2010–2019
Hjartasár
Október 2018


Hjartasár

Í deiglu jarðneskra prófrauna færir lækningarmáttur frelsarans okkur ljós, skilning, frið og von, á meðan við færumst þolinmóð áfram.

Þann 22. mars 2016, rétt fyrir klukkan átta að morgni, sprungu tvær sprengjur hryðjuverkamanna á flugvellinum í Brussel. Öldungur Richard Norby, öldungur Mason Wells og öldungur Joseph Empey höfðu farið með systur Fanny Clain á flugvöllinn, svo hún gæti flogið til trúboðs síns í Cleveland, Ohio. Þrjátíu og tveir létu lífið og allir trúboðarnir særðust.

Sá sem var mest slasaður var öldungur Richard Norby, 66 ára gamall sem þjónaði með eiginkonu sinni, systur Pam Norby.

Öldungur Richard Norby hafði þetta að segja um þessa stund.

„Ég vissi strax hvað hafði gerst.

Ég reyndi að hlaupa í skjól en féll strax niður. … Ég gat séð að ég hafði slasast illa á vinstri fótlegg. Ég [sá] svarta tauma, líka köngulóarvef, leka frá báðum höndum mínum. Ég togaði varlega í þá, en gerði mér þá grein fyrir því að þetta var ekki sót, heldur húð mín sem hafði brunnið. Hvíta skyrtan mín var að litast rauð vegna áverka á baki mínu.

Um leið og ég gerði mér grein fyrir því sem hafði gerst, þá kom mjög sterk hugsun til mín, … frelsarinn vissi hvar ég var, hvað hefði gerst og [hvað] ég var að upplifa á því augnabliki.“1

Ljósmynd
Richard Norby haldið sofandi

Framundan voru erfiðar stundir fyrir Richard Norby og konu hans, Pam. Honum var haldið sofandi, því næst fór hann í aðgerðir, tókst á við sýkingar og mikla óvissu.

Richard Norby lifði af, en líf hans hafði varanlega breyst. Tveimur og hálfu ári síðar eru sár hans enn að gróa. Spelka hefur komið í staðinn fyrir hluta af fótlegg hans og hvert skref er öðruvísi en þau sem tekin voru fyrir þennan atburð á flugvellinum í Brussel.

Ljósmynd
Richard og Pam Norby

Hvers vegna myndi þetta gerast fyrir Richard og Pam Norby?2 Þau höfðu verið sönn sáttmálum sínum, þjónað í öðru trúboði á Fílabeinsströndinni og alið upp yndisleg börn. Sumir gætu sagt, og skyldi engan undra: „Þetta er ekki réttlátt! Þetta er bara ekki rétt! Þau tileinkuðu sér fagnaðarerindi Jesú Krists lífi sínu, hvernig gat þetta gerst?“

Svona er jarðlífið

Þó að smáatriðin séu mismunandi, þá verða hörmungar, óvæntar prófraunir og erfiðleikar, bæði líkamlegir og andlegir, á vegi okkar allra, því svona er jarðlífið.

Í morgun, þegar ég var að hugsa um ræðumenn þessa ráðstefnuhluta, þá gerði ég mér grein fyrir því að tveir þeirra áttu börn, og þrír barnabörn, sem snéru óvænt heim til himnesks heimilis þeirra. Engum hefur verið hlíft við veikindum og sorg, og eins og fram hefur komið, í þessari viku steig einn af jarðnesku englunum sem við elskum öll, systir Barbara Ballard, mjúklega í gegnum huluna. Ballard forseti, við munum aldrei gleyma vitnisburði þínum frá því í morgun.

Við leitum að hamingju. Við þráum frið. Við vonumst eftir ást. Drottinn úthellir svo yfir okkur ótrúlegum fjölda blessana. Eitt er samt öruggt, í bland við gleði og hamingju, þá verða andartök, stundir, dagar og stundum ár, sem sálir ykkar upplifa sársauka.

Ritningarnar kenna að við munum kynnast hinu beiska og hinu sæta3 og að það munu vera „andstæður … í öllu.“ 4 Jesús sagði: „[Faðir ykkar] lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“5

Und sálarinnar eru ekki bundin ríkum eða fátækum, einni menningu, þjóð eða kynslóð. Við lendum öll í þeim og þau eru hluti af þeim lærdóm sem við öðlumst í þessari jarðnesku reynslu.

Hinir réttlátu eru ekki ónæmir

Skilaboð mín hér í dag, eru sérstaklega til þeirra sem halda boðorð Guðs, halda loforð þau sem hafa verið gefin Guði og, eins og í tilfelli Norby hjónanna, eða annarra karla, kvenna og barna í þessum áheyrendahópi um allan heim, standa frammi fyrir erfiðleikum og áskorunum sem eru óvænt og sársaukafull.

Sár okkar gætu komið frá náttúruhamförum eða óheppilegu slysi. Þau gætu komið vegna ótrús eiginmanns eða eiginkonu, sem snýr heimi réttláts maka og barna á hvolf. Sárin kunna að koma frá myrkri og drunga þunglyndis, frá óvæntum veikindum, frá þjáningum eða ótímabæru fráfalli ástvinar, sorg þeirri er fjölskyldumeðlimur afneitar hans eða hennar trú, einmannaleika þess þegar aðstæður bjóða ekki upp á eilífan félaga eða hundruð öðrum átakalegum, sársaukafullum „[hugraunum] sem augun ná ekki að sjá.“6

Við skiljum öll að erfiðleikar eru hluti af lífinu, en þegar við lendum í þeim persónulega, missum við stundum andann. Án þess að vera hrædd, þá verðum við að vera viðbúin. Pétur postuli sagði: „Látið yður eigi undra eldraunina, sem yfir yður er komin, yður til reynslu, eins og yður hendi eitthvað kynlegt.“7 Á sama tíma og bjartir litir hamingju og gleði vefa sig inn í vefnað áætlunar föður okkar, þá eru dökklitaðir þræðir áreynslu og sorgar þar einnig. Þrátt fyrir að slík barátta sé oft erfið, þá verður hún oft mesti kennari okkar.8

Þegar við segjum undraverða sögu hinna 2,060 ungu hermanna Helamans, þá þykir okkur vænt um þessa ritningagrein: „Í samræmi við gæsku Guðs og okkur til mikillar undrunar, og einnig öllum her okkar til mikillar gleði, fórst ekki ein einasta sál þeirra.“

Setningin heldur svo áfram: „Og það var heldur ekki ein einasta sála meðal þeirra, að ekki væri særð mörgum sárum.“9 Hver og einn þessara 2,060 var særður mörgum sárum og hvert og eitt okkar særist í baráttu lífsins, hvort heldur er líkamlega, andlega eða bæði.

Jesús Kristur er okkar miskunnsami Samverji

Aldrei gefast upp – sama hve djúp þessi sár sálarinnar eru, sama hver uppruni þeirra er, hvar eða hvenær þau gerast eða hve lengi eða stutt þau vara, þá er ekki ætlunin að þið farist andlega. Þið eigið að komast af andlega og blómstra í trú ykkar og trausti á Guð.

Guð skapaði anda okkar ekki þannig að þeir væri aðskildir frá honum. Drottinn okkar og frelsari, Jesús Kristur, frelsaði okkur ekki einungis frá dauða, í gegnum ómælanlega gjöf friðþægingar hans og býður okkur fyrirgefningu synda okkar í gegnum iðrun, heldur stendur hann einnig tilbúinn að frelsa okkur frá sorgum okkar og sársauka hinna særðu sála okkar.10

Ljósmynd
Miskunnsami Samverjinn

Frelsarinn er hinn miskunnsami samverji okkar,11 sendur til að „láta þjáða lausa.“ 12 Hann kemur til okkar þegar aðrir ganga framhjá. Með hluttekningu, leggur hann græðandi smyrsl sín á sár okkar og bindur um þau. Hann heldur á okkur. Hann annast okkur. Hann segir við okkur: „[komið] til mín … og ég mun gera [ykkur] heila.“13

„Og Jesús mun ganga fram og þola alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar … til að … hann muni taka á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns, … kynnast vanmætti [okkar], [af] miskunn.“14

Komið, þið óhuggandi, hvar sem þið dveljið.

Komið krjúpið við miskunn hans.

Færið honum sár ykkar og angist.

Á jörðu er engin sorg sem himininn fær ekki læknað.“15

Á tímum gríðarlegra þjáninga, sagði Drottinn við spámanninn Joseph: „Allt mun þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs.“16 Hvernig geta djúp sár verið okkur til góðs? Í deiglu jarðneskra prófrauna færir lækningarmáttur frelsarans okkur ljós, skilning, frið og von, á meðan við færumst þolinmóð áfram.17

Aldrei gefast upp

Biðjið af öllu hjarta. Styrkið trú ykkar á Jesú Krist, í raunveruleika hans, í náð hans. Höldum fast í orð hans: „Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“18

Munið að iðrun er kröftugt andlegt lækningarlyf.19 Haldið boðorðin og verið verðug huggaranum, minnist þess sem frelsarinn lofaði: „Ekki mun ég skilja ykkur eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar.“20

Friður musterisins er mýkjandi smyrsl á hina særðu sál. Hverfið aftur í hús Drottins með særð hjörtu ykkar og nöfn ættmenna, eins oft og þið getið. Musterið endurvarpar hinni stuttu dvöl okkar í jarðlífinu á breiðskjá eilífðarinnar.12

Horfið tilbaka, minnist þess að þið sönnuðuð verðleika ykkar í fortilveru ykkar. Þið eruð hughraust börn Guðs og með aðstoð hans getið þið sigrað í orrustum þessa fallna heims. Þið hafið gert það áður og getið gert það aftur.

Horfið fram á við. Áhyggjur ykkar og sorgir eru mjög raunverulegar, en þær munu ekki vara að eilífu.22 Hin myrka nótt mun líða hjá því að „[sonurinn] … [reis], með lækningarmátt undir vængjum sínum.“ 23

Norby hjónin sögðu við mig: „Vonbrigðin sækja okkur stundum heim, en fá aldrei leyfi til að stoppa við.“24 Páll postuli sagði: „Vér [erum] aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki, ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki.“25 Þið kunnið að vera örmagna, en gefist aldrei upp.26

Jafnvel þó að þið þjáist af eigin sárum, er það ykkur eðlislægt að rétta öðrum hjálparhönd og treysta á loforð frelsarans: „Hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það.“27 Þeir sem sinna sárum annarra eru englar Guðs á jörðu.

Eftir smá stund munum við hlusta á ástkæran spámann okkar, Russel M. Nelson forseta, mann sem er hughraustur í trú á Jesú Krist, mann vonar og friðar, sem er elskaður af Guði, en sem hefur ekki farið varhluta af sálarangist.

Árið 1995 greindist dóttir hans, Emily, sem var barnshafandi, með krabbamein. Það voru dagar vonar og hamingju er heilbrigt barn hennar kom í heiminn. Krabbameinið snéri hins vegar aftur og ástkær dóttir þeirra, Emily, yfirgaf þetta líf, einungis tveimur vikum eftir að hún varð 37 ára gömul, frá ástríkum eiginmanni og fimm ungum börnum.

Ljósmynd
Nelson forseti flytur ræðu árið 1995

Stuttu eftir fráfall hennar, deildi öldungur Nelson þessu með okkur á aðalráðstefnu: „Sorgartár mín hafa fallið ásamt þeim óskum að ég hefði getað gert meira fyrir dóttur okkar. … Ef ég hefði haft kraft upprisunnar, hefði ég freistast til að fá [hana] aftur. … [En] Jesús Kristur heldur þeim lyklum og mun nota þá fyrir Emily … og allt fólk, á tíma Drottins.“28

Ljósmynd
Nelson forseti í Púertó Ríkó

Í síðasta mánuði, er Nelson forseti heimsótti hina heilögu í Púertó Ríko, minntist hann hins eyðileggjandi fellibyls sem skall á í fyrra, og sagði með kærleika og samúð:

„[Þetta] er hluti af lífinu. Það er þess vegna sem við erum hér. Við erum hér til að fá líkama og til að vera reynd og prófuð. Sumar þessara prófrauna verða líkamlegar; sumar andlegar og áreynsla ykkar hér hefur verið bæði líkamleg og andleg.“29

Þið hafið ekki gefist upp. Við erum [svo] stolt af ykkur. Þið trúföstu heilagir hafið misst mikið, en í gegnum þetta allt hafið þið hlúð að trú ykkar á Drottin Jesú Krist.“30

„Með því að halda boðorð Guðs, getum við jafnvel fundið gleði í verstu aðstæðum okkar.“31

Öll tár verða þerruð

Bræður mínir og systur, það er loforð mitt til ykkar að ef þið aukið trú ykkar á Drottin Jesú Krist, mun það færa ykkur aukinn styrk og meiri von. Fyrir ykkur mun sá sem græðir sálir okkar græða öll ykkar sár á sínum tíma og á sinn hátt.32 Ekkert óréttlæti, engar ofsóknir, ekkert mótlæti, engin sorg, ekkert hjartasár, engin þjáning – sama hve djúpt það ristir, hve vítt það teygir sig eða hve sársaukafullt það er – mun undanskilið frá þeirri huggun, þeim friði og varanlegri von sem faðmur hans og særðir lófar munu bjóða okkur velkomin aftur inn í návist hans. Samkvæmt vitnisburði Jóhannesar postula, þá verður það þann dag sem hinir réttlátu „sem komnir eru úr þrengingunni miklu“33 munu standa „skrýddir … hvítu skikkjunum … frammi fyrir hásæti Guðs.“ Lambið mun „dvelja meðal [oss] … og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“34 Þessi dagur mun koma. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Persónulegt samtal, 26. jan. 2018

  2. Í samtali, fyrr á árinu, sagði Richard Norby við mig: „Við svörum fyrir það sem okkur hefur verið útdeilt.“ Hann deildi þessu úr dagbók sinni: „Prófraunir og erfiðleikar sem koma til okkar allra veita okkur tækifæri og forréttindi til að þekkja frelsarann betur og skilja friðþægingarfórn hans á dýpri máta. Við höllum okkur að honum. Við leitum hann uppi. Við reiðum okkur á hann. Við treystum á hann. Við elskum hann af öllu hjarta okkar, skilyrðislaust. Frelsarinn tók á sig allan þann líkamlega og tilfinningalega sársauka sem er hluti af jarðnesku lífi. Hann tekur sársaukann frá okkur. Hann yfirtekur allar sorgir okkar.”

  3. Sjá Kenning og sáttmálar 29:39.

  4. 2 Ne 2:11.

  5. Matt 5:45.

  6. “Lord, I Would Follow Thee,” Hymns, nr. 220.

  7. 1 Pét 4:12.

  8. „Með þessu munum við reyna þá og sjá hvort þeir gjöra allt, sem Drottinn Guð þeirra býður þeim“ (Abr 3:25; sjá einnig Kenning og sáttmálar 101:4–5).

  9. Alma 57:25.

  10. Vinur minn skrifaði til mín: „Næstum því fimm ára barátta við tilfinningalegt ,myrkur og drunga‘ á mismikinn hátt, dregur þig út á brún getu þinnar, einsetningu, trúar og þolinmæði. Eftir ‚þjáningardaga‘ ertu þreyttur. Eftir ‚þjáningarvikur‘ ertu örmagna. Eftir ‚þjáningarmánuði‘ ferðu að missa jarðtenginguna. Eftir ‚þjáningarár‘ ferðu að sætta þig við þann möguleika að þú munir aldrei verða betri á ný. Vonin verður dýrmætasta og jafnframt víðsjálasta gjöfin. Í stuttu máli, þá veit ég ekki hvernig ég náði í gegnum þessa raun, nema fyrir [frelsarann]. Það er eina útskýringin. Ég get ekki útskýrt það hvernig ég veit það, nema að ég geri það. Það er honum að þakka að ég komst í gegnum þetta.“

  11. Sjá Lúk 10:30-35.

  12. Lúkas 4:18; sjá einnig Jesaja 61:1.

  13. 3 Ne 18:32.

  14. Alma 7:11–12. „Hann sté neðar öllu, og skynjaði þannig alla hluti“ (Kenning og Sáttmálar 88:6)

  15. “Come, Ye Disconsolate,” Hymns, nr. 115.

  16. Kenning og sáttmálar 122:7.

  17. „Þekkir þú mikilleika Guðs, og hann mun helga þrengingar þínar þér til góðs“ (2 Ne 2:2). „Ég veit, að hver, sem setur traust sitt á Guð, hlýtur stuðning í raunum sínum, erfiðleikum og þrengingum, og honum mun lyft upp á efsta degi“ (Alma 36:3).

  18. 2 Kor 12:9.

  19. Sjá Neil L. Andersen, “The Joy of Becoming Clean,” Ensign, apr. 1995, 50–53.

  20. Jóh 14:18.

  21. „Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna“ (1 Kor 15:19).

  22. Í fyrsta versi Mormónsbókar útskýrir Nefí að hann hafi: „Þolað miklar þrengingar á lífsleið [sinni]“ (1 Ne 1:1). Seinna segir hann svo: „Engu að síður leit ég til Guðs míns, og ég söng honum lof allan liðlangan daginn. Og ég áfelldist ekki Drottin fyrir þrengingar mínar“ (1 Ne 18:16).

  23. 3 Ne 25:2.

  24. Persónulegt samtal, 26. jan. 2018

  25. 2. Korintubréfið 4:8-9

  26. Hugh B. Brown forseti var spurður, í heimsókn sinni til Ísrael, hvers vegna Abraham hafi verið boðið að fórna syni sínum. Hann svaraði: „Abraham þurfti að læra eitthvað um Abraham“ (í Truman G. Madsen, Joseph Smith the Prophet [1989], 93).

  27. Matt 16:25.

  28. Russell M. Nelson, “Children of the Covenant,” Ensign, maí 1995, 32.

  29. Russell M. Nelson, in Jason Swensen, “Better Days Are Ahead for the People of Puerto Rico,” Church News, 9. sept. 2018, 4.

  30. Russell M. Nelson, í Swensen, “Better Days Are Ahead,” 3.

  31. Russell M. Nelson, í Swensen, “Better Days Are Ahead,” 4.

  32. Sjá Russell M. Nelson, “Jesus Christ—the Master Healer,” Liahona, nóv. 2005, 85-88.

  33. Op 7:14.

  34. Sjá Op 7:13, 15, 17.