Leyndarmálið að því að mistakast aldrei aftur
Það er auðveldara en þið haldið.
Myndskreyting: Eric Chow
„Ég elska mistök!“
Það er líklega ekki eitthvað sem þið hafið heyrt marga segja. Flest okkar eru ekki spennt yfir mistökum. Þau geta sært, raskað áætlunum okkar og stundum verið beinlínis vandræðaleg.
Hvað ef til væri leyndarmál að því að mistakast aldrei aftur?
„Bíddu,“ gætuð þið hugsað. „Enginn er fullkominn. Við gerum öll mistök. Hvernig getur einhverjum aldrei orðið á mistök?“
Thomas Edison uppgötvaði leyndarmálið þegar hann gerði margar tilraunir til að finna upp á ljósaperunni. „Ég gerði ekki 1.000 mistök,“ sagði hann að sögn. „Ljósaperan var uppfinning með 1.000 skrefum.“
Edison mistókst ítrekað, en hann kaus að líta ekki þannig á það. Það er leyndarmálið! Breytið viðhorfi ykkar! Þegar þið breytið viðhorfi ykkar geta „mistök“ ykkar orðið eitthvað nýtt og jákvætt.
Hér eru fjórar leiðir til að breyta viðhorfi ykkar um mistök:
-
Komist að því hverju þið getið stjórnað og hverju ekki. Stundum höfum við ekki stjórn á því sem við höfum mestar áhyggjur af. Takið til dæmis starfsumsókn. Þið getið stjórnað þeirri vinnu sem þið leggið í umsóknina, en þið getið ekki stjórnað niðurstöðunni. Í stað þess að eyða orku í áhyggjur yfir því sem mun „mistakast“ hjá ykkur, reynið þá að leggja vinnu í það sem þið hafið stjórn á og treystið Drottni. Hann hefur lofað því að „allt [muni] samverka til góðs þeim sem elska Guð“ (Rómverjabréfið 8:28). Hvað ef þið fáið ekki starfið? Þið eruð ekki misheppnuð! Jafnvel ef þið fáið ekki þá niðurstöðu sem þið voruð að vonast eftir, lögðuð þið ykkar besta fram og það er árangur!
-
Grípið það góða og haldið áfram. Þegar ykkur finnst þið vera að gera mistök, reynið þá að líta nánar á upplifun ykkar. Komust þið ekki í keppnisliðið? Voruð þið vonsvikin með prófseinkunn? Þegar þið skoðið það sem var ykkur erfitt mun það gefa ykkur frábært yfirlitskort yfir það sem þið þurfið að gera í framtíðinni. Ef ákveðin reynsla lætur ykkur líða illa skulið þið viðurkenna tilfinningar ykkar og velja síðan að halda áfram með það góða. Mistök geta í raun hjálpað ykkur að halda áfram í nýjar og betri áttir.
-
Munið að þetta eru ekki endalokin. Það er algengt orðatiltæki: „Allt mun fara vel að lokum. Ef allt er ekki í lagi þá er þetta ekki endirinn.“ Moróní kennir eitthvað álíka. Hann sagði: „Hefur endirinn komið enn? Sjá, ég segi yður, nei, og Guð hefur ekki hætt að vera Guð kraftaverka“ (Mormón 9:15). Þegar við treystum Guði, sækjum fram í trú og minnumst þess að sögur okkar taka ekki enda þegar eitthvað fer úrskeiðis, þá geta kraftaverk gerst og öll „mistök“ sem við gætum staðið frammi fyrir, geta að lokum orðið undraverðir sigrar.
-
Standið með Kristi. Enginn misbrestur verður varanlegur sökum friðþægingar Jesú Krists. Við höfum alltaf val um að iðrast, snúa hjörtum okkar aftur til Guðs og biðja um hjálp hans. Jeffrey R. Holland forseti, starfandi forseti Tólfpostulasveitarinnar, hefur kennt: „Þótt þið teljið … að þið hafa gert of mörg mistök … þá ber ég vitni um að þið eruð ekki utan guðlegrar elsku. Þið getið ekki sokkið svo djúpt að geislar hins óendanlega ljóss friðþægingar Krists nái ekki til ykkar.“ Þegar þið standið með Kristi, getur ykkur því ekki mistekist!
Þegar þið lítið á mistök ykkar sem skref til árangurs, afhjúpið þið leyndarmálið að því að mistakast aldrei aftur.
Látið reyna á þetta! Og ef ykkur mistekst? Munið þá bara – ykkur er í raun ekki að mistakast. Þið eruð að taka framförum, eitt skref í einu.