Kom, fylg mér
Kenning og sáttmálar 95; 103; 107
Duldir fjársjóðir
Kafa ofan í ritningarnar. Það er þess virði.
Drottinn minnir okkur ástúðlega á boðorð sem við höfum hunsað.
Í Kenningu og sáttmálum 95 var Drottinn örlítið vonsvikinn með hina heilögu. Hann hafði áður boðið þeim að reisa musteri (sjá Kenning og sáttmálar 88:119) – en fimm mánuðum síðar höfðu þeir ekkert gert í því.
Það virðist óhugsandi í dag. Að byggja musteri er megináhersla fyrir okkur! Drottinn hafði þó ekki opinberað mikið um musteri árið 1833. Hinir heilögu gerðu sér ekki fyllilega grein fyrir mikilvægi þeirra.
Hvað gerði þá Drottinn? Hann fór ítarlega yfir ástæðu þess að hann vildi að þeir byggðu musteri (sjá Kenning og sáttmálar 95:8–17). Hann útskýrði það sem hann sagði áður, veitti nýja innsýn og undirstrikaði mikilvægi þess.
Syndin færir ögun, en Drottinn lofar enn blessunum.
Árið 1834 veltu hinir heilögu fyrir sér hvers vegna Drottinn hefði leyft óvinum þeirra þrengja að þeim og hrekja þá af eigin landi. Drottinn veitti þeim tvö svör með spámanninum Joseph Smith:
Í fyrsta lagi sagði Drottinn að stundum leyfði hann hinum ranglátu að gera slæma hluti til „að fylla mæli misgjörða sinna“ (Kenning og sáttmálar 103:3). Alma orðaði það svona: „Hann leyfir, að þeir gjöri [slæma hluti] … svo að dómarnir, sem hann fellir yfir þeim í heilagri reiði sinni, verði réttvísir,“ (Alma 14:11).
Hin ástæðan sem Drottinn gaf hinum heilögu fyrir vanda þeirra var líklega aðeins erfiðari að heyra, til að: „aga þá, sem kenna sig við nafn mitt, vegna þess að þeir hlýddu ekki að fullu þeim boðum og fyrirmælum, sem ég gaf þeim.“ (Kenning og sáttmálar 103:4).
Það merkir ekki að Guð hafi samþykkt ranglátar og ólöglegar aðgerðir óvina þeirra. Hann „hvatti“ múginn ekki til að ráðast á hina heilögu; Hann leyfði þeim að nota sjálfræði sitt og skarst ekki í leikinn til að stöðva þá.
Drottinn lofaði samt að ef hinir heilögu myndu hlýða, „[myndi] sigurgöngu þeirra aldrei linna“ (Kenning og sáttmálar 103:7)
Hvers vegna er prestdæmið nefnt eftir Melkísedek?
Þið gætuð hafa velt fyrir ykkur hvers vegna æðra prestdæmið er nefnt eftir Melkísedek. Drottinn útskýrði það með spámanninum Joseph Smith:
„Fyrir hans daga [Melkísedeks] nefndist það Hið heilaga prestdæmi eftir reglu Guðssonarins. En vegna virðingar eða lotningar fyrir nafni hinnar æðstu veru og til að forðast stöðugar endurtekningar á nafni hans, nefndi kirkjan til forna það prestdæmi eftir Melkísedek“ (Kenning og sáttmálar 107:3–4).
Hugleiðið hversu oft við nefnum „Melkísedeksprestdæmið“ á kirkjusamkomum og í óformlegri umræðu. Ímyndið ykkur ef við segðum alltaf „sonur Guðs“ í stað „Melkísedek“. Það færi að þykja virðingarleysi. Drottinn vildi koma í veg fyrir það.