2010–2019
Blessanir musterisins
Apríl 2015


Blessanir musterisins

Við hljótum andlega vídd og friðartilfinningu er við sækjum musterið heim.

Kæru bræður og systur, ég er afar þakklátur fyrir að vera meðal ykkar á þessum fallega páskadagsmorgni, er hugsanir okkar snúast um frelsara heimsins. Ég sendi ykkur öllum kærleikskveðjur og bið þess að himneskur faðir innblási orð mín.

Á þessari ráðstefnu eru sjö ár síðan ég var studdur sem forseti kirkjunnar. Þetta hafa verið annasöm ár, full af margs konar áskorunum, en einnig af óteljandi blessunum. Af þessum helgu blessunum hefur verið hvað ánægjulegast að fá að vígja og endurvígja musteri.

Nú í nóvember naut ég síðast þeirra forréttinda að vígja hið fallega Phoenix musteri í Arisóna. Ég naut samfylgdar Dieter F. Uchtdorf forseta, öldungs Dallin H. Oaks, öldungs Richard J. Maynes, öldungs Lynn G. Robbins og öldungs Kent F. Richards. Kvöldið fyrir vígsluna var menningarviðburður, þar sem unga fólkið, yfir 4000 manns, frá musterissvæðinu, var með fallega sýningu. Daginn eftir var musterið vígt í þremur helgum og innblásnum vígsluathöfnum.

Bygging mustera er skýr vísbending um vöxt kirkjunnar. Nú eru 144 musteri starfrækt víða um heim, 5 eru í endurnýjun og 13 fleiri í byggingu. Auk þess eru önnur 13 musteri, sem þegar hefur verið tilkynnt um, á hinum ýmsu undirbúningsstigum, áður en bygging þeirra hefst. Á þessu ári er þess vænst að tvö musteri verði endurvígð og fimm ný musteri, sem eru á áætlun og nærri fullbúin, verði vígð.

Síðustu tvö ár höfum við lagt áherslu á að klára þau musteri sem tilkynnt hafa verið og áætlanir um ný musteri hafa verið í biðstöðu. Á þessum morgni er mér það hins vegar gleðiefni að tilkynna þrjú ný musteri sem byggð verða á eftirtöldum stöðum: Abidjan, Fílabeinsströndinni, Port-au-Prince, Haíti og Bangkok, Tælandi. Það eru dásamlegar blessanir handan við hornið fyrir trúfasta meðlimi okkar á þessum svæðum og, auðvitað, hvarvetna þar sem musterin eru staðsett um heim allan.

Stöðugt er unnið að því að greina þarfir og ákveða staðsetningar fyrir fleiri musteri, því við þráum að eins margir og mögulegt er geti komist í musterið, án of mikillar fyrirhafnar og kostnaðar. Líkt og áður hefur verið gert, þá munum við láta ykkur vita þegar ákvarðanir verða teknar í þessum málum.

Þegar ég hugsa um musterið, þá minnist ég hinna mörgu blessana sem við hljótum þar. Þegar við göngum inn um dyr musterisins, yfirgefum við skarkala og ringulreið heimsins. Innan veggja þessara helgu bygginga upplifum við fegurð og reglu. Þar finnum við hvíld sálum okkar og frið frá áhyggjum lífsins.

Þegar við förum í musterið, geta andlegar víddir lokist upp fyrir okkur og við getum fundið frið sem er ofar öllum öðrum tilfinningum sem mannshjartað fær upplifað. Við munum læra sanna merkingu þessara orða frelsarans: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“1

Slíkur friður fær gagntekið öll hjörtu – þeirra sem eiga erfitt, eru sligaðir af sorg, eru ráðvilltir og sárbiðja um liðsinni.

Nýlega barst mér frásögn af fyrstu hendi, um ungan mann sem sárbað um liðsinni í musterinu. Mörgum mánuðum áður hafði hann hlotið köllun um að þjóna í trúboði í Suður-Ameríku. Vegabréfsáritun hans hafði tafist svo lengi að honum var þess í stað falið að þjóna í trúboði í Bandaríkjunum. Þótt hann hafi orðið vonsvikinn yfir að geta ekki þjónað í trúboði sinnar upprunalegu köllunar, lagði hann samt hart að sér við nýja verkefnið og var ákveðinn í að þjóna eftir bestu getu. Hann varð samt vonsvikinn yfir miður góðum samskiptum við trúboða sem honum fannst hafa meiri áhuga á að skemmta sér en að boða fagnaðarerindið.

Fáeinum mánuðum síðar varð þessi ungi maður fyrir alvarlegum heilsubresti, sem lamaði hann að hluta, svo hann var sendur heim til lækningar.

Nokkrum mánuðum síðar hafði ungi maðurinn náð sér algjörlega af lömuninni. Honum var sagt að hann gæti enn á ný þjónað sem trúboði, sem var blessun er hann hafði dag hvern beðið þess að hljóta. Einu slæmu tíðindin voru þau að hann átti að fara til sama trúboðsins og áður, þar sem honum hafði ekki fundist mikið til um hegðun og viðhorf sumra trúboðanna.

Hann hafði komið til musterisins til að leita sér hughreystingar í þeirri von að geta átt jákvæða reynslu sem trúboði. Foreldrar hans höfðu líka beðist fyrir um að heimsókn hans i musterið mætti verða til að liðsinna syni þeirra.

Þegar ungi maðurinn kom í himneska herbergið, eftir setuna, settist hann í stól og tók að biðjast fyrir til að hljóta leiðsögn himnesks föður.

Annar ungur maður, að nafni Landon, kom líka inn í himneska herbergið, aðeins á eftir hinum. Þegar hann gekk inn í herbergið, beindust augu hans strax að unga manninum sem sat í stólnum með augun lokuð, augljóslega biðjandi. Landon hlaut óyggjandi hugboð um að honum bæri að taka unga manninn tali. Hann hikaði samt við að trufla hann og hinkraði því við. Að nokkrum mínútum liðnum var ungi maðurinn enn á bæn. Landon varð ljóst að hann gæti ekki frestað hugboðinu lengur. Hann gekk að unga manninum og setti hönd sína blíðlega á öxl hans. Unga manninum brá við truflunina og opnaði augun. Landon sagði rólega: „Ég fékk hughrif um að mér bæri að ræða við þig, en veit þó ekki nákvæmlega ástæðuna.“

Þegar þeir tóku ræða saman, úthellti ungi maðurinn hjarta sínu yfir Landon, sagði honum frá aðstæðum sínum og sagðist að lokum þrá að hljóta huggun og hvatningu varðandi trúboðið sitt. Landon, sem hafði lokið árangursríku trúboði ári áður, sagði honum frá þeim áskorunum og áhyggjuefnum sem hann upplifði í trúboði sínu, hvernig hann hefði leitað hjálpar Drottins og verið blessaður í framhaldinu. Orð hans voru hughreystandi og sannfærandi og eldmóður hans smitandi er hann sagði frá trúboði sínu. Óttinn tók smám saman að hjaðna í brjósti unga mannsins og friður kom í hans stað. Hann fylltist innilegu þakklæti þegar honum varð ljóst að hann hafði verið bænheyrður.

Ungu mennirnir tveir báðust fyrir saman og síðan hugðist Landon halda sína leið, glaður yfir því að hafa farið eftir hugboðinu sem hann hafði hlotið. Þegar hann stóð upp, spurði ungi maðurinn Landon: „Hvar þjónaðir þú í trúboði?“ Hvorugur þeirra hafði fram til þessa greint frá nafni trúboða sinna. Þegar Landon greindi frá nafni síns trúboðs, spruttu tárin fram í augum unga mannsins. Landon hafði einmitt þjónað í sama trúboðinu og ungi maðurinn var á leið til.

Í bréfi sem mér barst nýlega, sagði Landon mér frá kveðjuorðum unga mannsins til sín: „Ég trúði að himneskur faðir myndi blessa mig, en það hvarflaði ekki að mér að hann myndi senda mér einhvern sem hafði þjónað í sama trúboði og ég var á leið til. Ég veit nú að allt mun fara vel.“2 Auðmjúkri bæn, hins einlæga hjarta, hafði verið svarað.

Bræður mínir og systur, í þessu lífi munum við upplifa freistingar og raunir og áskoranir. Þegar við förum í musterið, og minnumst sáttmálanna sem við gerum þar, verðum við betur í stakk búin til að sigrast á freistingum og takast á við erfiðleika okkar. Í musterinu getum við fundið frið.

Blessanir musterisins eru ómetanlegar. Ein sú blessun sem ég er þakklátur fyrir á hverjum degi er sú sem ég og mín ástkæra eiginkona, Frances, hlutum, er við krupum í hinu helga musteri og gerðum sáttmála sem bindur okkur saman um alla eilífð. Engin blessun er mér dýrmætari en friðurinn og huggunin sem ég hlýt af því að vita að ég og hún munum sameinast að nýju.

Megi himneskur faðir blessa okkur með anda musteristilbeiðslu, að við megum vera hlýðin boðorðum hans og fylgja vandlega í fótspor Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists. Ég ber vitni um að hann er frelsari okkar. Hann er sonur Guðs. Hann er sá sem kom úr gröfinni hinn fyrsta páskadagsmorgun, með gjöf ævarandi lífs fyrir öll börn Guðs. Á þessum fallega degi, er við minnumst þessa þýðingamikla atburðar, skulum við flytja bænagjörð þakklætis, fyrir þessa undursamlegu gjöf okkur til handa. Ég bið þess að svo megi verða, í hans helga nafni, amen.

Heimildir

  1. Jóh 14:27.

  2. Bréf í persónulegri eigu Thomas S Monson. Monson forseta.