hvað væri að. [Joseph] svaraði: ,Það er í lagi – mér líður vel.‘ [Hann] sagði síðan móður [sinni]: ,Ég [hef] komist að því sjálfur.‘“3 Upplifun Josephs er áhrifarík fyrirmynd að lærdómi, sem hvert okkar ætti að tileinka sér. Við þurfum líka að læra af eigin raun.

Hinn altæki tilgangur áætlunar himnesks föður er að börn hans verði líkari honum. Af þeim sökum sér hann okkur fyrir nauðsynlegum tækifærum til að vaxa og þroskast. Sú skuldbinding okkar að læra og lifa eftir sannleikanum, er stöðugt mikilvægari í heimi „í uppnámi“4 og sem sífellt verður ráðvilltari og ranglátari. Við getum ekki vænst þess að nóg sé að fara á samkomur og taka þátt í dagskrá kirkjunnar, til að hljóta alla andlega fræðslu og vernd, svo við fáum „veitt mótstöðu á hinum vonda degi.“5

„Foreldrar bera þá helgu skyldu að ala börn sín upp í kærleika og réttlæti.“6 Innblásnir leiðtogar og kennarar kirkjunnar og athafnir, auðvelda einstaklingum og fjölskyldum að vaxa andlega. Þótt við þurfum öll aðstoð við að sækja fram á sáttmálsveginum, þá hvílir sú ábyrgð endanlega á okkur sjálfum að þróa með okkur andlegan styrk og þrótt.

Minnist þess hvernig Nefí, sonur spámannsins Lehís, þráði að sjá, heyra og þekkja af eigin raun, fyrir kraft heilags anda, það sem faðir hans hafði lært í sýninni um tré lífsins. Í æsku hafði Nefí greinilega þörf fyrir fordæmi og kennslu og var til þess blessaður af „góðum foreldrum.“7 Hann þráði þó, líkt og Joseph Smith, að læra og þekkja af eigin raun.

Ef allt sem við vitum um Jesú Krist og hið endurreista fagnaðarerindi hans, er það sem aðrir hafa kennt eða sagt, þá byggjum við vitnisburð okkar um hann og hans dýrðlega síðari daga verk á sandi.8 Við getum ekki einungis reitt okkur á aðra eða fengið að láni trúarljós eða þekkingu annarra – jafnvel þeirra sem við elskum og treystum.

Spámaðurinn Joseph Smith kenndi afdráttarlaust að hver Síðari daga heilagur þyrfti af eigin raun að skilja „ásetning og tilgang Guðs með komu okkar í heiminn.“9

„Ef við gætum lesið og skiljið allt sem ritað hefur verið frá tíma Adams, um samband manns við Guð og engla í framtíð, yrðum við litlu vísari. Að lesa um upplifanir annarra, eða opinberanir þeim gefnar, getur aldrei veitt okkur yfirgripsmikla sýn um ástand okkar og raunverulegt samband við Guð. Þekking á slíku getur einungis hlotist fyrir eigin reynslu í gegnum helgiathafnir Guðs, sem helgaðar eru þeim tilgangi.10

Að vinna að þessu mikla andlega markmiði fyrir einstaklinga og fjölskyldur, er ein megin ástæða þess að dagskrár og athafnir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, hafa orðið heimilismiðaðri og kirkjustyrkrari á þessum einstaka tíma í ráðstöfun fyllingar tímanna.

Ástæður heimilismiðaðrar og kirkjustyrktrar trúarfræðslu

Ég ætla að gera grein fyrir nokkrum megin ástæðum þess að trúarfræðsla er að verða heimilismiðaðri og kirkjustyrktari.

Hinn fullkomni trúboðsskóli er á heimilum okkar; þar á eftir koma svo trúboðsskólar í Provo, Manila, Mexíkóborg og á fleiri stöðum. Lærdómsríkasta sunnudagaskólanám okkar, ætti að vera heimanámið okkar, einstaklingsbundið og með fjölskyldunni; þar á eftir koma svo hinir gagnlegu námsbekkir sunnudagaskólans í samkomuhúsum okkar.

Ættarsögusöfn eru nú á heimilum okkar. Að auki njótum við líka stuðnings ættarsögurannsókna í samkomuhúsum okkar.

Brýnt undirbúningsnám fyrir musterið fer fram á heimilum okkar; þar á eftir koma svo undirbúningsnámskeið okkar fyrir musterið sem höfð eru reglubundið í samkomuhúsum okkar.

Að gera heimili okkar að griðarstað, þar sem við getum „[staðið] á helgum stöðum,“11 er nauðsynlegt á þessum síðari dögum. Þótt hið heimilismiðaða og kirkjustyrkta nám sé mikilvægt fyrir andlegan styrk okkar og vernd á líðandi stund, þá verður það jafnvel enn mikilvægara á komandi tíð.

Heimilismiðað og kirkjustyrkt nám og musterisundirbúningur

Ígrundið hvernig reglan um „heimilismiðað og kirkjustyrkt“ nám tengist eigin undirbúningi og verðugleika, til að taka á móti helgiathöfnum og sáttmálum í húsi Drottins.

Musterisundirbúningur er vissulega áhrifaríkastur á heimilum okkar. Margir kirkjumeðlimir eru þó óvissir um hvaða musterisupplifanir sé rétt að tala um eða tala ekki um utan musteris.

Ezra Taft Benson forseti útskýrði ástæðu þessarar óvissu meðal fólks.

„Musterið er helgur staður og helgiathafnir musterisins eru í eðli sínu helgar. Vegna helgi musterisins, erum við stundum treg til að tala við börn okkar og barnabörn um musterið að einhverju marki.

Af því leiðir að hjá mörgum þeirra vaknar ekki sterk þrá til að fara í musterið, eða þau fara, án þess að hafa búið sig nægilega undir þær skuldbindingar og sáttmála sem gerð eru.

Ég held að réttur skilningur eða bakgrunnur muni tvímælalaust búa æskufólk okkar undir musterið … [og] vekja með því þrá til að bera sig eftir prestdæmisblessunum sínum, líkt og Abraham gerði.“12

Tvær megin viðmiðunarreglur geta hjálpað okkur að hljóta þann rétta skilning sem Benson forseti benti á.

Regla #1. Þar sem við elskum Drottin, ættum við ávallt að tala um hið helga hús hans af lotningu. Við ættum ekki að upplýsa um eða útskýra táknin sem tengjast sáttmálunum sem við tökum á móti í helgum musterisathöfnum. Við ættum heldur ekki að ræða hið helga efni sem við lofum að upplýsa ekki um í musterinu.

Regla #2. Musterið er hús Drottins. Allt í musterinu beinir okkur að frelsara okkar, Jesú Kristi. Við megum ræða um þann megin tilgang og kenningar og reglur sem tengjast helgiathöfnum og sáttmálum musterisins..

Howard W. Hunter forseti ráðlagði: „Við skulum miðla börnum okkar þeim andlegu tilfinningum sem við upplifum í musterinu. Við skulum líka kenna þeim einlæglegar og eðlilega það sem við getum réttilega sagt um tilgang húss Drottins.“13

Í gegnum kynslóðir, allt frá spámanninum Joseph Smith til Russells M. Nelson forseta, hefur kenningarlegur tilgangur helgiathafna og sáttmála musterisins verið ítarlega kenndur af leiðtogum kirkjunnar.14 Fjöldinn allur af efni er til á prenti, hljóðsnældum, myndböndum og á öðru formi, sem gerir okkur kleift að læra um fyrstu helgathafnirnar, musterisgjöfina, hjónabandið og aðrar helgiathafnir innsiglunar.15 Einnig má finna efni um hvernig fylgja ber frelsaranum með því að taka á móti og heiðra sáttmála, til að lifa eftir hlýðnilögmálinu, fórnarlögmálinu, lögmáli fagnaðarerindisins, skírlífislögmálinu og helgunarlögmálinu.16 Allir meðlimir kirkjunnar ættu að kynna sér hið vandaða efni sem finna má á temples.ChurchofJesusChrist.org.

Ljósmynd
temples.churchofjesuschrist.org

Russell M. Nelson forseti lagði áherslu á hinn mikilvæga jafnvægispunkt á milli hinna helgu athafna musterisins og hins gagnlega upplýsingaefnis um musterin, gefið út af kirkjunni, sem er rétt, sæmandi og opið almenningi. Hann sagði: „Ég hvet meðlimi til að … lesa uppflettiorð í Leiðarvísi að ritningunum, svo sem ,Smyrja,‘ ,Sáttmáli,‘ ,Fórnir,‘ og ,Musteri.‘ Þið getið líka lesið 2. Mósebók, kapítula 26–29, og 3. Mósebók, kapítula 8. Í Gamla testamentinu, sem og í bókum Móse og Abrahams í Hinni dýrmætu perlu, er sagt frá fornri iðkun musterisverka og varanlegu gildi helgiathafna musterisins.“17

Ljósmynd
Myndband um helgan musterisklæðnað

Ímyndið ykkar ef sonur eða dóttir ykkar segði: „Einhver í skólanum sagði mér að fólk klæddist skrítnum fatnaði í musterinu. Er það rétt?“ Stutt myndband með yfirskriftinni „Sacred Temple Clothing“ (Helgur musterisklæðnaður), er fáanlegt á temples.ChurchofJesusChrist.org. Þetta vandaða myndefni útskýrir hvernig karlar og konur hafa frá fornri tíð dásamað helga tónlist, mismunandi bænagjörð, táknrænan trúarklæðnað, látbragð og helgisiði, til að tjá innilega hollustu við Guð. Kirkjan styður á þennan hátt við undirbúning á heimilinu, fyrir hinar dýrðlegu blessanir musterisins, með gagnlegri fræðslu og vönduðu efni, líkt og þessu myndbandi. Heilmiklar gagnlegar upplýsingar standa ykkur til boða.18

Þegar við kappkostum að ganga í hógværð anda Drottins,19 verðum við blessuð til að skilja og vinna að hinu nauðsynlega jafnvægi á heimilinu til að vita hvað er og hvað er ekki sæmandi að ræða varðandi helgiathafnir og sáttmála musterisins.

Fyrirheit og vitnisburður

Ég hef grun um að sum ykkar veltið fyrir ykkur hvort trúarfræðsla ykkar geti í raun orðið heimilismiðuð og kirkjustyrkt. Kannski eruð þið einu meðlimir kirkjunnar á heimili ykkar eða eigið óvirkan maka eða eruð einstætt foreldri eða búið ein eða fráskilin og hafið spurningar um hvernig þetta eigi við um ykkur. Þið gætuð, sem hjón, litið á hvort annað og spurt: „Getum við gert þetta?“

Já, þið getið gert þetta. Ég lofa að stykjandi blessanir munu taka að streyma í líf ykkar. Dyr munu ljúkast upp. Ljósið mun skína. Þið munið verða hæfari til að sækja fram af kostgæfni og þolinmæði.

Ég ber gleðilegt vitni um að blessanir munu hljótast, er við reynum að framfylgja þeirri persónulegu ábyrgð að læra og elska hið endureista fagnaðarerindi Jesú Krists. Við getum vissulega „[verið] undir það [búin] að öðlast allt, sem gagnlegt er.“20 Ég lofa og ber því vitni, í heilögu nafni Drottins Jesú Krists, amen.