2010–2019
Af hverju hjónaband og fjölskylda
Apríl 2015


Af hverju hjónaband og fjölskylda

Fjölskylda, sem grundvölluð er á hjónabandi karls og konu, er besta umgjörðin til að áætlun Guðs nái fram að ganga.

Ofan við hinar stóru Vesturdyr, hins nafntogaða Westminster Abbey í London á Englandi, er höggmynd af tíu kristnum píslarvottum 20. aldarinnar. Þar á meðal er Dietrich Bonhoeffer, hinn afburðasnjalli guðfræðingur, sem fæddur var 1906.1 Bonhoeffer var mikill andstæðingur einræðisskipan nasista og meðferð þeirra á Gyðingum og öðrum. Hann var settur í varðhald fyrir virka andstöðu sína og loks tekinn af lífi í fangabúðum. Bonhoeffer var frjósamur rithöfundur og sum þekktustu ritverk hans eru bréf sem samúðarfullur vörður aðstoðaði hann við að smygla út úr fangelsinu og síðar voru birt undir heitinu Bréf og ritverk úr fangelsi.

Eitt bréfið var til frænku hans, áður en hún gifti sig. Í því voru þessi merkilegu orð: „Hjónabandið er meira en ástin sem þið hafið hvort á öðru. … Ástin einblínir bara á ykkur sjálf og byrgir ykkur sýn á heiminn, en í hjónabandinu eruð þið hlekkur í keðju kynslóða, sem Guð lætur koma og fara til sinnar dýrðar og kallar í ríki sitt. Í ást ykkar sjáið þið aðeins ykkar hamingjuríka himinn, en í hjónabandinu takist þið á við ykkar megin ábyrgð gagnvart mannkyni og heiminum. Ástin er ykkar eigin eign, en hjónabandið er meira en aðeins persónulegs eðlis – það er staða og stofnun. Á sama hátt og menn verða ekki konungar bara af því að setja á sig kórónu, þá er það ekki bara ástin til hvors annars sem helgar hjónabandið og sameinar ykkur frammi fyrir Guði og mönnum. … Ástin á því rætur í ykkur, en hjónabandið kemur að ofan frá Guði.”2

Í hvaða skilningi er hjónaband karls og konu hafið yfir ást þeirra til hvors annars og eigin hamingju, svo þau fái axlað sína „megin ábyrgð gagnvart mannkyni og heiminum“? Í hvaða skilningi kemur það „frá Guði að ofan“? Við þurfum að fara aftur til upphafsins til að fá það skilið.

Spámenn hafa opinberað að fyrst hefðum við verið til sem vitsmunir og síðan hafi Guð gefið okkur form, eða andalíkama, og að þannig hefðum við orðið andabörn hans – synir og dætur okkar himnesku foreldra.3Að því kom í þessari fortilveru andanna, að himneskur faðir sá að rétt var að okkur gæfist kostur á að „upphefjast með honum,“4 svo hann gerði áætlun til þess að svo mætti verða. Í ritningunum er hún nefnd ýmsum nöfnum, svo sem „sáluhjálparáætlunin,“5 „hin mikla sæluáætlun“6 og „endurlausnaráætlunin.“7 Tveir megin þættir áætlunarinnar voru úrskýrðir af Abraham með þessum orðum:

„Og einn stóð á meðal þeirra, líkur Guði, og hann sagði við þá, sem með honum voru: Við munum fara niður, því að þar er rúm, og við munum taka af þessu efni og við munum gjöra jörð, sem þessir geta dvalið á–

Og með þessu munum við reyna þá og sjá hvort þeir gjöra allt, sem Drottinn Guð þeirra býður þeim–

Og þeim, sem standast fyrsta stig sitt, mun bætast meira … og þeim, sem standast annað stig sitt, mun bætast dýrð við dýrð alltaf og að eilífu.“8

Þökk sé himneskum föður, að við vorum þegar orðin andaverur. Með þessu var hann að gefa okkur kost á að fullkomna það ástand. Samtenging við frumefnið er nauðsynleg til að hljóta þá fyllingu og dýrð sem Guð sjálfur er aðnjótandi. Ef við samþykktum að taka þátt í áætlun Guðs, meðan við enn værum í andaheimi fortilverunnar – og hefðum þannig, með öðrum orðum, „staðist fyrsta sig okkar“ – þá myndi okkur „bætast meira,“ með efnislíkama, er við kæmum til dvalar á jörðinni, sem hann skapaði fyrir okkur.

Ef við svo kysum, í hinni jarðnesku reynslu, að „gjöra allt, sem Drottinn Guð … [okkar] býður [okkur],“ þá hefðum við staðist „annað stig“ okkar. Í því felst að með vali okkar sýnum við Guði (og okkur sjálfum) getu okkar og staðfestu til að lifa eftir himneskum lögmálum hans, án þess að vera í návist hans, í efnislíkama, gæddum öllum sínum eiginleikum, ástríðum og löngunum. Gætum við tamið holdið, svo það yrði fremur verkfæri andans, heldur en húsbóndi hans? Gæti okkur verið treystandi fyrir guðlegum krafti, bæði um tíma og eilífð, þar sem talið kraftinum til að skapa líf? Gætum við hvert fyrir sig sigrast á hinu illa? Þeir sem það gerðu „mun bætast dýrð við dýrð alltaf og að eilífu“ – mikilvægur þáttur þeirrar dýrðar, er að hljóta upprisinn, ódauðlegan og dýrðlegan efnislíkama.9 Því er engin furða að við höfum „hrópað af gleði“ yfir þessum miklu möguleikum og fyrirheitum.10

Nauðsynlegt er að fernt sé fyrir hendi til að þessi guðlega áætlun nái fram að ganga:

Í fyrsta lagi þá varð að skapa jörð sem við fengjum dvalið á. Hver sem nákvæm framvinda þeirrar sköpunar var, þá vitum við að hún hefur ekkert með tilviljun að gera,, heldur að hún var útfærð af Guði föðurnum og framkvæmd af Jesú Kristi – „allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.“11

Í öðru lagi þá voru það skilyrði jarðlífsins. Adam og Eva voru staðgenglar fyrir alla sem valið höfðu að taka þátt í hinni miklu sæluáætlun föðurins.12 Fallið sem þau gerðu að veruleika kom á nauðsynlegum skilyrðum fyrir líkamlegri fæðingu okkar og jarðneskri upplifun til lærdóms, án þess að vera í návist Guðs. Með fallinu vaknaði meðvitund um gott og illt og hin guðlega gjöf, valfrelsið, varð okkar.13 Fallið gerði líka límamsdauða að veruleika, til að jarðlífið yrði aðeins tímabundið, svo við lifum ekki ævarandi í syndum okkar.14

Í þriðja lagi þá er það endurlausn frá fallinu. Við skiljum nú hlutverk dauðans í áætlun himnesks föður, en sú áætlun gengi ekki upp, ef ekki væri á einhvern hátt hægt að sigrast á dauðnum að lokum, bæði líkamlegum og andlegum dauða. Því var það svo að frelsari, hinn eingetni sonur Guðs, Jesús Kristur, þjáðist og dó til að friðþægja fyrir brot Adams og Evu, og gerði þannig upprisu og ódauðleika að veruleika. Þar sem engu okkar hefði tekist að lifa stöðugt og fullkomlega eftir lögmáli fagnaðarerindisins, þá endurleysir friðþæging hans okkur frá eigin syndum, bundið skilyrðum iðrunar. Þar sem friðþæginarfórn frelsarans sér okkur fyrir leið til fyrirgefningar syndanna og helgunar sálarinnar, þá getum við endurfæðst andlega og komist í sátt við Guð. Okkar andlega dauða – sem er aðskilnaður frá Guði – er þar með lokið.15

Í fjórða og síðasta lagi þá er það umgjörð okkar líkamlegu fæðingar og andlegrar endurfæðingar í ríki Guðs, sem á eftir kemur. Til að verk hans næði fram að ganga, svo við mættum „upphefjast með honum,“16 þá ákvarðaði Guð að karlar og konur skyldu giftast og fæða börn, og þar með, í samfélagi við Guð, að skapa efnislíkama, sem eru lykill að prófraun jarðlífsins og nauðsynlegir til eilífrar dýrðar með honum. Hann ákvarðaði líka að hjón skyldu stofna fjölskyldu og ala börn sín upp í ljósi og sannleika,17 og vekja með þeim von á Krist. Faðirinn býður okkur:

„[Fræðið] börn [ykkar] óspart um þetta, og [segið]:

… Eins og þér fæddust í heiminn af vatni og blóði og anda, sem ég hef gjört, og urðuð þannig úr dufti að lifandi sál, já, eins verðið þér að endurfæðast inn í himnaríki af vatni og af heilögum anda og verða hreinsaðir með blóði, já, blóði míns eingetna, svo að þér megið helgast af allri synd og njóta orða eilífs lífs í þessum heimi og eilífs lífs í komanda heimi, já, ódauðlegrar dýrðar.“18

Ef við þekkjum átæðu þess að við fórum úr návist himnesks föður, og hvers það krefst að upphefjast með honum, verður okkur afar ljóst að ekkert getur verið miklvægara, hvað tímabil jarðlífsins áhrærir, heldur en hin líkamlega fæðing og hin andlega endurfæðing, sem eru forsenda eilífs lífs. Í þessum tilgangi, svo notuð séu orð Dietrich Bonhoeffer, er „stofnað“ til hjónabands, sem er „megin ábyrgðin gagnvart … mannkyni,“ sem var guðlega ákvarðað „að ofan frá Guði.“ Það er „hlekkur í samtengdri keðju kynslóðanna,“ bæði nú og hér eftir – sem er regla himins.

Fjölskylda, sem grundvölluð er á hjónabandi karls og konu, er besta umgjörðin til að áætlun Guðs nái fram að ganga – til fæðingar barna, sem koma hrein og saklaus frá Guði, og þeirrar kennslu og undirbúnings sem þau þurfa til árangursríks jarðlífs og eilífs lífs í komandi heimi. Nauðsynlegt er að samfélag sé að meginhluta byggt á slíkum hjónaböndum, svo það fái þrifist og dafnað. Það er ástæða þess að samfélög og þjóðir hafa almennt lagt áherslu á hjónabandið og fjölskylduna sem friðhelga stofnun. Hjónabandið hefur aldrei einskorðast aðeins við ást og hamingju hinna fullorðnu.

Niðurstöður félagsvísindanna um hjónabandið og fjölskylduna, þar sem karl og kona eru gift og ráðandi, eru afgerandi.19 Við „viljum [því] vara við því að sundrung fjölskyldunnar mun leiða yfir einstaklinga, samfélög og þjóðir þær hörmungar sem spámenn fyrr og nú hafa sagt fyrir um.“20 Við fullyrðum þó hjónabandið og fjölskyldan séu ekki byggð á félagsvísindum, heldur á þeim sannleika á þau eru sköpuð af Guði. Það var hann sem í upphafi skapaði Adam og Evu í sinni mynd, karl og konu, og vígði þau saman sem eiginkonu og eiginmann, til að verða „eitt hold“ og margfalda og uppfylla jörðina.21 Hver einstaklingur hefur að geyma þessa guðlegu mynd, en það er í hjónabands-samfélagi karls og konu, er sameinast, sem við mögulega getum hlotið fulla merkingu þess að hafa verið sköpuð í mynd Guðs – karl og kona. Hvorki við, né nokkrir aðrir, fáum breytt þessari guðlegu hjónabandsreglu. Hún er ekki uppfinning manna. Slíkt hjónaband er vissulega „að ofan frá Guði“ og er engu síðri hluti af sæluáætluninni, en fallið og friðþægingin.

Í fortilverunni gerði Lúsífer uppreisn gegn Guði og áætlun hans og andstaða hans fer aðeins harðnandi. Hann keppir að því að letja til hjónabands og fjölskyldumyndunar, og hafi verið stofnað til hjónabands og fjölskyldu, gerir hann allt sem hann getur til að sundra fjölskyldunni. Hann gerir árás á allt sem er heilagt og tengist kynferði manna, slítur það úr samhengi hjónabands og íklæðir það ósiðsömum hugsunum og athöfnum. Hann reynir að sannfæra karla og konur um að eðlilegt sé að líta framhjá forgangi hjónabands og fjölskyldu eða hið minnst að elta ólar við starfsferil eða önnur afreksverk og leita sjálfsfyllingar og eigin vilja. Óvinninum er vissulega skemmt þegar foreldrar vanrækja að kenna börnum sínum og innræta þeim trú á Krist og andlega endurfæðingu. Bræður og systur, margt er gott, ýmislegt er mikilvægt, en aðeins fáeitt er nauðsynlegt.

Að lýsa yfir þeim grundvallar sannleika sem tengist hjónabandi og fjölskyldu, er ekki að líta framhjá eða gera lítið úr fórnum og árangri þeirra sem enn hafa ekki getað tileinkað sér þessa fyrirmynd. Sumum ykkar njóta ekki blessunar hjónabands af ástæðum sem gætu verið skortur á tækifærum, samkynhneigð, líkamleg eða huglæg takmörkun eða ótti við að mistakast, gæti einfaldlega verið trúnni yfirsterkari, a.m.k. eins og sakir standa. Þið gætuð hafa verið í hjónabandi sem lauk með skilnaði og takist nú á við það einsömul sem tveir fengu vart við ráðið. Sum ykkar sem eruð gift getið ekki átt börn, þrátt fyrir djúpar þrár og heitar bænir.

Hvað sem þessu líður, þá hafa allir náðargáfur; allir eru gæddir hæfileikum; allir geta lagt sitt af mörkum við að leiða fram hina guðlegu áætlun meðal eigin kynslóða. Mögulegt er að áorka mörgu af því góða, mörgu af því nauðsynlega – stundum öllu því sem nú nauðsynlegt – við aðstæður sem ekki eru eins og best verður á kosið. Svo mörg ykkar eruð að gera ykkar besta. Þegar þið, sem berið þyngstu byrðar jarðlífsins, rísið upp til varnar áætlun Guð til upphafningar barna sinna, þá leggjumst við öll saman á árar. Af sannfæringu þá berum við vitni um að friðþæging Jesú Krists er raunveruleg og að hún muni umbuna þeim sem til hans koma og að lokum bæta fyrir allan skort og skaða. Öllum börnum föðurins er fyrirbúið að hljóta allt það sem faðirinn á.

Ein ung móðir sagði mér nýverið frá áhyggjum sínum af því að upplifa sig sem ófullnægjandi í þessari mikilvægustu köllun sinni. Mér fannst áhyggjuefni hennar fremur léttvægt og að hún stæði sig með prýði. Mér varð þó ljóst að hún hafði aðeins hug á að þóknast Guði og standa undir trausti hans. Ég færði henni orð fullvissu og hughreystingar og í hjarta mínu bað ég þess að Guð, faðir hennar á himnum, fyllti hana kærleika og vitnisburði um velþóknun sína, er hún sinnti störfum sínum.

Þessi er bæn mín í daga fyrir okkur öll. Megum við öll njóta velþóknunar hans. Megi hjónabönd og fjölskyldur þrífast og dafna og hvort sem hlutskipti okkar verður fylling blessana jarðlífsins eða ekki, megi þá náð Drottins fylla ykkur hamingju nú og fullvissu um hin öruggu fyrirheit hans. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Kevin Rudd, „Faith in Politics,“ The Monthly, okt. 2006; themonthly.com.au/monthly-essays-kevin-rudd-faith-politics--300.

  2. Dietrich Bonhoeffer, Letters and Papers from Prison, ritst. af Eberhard Bethge (1953), 42–43.

  3. Sjá t.d. Sálm 82:6; Post 17:29; Hebr 12:9; Kenning og sáttmálar 93:29, 33; HDP Móse 6:51; Abraham 3:22. Spámaðurinn Joseph Smith sagði þessi orð: „Fyrsta regla mannsins er sú að þeir áttu tilveru hjá Guði. Guð sjálfur, sem var mitt á meðal andanna [eða vitsmunanna] og dýrðar, sá sér fært að setja lögmál, vegna þess að vitsmunir hans voru meiri, þar sem hinum gæfist kostur á að þróast líkt og hann sjálfur. … Hann hefur máttinn til að setja lögmál, að fræða hina veikari vitsmuni, svo þeir megi upphefjast með honum“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 210).

  4. Kenningar: Joseph Smith, 210.

  5. Alma 24:14.

  6. Alma 42:8.

  7. Alma 12:25; sjá einnig vers 26–33.

  8. Abraham 3:24–26.

  9. Spámaðurinn Joseph Smith sagði þessi orð: „Áætlun Guðs, fyrir grundvöllun heimsins, var sú að við ættum að hljóta íverustað [líkama], að fyrir trúfesti gætum við náð fram sigri og þar með hlotið upprisu frá dauðum, til þessarar vitsmuna dýrðar, heiðurs, máttar og yfirráða.“ Spámaðurinn sagði líka: „Við komum til þessarar jarðar til að hljóta líkama og sýna hann hreinan frammi fyrir Guði í himneska ríkinu. Hin mikla sæluregla felst í því að eiga líkama. Djöfullinn hefur ekki líkama og í því felst refsing hans. Hann finnur ánægju í því að taka yfir líkama manna, og þegar frelsarinn skipar honum út, leitar hann jafnvel hælis í svínum, sem sýnir að hann kýs líkama þeirra fremur en engan. Allar verur sem eiga efnislíkama hafa vald yfir þeim sem eiga hann ekki“ (Kenningar: Joseph Smith, 211.

  10. Job 38:7.

  11. Jóh 1:3; sjá einnig Kenning og sáttmálar 76:23–24.

  12. Sjá 1 Kor 15:21–22; 2 Ne 2:25.

  13. Sjá 2 Ne 2:15–18; Alma 12:24; Kenning og sáttmálar 29:39; HDP Móse 4:3. Joseph Smith sagði: „Allir menn eiga rétt á sjálfræði, því Guð hefur ráðgert það þannig. Hann hefur veitt mannkyni siðferðilegt sjálfræði, og getu til að velja gott eða illt; að leita þess góða, með því að tileinka sér heilagleika í þessu lífi, sem færir hugarró og gleði í heilögum anda hér, og fyllingu gleði og hamingju við hægri hönd hans að því loknu; eða að leita þess illa, með því að syndga og rísa gegn Guði, sem leiðir til fordæmingar sálna í þessum heimi og glötunar eilífs lífs í komandi heimi.“ Spámaðurinn sagði líka: „Satan megnar ekki að lokka okkur til syndar, nema því aðeins að við leyfum honum það. Við erum þannig gerð að við getum staðist djöfulinn; ef við værum það ekki, hefðum við ekki sjálfræði“ (Kenningar: Joseph Smith, 213.

  14. Sjá 1 Mós 3:22–24; Alma 42:2–6; HDP Móse 4:28–31.

  15. Jafnvel þeir sem ekki iðrast eru endurleystir frá andlegum dauða með friðþægingunni, í þeim skilningi að þeir koma aftur fram fyrir Guð til að hljóta lokadóm (sjá Helaman 14:17; 3 Ne 27:14–5).

  16. Kenningar: Joseph Smith, 210.

  17. Sjá Kenning og sáttmálar 93:36–40.

  18. HDP Móse 6:58–59.

  19. Fólk getur verið trúfast hvort öðru í óvígðu sambandi, og það getur eignast og alið upp börn, stundum með góðum árangri, í annarsskonar en með tveimur giftum foreldrum. Í flestum tilvikum er það þó svo að félagslegir kostir hjónabands og yfirburðarstaða barna í fjölskyldu, sem í eru gift karl og kona, eru langtum meiri. Svo má líka geta þess að hin félagslega og fjárhagslega byrði, sem einn fréttaskýrandi nefndi „fjöldaflótta frá fjölskyldunni,“ hvílir þungt á samfélaginu. Nicholas Eberstadt greinir frá hinni heimslægu höfnun hjónabands og barneigna og stöðugri aukningu föurlausra heimila og hjónaskilnaða, og segir: „Sá mikli skaði sem ómælanlegur fjöldi barna verður fyrir vegna fjöldaflótta frá fjölskyldunni, er algjörlega augljós. Skaðsemi hjónaskilnaða og barneigna utan hjónabands stuðlar líka að verri afkomu og meiri fátækt – fyrir samfélagið í heild, en einkum þá fyrir börnin. Já, börn hafa mikla aðlögunarhæfni og allt það. Fjöldaflótti frá fjölskyldunni hlýtur hins vegar að bitna að mestu á berskjölduðum börnunum. Þessi sami flótti hefur líka óafturkræf áhrif á berskjaldaða fullorðna.“ (Sjá „The Global Flight from the Family,“ Wall Street Journal, 21.feb 2015; wsj.com/articles/nicholas-eberstadt-the-global-flight-from-the-family-1424476179.)

  20. „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,” Ensign eða Líahóna, nóv. 2010, 129.

  21. Sjá 1 Mós 1:26–28; 2:7, 18, 21–24; 3:20; HDP Móse 2:26–28; 3:7–8, 18, 20–24; 4:26.