2010–2019
Verjendur fjölskyldu-yfirlýsingarinnar
Apríl 2015


Verjendur fjölskyldu-yfirlýsingarinnar

Við skulum byggja upp ríki Guðs með því að standa óhræddar og gerast verjendur hjónabandsins, foreldrahlutverksins og heimilisins.

Það eru mikil forréttindi og gleði að vera hluti af þessum dásamlega söfnuði stúlkna og kvenna. Hversu blessaðar við erum sem konur að koma saman í kvöld í einingu og kærleika.

Ljósmynd
Old portrait of Marie Madeleine Cardon

Nýlega las ég söguna um Marie Madeline Cardon, sem tók á móti boðskap hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists ásamt fjölskyldu sinni frá fyrstu trúboðunum sem kallaðir voru til að þjóna á Ítalíu árið 1850. Hún var um 17 eða 18 ára gömul þegar þau skírðust. Sunnudag einn, þegar samkoma var haldin á heimili þeirra hátt upp í Ölpunum á Norður-Ítalíu, safnaðist reiður múgur, sem samanstóð meðal annars af prestum á svæðinu, umhverfis húsið og tók að hrópa, kalla og öskra að færa ætti trúboðana út úr húsinu. Ég held að fólkið hafi ekki verið spennt yfir að læra um fagnaðarerindið – heldur komið til að valda líkamlegum skaða. Það var hin unga Marie sem fór út úr húsinu til að horfast í augun við múginn.

Múgurinn hélt áfram grimmilegum látunum sínum og krafðist þess að trúboðunum yrði framvísað. Marie lyfti Biblíunni sinni upp og skipaði þeim að hverfa á braut. Hún sagði þeim að öldungarnir væri undir hennar verndarvæng og múgurinn gæti ekki svo mikið sem snert hár á höfði þeirra. Hlustið á orð hennar: „Allir stóðu agndofa. … Guð var með mér. Hann setti orð í munn minn annars hefði ég ekki getað talað. Það féll allt strax í ljúfa löð. Þessi hópur sterkra manna stóð hjálparvana frammi fyrir veikburða og skjálfandi en samt óttalausri stúlkunni.“ Prestarnir báðu múginn að fara, sem hann gerði hljóðlega og skömmustulega af hræðslu og eftirsjá. Litla hjörðin lauk fundi sínum í friði.1

Getið þið ekki ímyndað ykkur þessa hugrökku stúlku, sem var á svipuðum aldri og margar ykkur eruð, standandi frammi fyrir múgnum, verjandi hina nýju trú sína með hugrekki og fullvissu?

Systur, fáar okkar munu nokkru sinni þurfa að horfast í augu við reiðan múg en það er stríð í gangi í þessum heimi þar sem ráðist er á dýrmætustu grundvallarkenningar okkar. Ég tala sér í lagi um kenningu fjölskyldunnar. Verið er að efast um, gagnrýna og ráðast á friðhelgi heimilisins og grundvallartilgang fjölskyldunnar á öllum vígsstöðvum.

Þegar Gordon B. Hinckely forseti las fyrst „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ fyrir rétt tæpum 20 árum síðan, vorum við þakklátar og mátum að verðleikum skýrleika, einfaldleika og sannleika þessa opinberaða skjals. Við gerðum okkur ekki mikla grein fyrir því þá, hversu mikið við myndum þurfa á þessum grundvallar yfirlýsingum að halda í dag sem viðmið til að meta sérhverja nýju kenningu heimsins sem kemur til okkar í gegnum fjölmiðla, Alnetið, fræðimenn, sjónvarp, kvikmyndir og jafnvel löggjafarvaldið. Yfirlýsingin um fjölskylduna hefur orðið að viðmiði fyrir okkur svo við getum greint heimspeki heimsins og ég vitna um að reglurnar sem koma fram í þessari yfirlýsingu eru eins sannar í dag og þær voru þegar spámaður Guðs gaf okkur þær fyrir nærri 20 árum síðan.

Má ég benda á nokkuð sem er augljóst? Lífið fer sjaldnast algjörlega samkvæmt áætlun hjá nokkrum og við gerum okkur grein fyrir því að ekki eru allar konur er að upplifa það sem yfirlýsingin lýsir. Það er samt sem áður mikilvægt að skilja og kenna mynstur Drottins og kappkosta við að gera það mynstur að raunveruleika, eins vel og við getum.

Sérhvert okkar gegnir hlutverki í áætluninni og við erum öll metin að jöfnu í augum Drottins. Við ættum að muna að kærleiksríkur himneskur faðir er meðvitaður um réttlátar þrár okkar og mun heiðra loforð sitt svo ekkert verði aftur haldið gagnvart þeim sem trúfastlega halda sáttmála sína. Himneskur faðir hefur verk og áætlun fyrir okkur öll en hann er einnig með sína eigin tímaáætlun. Meðal erfiðustu áskorana lífsins er að hafa trú á tímaáætlun Drottins. Gott er að hafa viðbótar áætlun í huga, sem hjálpar okkur að halda sáttmála, vera kærleiksríkar og réttláta konur sem byggja upp ríki Guðs, sama hvernig lífið okkar fer. Við þurfum að kenna dætrum okkar að miða á hugsjónina en vera með óvissu varaáætlun.

Mig langar, á þessu 20 ára afmæli yfirlýsingarinnar um fjölskylduna, að skora á okkur allar, sem konur kirkjunnar, að vera verjendur „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins.“ Rétt eins og Marie Madeline Cardon varði trúboðana og nýju trú sína af hugdirfsku þá þurfum við að verja opinberaðar kenningar Drottins sem lýsa hjónabandi, fjölskyldum, himnesku hlutverki karla og kvenna og mikilvægi heimila sem heilagra staða – jafnvel þegar heimurinn æpir í eyru okkar að þessar reglur séu úreltar, takmarkandi eða eigi ekki lengur við. Allir, burtséð frá hjónabandsstöðu þeirra eða fjölda barna, geta verið verjendur áætlunar Drottins sem lýst er í fjölskylduyfirlýsingunni. Ef þetta er áætlun Drottins þá ætti hún einnig að vera okkar áætlun!

Það eru þrjár kenningar sem koma fram í yfirlýsingunni sem ég tel að þurfi sérstaklega á staðföstum verjendum að halda. Fyrsta er hjónaband karls og konu. Okkur er kennt í ritningunum „þó er hvorki konan óháð manninum né maðurinn konunni í samfélaginu við Drottin.“2 Eigi einhver að öðlast uppfyllingar prestdæmisblessana, þá þarf að vera til staðar eiginmaður og eiginkona sem hafa innsiglast í húsi Drottins sem vinna saman í réttlæti og standa staðföst í sáttmálum sínum. Þetta er áætlun Drottins fyrir börn sín og ekkert magn fyrirlestra eða gagnrýni mun breyta því sem Drottinn hefur lýst yfir. Við þurfum að halda áfram að sýna fordæmi réttláts hjónabands, leita að blessunum í lífi okkar og hafa trú, ef hlutirnir ganga hægt fyrir sig. Við skulum gerast verjendur hjónabandsins eins og Drottin hefur vígt það á meðan við höldum áfram að sýna þeim er hafa aðrar skoðanir kærleika og umhyggju.

Næsta meginregla sem þarfnast okkar verjandi radda er að upphefja heilög hlutverk mæðra og feðra. Áköf kennum við börnum okkar að setja markið hátt í þessu lífi. Við viljum tryggja að dætur okkar viti að þær hafa þann mögleika að gera og verða hvað sem þær geta ímyndað sér. Við vonumst til að þær muni unna því að læra, að menntast, að vera hæfileikaríkar og jafnvel að verða næsta Marie Curie eða Eliza R. Snow.

Kennum við einnig sonum og dætrum okkar að enginn heiður er æðri, enginn titill merkilegri eða annað hlutverk mikilvægara í þessu lífi en hlutverk móður eða föður? Ég vona, er við hvetjum börn okkar til að leitast eftir hinu besta í lífinu, að við munum einnig kenna þeim að heiðra og upphefja þau hlutverk sem mæður og feður hafa í áætlun föðurins á himnum.

Yngsta dóttir okkar, Abby, sá einstakt tækifæri til að gerast verjandi móðurhlutverksins. Dag einn fékk hún tilkynningu frá skóla barna sinna að þau ætluðu að hafa starfskynningardag í skólanum. Foreldrum var boðið að senda inn umsókn ef þeim langaði að koma í skólann og greina börnunum frá starfi sínu og Abby fannst hún knúin til að sækja um að tala um móðurhlutverkið. Hún heyrði ekki frá skólanum og þegar framadagurinn nálgaðist hringdi hún að lokum í skólann, þar sem hún taldi þau hafa týnt umsókninni. Skipuleggjendurnir skimuðu í kringum sig og fundu loks tvo kennara sem samþykktu að fá Abby til að tala fyrir framan bekkina í lok starfskynningardagsins.

Abby var með skemmtilega kynningu þar sem hún kenndi börnunum meðal annars að sem móðir þá þurfti hún að vera eins konar sérfræðingur í læknisfræði, sálfræði, trúarbrögðum, kennslu, tónlist, bókmenntum, listum, fjármálum, skreytingum, hársnyrtingum, sem bílstjóri, í íþróttum, matarlist og miklu meira. Börnunum fannst mikið til koma. Hún lauk með því að láta sérhvert barn minnast móður sinnar með því að skrifa henni þakkarbréf, þar sem þau þökkuðu fyrir ótal kærleiksrík þjónustuverk sem þau hlutu daglega. Abby fannst eins og börnin sæu nú mæður sínar í nýju ljósi og að hlutverk móður eða föður væri mikils virði. Hún sótti aftur um og var boðið að kynna fyrir sex námsbekkjum.

Ljósmynd
Sister Oscarson's daughter, Abby, holding a portrait of her children

Abby sagði eftirfarandi um þessa upplifun: „Mér finnst eins og það sé auðvelt fyrir barn í þessum heimi að finnast foreldrahlutverkið vera annars flokks starf eða jafnvel nauðsynleg óþægindi. Ég vil að sérhvert barn upplifi að það sé forgangsatriði í lífi foreldra sinna og kannski muni það hjálpa þeim að skilja allt það sem foreldrar þeirra geri fyrir þau ef ég deili því með þeim hversu mikilvægt það er fyrir mig að vera foreldri.“

Okkar ástkæri spámaður, Thomas S. Monson forseti, er dásamleg fyrirmynd þess að heiðra konur og móðurhlutverkið, sérstaklega sína eigin móður. Í tengslum við okkar jarðnesku mæður, þá hefur hann sagt: „Megi sérhver okkar varðveita þennan sannleik: Ekki er hægt að gleyma móður og minnast Guðs. Ekki er hægt að minnast móður og gleyma Guði. Hvers vegna? Vegna þess að þessar tvær helgu verur, Guð og [hin jarðneska] móðir [okkar] sem eru félagar í sköpun, í kærleika, í fórn, í þjónustu, eru sem eitt.“3

Síðasta reglan sem við þurfum að verja er helgi heimilisins. Við þurfum að upphefja hugtak sem stundum er hæðst að. Það er hugtakið heimavinnandi. Sérhvert okkar – konur, karlar, unglingar og börn, einhleypir eða giftir – getur starfað við heimilishaldið. Við ættum „að gera heimili okkar“ að griðarstað reglu, heilagleika og öryggis. Heimili okkar ættu að vera staðir þar sem hægt er að finna fyrir anda Drottins í miklum mæli og þar sem ritningarnar og fagnaðarerindið er numið, kennt og eftir því lifað. Heimurinn myndi gjörbreytast, ef allir myndu sjá sjálfan sig sem uppbyggjendur réttlátra heimila. Við skulum verja heimilið sem stað sem er einungis í öðru sæti, á eftir musterinu, þegar kemur að heilagleika.

Systur, ég er þakklát fyrir að vera kona á þessum síðari dögum. Tækifæri okkar og möguleikar eru meiri en nokkur önnur kynslóð kvenna í heiminum hefur haft. Við skulum byggja upp ríki Guðs með því að standa óhræddar og gerast verjendur hjónabandsins, foreldrahlutverksins og heimilisins. Drottinn þarf að við séum hugrakkir, staðfastir og óhreyfanlegir stríðsmenn sem munu verja áætlun hans og kenna upprennandi kynslóðum um sannleika hans.

Ég ber vitni um að himneskur faðir lifir og elskar okkur öll. Sonur hans, Jesús Kristur, er frelsari okkar og lausnari. Ég læt ykkur eftir þennan vitnisburð, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Marie Madeline Cardon Guild, “Marie Madeline Cardon Guild: An Autobiography,” cardonfamilies.org/Histories/MarieMadelineCardonGuild.html; sjá einnig Marie C. Guild autobiography, circa 1909, Church History Library, Salt Lake City, Utah.

  2. 1 Kor 11:11.

  3. Thomas S. Monson, „Behold Thy Mother,“ Ensign, jan. 1974, 32.