Til styrktar ungmennum
Á ferð með andanum
Mars 2025


Á ferð með andanum

Himneskur faðir þráir að tala við ykkur. Hér eru leiðir til að halda þeim samskiptum gangandi.

piltur á bæn

Himneskur faðir ykkar þekkir ykkur og elskar. Hann heyrir þegar þið biðjist fyrir og þráir að tala við ykkur. Að uppgötva hvernig hann talar er mikilvægt – og það er mismunandi fyrir okkur öll. Oft getið þið þó tekið eftir því að himneskur faðir talar í huga ykkar og hjarta þegar þið eruð á ferðinni – lifið lífi ykkar og iðkið trú.

Vera tengdur

Þið getið haldið sambandi ykkar við himneskan föður opnu með því að biðja reglubundið og einlæglega til hans. Læra orð hans í ritningunum. Hlýða á útvalda þjóna hans og fylgja þeim – spámönnunum og postulunum. Og reyna ykkar besta við að halda boðorð hans.

Að vera í sambandi við himneskan föður, færir hamingju og merkingu í líf okkar. Það hjálpar okkur að skilja áætlun hans betur og finna elsku hans. Við berum kennsl á það þegar hann talar, þegar við reynum að halda okkur í topp formi andlega.

ung manneskja horfir út á sjóndeildarhringinn

Halda ró

Í ritningunum minnir Drottinn okkur á: „Hættið og játið að ég er Guð“ (Sálmarnir 46:11; sjá einnig Kenning og sáttmálar 101:16). Heimurinn er fullur af hávaða og truflunum, en himneskur faðir er hvorki hávær né þrúgandi. Hann talar eins og með „þýðum blæ“ (1. Konungabók 19:12). Við getum greint áhrif hans þegar við erum kyrrlát.

Finnið til dæmis hljóðlátan stað til að biðjast fyrir, gefið ykkur tíma til að umlykja ykkur fegurð sköpunarverks Guðs í náttúrunni eða njótið innblásinnar tónlistar og listaverka. Þetta hjálpar okkur að hafa huga okkar og hjarta opin fyrir sérstaka reynslu með himneskum föður.

stúlka

Bregðast við innblæstri

Himneskur faðir talar oft til okkar með hughrifum. Hvernig getum við samt vitað með vissu hvort hughrifin komi frá honum? Spámaðurinn Mormón veitir okkur góð ráð: „Allt, sem hvetur og lokkar til góðs og til að elska Guð og þjóna honum, [er] innblásið af Guði“ (Moróní 7:13). Gordon B. Hinckley forseti (1910–2008) sagði eitt sinn: „Þegar upp er staðið þá er þetta er prófraunin. Hvetur það þau til þess að gera gott, til að rísa upp, til að láta að sér kveða, til að gera hið rétta, til að sýna vinsemd, til að sýna gjafmildi? Þá er það frá anda Guðs.“

Oft er innblásturinn sá að „fara og gjöra“ (sjá 1. Nefí 3:7) eða að segja eitthvað. Þegar við bregðumst við þessari hvatningu – einkum í fyrsta skiptið sem við skynjum hana – munu fleiri upplifanir koma. Svo ef ykkur finnst að þið ættuð að segja eða gera eitthvað gott og jákvætt, gerið það þá! Staðfestingin á því að þið séuð á réttri leið kemur þegar þið látið til skarar skríða.

ungt fólk

Sækja fram í trú og trausti

Að bera kennsl á það þegar Guð talar er ferli. Það krefst bæði trúar og trausts á að himneskur faðir tali til ykkar og hjálpi ykkur að áorka miklu meiru en þið getið áorkað á eigin spýtur. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að himneskur faðir treystir ykkur ekki aðeins til að leita leiðsagnar hans í eigin lífi, heldur líka til að blessa og uppörva þá sem umhverfis eru.

Þið munið ekki alltaf hafa öll svörin. Þess er ekki vænst að þið gerið það. Þið eruð þó hvött til að sýna trú í verki. Þegar þið gerið það, munið þið komast að því að Guð getur talað á fleiri vegu en þið fáið ímyndað ykkur. Með tímanum verður rödd hans skýrari, leiðsögn hans greinilegri og nærvera hans meira áberandi, til að hjálpa ykkur að verða það sem hann veit að þið getið orðið.