2010-2019
Af hverju hjónabandið og fjölskyldan eru mikilvæg –allsstaðar í heiminum
fyrri næsta

Af hverju hjónabandið og fjölskyldan eru mikilvæg –allsstaðar í heiminum

Fjölskyldan er þungamiðja lífsins og lykill að eilífri hamingju.

Síðastliðinn nóvember naut ég þeirra forréttinda að vera boðið – ásamt Henry B. Eyring forseta og Gérald Caussé biskupi – að sækja ráðstefnu um hjónabandið og fjölskylduna í Vatíkaninu í Róm á Ítalíu. Ráðstefnuna sóttu fulltrúar fimmtán ólíkra trúarbragða, frá sex af sjö heimsálfum, sem öllum hafði verið boðið að tjá skoðanir sínar á því sem er að eiga sér stað með fjölskylduna í heimi okkar tíma.

Francis páfi hóf fyrsta hluta ráðstefnunnar á þessari yfirlýsingu: „Við lifum nú í tímabundinni menningu, þar sem stöðugt fleiri eru einfaldlega að gefa hjónabandið upp á bátinn sem almenna skuldbindingu. Þessi umbylting mannasiða og siðferðis hefur oft flaggað fána frelsis, en hefur í raun kallað andlega og efnislega hörmungar yfir ótal manneskjur, einkum þá fátækustu og berskjölduðustu. … Það eru ætíð þeir sem þjást mest í slíkum þrengingum.“1

Hann vísað til upprennandi kynslóðar og sagði mikilvægt að hún „gæfi sig ekki að mannskemmandi [hugarfari] hins tímabundna, heldur fremur að slást í hóp hinna hugrökku byltingasinna sem leita sannrar og varanlegrar elsku, og fara gegn hinni almennu fyrirmynd“; þetta verður að gerast.2

Í kjölfar þess komu svo þriggja daga umræður og ræðuhöld trúarleiðtoga um hjónaband á milli karls og konu. Þegar ég hlustaði á þennan breiða og mikla hóp trúarleiðtoga, fann ég að þeir voru algjörlega sammála og létu í ljós sameiginlegan stuðning við skoðanir hvers annars um helgi hjónabandsins og mikilvægi fjölskyldna sem grunneiningu samfélagsins. Ég skynjaði mikla samkennd og einingu með þeim.

Margir þeirra fundu og tjáðu sig um þessa samkennd og það gerðu þeir á ýmsa vegu. Eitt minnisstæðasta atvikið var þegar múslimskur fræðimaður frá Íran vitnaði orðrétt í tvær málsgreinar í yfirlýsingu okkar um fjölskylduna.

Á ráðstefnunni tók ég eftir að þegar fulltrúar hinna ýmsu trúarbragða og trúarsafnaða voru sammála um hjónabandið og fjölskylduna, þá voru þeir líka sammála um gildin, hollustuna og skuldbindinguna sem eðlilega fylgir fjölskyldunni. Mér fannst undravert að sjá hvernig mikilvægar áherslur hjónabandsins og fjölskyldunnar náðu til allra og yfirskyggðu allan stjórnmálalegan, hagfræðilegan og trúarlegan ágreining. Hvað snýr að elsku til maka og vonum og áhyggjum og draumum, þá erum við öll eins.

Það var dásamlegt að vera á fundum með ræðumönnum víða að úr heiminum og hlýða á þá tjá tilfinningar sínar um mikilvægi hjónabands á milli karls og konu. Í kjölfar hverrar ræðu gáfu aðrir trúarleiðtogar vitnisburð sinn. Henry B. Eyring forseti gaf lokavitnisburð á ráðstefnunni. Hann gaf máttugan vitnisburð um fegurð trúfasts hjónabands og trú okkar á hinu eilífa fyrirheiti um blessun eilífra fjölskyldna.

Vitnisburður Eyrings forseta var góður endir á þessum þremur dásamlegu dögum.

Þið gætuð nú spurt: „Þar sem meirihlutinn var sammála um gildi og mikilvægi fjölskyldunnar og öll þessi trúarbrögð voru sammála um tilgang hjónabandsins og gildi heimilisins og sambands fjölskyldunnar, að hvaða leyti erum við þá öðruvísi? Hvernig skilgreinir Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu sig öðruvísi en allir aðrir í heiminum?

Hér er svarið: Þótt dásamlegt hafi verið að finna og skynja hve margt við áttum sameiginlegt með öllum öðrum í heiminum, hvað varðar fjölskyldur okkar, þá höfum einungis við eilífa sýn á hið endurreista fagnaðarerindi.

Það sem hið endurreista fagnaðarerindi færir í umræðuna um hjónabandið og fjölskylduna, er svo yfirgripsmikið og mikilvægt að það verður ekki ofsögum sagt: Við gæðum efnið eilífðinni! Við setjum skuldbindingu og helgi hjónabandsins á æðri stall, sökum trúar okkar og skilnings á því að fjölskyldur ná lengra aftur en tilurð þessarar jarðar og að þær geta haldið áfram um eilífð.

Þessi sannleikur er kenndur á einfaldan, kröftugan og fallegan hátt í texta Ruth Gardner í Barnafélagssöngnum „Fjölskyldur geta átt eilífð saman.“ Hugsið andartak um börn í Barnafélaginu, hvarvetna um heim, syngjandi þennan texta á eigin tungumáli, af öllum kröftum og eldmóð, sem aðeins fjölskylduástin megnar að vekja:

Fjölskyldur geta víst verið saman,

vaxinn, og líka smár.

Með fjölskyldunni minni vil ég vera, já, vera eilíf ár.

Það sýnt mér hefur Drottinn hár.3

Öll hugmyndafræði okkar endurreista fagnaðarerindis snýst um fjölskyldur og hinn nýja og ævarandi hjónabandssáttmála. Í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu trúum við á fortilveru, þar sem við lifðum öll sem andabörn Guðs, okkar himneska föður, í bókstaflegri merkingu. Við trúum að við vorum og erum enn meðlimir í fjölskyldu hans.

Við trúum að hjónabandið og fjölskyldan geti varað handan grafarinnar – að hjónaband sem vígt er af þeim sem til þess hefur réttmætt vald í musterum hans, verði áfram gilt í komandi heimi. Í hjónabandsvígslum okkar er ekki að finna orðin „uns dauðinn aðskilur,“ heldur er þar staðhæft: „Um tíma og alla eilífð.“

Við trúum ekki aðeins að sterkar hefðbundnar fjölskyldur séu grunneining samfélagsins, stöðugs efnahags og menningargilda – heldur líka grunneining eilífðar og ríkis og valdstjórnar Guðs.

Við trúum að skipulag valdstjórnar himins sé ofið í kringum kjarnafjölskyldur og stórfjölskyldur.

Það er sökum þeirrar trúar okkar að hjónabandið og fjölskyldan séu eilíf, að við, sem kirkja, viljum vera leiðandi afl og þátttakandi í heimssamtökum um að efla þau. Við vitum að það eru ekki aðeins þeir sem eru virkir í trúnni sem deila sömu gildum og áherslum varanlegs hjónabands og sterkra fjölskyldusambanda. Fjöldi þeirra sem eru óháðir trúfélögum, hafa þá skoðun að trúfast hjónaband og fjölskyldulífsmáti séu skynsamlegasti, hagkvæmasti og hamingjuríkasti lífshátturinn.

Enginn hefur áður sýnt fram á áhrifaríkari leið til að ala upp komandi kynslóð, heldur en með heimilishaldi giftra foreldra sem eignast börn.

Af hverju eru hjónabandið og fjölskyldan mikilvæg – allsstaðar? Almennar skoðanakannanir sýna að hjónabandið er ennþá besta fyrirmyndin og vonin meðal meirihluta fólks á öllum aldri – jafnvel á meðal aldamóta-kynslóðarinnar, þar sem við heyrum svo mikið rætt um valið einlífi, persónulegt frjálsræði og sambúð í stað hjónabands. Staðreyndin er sú að mikill meirihluti heimsins vill enn eignast börn og skapa sterkar fjölskyldur.

Þegar við höfum loks stofnað til hjónabands og eignast börn, mun samleið okkar með öllu mannkyni sýna sig enn betur. Hvar sem við búum eða hverjar sem trúarskoðanir okkar eru, þá stöndum við – sem „fjölskyldufólk“ – að miklu leyti i sama baslinu, gerum sömu aðlaganir og höfum sömu vonir, áhyggjur og drauma fyrir börn okkar.

Greinarhöfundurinn David Brooks sagði skrifaði í New York Times: „Fólk er ekki betur sett þegar það býr við mesta hugsanlega frelsi til að breyta að eigin vild. Það er betur sett þegar það helgar sig skuldbindingum sem eru mikilvægari en breytni að eigin vild – skuldbindingum sem tengjast fjölskyldu sinni, Guði, iðjusemi og eigin þjóð.“4

Vandinn er sá að flestir frétta- og afþreyingarmiðlar heimsins endurspegla ekki forgangsatriði og gildi meirihlutans. Hver sem ástæðan er, þá er óhóflega mikið af sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, tónlist og efni á Alnetinu lýsandi dæmi um það sem kemur frá minnihluta en sett er fram undir yfirskini meirihluta. Ósiðsemin og siðleysið, sem spannar allt frá myndrænu ofbeldi til afþreyingarkynlífs, eru sett fram sem almennur viðmiðunarstaðall og fær þá sem fylgja hinum hefðbundnu gildum til að finnast þeir vera úreltir eða tilheyra liðinni tíð. Í heimi slíkra ráðandi miðla og alnets hefur aldrei verið erfiðara að ala upp ábyrg börn og viðhalda einingu hjónabands og fjölskyldu.

Þrátt fyrir það ögrandi efni sem flestir frétta- og afþreyingarmiðlar láta frá sér fara, og hnignandi afstöðu sumra til hjónabands og fjölskyldu, þá er það samt svo að meirihluti mannkyns hefur þá skoðun að hjónabandið ætti áfram að vera á milli eins karls og einnar konu. Hann hefur trú á tryggð í hjónabandi, sem og á hjónabandsheitunum: „Í velsæld og vesöld“ og „uns dauðinn aðskilur.“

Endrum og eins þarf að minna okkur á, líkt og ég var áminntur í Róm, hina dásamlegu og hughreystandi staðreynd að hjónabandið og fjölskyldan eru ennþá val og fyrirmynd flestra og að við erum ekki ein um þá afstöðu. Aldrei áður hefur áskorunin verið meiri að koma á jafnvægi á milli atvinnu, fjölskyldulífs og persónulegra þarfa en einmitt á okkar tíma. Við, sem kirkja, viljum liðsinna í öllu sem við getum til að skapa og styðja öflugri hjónabönd og fjölskyldur.

Það er ástæða þess að kirkjan vísar veginn og tekur virkan þátt í sameiginlegu starfi og alkirkjulegu átaki til að efla fjölskylduna. Það er ástæða þess að við miðlum fjölskyldugildum okkar í frétta- og félagsmiðlum. Það er ástæða þess að við miðlum öllum þjóðum ættfræði- og ættarsöguskýrslum okkar.

Við viljum að rödd okkar heyrist, sem andsvar við öllum fölsunum og óhefðbundnum lífsmátum, þar sem reynt er að breyta skipulagi fjölskyldunnar, sem Guðs sjálfur kom á. Við viljum líka að rödd okkar heyrist í stuðningi við þá gleði og ánægju sem felst í hinni hefðbundnu fjölskyldu. Við verðum að halda áfram að láta þessa rödd hljóma um heiminn, þar sem við skýrum frá ástæðum þess að hjónabandið og fjölskyldan séu mikilvæg, afhverju þau skipta í raun máli og munu ávallt gera það.

Bræður mínir og systur, hið endurreista fagnaðarerindi snýst um hjónabandið og fjölskylduna. Hjónabandið og fjölskyldan eru líka nokkuð sem flestir aðrir trúarsöfnuðir leggja áherslu á. Við getum fundið mestan samhljóm með öðrum í heiminum hvað varðar hjónabandið og fjölskylduna. Stærsta tækifæri Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu til að vera ljós á hæð, liggur í því að leggja áherslu á hjónabandið og fjölskylduna.

Ég lýk máli mínu á því að bera vitnisburð minn um að því eldri sem ég verð, því ljósari verður manni að fjölskyldan er þungamiðja lífsins og lykill að eilífri hamingju, (og mínir níu áratugir á þessari jörðu gera mig hæfan til að segja þetta).

Ég færi þakkir fyrir eiginkonu mína, fyrir börnin mín, barnabörnin mín og barnabarnabörnin mín, og alla frændur og frænkur og tengdafólk og stórfjölskyldu, sem hafa svo auðgað líf mitt, já, eilíflega. Um þennan eilífa sannleika ber ég minn máttugasta og helgasta vitnisburð í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Francis páfi, ræða haldin í Humanum: An International Interreligious Colloquium on the Complementarity of Man and Woman, 17. nóv 2014, humanum.it/en/videos; sjá einnig zenit.org/en/articles/pope-francis-address-at-opening-of-colloquium-on-complementarity-of-man-and-woman.

  2. Francis páfi, Colloquium on the Complementarity of Man and Woman.

  3. „Fjölskyldur geta átt eilífð saman,“ Barnasöngbókin, 98.

  4. David Brooks, „The Age of Possibility,“ New York Times, 16. nóv 2012, A35; nytimes.com/2012/11/16/opinion/brooks-the-age-of-possibility.html.