2010–2019
Drottinn er mitt ljós
Apríl 2015


Drottinn er mitt ljós

Hæfni okkar til að vera staðföst og sönn og fylgja frelsaranum, þrátt fyrir hverfuleika lífsins, mun eflast til muna með réttlátum fjölskyldum og kristilegri einingu í deildum okkar og greinum.

Þessa páska leiðum við hugann að og gleðjumst yfir þeirri endurlausn sem frelsari okkar, Jesús Kristur, gerði mögulega.1

Háreystin sem endurómar hvarvetna á jörðu, vegna hins veraldlega ranglætis, vekur hjá okkur varnarleysi. Misgjörðirnar, ójafnréttið og óréttlætið sem samskiptahættir nútímans sýna, vekja ýmsar tilfinningar um að lífið sé í eðli sínu ósanngjarnt. Hversu miklar sem slíkar raunir kunna að vera, þá megum við ekki láta þær letja okkur frá því að fagna og gleðjast yfir hinni guðlegu fyrirbæn Krists í okkar þágu. Frelsarinn „sigraði dauðann“ í bókstaflegri merkingu. Af miskunn og samúð, þá tók hann á sig misgjörðir og syndir okkar og endurleysti okkur þannig og fullnægði kröfum réttvísinnar fyrir alla sem iðrast og trúa á nafn hans.2

Hin undursamlega friðþæging hans er af slíku mikilvægi að dauðlegir menn fá það vart skilið. Sú athöfn veitir frið sem er æðri öllum skilningi.3

Hvernig tökumst við þá á við hinn grimma veruleika sem hvarvetna umlykur?

Ljósmynd
Some yellow flowers on a mound of dirt.

Eiginkona mína, Mary, hefur alltaf haft unun af sólblómum. Hún gleðst alltaf yfir því þegar þau birtast á hinum ólíklegustu stöðum í vegköntunu. Það er moldugur vegur sem liggur að húsinu þar sem afi minn og amma bjuggu. Þegar við förum inn á þann veg, sagði Mary oft: „Heldurðu að við sjáum þessi dásamlegu sólblóm í dag?“ Við furðuðum okkur á að sólblómin næðu að þrífast í jarðvegi sem stöðugt var hreyft við af jarðvegs- og snjóplógstækjum og gat vart talist góður jarðvegur til vaxtar fyrir villt blóm.

Ljósmynd
Yellow flowers by some water

Eitt af því undraverða sem einkennir nýlega uppsprottið villt sólblóm, auk þess að geta vaxið í óhagstæðum jarðvegi, er að króna þess fylgir sólinni eftir á himninum. Með því að gera það, þá aflar það sér lífgefandi orku, sem brýst fram í hinum gula fallega liti þess.

Þegar við fylgjum frelsara heimsins, líkt og sólbómið fylgir sólinni, þá döfnum við og verðum dýrðleg, þrátt fyrir hinar ömurlegu aðstæður umhverfis okkur. Hann er vissulega ljós og líf okkar.

Í dæmisögunni um hveitið og hafrana, segir frelsarinn við lærisveina sína, að þeir sem syndga og gjöra rangt, munu teknir brott úr ríki hans.4 Hann sagði hins vegar um hina trúföstu: „Þá munu þau sem hlýtt hafa Guði skína sem sól í ríki föður þeirra.“5 Við, sem einstaklingar, lærisveinar Krists, getum þrifist og dafnað, ef við erum rótföst í elsku okkar til frelsarans og lifum auðmjúk eftir kenningum hans.

Hæfni okkar til að vera staðföst og sönn og fylgja frelsaranum, þrátt fyrir hverfuleika lífsins, mun eflast til muna með réttlátum fjölskyldum og kristilegri einingu í deildum okkar og greinum.6

Réttur tími heima

Hlutverk fjölskyldunnar í áætlun Guðs, er „að veita okkur hamingju, hjálpa okkur að læra réttar reglur, í kærleiksríku umhverfi, og búa okkur undir eilíft líf.“7 Rótfesta þarf hinar dásamlegu trúarhefðir í hjörtu barna okkar.

Frændi minn, Vaughn Roberts Kimball, var góður nemandi, eftirsóttur höfundur og BYU fótboltakappi. Hinn 8. desember 1941, daginn eftir innrásina í Pearl Harbor, skráði hann sig í Bandaríska sjóherinn. Meðan hann var í nýliða verkefni í Albany, New York, sendi hann stutta grein til tímaritsins Reader Digest. Tímaritið greiddi honum 200 dollara fyrir greinina sem bar yfirskriftina „Réttur tími heima“ og birti hana í maíútgáfu ársins 1944.

Í þessari grein hans í Reader Digest, þar sem hann segir frá sjálfum sér sem sjóliða, segir að hluta:

„Rétti tíminn heima:“

Kvöld eitt í Albany, New York, bað ég sjóliða að segja mér hvað klukkan væri. Hann dró upp stórt úr og svaraði: ‚Hún er 7:20.‘ Ég vissi að orðið var áliðnara. ‚Úrið þitt er hætt að ganga, er það ekki?‘ spurði ég.

‚Nei,‘ svaraði hann, ‚það er enn stillt á Utah-tíma. Ég er frá Suður-Utah. Pabbi gaf mér þetta úr þegar ég gekk í herinn. Hann sagði það hjálpa mér að hugsa heim.

Þegar úrið sýnir að klukkan er 5 að morgni, þá veit ég að pabbi er á leið að mjólka kýrnar. Þegar á hún sýnir 7:30 að kvöldi, þá veit ég að öll fjölskyldan situr við kvöldverðarborðið og pabbi er að þakka Guði fyrir hina framreiddu máltíð og biðja hann að vaka yfir mér …‚‘ sagði hann. ‚Ég get vel komist að því hvað tímanum líður þar sem ég er hverju sinni. Ég vill bara vita hvað tímanum líður í Utah.‘“8

Stuttu eftir að Vaughn sendi frá sér greinina, var hann kallaður til skyldustarfa á Kyrrahafssvæðinu. Þann 11. maí 1945, er hann þjónaði á flugmóðurskipinu Bunker Hill, sem sigldi nærri Okinawa, varð skipið fyrir árás tveggja flugvéla sjálfsmorðssveitar Japana.9 Næstum 400 manna skipsáhöfn týndi lífi, þar á meðal frændi minn, Vaughn.

Öldungur Spencer W. Kimball auðsýndi föður Vaughns sína dýpstu samúð og vísaði í verðugleika Vaughns og fullvissu Drottins um að „þeir sem deyja í [honum] skulu eigi smakka dauðann, því að hann verður þeim ljúfur.“10 Faðir Vaughns sagði hjartnæmur, að þótt Vaughn hvíldi í skauti sjávar, þá tæki Guð hann til sinna himnesku heimkynna.11

Tuttugu og átta árum síðar minntist Spencer W. Kimball forseti Vaughns á aðalráðstefnu. Hann sagði meðal annars: „Ég var vel kunnugur fjölskyldu hans. … Ég hef kropið í máttugri bæn með [þeim]. … Kennslan á heimili hans hefur lokið upp dyrum að eilífum blessunum þessarar fjölmennu fjölskyldu.“ Kimball forseti hvatti allar fjölskyldur „til þess að krjúpa … og biðja tvisvar á dag fyrir sonum sínum og dætrum.“12

Bræður og systur, ef við trúföst höfum fjölskyldubænir, ritningarnám, fjölskyldukvöld, prestdæmisblessanir og virðum hvíldardaginn, munu börnin vita hvað tímanum líður á heimilinu. Þau verða þá búin undir hin eilífu heimkynni á himnum, burt séð frá því sem þeim kann að falla í skaut í hinum hrjáða heimi. Afar mikilvægt er að börnin okkar viti að þau séu elskuð og örugg á heimilinu.

Eiginmaður og eiginkona eru jafnir félagar.13 Ábyrgð þeirra er frábrugðin, en samfallandi. Eiginkonan getur gengið með börn, sem blessar alla fjölskylduna. Eiginmaðurinn getur hlotið prestdæmið, sem blessar alla fjölskylduna. Eiginmaður og eiginkona eru þó jafnir félagar þegar fjölskyldan ráðgast saman og taka saman mikilvægar ákvarðanir. Þau ákveða hvernig fræða skal og aga börnin, hvernig peningum skuli ráðstafað, hvar þau skuli búa og annað sem viðkemur fjölskyldunni. Slíkar ákvarðanir eru teknar í sameiningu, eftir að leitað hefur verið til Drottins eftir leiðsögn. Markmiðið er eilíf fjölskylda.

Ljós Krists gróðursetur hið eilífa eðli fjölskyldunnar í hjörtu barna Guðs. Einn eftirlætis höfundur minn, sem ekki er okkar trúar, orðaði þetta svo: „Svo margt í lífinu er utanaðkomandi, [en] … fjölskyldan er af mestu gildi, öllu mikilvægara, er eilífi í eðli sínu og henni þarf að vaka yfir og hlú að og sína hollustu.“14

Kirkjan hjálpar okkur að einblína á frelsarann sem samheldin fjölskylda

Kirkjan gegnir mikilvægu hlutverki hvað varðar fjölskylduna. „Kirkjan veitir það sem til þarf til að mögulegt sé að kenna öllum börnum Guðs fagnaðarerindi Jesú Krists. Hún veitir valdsumboð prestdæmisins, til að framkvæma megi helgiathafnir sáluhjálpar og upphafningar, fyrir alla þá sem eru verðugir og fúsir til að taka á móti þeim.“15

Í heiminum eru heiftúðlegar deilur, misrétti og misgjörðir og ofur áhersla er lögð á mismunandi menningarstrauma og ójöfnuð. Í kirkjunni þá eru deildir og greinar aðgreindar svæðislega, nema í tungumálaeiningum. Við aðgreinum ekki eftir stétt eða stöðu.16 Við fögnum yfir þeirri staðreynd að einn réttlátur söfnuður geti haft að geyma marga kynþætti og menningarstrauma. Deildarfjölskyldan er mikilvæg í okkar eigin framþróun og viðleitni til að verða kristilegri.

Menning er oft aðgreinandi og leiðir stundum til ofbeldis og misréttis.17 Í Mormónsbók er afar áhrifarík lýsing á því hvernig erfðavenjur ranglátra feðra leiddu til ofbeldis, styrjaldar, illra verka, misgjörða og jafnvel tortímingar fólks og þjóðarbrota.18

Hvergi er betra að byrja ritningarlestur en í 4. Nefí, til að skilja þá menningu kirkjunnar sem okkur öllum er nauðsynleg. Í versi 2 er ritað að hluta: „Allir [höfðu] snúið til Drottins um gjörvallt landið, bæði Nefítar og Lamanítar, og engar deilur né óeining var meðal þeirra, heldur breyttu allir réttlátlega hverjir við aðra.“ Í versi 16 er ritað: „Vissulega gat ekki hamingjusamara fólk á meðal allra þeirra, sem Guð hafði skapað.“ Sú staðreynd að engar deildur voru uppi, var „vegna elsku Guðs, sem bjó í hjörtum fólksins.“19 Þetta er sú menning sem við viljum glæða.

Trú okkar og menningargildi eru kjarni þess sem við erum. Varðveita og viðhalda ætti hefðum sem tengjast fórn, þakklæti, trú og réttlæti. Fjölskyldur verða að meta og vernda hefðir sem stuðla að aukinni trú.20

Tungumálið er eitt hið mikilvægasta í hverri menningu. Á San Fransiskó-svæðinu í Kaliforníu, þar sem ég bjó, voru sjö tungumálaeiningar nýbúa. Kenningu okkar um tungumál er að finna í versi 11 í kafla 90 í Kenningu og sáttmálum: „Því að svo ber við þann dag, að sérhver maður mun heyra fyllingu fagnaðarerindisins á sinni eigin tungu og á sínu eigin máli.“

Þegar börn Guðs biðja til hans á sínu eigin tungumáli, þá er það þeirra hjartfólgna tungumál. Augljóst er að hjartfólgið tungumál er fólki afar mikilvægt.

Eldri bróðir minn, Joseph, er læknir og starfaði sem slíkur í mörg ár á San Francisco Bay svæðinu. Eldri kirkjumeðlimur frá Samóa, sem var nýr sjúklingur, kom eitt sinn inn í stofuna hans. Hann var sárþjáður og kvalinn. Hann var greindur með nýrnasteina og viðeigandi meðferð var ráðgerð. Þessi trúfasti meðlimur sagði að markmið sitt væri fyrst og fremst að komast að því hvað að væri, svo hann gæti beðist fyrir varðandi heilsuvanda sinn á samóísku til síns himneska föður.

Meðlimum er mikilvægt að skilja fagnaðarerindið á sínu hjartfólgna tungumáli, svo þeir geti beðist fyrir í samræmi við reglur fagnaðarerindisins.21

Þrátt fyrir ólík tungumál og fegurð og uppyftandi ánægju menningarhefða, þá verða „hjörtu [okkar að vera] tengd böndum einingar og elsku.22 Drottinn sagði með áherslu: „Látið sérhvern mann meta bróður sinn sem sjálfan sig. … Verið eitt, og ef þér eruð ekki eitt, eruð þér ekki mínir.“23 Þótt við virðum og metum ólíkar menningarhefðir, þá er tilgangur okkar að sameinast í menningu, gildum og hefðum fagnaðarerindis Jesú Krists, á allan hugsanlegan hátt.

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur aldrei verið öflugri

Okkur er ljóst að upp kunna að koma spurningar og efasemdir hjá sumum meðlimum, er þeir leitast við að efla eigin trú og vitnisburð. Við ættum að gæta þess að gagnrýna ekki eða dæma þá sem hafa efasemdir – hvort heldur stórar eða smáar. Þeir sem hafa efasemdir ættu svo að gera allt sem þeir geta til að efla eigin trú og vitnisburð. Besta leiðin til að fá svör og slá á efasemdir er að læra, ígrunda, biðjast fyrir og lifa eftir reglum fagnaðarerindisins af þolinmæði og ráðgast við viðeigandi leiðtoga.

Sumir hafa gefið í skyn að meðlimir séu að yfirgefa kirkjuna nú í meiri mæli en áður hefur þekkst og að efasemdir og vantrú aukist stöðugt. Það er algerlega rangt. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur aldrei verið öflugri. Fjöldi þeirra sem fer fram á að nöfn þeirra verði fjarlægð úr skrám kirkjunnar, hefur alltaf verið afar fámennur og hefur verið mun minni á síðastliðnum árum, miðað við fortíðina.24 Aukning á sannanlega mælanlegum sviðum, svo sem á meðlimum með musterisgjöf sem hafa gild musterismeðmæli, fullorðnum sem greiða fulla tíund og þeim sem þjóna í trúboði, hefur verið gríðarleg. Ég endurtek aftur: Kirkjan hefur aldrei verið öflugri. „Hafið [þó] hugfast að verðmæti sálna er mikið í augum Guðs.“25 Við viljum ná til allra.

Ef hinn vægðarlausi veruleiki, sem þið standið frammi fyrir, virðist niðdimmur og næstum óbærilegur, minnist þess þá að frelsarinn gerði friðþæginguna að veruleika með hræðilegri sálarkvöl í Getsemane og óumræðilegum þjáningum á Golgata, sem léttir á hinum skelfilegustu byrðum þessa lífs. Hann gerði þetta fyrir þig og fyrir mig. Hann gerði þetta, því hann elskar okkur og föður sinn og hlýðir honum. Okkur verður bjargað frá dauða – jafnvel frá djúpi sjávar.

Öryggi okkar í þessu lífi og í eilífðinni, er bundið réttlæti okkar sem einstaklinga og fjölskyldna, helgiathöfnum kirkjunnar og þeirri kostgæfni að fylgja frelsaranum. Það verður skjól okkar frá storminum. Þið sem eruð einmana getið verið staðföst í réttlæti, í þeirri vitnesku að friðþægingin muni vernda og blessa ykkur á þann hátt sem þið fáið ekki skilið til fulls.

Við ættum að hafa frelsarann í huga, halda sáttmála hans og fylgja syni Guðs, líkt og sólblómið unga fylgir sólinni. Ef við fylgjum ljósi og fordæmi hans, munum við hljóta gleði, hamingju og frið. Í bæði Sálmi 27 og kærum kirkjusálmi segir: „Drottinn er ljós mitt og hjálpræði.“26

Á þessari páskahelgi, ber ég, sem postuli frelsarans, hátíðlega vitni um upprisu Jesú Krists. Ég veit að hann lifir. Ég þekki rödd hans. Ég ber vitni um guðleika hans og raunveruleika friðþægingar hans, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá 2 Ne 9:20–22.

  2. Sjá Mósía 15:8–9.

  3. Sjá Fil 4:7.

  4. Sjá Matt 13:41.

  5. Matt 13:43.

  6. Sjá Kenning og sáttmálar 115:5–6.

  7. Handbook 2: Administering the Church (2010), 1.1.4.

  8. Vaughn R. Kimball, „The Right Time at Home,“ Reader’s Digest, maí 1944, 43.

  9. Sjá bréf frá G. A. Seitz kaptein, U.S. Navy, USS Bunker Hill, dagsett 25. maí 1945, til föður Vaughns Kimball, Croziers Kimball, Draper, Utah.

  10. Sjá bréf frá Spencer W. Kimball, dags. 2. júní 1945, til Crozier Kimball; Kenning og sáttmálar 42:46.

  11. Sjá Crozier Kimball, í Marva Jeanne Kimball Pedersen, Vaughn Roberts Kimball: A Memorial (1995), 53.

  12. Spencer W. Kimball, „The Family Influence,“ Ensign, júlí 1973, 17. Spencer W. Kimball var þá forseti Tólfpostulasveitarinnar.

  13. Sjá „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,” Ensign eða Líahóna, nóv. 2010, 129.

  14. Carla Carlisle, „Pray, Love, Remember,“ Country Life, 29. sept. 2010, 120.

  15. Handbook 2, 1.1.5.

  16. Sjá 4 Ne 1:26.

  17. Mikið er rætt um menningu á okkar tíma. Fyrir árið 2014 hefur hugtakið menning jafnvel verið útnefnt sem hugtak ársins af Merriam-Webster.com.

  18. Sjá Alma 9; Helaman 5.

  19. 4 Ne 1:15.

  20. Þýski heimspekingurinn Goethe ritaði þessi þekktu orð: „Það sem fengið er frá arfleifð feðranna ætti að tileinka sér og lifa eftir!“ (Johann Wolfgang von Goethe, Faust, þýð. Bayards Taylor [1912], 1:28).

  21. Þetta er ein ástæða þess að kirkjan kennir fagnaðarerindið á 50 tungumálum og hefur þýtt Mormónsbók yfir á 110 tungumál. Ein áskorunin víða um heim er þó sú að læra tungumál þess lands sem fólk býr í. Sem foreldrar, þá þurfum við að fórna til að hjálpa hinni upprennandi kynslóð að læra tungumál þess lands sem þau nú búa í. Hjálpið þeim að gera það tungumál að sínu hjartfólgnasta tungumáli.

  22. Sjá Mósía 18:21.

  23. Kenning og sáttmálar 38:25, 27.

  24. Yfir síðastliðin 25 ára, þá segja rauntölur kirkjunnar að meðlimum sem yfirgefa kirkjuna hafi fækkað og kirkjan hafi næstum tvöfaldast að meðlimafjölda. Stórlega hefur dregið úr hlutfalli þeirra sem yfirgefa kirkjuna.

  25. Kenning og sáttmálar 18:10.

  26. Sálm 27:1; sjá einnig „The Lord Is My Light,“ Hymns, nr. 89.