Þegar þið upplifið vonbrigði
Kenning og sáttmálar bjóða fram hjálp þegar hlutirnir ganga ekki upp hjá ykkur.
Myndskreyting: Luciana Abrão
Hafið þið einhvern tíma orðið fyrir vonbrigðum? Ég hef það. Ég varð reyndar fyrir vonbrigðum í síðustu viku. Í alvöru – tár og allt.
Drottinn sagði við Joseph Smith: „Ver þolinmóður í þeim mörgu þrengingum, sem þú munt þola.“ Úff. Mér líkar ekki hvernig það hljómar.
Sem betur fer hélt ritningin áfram: „Og umber þær, því að tak eftir, ég er með þér, allt til æviloka þinna“ (Kenning og sáttmálar 24:8, skáletrað hér). Allt í lagi. Djúp fráöndun.
Þegar ég hugsa til þess, þá verður mér ljóst að Drottinn hefur verið með mér í gegnum öll vonbrigði sem ég hef gengið í gegnum. Hér eru nokkur dæmi:
Þegar ég fékk ekki hlutverkið …
Þegar ég var 15 ára, fór ég í áheyrnarprufu fyrir leikrit í skólanum. Ég reyndi að fá aðalhlutverkið en fékk ekki það hlutverk.
Til að gera illt verra hafði kennarinn þegar ráðið í öll minni hlutverkin, svo það var ekkert hlutverk fyrir mig. Hún gerði mig að nemendaleikstjóra og vegna þess að hún var með samviskubit bætti hún líka við nýju hlutverki – ég fékk að koma á sviðið í um það bil 30 sekúndur sem þögul nunna.
Einmitt. Ég grét.
… Drottinn styrkti mig
Þegar ég lít til baka, verður mér ljóst að frelsarinn hjálpaði mér í gegnum þetta vonbrigðatímabil. Hann styrkti mig til að viðhalda góðu viðhorfi og þróa meiri auðmýkt. Þegar allt kom til alls þá naut ég tímans í leikritinu í níunda bekk.
„Við skulum með glöðu geði gjöra allt, sem í okkar valdi stendur; Og þá getum við með fullri vissu beðið eftir að sjá hjálpræði Guðs, og arm hans opinberast“ (Kenning og sáttmálar 123:17, skáletrað hér).
Þegar íþróttir gengu mér ekki í haginn …
Á síðasta ári mínu í menntaskóla langaði mig að komast í skólaliðið (í efri deild) í tennis. Ég varð að sigra stelpuna sem var ofar á listanum en ég til að komast í liðið. En þegar ég keppti við hana tapaði ég.
Jafnvel þó að ég væri vonsvikin, lék ég í neðri deildinni. Í úrslitakeppni neðri deildanna var ég talin vera sigurstranglegust. En hvað haldið þið? Ég tapaði úrslitaleiknum. Ég grét – aftur.
Ég varð aftur fyrir vonbrigðum síðar. Eftir að ég hafði fengið verðlaun fyrir að fá góðar einkunnir og að stunda íþróttir, var ákveðið að taka verðlaunin í burtu – því það kom í ljós að þau voru aðeins fyrir þá sem spiluðu í efri deildinni.
… Þetta varði bara „örskamma stund“
Á þeim tíma var tennis stór hluti af lífi mínu og þessi vonbrigði virtust gríðarleg. Það sem ég gerði mér ekki grein fyrir var að frelsarinn var alltaf með mér og hjálpaði mér. Þessi miklu vonbrigði vörðu ekki að eilífu, jafnvel þótt það virtist sem þau myndu gera það.
„Friður sé með sál þinni. Mótlæti þitt og þrengingar munu aðeins vara örskamma stund.Og ef þú stenst það vel, þá mun Guð upphefja þig í upphæðum“ (Kenning og sáttmálar 121:7–8, skáletrað hér).
Þegar ég reyndi að komast hjá vonbrigðum …
Stundum reyndi ég algjörlega að forðast vonbrigði. Þegar ég var 13 ára og komst ekki í nemendaráðið, reyndi ég aldrei aftur, jafnvel þó það væri eitthvað sem ég hefði líklega haft gaman af. Ég gafst upp því ég óttaðist að verða aftur fyrir vonbrigðum.
… Ég þurfti að „óttast eigi“
Ég þurfti að muna að Drottinn er með okkur, jafnvel í vonbrigðum okkar. Stundum ganga hlutirnir okkur ekki í hag, en hann getur hjálpað okkur að takast á við óþægilegar tilfinningar og prófa nýja hluti.
„Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki“ (Kenning og sáttmálar 6:36–37, skáletrað hér).
Þegar trúboðsþjónustan fór ekki eins og til stóð…
Eftir menntaskóla ákvað ég að þjóna í trúboði. En ég átti við óvænt heilsufarsvandamál að stríða sem héldu mér frá því að fara á þeim tíma sem ég vænti.
Ég varð að sýna þolinmæði, en ég var að lokum kölluð í austurtrúboðið í Guadalajara í Mexíkó. Þar kenndi ég mörgu frábæru fólki og hjálpaði jafnvel sumum þeirra að skírast. Þrátt fyrir trú mína, hlýðni og eljusemi, var ekkert þeirra áfram virkt í kirkjunni.
… Ég treysti á vilja Guðs
Oft eru atburðir lífsins ekki á okkar valdi. Ég gat ekki samstundis leyst heilsufarsvandamál mín. Ég get heldur ekki þvingað aðra til að lifa eftir fagnaðarerindinu. Ég get samt treyst tímasetningu og háttum Drottins.
„Helgið yður því, svo að hugur yðar beinist eingöngu að Guði, og þeir dagar koma, er þér sjáið hann. … Og það gjörir hann á sínum tíma og á sinn háttog samkvæmt sínum eigin vilja“ (Kenning og sáttmálar 88:68, skáletrað hér).
Þegar ég varð fyrir vonbrigðum í síðustu viku …
Nú er ég orðin fullorðin. En ég verð samt fyrir vonbrigðum. Reyndar fór ég á rithöfundaráðstefnu í síðustu viku. Ég var nokkuð sjálfsörugg með sumt af skrifum mínum, en ég fékk einhverja neikvæða endurgjöf frá öðrum rithöfundum.
… Hann var með mér
Ég reyni nú að treysta Drottni örlítið betur. Vonbrigði eru hluti af lífinu. Þau þýða ekki að þið séuð að gera eitthvað rangt.
Snúum okkur aftur að ritningargreininni í byrjuninni. Já, við gætum upplifað „[margar]“ þrengingar og vonbrigði. Ég veit þó að Drottinn verður með mér í gegnum það allt. Hann mun einnig vera með ykkur.
„Ver þolinmóður í þeim mörgu þrengingum, sem þú munt þola, og umber þær, því að tak eftir, ég er með þér, allt til æviloka þinna“ (Kenning og sáttmálar 24:8, skáletrað hér).