2010–2019
Þeir bældu þess vegna ótta sinn
Apríl 2015


Þeir bældu þess vegna ótta sinn

Ólíkt hinum jarðneska ótta, sem veldur skelfingu og kvíða, þá er guðsótti uppspretta friðar, fullvissu og sjálfsöryggis.

Ég man glögglega eftir atviki sem ég upplifði sem lítill drengur. Dag einn, er ég lék við vini mína, braut ég óvart rúðu í verslun nærri heimili mínu. Þegar glerbrotin dreifðust og viðvörunarbjallan glumdi, varð ég lamaður af ótta. Þeirri hugsun skaut um leið niður að ég yrði dæmdur til ævilangrar fangelsisvistar. Foreldrar mínir þurftu að beita mig fortölum til að fá mig undan rúminu, þar sem ég hafði falið mig, og hjálpuðu mér að ræða við búðareigandann til að bæta fyrir tjónið. Til allrar lukku, þá var fangavist mín milduð.

Óttinn sem ég upplifði þarna var mikill og raunverulegur. Þið hafið án efa upplifað sterkari óttatilfinningar eftir fréttir um að þið hefðuð greinst með alvarlegan sjúkdóm, að ástvinur sé í hættu eða vanda eða þegar fylgst er með hræðilegum heimsviðburðum gerast. Í slíkum tilvikum vaknar ótti og kvíði yfir aðsteðjandi ógn, óöryggi eða sársauka, vegna óvæntrar upplifunar, sem stundum gerist skyndilega, og líklegt er að hafi neiðkvæðar afleiðingar.

Á okkar tíma geta stöðugar fréttir um glæpsamlegt ofbeldi, hernað, spillingu, hryðjuverk, hnignandi lífsgildi, farsóttir og eyðandi náttúruöfl, leitt til ótta og kvíða. Við erum vissulega uppi á tíma sem Drottinn hefur sagt fyrir um: „Og á þeim degi … [verður] öll jörðin … í uppnámi og hjörtu mannanna bregðast þeim“ (K&S 45:26).

Ég ætla að greina frá því hvernig eyða má óttanum með réttri þekkingu á Jesú Kristi og trú á hann. Ég bið þess af einlægni að heilagur andi blessi hvert okkar er við hugleiðum þetta mikilvæga efni.

Jarðneskur ótti

Þegar Adam og Eva heyrðu rödd Guðs, eftir að hafa neytt af hinum forboðna ávexti, földu þau sig í aldingarðinum. Guð kallaði á Adam og spurði: „Hvar ertu? [Adam] svaraði: ‚Ég heyrði til þín … og varð hræddur“ (1 Mós 3:9–10). Athyglisvert er að fyrstu áhrif fallsins voru að Adam og Eva upplifðu ótta. Sú sterka tilfinning er mikilvægur þáttur í okkar jarðnesku tilveru.

Dæmi í Mormónsbók sýnir að þekking á Drottni veitir kraft (sjá 2 Pét 1:2–8; Alma 23:5–6) til að eyða ótta og veita okkur frið, jafnvel í miklu andstreymi.

Fólk Alma í Helamlandi varð slegið ótta yfir vaxandi hernaðarstyrk Lamanítanna.

„Alma gekk fram og stóð meðal þeirra, taldi í þá kjark og sagði þeim að muna Drottin Guð sinn, og að hann mundi bjarga þeim.

Þeir bældu þess vegna ótta sinn“ (Mósía 23:27–28).

Gætið að því að það var ekki Alma sem bældi ótta fólksins. Alma hvatti hina trúuðu til að minnast Drottins og þess að hann einn gæti bjargað því (sjá 2 Ne 2:8). Vitneskjan um verndandi mátt frelsarans varð til þess að óttann lægði í hjörtum fólksins.

Rétt þekking á Jesú Kristi og trú á hann gerir okkur kleift að lægja ótta okkar, því aðeins Jesús Kristur getur veitt varanlegan frið. Hann sagði: „Lær af mér og hlusta á orð mín. Gakk í hógværð anda míns og þú munt eiga frið í mér“ (K&S 19:23).

Meistarinn sagði líka: „Sá, sem vinnur réttlætisverk, hlýtur sín laun, já, frið í þessum heimi og eilíft líf í komanda heimi“ (K&S 59:23).

Trú og traust á Krist og fúsleiki til að reiða sig á verðleika, miskunn og náð hans, vekur von fyrir friðþægingu hans um upprisu og eilíft líf (sjá Moró 7:41). Slík trú og von veitir okkur hinn ljúfa samviskufrið sem okkur öllum er svo eftirsóknarverður. Kraftur friðþægingarinnar gerir iðrun mögulega og bindur enda á örvæntinguna sem syndin veldur. Hann gerir okkur líka kleift að sjá og framkvæma og verða betri en við gætum skilið eða áorkað í okkar takmarkaða jarðneska ástandi. Ein mesta blessun hins trúfasta lærisveins er vissulega „friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi” (Fil 4:7).

Friðurinn sem Kristur veitir okkur gerir okkur kleift að sjá jarðlífið með hinu dýrmæta auga eilífðar og tileinka okkur andlegan stöðugleika (sjá Kól 1:23), sem hjálpar okkur að beina stöðugt sjónum okkar að okkar himneska ákvörðunarstað. Þannig getum við verið blessuð með því að ótti okkar verður sefaður, því kenning hans sér okkur fyrir tilgangi og handleiðslu á öllum sviðum lífsins. Helgiathafnir og sáttmálar hans styrkja og hugga bæði á slæmum og góðum tímum. Prestdæmisvald hans veitir okkur fullvissu um að það sem mestu skiptir fær staðist bæði tíma og um eilífð.

Getum við sefað þann ótta sem kemur svo oft og auðveldlega yfir okkur í heimi samtímans? Svarið við þeirri spurningu er ótvítætt: Já. Þrjár megin reglur eru nauðsynlegar til að hljóta slíka blessun í lífi okkar: (1) Lítum til Krists, (2) byggjum á Kristi sem undirstöðu og (3) sækjum áfram í trú á Krist.

Lítum til Krists

Sú leiðsögn sem Alma veitti syni sínum, Helaman, er einmitt beint til okkar í dag: „Gættu þess að beina sjónum þínum til Guðs og lifa” (Alma 37:47). Við ættum að beina sjónum okkar staðfastlega að frelsaranum, alltaf og allstaðar.

Leiðið hugann að veltandi bátnum úti á vatninu með postula Drottins innanborðs. Jesús kom gangandi á vatninu í átt að þeim, en þeir þekku hann ekki og hrópuðu óttaslegnir.

„Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.

Pétur svaraði honum: ‚Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.‘

„Jesús svaraði: ‚Kom þú!‘“ (Matt 14:27–29).

Pétur gekk síðan á vatninu til Jesú.

En sem hann sá rokið, varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: Herra, bjarga þú mér!

Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: ‚Þú trúlitli, hví efaðist þú?‘“ (Matt 14:30–31).

Ég sé Pétur fyrir mér bregðast skjótt og ákaflega við boði frelsarans. Hann horfir beint á Jesú, stígur út úr bátnum og fyrir kraftaverk gengur hann á vatninu. Það var svo ekki fyrr en hann lét truflast af rokinu og öldunum sem hann varð óttasleginn og tók að sökkva.

Við getum verið blessuð með því að sigrast á ótta okkar og efla trú okkar, ef við fylgjum þessu boði Drottins: „Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki“ (K&S 6:36).

Byggjum á Kristi sem undirstöðu

Helaman aðvaraði syni sína, Nefí og Lehí: „Munið og hafið hugfast, að það er á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs, sem þið verðið að byggja undirstöðu ykkar. Að þegar djöfullinn sendir sína voldugu storma, já, spjót sín í hvirfilvindinum, já, þegar allt hans hagl og voldugur stormur bylur á ykkur, mun það ekkert vald hafa til að draga ykkur niður í djúp vansældar og óendanlegs volæðis, vegna þess að það bjarg, sem þið byggið á, er öruggur grundvöllur, og ef menn byggja á þeim grundvelli, geta þeir ekki fallið“ (Helaman 5:12).

Helgiathafnir og sáttmálar eru þeir hleðslusteinar sem við notum til að byggja líf okkar á undirstöðu Krists sem og friðþægingu hans. Við erum tryggilega tengd við frelsarann þegar við tökum verðug á móti helgiathöfnum og gerum sáttmála, minnumst þeirra af trúmennsku og heiðrum þessar helgu skuldbindingar og gerum okkar besta til að lifa í samræmi við þær skyldur sem við höfum tekið á okkur. Sú tenging er uppspretta andleg styrks og stöðugleika á öllum tímum lífs okkar.

Við getum verið blessuð með því að sefa ótta okkar ef þrár okkar og verk eru tryggilega byggð á hinni öruggu undirstöðu frelsarans, fyrir helgiathafnir og sáttmála okkar.

Sækjum fram í trú á Krist

Nefí sagði: „Þess vegna verðið þér að sækja fram, staðfastir í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna. Ef þér þess vegna sækið fram, endurnærðir af orði Krists og standið stöðugir allt til enda, sjá, þannig fórust föðurnum orð: Þér munuð öðlast eilíft líf“ (2 Ne 31:20).

Sjálfsaginn og þolgæðið sem felst í þessu versi eru ávextir andlegs skilnings og hugsjónar, þolgæðis, þolinmæðar og náðar Guðs. Trúariðkun á hið heilaga nafn Jesú Krists, bljúg undirgefni að vilja hans og tímasetningu og auðmjúk viðurkenning á hönd hans í öllu, veitir hina friðsælu þætti ríkis Guðs, sem færir gleði og eilíft líf (sjá K&S 42:61). Þegar erfiðleikar koma upp og framtíðaróvissa skapast, getum við haldið glöð og ótrauð áfram og „lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði“ (1 Tím 2:2).

Við getum verið blessuð með því að sefa ótta okkar, með þeim kjarki sem hlýst af því að lifa eftir reglum fagnaðarerindisins og sækja örugglega fram á sáttmálsveginum.

Að óttast Drottin

Sá ótti sem er ólíkur þeim ótta sem við oftast upplifum, en þó skyldur honum, er í ritningunum lýst sem „guðsótta“ (sjá Hebr 12:28) eða „að óttast Drottin“ (Job 28:28; Okv 16:6; Jes 11:2–3). Ólíkt hinum jarðneska ótta, sem veldur skelfingu og kvíða, þá er guðsótti uppspretta friðar, fullvissu og sjálfsöryggis.

Hvernig getur eitthvað sem tengist ótta verið uppbyggjandi eða andlega gagnlegt?

Sá réttláti ótti sem ég reyni að lýsa, hefur að geyma djúpa aðdáun á, lotningu og virðingu fyrir Drottni Jesú Kristi (sjá Sálm 33:8; 96:4), hlýðni við boðorð hans (sjá 5 Mós 5:29; 8:6; 10:12; 13:4; Sálm 112:1) og eftirvæntingu eftir lokadóminum og réttlæti frá honum. Guðsótti hlýst því af réttum skilningi á guðlegu eðli og hlutverki Drottins Jesú Krists, fúsleika til að beygja okkur undir vilja hans og vitneskju um að allir karlar og konur beri ábyrgð á eigin syndum á degi dómsins (sjá K&S 101:78; TA 1:2).

Líkt og ritningarnar staðfesta, þá er guðsótti „upphaf þekkingar“ (Okv 1:7), „ögun til visku,“ (Okv 15:33), „öruggt traust“ (Okv 14:26) og „lífslind“ (Okv 14:27).

Gætið að því að guðsótti er óhjákvæmilega tengdur skilningi á lokadóminum og einstaklingsbundinni ábyrgð okkar á þrám, hugsunum og verkum okkar (sjá Mósía 4:30). Að óttast Drottin er ekki að kvíða því að koma fram fyrir hann til dóms. Ég trúi að við verðum alls ekki hrædd við hann. Við getum fremur sagt að þetta snúist um tilhugsunin um að vera í návist hans og að sjá sjálfan sig í réttu ljósi og að „hafa fullkomna vitneskju“ (2 Ne 9:14; sjá Alma 11:43) um alla okkar sjálfsréttlætingu, uppgerð og sjálfsblekkingu. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá verðum við án afsökunar.

Allir sem lifað hafa eða munu lifa á jörðu „[skulu leiddir] fram fyrir dómgrindur Guðs, og verða af honum [dæmdir] eftir verkum sínum, hvort heldur þau eru góð eða þau eru ill“ (Mósía 16:10). Hafi þrár okkar verið réttlátar og verk okkar góð, mun dómgrindin verða okkur ánægjuleg (sjá Jakob 6:13; Enos 1:27; Moró 10:34). Á efsta degi munum við „hljóta réttlæti að launum“ (Alma 41:6).

Ef þrár okkar hafa hins vegar verið illar og verk okkar ranglát, þá mun dómgrindin vekja okkur ótta. „Vér [munum] ekki dirfast að líta upp til Guðs vors og yrðum því fegnust, ef vér gætum skipað hömrum og fjöllum að falla yfir oss og hylja oss fyrir návist hans“ (Alma 12:14). Á efsta degi munum við þá „hljóta laun [okkar] í illu“ (Alma 41:5).

Líkt og frekar er útskýrt í Prédikaranum:

„Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.

Því að Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm, sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt“ (Préd 12:13–14).

Kæru bræður og systur, guðlegur ótti eyðir jarðneskum ótta. Hann dregur jafnvel úr þeirri áleitu tilfinningu að við getum aldrei verið nægilega góð andlega og aldrei geta staðið fyllilega undir kröfum og væntingum Drottins. Rétt er að við náum því ekki að verða nægilega góð með því að reiða okkur eingöngu á eigin getu og frammistöðu. Við hvorki getum, né munum frelsast einungis fyrir eigin verk og þrár. Aðeins „að afloknu öllu, sem vér getum gjört“ (2 Ne 25:23) verðum við gjörð heil, fyrir þá miskunn og náð sem fengin er með hinni óendanlegu og eilífu friðþægingu frelsarans (sjá Alma 34:10, 14). Vissulega er það svo að „vér trúum, að fyrir friðþægingu Krists geti allir menn orðið hólpnir með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins“ (TA 1:3).

Guðlegur ótti er að elska og reiða sig á hann. Því dýpri sem guðsótti okkar er, því einlægari verður elska okkar til hans. „Því að fullkomin elska rekur allan ótta á braut“ (Moró 8:16). Ég heiti ykkur því að bjart ljós guðsóttans mun lýsa upp dimma skugga hins jarðneska ótta (sjá K&S 50:25), er við lítum til frelsarans, byggjum á honum sem undirstöðu okkar og sækjum áfram á sáttmálsvegi hans af staðfastri ákveðni.

Vitnisburður og fyrirheit

Ég elska og vegsama Drottin. Máttur og friður hans eru raunverulegir. Hann er frelsari okkar og ég ber vitni um að hann lifir. Sökum hans, þá þarf hjarta okkar ekki að skelfast eða hræðast (sjá Jóh 14:27) og við verðum blessuð með því að ótti okkar verði sefaður. Um það vitna ég í heilögu nafni Drottins Jesú Krists, amen.