2010–2019
Prestdæmið og persónuleg bæn
Apríl 2015


Prestdæmið og persónuleg bæn

Guð veitir okkur kraft í prestdæminu fyrir hverjar þær aðstæður sem við gætum fundið okkur í. Það krefst þess aðeins að við biðjum í auðmýkt.

Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt með því að tala til prestdæmishafa Guðs um gjörvalla jörðu. Ég skynja ábyrgðina sem fylgir þessu tækifæri, því ég þekki nokkuð til þess trausts sem Drottinn ber til ykkar. Þegar þið meðtókuð prestdæmið, þá var ykkur veittur sá réttur að mæla og starfa í nafni Guðs.

Sá réttur verður aðeins virkur er þið meðtakið innblástur frá Guði. Aðeins þá getið þið talað í hans nafni, Aðeins þá getið þið starfað í hans nafni. Þið gætuð gert þau mistök að hugsa: „Það er ekki svo erfitt. Ég get fengið innblástur, ef ég er einhvern tíma beðinn að flytja ræðu eða ég þarf að gefa prestdæmisblessun.“ Kannski finnur ungur djákni eða kennari huggun í því að hugsa: „Þegar ég er eldri, eða þegar ég verð kallaður sem trúboði, þá mun ég vita hvað Guð myndi segja og gera.“

Hugsið um þann dag þegar þið verðið að vita hvað Guð myndi segja og gera. Það hefur þegar gerst hjá okkur öllum - hvenær sem þið eruð í prestdæmisköllun. Ég ólst upp á trúboðsakrinum í austurhluta Bandaríkjanna á tímum Síðari heimstyrjaldarinnar. Kirkjuþegnarnir bjuggu þá langt frá hver öðrum og það var mjög ströng bensínskömmtun. Ég var eini djákninn í greininni. Kirkjuþegnarnir afhentu greinarforsetanum tíundarumslögin sín þegar þeir komu á föstu- og vitnisburðarsamkomur heima hjá okkur.

Þegar ég varð 13 ára gamall, þá fluttum við til Utah til að búa í stórri kirkjudeild. Ég man eftir því þegar ég var fyrst látinn ganga í hús til að safna föstufórnum. Ég leit á nafnið á einu umslaginu sem ég fékk í hendur og sá að á því var sama eftirnafn og eitt af þremur vitnum Mormónsbókar bar. Ég bankaði því á dyrnar af sjálfsöryggi. Maðurinn opnaði dyrnar, leit á mig, gretti sig og gelti því næst að mér og skipaði mér burt. Ég hneigði höfuðið og gekk í burtu.

Þetta var fyrir nærri því 70 árum síðan, en ég man ennþá eftir tilfinningunni sem ég upplifði við dyrnar, að það væri eitthvað sem ég hefði átt að segja eða gera. Ef ég hefði aðeins beðið í trú þegar ég fór út í daginn þá hefði ég kannski fengið innblástur um að standa þarna við dyrnar augnabliki lengur, brosa og segja eitthvað eins og: „Það er gott að sjá þig. Takk fyrir það sem þú og fjölskylda þín hafið gefið af ykkur fram til þessa. Við hlökkum til að sjá ykkur aftur í næsta mánuði.“

Hefði ég sagt og gert það þá hefði hann getað orðið enn ergilegri – og jafnvel móðgaður. Ég veit hins vegar nú hvernig mér hefði getað liðið. Fremur en að upplifa hryggð og erindisleysi er ég gekk í burtu, þá hefði ég getað skynjað hið ljúfa hrós í huga mínum og hjarta. „Vel gert.“

Við verðum allir að mæla og starfa í nafni Guðs þegar dómgreind okkar nægir ekki án innblásturs. Það getur gerst þegar enginn tími er til undirbúnings. Það hefur oft gerst fyrir mig. Það gerðist fyrir mörgum árum þegar faðir nokkur sagði lækna hafa sagt sér að hin fimm ára gamla dóttir hans, sem var alvarlega slösuð, yrði látin innan fárra mínútna. Þegar ég lagði hendur mínar yfir eina svæðið á höfði hennar sem ekki var hulið sáraumbúðum, þá varð ég, sem þjónn Guðs, að vita hvað hann myndi gera og segja.

Orðin streymdu í hugann og með vörum mínum sagði ég að hún myndi lifa. Læknirinn sem stóð við hlið mér, hnussaði af fyrirlitningu og bað mig að vera ekki fyrir. Ég gekk út úr sjúkrastofunni fullur friðar og kærleika. Litla stúlkan lifði og gekk inn eftir ganginum á sakramentissamkomu síðasta daginn sem ég var í þessari borg. Ég man enn gleðina og ánægjuna sem ég upplifði af því sem ég hafði sagt og gert í þjónustu Drottins fyrir þessa litlu stúlku og fjölskyldu hennar.

Þær tilfinningar sem ég upplifði á sjúkrahúsinu voru öðruvísi en sorgin sem ég upplifði er ég gekki í burtu frá dyrunum sem djákni, en þær eiga rætur í því sem mér hafði lærst af sambandi bænar og prestdæmisvalds. Sem djákni, þá hafði mér enn ekki lærst að valdið til að mæla og starfa í nafni Guðs krefst opinberunar og til að hljóta hana þegar þörfin kemur upp, þá er nauðsynlegt að biðjast fyrir og starfa í trú í samfélagi heilags anda.

Kvöldið áður en ég fór að húsinu til að ná í föstufórnina, þá sagði ég kvöldbænirnar mínar. Vikum og mánuðum áður en þessi símhringing barst frá sjúkrahúsinu, hafði ég fylgt fyrirmynd bænar og lagt á mig það sem Joseph F. Smith forseti sagði að gera þyrfti til að Guð gæti veitt okkur nauðsynlegan innblástur til að hafa kraft prestdæmisins. Hann sagði einfaldlega:

„Við þurfum ekki að sárbiðja hann mörgum orðum „Við þurfum ekki að þreyta hann með löngum bænum. Það sem við þurfum að gera, og það sem við ættum að gera sem Síðari daga heilagir, sjálfum okkur til góðs, er að fara oft til hans og bera honum vitni um að við munum eftir honum og að við erum fúsir til að taka á okkur nafn hans, halda boðorð hans, starfa í réttlæti og að við þráum hjálp anda hans.“1

Því næst sagði hann okkur hverju við ættum að biðja fyrir sem þjónar hans, er hefðu lofað því að mæla og starfa fyrir Guð. Hann sagði: „Hvers eigum við að biðja? Þið biðjið þess að Guð viðurkenni ykkur, að hann megi bænheyra ykkur og blessa ykkur með anda sínum.“2

Orðin sem við notum skipta ekki svo miklu máli, en við gætum þurft að sýna einhverja þolinmæði. Þið komið fram fyrir ykkar himneska föður í þeim ásetningi að hann viðurkenni ykkur persónulega. Hann er fyrst og fremst Guð, faðir okkar allra og samt er hann reiðubúinn að beina óskiptri athygli að öllum sínum börnum. Það gæti verið ástæðan fyrir því að frelsarinn notaði orðin: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“3

Það er auðveldara að finna raunverulega lotningu þegar maður krýpur eða lútir höfði, en það er mögulegt að finnast maður nálgast himneskan föður sinn í óformlegri, og jafnvel hljóðri, bæn eins og maður þarf oft að gera í prestdæmisþjónustu sinni. Það verður skarkali og fólk umhverfis ykkur flestar dagsins stundir. Guð heyrir hljóðar bænir ykkar en þið þurfið kannski að læra að útiloka allar truflanir því að á þeim stundum sem þið þurfið að ná sambandi við Guð þá er ekki alltaf hljótt.

Smith forseti bendir á að þið munið þurfa að biðja þess að Guð kannist við köllun ykkar í þjónustu við hann. Hann veit allt um köllun ykkar í smáatriðum Hann kallaði ykkur og með því að biðja til hans varðandi köllun ykkar þá mun hann opinbera ykkur meira, ykkur til fróðleiks.4

Ég skal gefa ykkur dæmi um það hvað heimiliskennari gæti gert er hann biður bæna. Þið vitið kannski nú þegar að þið eigið að:

„Vitja heimila allra meðlima, hvetja þá til að biðja upphátt og í leynum og rækja allar skyldur við fjölskyldu [ykkar].

…vaka stöðugt yfir söfnuðinum, vera með honum og styrkja hann;

Og sjá um að hvorki tíðkist misgjörðir í kirkjunni, harka í garð hver annars, lygi, rógburður, né illt umtal;

Og sjá um að söfnuðurinn komi oft saman og einnig sjá um að allir meðlimir gegni skyldum sínum.“5

Nú í dag gengur þetta jafnvel ekki hjá hinum reynda heimiliskennara og yngri félaga hans,nema með aðstoð heilags anda Hugsið ykkur fjölskyldurnar og jafnvel einstaklingana sem þið hafið verið kallaðir til að þjóna. Mannleg dómgreind og góður vilji dugar ekki.

Svo þið munið biðja um að finna leið til að skilja hvað er úr lagi í hjörtum og lífi þeirra sem þið þekkið ekki vel og hafa ekki áhuga á að þekkja ykkur. Þið þurfið að vita hvað Guð myndi vilja að þið gerðuð til að hjálpa þeim og framkvæma það eins vel og þið gætuð í kærleika Guðs til þeirra.

Það er vegna þessara mikilvægu og erfiðu prestdæmiskallana að Smith forseti hefur stungið upp á því að þegar þið biðjið þá eigið þið alltaf að biðja hann um að blessa ykkur með anda hans. Þið munið þarfnast heilags anda, ekki einu sinni heldur eins oft og Guð er tilbúinn að veita ykkur hann sem stöðugan förunaut. Þess vegna verðum við alltaf að biðja þess að Guð muni leiða okkur í þjónustu við börn hans.

Óvinur allrar hamingu mun beina spjótum sínum að ykkur, því þið getið ekki notað prestdæmið án þess að eiga samfélag við andann. Ef hann getur freistað ykkar til þess að syndga, þá megnar hann að draga úr krafti ykkar til að hljóta leiðsögn andans og þannig lágmarkar hann prestdæmiskraft ykkar. Þess vegna sagði Smith forseti að þið ættuð alltaf að biðja þess að Guð myndi vara ykkur við og vernda ykkur frá illu.6

Hann varar okkur við á margan hátt. Viðvaranir eru hluti af áætluninni. Spámenn, postular, stikuforsetar, biskupar og trúboðar láta viðvörunarrödd hljóma til að forða hörmungum, í gegnum trú á Jesú Krist, iðrun og að gera og halda heilaga sáttmála

Sem prestdæmishafar þá eruð þið hluti af viðvörunarrödd Drottins. Þið verðið samt að hlýða viðvöruninni sjálf. Þið munið ekki komast lífs af andlega sjálfir nema að þið hafið vernd frá samfélagi heilags anda í daglegu lífi.

Þið verðið að biðja fyrir henni og leggja á ykkur vinnu til að hafa hana. Þið getið aðeins fundið leiðina meðfram hinum krappa og þrönga vegi, í gegnum hið illa myrkur ef þið hafið þá leiðsögn. Heilagur andi verður fylgdarmaður ykkar er hann opinberar ykkur sannleikann þegar þið lærið orð spámannana.

Það tekur meira en tilfallandi hlustun og lestur að fá þessa leiðsögn. Þið þurfið að biðja og starfa í trú til að setja orð sannleikans í hjörtu ykkar. Þið verðið að biðja þess að Guð muni blessa ykkur með anda hans, að hann muni leiða ykkur í allan sannleikann og vísa ykkur rétta leið. Þannig varar hann ykkur við og leiðir ykkur inn á réttan veg lífs ykkar og prestdæmisþjónustu.

Aðalráðstefna veitir frábært tækifæri til að leyfa Drottni að styrkja kraft ykkar til þjónustu í prestdæmi Guðs. Þið getið undirbúið ykkur, líkt og ég er viss um að þið hafið gert fyrir þessa ráðstefnu. Þið getið sameinað trú ykkar trú þeirra sem flytja bænir á ráðstefnunni. Þeir munur biðja um ótal blessanir fyrir marga einstaklinga.

Þeir munu biðja fyrir því að andinn komi yfir spámanninn, sem talsmann Drottins. Þeir munu biðja fyrir postulunum og öllum þjónum sem hafa verið kallaðir af Guði. Það á við ykkur frá nýjustu djáknunum til hinna margreyndu hápresta og sumra bæði gamalla eða ungra sem gætu verið á leið í andaheiminn fljótlega, þar sem þeir munu heyra:„Gott, þú góði og trúi þjónn.“7

Sú blessun mun fara til sumra sem verða undrandi á henni. Þeir munu kannski aldrei hafa verið með háa köllun í ríki Guðs á jörðinni. Sumum mun jafnvel hafa fundist þeir ekki hafa séð mikinn afrakstur af verkum sínum eða að þeir hafi ekki fengið viss tækifæri til að þjóna. Öðrum mun kannski finnast að tími þeirra í þjónustu hafi verið styttur meira en þeir hefðu vonast eftir.

Það verða ekki embættin sem starfað hefur verið í eða tímalengdin sem þjónað var, sem vegur þyngst hjá Drottni. Við þekkjum þetta frá dæmisögu Drottins um verkamennina í víngarðinum þar sem launin voru þau sömu sama hve lengi þeir höfðu þjónað eða hvar. Þeim verður launað eftir því hvernig þeir þjónuðu.8

Ég þekkti mann hvers jarðnesk þjónusta í víngarðinum lauk í gærkvöldi klukkan ellefu. Hann hafði verið í krabbameinsmeðferð í mörg ár. Á þessum meðferðarárum mikils sársauka og erfiðleika, þá tók hann við köllun um að halda fundi með og vera ábyrgur fyrir þeim þegnum deildarinnar þar sem börnin voru farin að heiman og sumir höfðu misst maka sína. Köllun hans var að aðstoða þau við að finna huggun í mannlegum samskiptum og í að læra um fagnaðarerindið.

Þegar hann heyrði hina alvarlegu niðurstöður um að hann ætti einungis stutt eftir ólifað þá var biskupinn hans í burtu í viðskiptaferð. Tveimur dögum síðar sendi hann biskupi sínum skilaboð í gegnum hópleiðtoga háprestanna. Hann sagði þetta varðandi verkefni hans: „Ég skil að biskupinn er í buru svo ég er starfandi Ég er að hugsa um að hafa fund í hópnum okkar næsta mánudag. Tveir kirkjuþegnar geta farið með okkur í kynningarferð um Ráðstefnuhöllina. Við gætum þegið nokkra kirkjuþegna til að keyra og nokkra skáta til að ýta hjólastólum. Eftir því hverjir skrá sig í ferðina þá gæti verið að við höfum nægilega marga eldriborgara til að gera þetta sjálf en það væri gott að vita að við hefðum aðstoð ef við þurfum á því að halda. Það gæti líka verið gott fjölskyldukvöld fyrir aðstoðarmennina að koma með fjölskyldur sínar með sér. Láttu mig alla vega vita áður en ég set upp auglýsinguna. Takk.“

Hann kom síðan biskupnum á óvart með símtali. Án þess að minnast á eigið ástand eða hugrekki í eigin verkefni, þá spurði hann biskupinn: „Biskup, er eitthvað sem ég get gert fyrir þig?“ Einungis heilagur andi hefði getað leyft honum að finna álagið á biskupinum þegar hans eigið álag var þetta íþyngjandi. Einungis andinn gæti hafa gert honum það mögulegt að skipuleggja dagskrá til að þjóna bræðrum sínum og systrum á eins nákvæman hátt og hann skipulagði skátaferðir þegar hann var ungur.

Með trúarbæn þá getur Guð veitt okkur kraft í prestdæminu fyrir hverjar þær aðstæður sem við finnum okkur í. Það krefst einfaldlega þess að við biðjum einlæglega um að andinn sýni okkur hvað Guð myndi vilja að við segðum og gerðum, gerum það síðan og höldum áfram að lifa verðug þeirrar gjafar áfram.

Ég ber ykkur mitt vitni um að Guð faðirinn lifir, elskar okkur og bænheyrir okkur. Ég ber vitni um að Jesús er hinn lifandi Kristur og að friðþægingarfórn hans gerir okkur það mögulegt að hreinsast og því verða verðug samfélags heilags anda. Ég ber ykkur vitni um að með trú okkar og dugnaði þá kemur sá dagur að við getum heyrt orðin sem veita okkur gleði. „Gott, þú góði og trúi þjónn“9 Ég bið þess að við munum fá þessa dásamlegu blessun frá þeim meistara sem við þjónum. Í nafni Jesú Krists, amen.