2010–2019
Réttvísi, kærleikur og miskunn
Apríl 2015


Réttvísi, kærleikur og miskunn

Jesús Kristur þjáðist, dó og reis upp frá dauðum, svo hann mætti lyfta okkur til eilífs lífs.

Án öryggislína, óla eða klifurbúnaðar af einhverju tagi, þá reyndu tveir bræður – Jimmy, sem var 14 ára, og John, sem var 19 ára (nöfnum breytt) – að klífa hinn þverhnípta gljúfurvegg í Snow Canyon State Park á uppeldisslóðum mínum í suðurhluta Utah. Þegar efsta brúnin blasti við, eftir erfitt klifið, uppgötvuðu þeir að útskagandi sylla hindraði að þeir kæmust hina stuttu vegalengd sem eftir var. Þeir hvorki komust framhjá henni, né gátu nú farið til baka. Þeir voru í sjálfheldu. Af mikilli útsjónarsemi tókst John að finna næga viðspyrnu til að lyfta yngri bróður sínum upp á sylluna í öruggt skjól. Að lyfta sjálfum sér var þó ómögulegt. Vöðvarnir stífnuðu því meira sem hann kepptist við að finna sérfótfestu með fingrum og fótum. Skelfingin tók yfirhöndina og hann óttaðist um eigið líf.

John átti erfitt með að halda stöðu sinni mikið lengur og komst að þeirri niðurstöðu að hans eina úrræði væri að að stökkva beint upp og reyna að grípa í útskagandi syllubrúnina. Ef það tækist, gæti hann mögulega híft sig upp með því að beita eigin handafli.

Hann sagði sjálfur svo frá:

„Áður en ég stökk, bað ég Jimmy að líta eftir nægilega öflugri trjágrein sem nota mætti sem framlengingu, þótt mér væri vel ljóst að ekkert slíkt væri að finna á beru berginu. Það var aðeins örvæntingarfullt úrræði. Ef stökkið misheppnaðist, gæti ég hið minnsta gengið úr skugga um að litli bróðir minn sæki mig ekki falla til dauða.

Ég sá til þess að Jimmy væri nægilega lengi úr augsýn og flutti mína hinstu bæn – að ég óskaði þess að fjölskylda mín vissi að ég elskaði þau og að Jimmy kæmist sjálfur klakklaust heim – síðan tók ég stökkið. Ég hafði nægan styrk til að spyrna mér frá og grípa í sylluna, þannig að hendurnar voru ofan við brúnina næstum upp að olnbogum. Þegar ég reyndi svo að taka í eitthvað handfast, var þar ekkert nema sandur og sléttur steinn. Ég man enn eftir þeirri ógnvekjandi tilfinningu að hanga þarna án nokkurrar haldfestu – engin sprunga eða nibba, ekkert til að grípa í eða ná tökum á. Ég fann fingurna renna hægt eftir sendnu yfirborðinu. Ég vissi að þetta var mín hinsta stund.

Þá gerðist það skyndilega, líkt og elding í sumarstormi, að tvær hendur skutust út ofan við brúnina, gripu um úlnliði mína, af meira afli og ákveðni en stærð þeirra gaf til kynna. Minn litli trúfasti bróðir hafði ekki horfið frá í leit að einhverri ímyndaðri trjágrein. Hann hafði ekki farið fet, heldur vitað nákvæmlega hvað ég hugðist fyrir. Hann hafð einfaldlega beðið – grafkyrr, í ofvæni – vitandi fullvel að ég hefði næga fífldirfsku til að taka stökkið. Þegar ég gerði það, greip hann um mig, hélt mér og neitaði að láta mig falla. Þessir sterku bróðurarmar björguðu lífi mínu þennan dag, er ég hékk þarna hjálparvana, ofan við vísan dauðann.“1

Kæru bræður og systur í dag er páskasunnudagur. Þótt okkur beri ávallt að hafa hann í huga (sem við lofum að gera vikulega með sakramentisbænum okkar), þá er þetta einn helgasti dagur ársins til að minnast traustra bróðurlegra arma, sem seildust ofan í hyldýpi dauðans til að bjarga okkur frá falli, annmörkum, sorgum og syndum. Með þessa frásögn til hliðsjónar, sem skráð var af John og fjölskyldu Jimmys, þá færi ég þakkir fyrir friðþægingu og upprisu Drottins Jesú Krists og staðfesti viðburði hinnar undursamlegu áætlunar Guðs, sem gerðu að veruleika og gæddu merkingu í „þá ást sem Jesús veitti [oss].“2

Í okkar samfélagi sem verður stöðugt veraldlegra, er bæði óvinsælt og úrelt að ræða um Adam og Evu eða aldingarðinn Eden eða hið „farsæla fall“ þeirra í dauðleikann. Engu að síður þá er það einfaldlega staðreynd að við fáum hvorki fyllilega skilið eða metið friðþægingu og upprisu Krists, hinn einstæða tilgang fæðingar hans og dauða – það er því, með öðrum orðum, ekki mögulegt að halda jól eða páska hátíðleg – án þess að fá skilið þann raunveruleika að Adam og Eva féllu í garðinum Eden, með öllum þeim afleiðingum sem fallinu fylgdu.

Ég veit ekki nákvæmlega hvað gerðist á þessari plánetu fyrir þeirra tíma, en veit þó að þessi tvö voru sköpuð undir handleiðslu Guðs, að þau lifðu um stund í sínu paradísar-ásigkomulagi, þar sem hvorki var dauði eða barneignir, og að með ákveðnu vali brutu þau boðorð Guðs, sem varð til þess að þau urðu að fara úr garðinum, er gerði þeim kleift að eignast börn áður en þau upplifðu líkamlegan dauða.3 Brot þeirra hafði líka andlegar afleiðingar, sem gerði aðstæður þeirra enn sorglegri og flóknari, þar sem þau voru ævarandi aðskilinn frá Guði. Þar sem við því fæðumst inn í fallna veröld og víst er að við brjótum lögmál Guðs, þá dæmumst við líka til sömu refsingar og Adam og Eva.

Hvílíkt hlutskipti! Allt mannkynið í frjálsu falli – sérhver karl, kona og barn hrapandi niður að ævarandi líkamlegum dauða, í andlegu falli í átt að eilífri sálarkvöl. Er þetta það sem fyrir okkur á að liggja? Er þetta hin mikla og síðasta upplifun mannsins? Erum við öll í sjálfheldu í köldu gljúfri í skeytingalausum alheimi, þreifandi eftir fótgripi eða einhverri haldfestu – en finnandi aðeins lausan sand undir lófum okkar, ekkert til bjargar, ekkert til að grípa í og því síður eitthvað sem grípur um okkur. Er tilgangur lífsins þá bara innantómur og algjörlega merkingarlaus – einungis sá að stökkva eins hátt og við getum og reyna að krafsa okkur áfram þau æviár sem okkur eru úthlutuð og síðan að misheppnast og falla og halda endalaust áfram í frjálsu falli?

Svarið við þessum spurningum er ótvírætt og eilíflega: Nei! Ég vitna með spámönnum allra tíma: „Allt hefur verið gjört af visku þess, sem allt veit.“4 Því var það þannig frá fyrstu stundu, er okkar fyrstu forfeður fóru út úr garðinum Eden, að Guð, faðir okkar allra, gerði ráð fyrir ákvörðun Adams og Evu, og sendi engla himins til að kunngjöra þeim – og í gegnum aldir til okkar – að öll þessi framvinda hafi verið fyrirbúin til eilífrar hamingju okkar. Þetta var hluti af hans guðlegu áætlun að sjá okkur fyrir frelsara, sjálfum syni Guðs – öðrum „Adam,“ líkt og Páll nefndi hann,5 sem koma skyldi á miðbaugi tímans, til að friðþægja fyrir fyrsta brot Adams. Friðþægingunni var ætlað að vera fullnaðarsigur yfir líkamlegum dauða og sjá öllum þeim sem fæðst hafa eða munu fæðast í þennan heim fyrir upprisu án nokkurra skilyrða. Af miskunnsemi þá var henni líka ætlað að sjá öllum, frá Adam til loka veraldar, fyrir fyrirgefningu eigin synda, bundið skilyrðum iðrunar og hlýðni við hin guðlegu boðorð.

Ég lýsi yfir þennan páskadagsmorgun, sem einn af hans vígðu vitnum, að Jesús frá Nasaret er frelsari heimsins, „hinn síðari Adam,“6 höfundur og fullkomnari trúarinnar, Alfa og Ómega eilífs lífs. „Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða,“7 sagði Páll. Frá spámanninum og patríarkanum Lehí: „Adam féll, svo að menn mættu lifa. … Og Messías kemur í fyllingu tímans til að endurleysa mannanna börn frá fallinu.“8 Kennsla Jakobs, spámanns Mormónsbókar, er þó yfirgripsmest og er hluti af tveggja daga prédikun um friðþægingu Jesú Krists, en þar segir að „upprisan [hljóti] að koma … vegna fallsins.“9

Í dag minnumst við því gjafar sigurs yfir hverju því falli sem við höfum upplifað, hverri sorg, vonleysi og ótta – svo við minnumst nú ekki á upprisu frá dauðum og fyrirgefningu synda okkar. Sá sigur er veruleiki sökum atburða sem gerðust um helgi sem þessari, fyrir yfir tvö þúsund árum í Jesúsalem.

Fyrst þoldi hann andlegar sálarkvalir í Getsemanegarðinum og síðan krossfestinguna á Golgata og loks á hinum undurfagra sunnudagsmorgni í gröfinni, gerði þessi heilagi maður, já, sjálfur sonur Guðs, nokkuð sem enginn annar dáinn maður hafði áður gert í allri sögu mannkyns. Upp á eigin spýtur reis hann upp frá dauðum, andi hans mun aldrei aftur aðskiljast frá líkama hans. Af eigin rammleik tók hann af sér línblæjurnar, sem vafðar höfðu verið um hann og sveitadúkinn sem verið hafði um höfuð hans og setti hann „“samanvafinn á [annan] stað,“10 eins og ritningarnar orða það.

Þessi atburðaröð friðþægingar og upprisu á hinum fyrstu páskunum eru þeir atburðir sem standa fyrir afdrifaríkustu andartökin, örlátustu gjöfina, mestu kvalirnar og tignarlegustu birtingarmynd sannrar elsku sem nokkru sinni hefur verið auðsýnd í sögu þessa heims. Jesú Kristur, hinn eingetni sonur Guðs, þjáðist, dó og reis frá dauðum svo hann gæti, eins og eldingarstormur að sumri til, klófest okkur er við hröpum, haldið okkur af mætti sínum og í gegnum hlýðni okkar við boðorðin, lyft okkur til eilífs lífs.

Á þessum páskum, þá færi ég honum og föðurnum, sem gaf hann, þakkir fyrir að Jesús standi enn sigrihrósandi yfir dauðanum, þótt sárin eftir sitji á fótum hans. Á þessum páskum, þá færi ég honum og föðurnum, sem gaf hann, þakkir fyrir að Jesús veitir enn sína óendanlegu náð, þótt sárin sitji eftir á höndum hans og úlnliðum. Á þessu páskum, þá færi ég honum og föðurnum, sem gaf hann, þakkir fyrir að við fáum lofsungið frammi fyrir ljúfsárum garði, negldum krossi og dýrðlegri tómri gröf:

Hve dásamleg, dýrðleg og fullkomin,

endurlausnin okkur er.

Þar réttvísi, kærleikur og miskunn

koma saman í himneskum samhljóm!“11

Í hinu heilaga nafni hins upprisna Drottins Jesú Krists, amen.