Til styrktar ungmennum
Faldir fjársjóðir
Mars 2025


Kom, fylg mér

Kenning og sáttmálar 1828

Faldir fjársjóðir

Kannið ritningarnar og þið munið finna alls kyns hluti.

Joseph Smith við Fyrstu sýnina

Nútíma opinberun útskýrir ritningarnar.

Kenning og sáttmálar 19

Í Kenningu og sáttmálum 19 er tvennt útskýrt varðandi frelsarann.

Lúkas segir að sviti Drottins í Getsemanegarðinum hafi verið „eins og blóðdropar“ (Lúkas 22:44). „Eins og“ bendir til þess að það sé bara orðalag.

Jesús skýrir málið. Hann sagði þjáningar sínar hafa orðið til þess að „blóð draup úr hverri svitaholu“ (Kenning og sáttmálar 19:18). Engar myndlíkingar. Angist hans var svo mikil að hann svitnaði raunverulega blóði.

Annars staðar nota ritningarnar orðtök eins og „óendanleg kvöl“ og „eilíf refsing“. Alma yngri segir að hann hafi „[liðið] eilífa kvöl“ (Alma 36:12). Kvöl hans varði þó einungis í þrjá daga (sjá Alma 36:16). Hvernig er hún þá „eilíf“?

Jesús útskýrir aftur. Þar sem himneskur faðir og Jesús eru eilífir og óendanlegir, er sérhver refsing sem þeir veita, skilgreind sem „eilíf“ eða „óendanleg“ refsing, hver sem tímalengdin er (sjá Kenning og sáttmálar 19:6–12). Einungis þjáningar glötunarsonanna munu í raun vara eilíflega (sjá Kenning og sáttmálar 76:30–38).

Ein skírn nægir – en hún krefst valdsumboðs.

Kenning og sáttmálar 22

Væntanlegir trúskiptingar spyrja trúboðana oft: Hvað ef ég hef þegar látið skírast í annarri kirkju? Þarf ég að skírast aftur?

Í Kenningu og sáttmálum er það útskýrt að án prestdæmisins – valdsumboðsins til að starfa í nafni Guðs – „væri maðurinn skírður hundrað sinnum, gagnaði það honum ekkert“ (Kenning og sáttmálar 22:2).

Svarið er því í meginatriðum: „Fyrri skírn ykkar var réttlát athöfn, byggð á því sem þið vissuð á þeim tíma. Nú vitið þið meira og Drottinn vill að þið bregðist við þeirri þekkingu.“

Jesús Kristur þjónustar Nefítunum sakramentið

Enginn er góður í öllu. Það er allt í lagi.

Kenning og sáttmálar 24

Spámaðurinn Joseph Smith var ekki góður í viðskiptum eða hagfræði. Að veraldlegum skilningi var hann ekki farsæll.

Drottinn sagði honum að það yrði þannig: „Í stundlegu erfiði munt þú engan styrk hafa, því að það er ekki köllun þín“ (Kenning og sáttmálar 24:9).

Þið munið eiga vini og bekkjarfélaga sem fara í betri háskóla en þið, fá virtari störf en þið og ná meiri veraldlegri farsæld en þið.

Og hvað með það?

Lífið er ekki keppni. Auðvitað ættuð þið að reyna ykkar besta. Látið þó ekki hugfallast ef þið sjáið aðra fara fram hjá ykkur á vegi lífsins. Ekki er víst að þeir séu á sömu leið og þið! Haldið áfram að gera það sem Drottinn vill að þið gerið – „köllun“ ykkar – og hafið ekki áhyggjur af áætlunum hans fyrir aðra.

Hús Guðs er hús reglu.

Kenning og sáttmálar 2728

Frelsarinn minnti spámanninn Joseph Smith oft á að allt yrði að gera „með reglu“ (sjá Kenning og sáttmálar 20:68; 28:13; 58:55; 107:84). Þið þurfið reglur eða það ríkir ringulreið.

En það þýðir ekki að það sé aldrei svigrúm. Drottinn sagði til dæmis Joseph Smith að „það skipti engu hvað þér etið eða drekkið, þegar þér meðtakið sakramentið“ – svo framarlega sem þið gerið það í minningu um þjáningar hans og friðþægingu (Kenning og sáttmálar 27:2).

Þegar kemur að því að leiða kirkjuna, er hins vegar ekkert svigrúm. Aðeins einn einstaklingur í einu getur hlotið opinberun fyrir kirkjuna: Fyrst var það Joseph Smith (sjá Kenning og sáttmálar 28:2); síðan hver sá sem Drottinn útnefndi „í hans stað“ (Kenning og sáttmálar 28:7) – Brigham Young, John Taylor og svo framvegis allt til spámannsins í dag.

Aðrir innblásnir kirkjuleiðtogar geta kennt, leiðbeint og veitt ráð (sjá Kenning og sáttmálar 28:4–5). En einungis forseti kirkjunnar getur talað fyrir hönd Guðs í málum sem snerta alla kirkjuna.