2010–2019
Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina
Apríl 2015


Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina

Himneskur faðir hefur boðið okkur og blessað til að vera frjósöm, margfaldast og uppfylla jörðina, svo við getum orðið lík honum.

Ég þakka Laufskálakórnum fyrir sinn ljúfa söng til frelsara heimsins.

Á þeim degi er Guð faðirinn bauð sínum eingetna syni að skapa mann í þeirra mynd og líki, þá blessaði hann börn sín þessum orðum: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið … yfir öllu, sem lifir og hrærist á jörðunni.“1 Þannig hófst okkar jarðneska ferð, bæði með guðlegu boði og blessun. Kærleiksríkur faðir gaf okkur boð og blessun um að vera frjósöm og margfaldast og að drottna yfir öllu, svo við gætum þróast og jafnvel orðið eins og hann er.

Bræður og systur, í dag fer ég fram á trú og bænir ykkar, er ég miðla ykkur hugmyndum um þrjá megin eiginleika okkar guðlega eðlis. Ég bið þess að við megum öll þekkja og framfylgja betur okkar helgu ábyrgð – boð föður okkar – um að þróa okkar guðlega eðli, svo ferð okkar verði árangursríkari við að ná fram okkar guðlegu örlögum.

Í fyrsta lagi þá býður Guð okkur að vera frjósöm

Mikilvægur hluti þess að verða frjósamur, sem stundum er litið framhjá, er að leiða fram ríki Guðs á jörðinni. Frelsarinn kenndi:

„Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört. …

Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið, og yður mun veitast það.

Með því vegsamast faðir minn, að þér berið mikinn ávöxt, og verðið lærisveinar mínir.“2

Við verðum frjósöm ef við erum í Kristi og þegar við „[tökum á okkur] nafn Jesú Krists … [og þjónum] honum allt til enda“3 með því að hjálpa öðrum að koma til hans.

Á okkar tíma eru lifandi spámenn og postular stöðugt að hvetja okkur til að helga okkur algjörlega sáluhjálparstarfinu, að eigin getu og eftir því sem tækifæri gefast.

Byrjunarreitur þess að taka boðinu um að vera frjósöm er að vera „hógvær og af hjarta lítillátur.“4 Við getum þá komið til Krists af meiri einlægni, er við hlítum hvatningu heilags anda og höldum alla sáttmálana sem við höfum gert.5 Við getum sóst eftir og hlotið gjöf kærleika og haft kraft til að bjóða fjölskyldu okkar, áum, vinum og samferðafólki, í og utan kirkju, að taka á móti fagnaðarerindi Jesú Krists.

Það er ekki byrði, heldur gleði að starfa í anda kærleika. Áskoranir verða tækifæri til að auka við trú okkar. Við verðum þá „vitni [gæsku] Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem [við kunnum] að vera, já, allt til dauða.“6

Öll getum við og ættum að helga okkur algjörlega sáluhjálparstarfinu. Frelsarinn hefur veitt okkur eftirfarandi ábyrgð með fyrirheiti: „Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni.“7

Í öðru lagi þá býður Guð okkur að margfaldast

Líkami okkar er blessun frá Guði. Við hlutum hann í þeim tilgangi að uppfylla það verk himnesks föður „að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“8 Líkaminn er það tæki sem við fáum notað til að ná fram okkar guðlegu möguleikum.

Líkaminn gerir hinum hlýðnu andabörnum himnesks föður kleift að upplifa jarðlífið.9 Barneignir gefa öðrum andabörnum Guðs líka kost á að upplifa jarðlífið. Öllum sem fæðast í jarðlífið gefst kostur á að þróast og hljóta upphafningu, ef þau halda boðorð Guðs.

Hjónaband á milli karls og konu er sú stofnun sem Guð vígði til þess að framfylgja boðinu um að margfaldast. Samband samkynhneigðra uppfyllir ekki þetta boð.

Rétt og lögmætt hjónaband innsiglað í musterinu, getur orðið foreldrum og börnum þeirra dásamleg upplifun kærleika og leið að frjósömu lífi, ef lifað er eftir sáttmálum innsiglunarinnar. Það sér þeim fyrir bestu hugsanlegu umgjörð til að lifa eftir þeim sáttmálum sem þau hafa gert við Guð.

Sökum elsku sinnar til okkar, þá hefur himneskur faðir séð til þess að öll hans trúföstu börn, sem ekki geta eða hafa notið blessunar sáttmálshjónabands og barneigna, eða fyllingu þeirrar blessunar, af einhverri ástæðu sem þau fá ekki ráðið við, fái á Drottins tilnefnda tíma notið þessara blessana.10

Lifandi spámenn og postular hafa hvatt alla sem gefst kostur á að taka á sig sáttmála eilífs hjónabands, að gera það af visku og trú. Við ættum ekki að fresta þeim helga degi, sökum veraldlegrar iðkunar eða gera svo óraunhæfar kröfur um viðeigandi lífsförunaut að það útiloki alla þá sem hugsanlega gætu komið til greina.

Allir þeir sem innsiglaðir eru í sáttmála eilífs hjónabands og eru frjósamir, eins og lýst hefur verið, með því að halda sáttmála sína, er heitið því að óvinurinn muni aldrei hafa getu til að grafa undan undirstöðu þeirra eilífu samfylgdar.

Í þriðja lagi þá býður Guð okkur að uppfylla jörðina

Að uppfylla jörðina og að drottna yfir öllu því sem lifir, er að stjórna því þannig að það framfylgi vilja Guðs11 og þjóni tilgangi barna hans. Að uppfylla jörðina er líka að hafa stjórn á eigin líkama.12 Það er ekki að vera hjálparvana fórnarlömb þessara hluta eða nota þá andstætt vilja Guðs.13

Að þróa hæfni til að uppfylla það sem jarðarinnar er, hefst á auðmýkt til að gangast við okkar mannlegu veikleikum og kraftinum sem fæst með Kristi og friðþægingu hans. Því „Kristur hefur sagt: Ef þér trúið á mig, skuluð þér hafa kraft til að gjöra allt, sem mér er æskilegt.“14 Þessi kraftur getur orðið okkar þegar við veljum að sýna hlýðni við boðorð hans. Við aukum getu okkar til þess er við leitum gjafa andans og þroskum hæfileika okkar.

Ég fæddist og var alinn upp við fábrotnar aðstæður, sem dæmigerðar eru fyrir fjölskyldur í Afríku. Mér tókast að brjótast út úr þessum aðstæðum með því að afla mér góðrar menntunar, með hjálp minna góðu foreldra. Að þróa með mér sýn á það sem ég gat orðið, var nauðsynlegt framþróun minni. Síðar, er ég og eiginkona mín, Gladys, vorum ung hjón, fundum við hið endurreista fagnaðarerindi, sem stöðugt blessar líf okkar með andlegri handleiðslu. Líkt og aðrar fjölskyldur, þá höfum við líka raunir og áskoranir. Þegar við hins vegar lítum til Drottins eftir hjálp, þá höfum við fundið frið og huggun og ekki látið bugast af slíku.

Þær áskoranir sem samfélög nútímans glímir við, svo sem ósiðsemi, vopnadeilur, mengun, misnotkun efna og fátækt, eru tilkomnar vegna þess að svo margir í heiminum hafa samið sig „að vilja djöfulsins og holdsins,“15 fremur en að vilja Guðs. „Þeir leita ekki Drottins til að tryggja réttlæti hans, heldur gengur hver maður sína eigin leið og eftir ímynd síns eigin guðs, en ímynd hans er í líkingu heimsins.“16

Guð býður hins vegar öllum sínum börnum að leita liðsinnis hans við að sigrast á öllum áskorunum þessa lífs, með þessum orðum:

„Ég gjörði heiminn og mennina áður en þeir voru í holdinu.

„… Viljir þú snúa til mín og hlýða rödd minni og trúa og iðrast allra þinna brota og láta skírast, já, í vatni, í nafni míns eingetna sonar … þá munt þú meðtaka gjöf heilags anda og biðja allra hluta í hans nafni, og hvers sem þú beiðist, það mun þér gefið verða.“17

Trúfastir Síðari daga heilagir, sem skilja guðlega möguleika sína og reiða sig algjörlega á kraftinn sem fæst með friðþægingu Jesú Krists, munu efldir í sínum náttúrlegum veikleikum og munu geta „gjört allt.“18 Þeir mun geta sigrast á tálbeitum hins illa, sem hafa leitt marga til ánauðar óvininum. Páll kenndi:

„Guð er trúr og lætur ekki freista yður um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“19

„Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu.“20

Himneskur faðir hefur boðið okkur og blessað til að vera frjósöm, margfaldast og uppfylla jörðina, svo við getum orðið lík honum. Hann hefur séð okkur fyrir hjálp til að hvert okkar geti, í samræmi við eigin breytni, vaxið og í raun orðið eins og hann. Ég bið þess að við megum öll haga lífi okkar þannig að við látum leiðast af okkar guðlega eðli, njótum allra okkar guðlegu forréttinda og uppfyllum okkar guðlegu örlög.

Ég ber vitni um raunveruleika Guðs föðurins og hans ástkæra sonar, frelsara okkar, Jesú Krist; hans dýrðlegu sæluáætlun; og lyklanna sem hann hefur veitt lifandi spámanni á jörðinni á okkar tíma, já, Thomas S. Monson forseta, sem við elskum og styðjum. Ég bið þess að við megum hafa kraft til að njóta blessana hans til fulls, í nafni Jesú Krists, amen.