2010–2019
Safnað undir eitt höfuð í Kristi
Október 2018


Safnað undir eitt höfuð í Kristi

Máttur fagnaðarerindis frelsarans til að breyta og blessa okkur á rætur í því að skilja og tileinka okkur samspilandi þætti kenninga hans, reglna og trúariðkunar.

Reipi er nauðsynlegt verkfæri, líkt og okkur öllum er kunnugt. Reipi er búið til úr efnisþráðum, plöntum, vírum eða efni sem er ofið eða fléttað saman. Athyglisvert er að hægt er að vefja saman nokkuð veiku efni svo það verði einkar öflugt. Þannig að sé venjulegt efni ofið réttilega saman getur það orðið að afar óvenjulegu verkfæri.

Ljósmynd
Þræðir ofnir í reipi

Á sama hátt og reipi fær styrk sinn af mörgum samofnum þráðum, þá veitir fagnaðarerindi Jesú Krists okkur bestu sannleiksyfirsýnina og ríkulegustu blessanirnar, ef við hlítum áminningu Páls um að „safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi.“1 Mikilvægt er að þessi nauðsynlega samansöfnun sannleika hafi Drottin Jesú Krist að þungamiðju, því hann er „vegurinn, sannleikurinn og lífið.“2

Ég bið þess að heilagur andi megi upplýsa hvert okkar, er við hugleiðum hvernig við getum hagnýtt okkur regluna um að safna öllu undir eitt höfuð í Kristi er við lærum og lifum eftir hinu endureista fagnaðarerindi hans.

Timi opinberunar

Við lifum á undraverðu tímabili opinberunar hinnar endurreistu kirkju Jesú Krists. Þær sögulegu breytingar sem kynntar voru í dag hafa einungis einn megin tilgang: Að styrkja trú á himneskan föður og áætlun hans og á son hans Jesú Krist og friðþægingu hans. Sunnudagasamkomur voru ekki aðeins styttar. Okkur gefst nú fremur tækifæri og ábyrgð sem einstaklingar og fjölskyldur að nýta tíma okkar til að auðga hvíldardaginn og gera hann að feginsdegi heima og í kirkju.

Skipulagsbreytingar prestdæmissveita síðastliðinn aprílmánuð voru ekki einungis breytingar. Áhersla var öllu heldur lögð á aukinn styrk og á æðri og heilagri leið til að þjóna bræðrum okkar og systrum.

Líkt og samfléttaðir þræðir reipis verða að öflugu og gagnlegu verkfæri, þá leiða allar innbyrðis framkvæmdir sameiginlegs verks að því að bæta og laga auðlindir og verk hinnar endurreistu kirkju frelsarans og ætlunarverk hennar: Að aðstoða Guðs í því verki hans að gera sáluhjálp og upphafningu barna hans að veruleika. Einblínið ekki einungis á skipulagsþátt þess sem tilkynnt var um. Við megum ekki láta stjórnsýsluatriði yfirskyggja andlegar ástæður þeirra breytinga sem nú eru gerðar.

Hugur okkar stendur til þess að efla trú á jörðu á áætlun föðurins og hið endurleysandi verk frelsarans og festa betur í sessi ævarandi sáttmála Guðs.3 Eina ætlunarverk okkar er að greiða fyrir viðvarandi trú á Drottin og að sýna bræðrum okkar og systrum aukinn kærleika með þjónustu.

Sundurliða og aðgreina

Stundum, sem meðlimir kirkjunnar, sundurliðum við og aðgreinum fagnaðarerindið og tileinkum okkur það með því að búa til langan gátlista einstakra atriða til að læra og verkefni til að ljúka. Slík nálgun getur þó hugsanlega takmarkað skilning okkar og sýn. Við þurfum að gæta að okkur, því blind áhersla á gátlista getur komið í veg fyrir að við komumst nær Drottni.

Tilgangur hreinsunar, hamingju og gleði og stöðugrar umbreytingar og verndunar, sem hlýst af því að „gefa hjörtu [okkar] Guði“4 og að „mynd hans [greypist] í svip [okkar],5 getur ekki náð fram að ganga einungis með því að framkvæma allt sem okkur bera að gera og merkja síðan lokið við gátlistann okkar. Máttur fagnaðarerindis frelsarans til að breyta og blessa okkur á rætur í því að skilja og tileinka okkur samspilandi þætti kenninga hans, reglna og trúariðkunar. Einungis með því að safna öllu undir eitt höfuð í Kristi, með einbeittu augliti á hann, gerir samspilandi sannleikur fagnaðarerindisins okkur kleift að verða það sem Guð þráir að við verðum6 og að standast hugdjörf allt til enda.7

Læra og samtengja sannleika fagnaðarerindisins

Fagnaðarerindi Jesú Krists er undraverður samofinn vefnaður „samtengds“ sannleika8. Er við lærum og tengjum saman opinberaðan sannleika fagnaðarerindisins, munum við blessuð með því að hljóta dýrmætan skilning og aukinn andlegan styrk með auga sem fær greint áhrif Drottins í lífi okkar og eyra sem fær heyrt rödd hans.9 Reglan um að safna undir eitt höfuð – já, í honum – getur gert okkur kleift að breyta hinni hefðbundnu gátlistaaðferð yfir í samspilandi, óskipta heild. Ég ætla að setja fram bæði kenningarlegt og kirkjulegt dæmi um það sem ég á við.

Dæmi 1. Fjórða trúaratriðið er eitt besta dæmið um söfnun alls undir eitt höfuð í Kristi: „Vér trúum, að frumreglur og helgiathafnir fagnaðarerindisins séu: Í fyrsta lagi trú á Drottin Jesú Krist; í öðru lagi iðrun; í þriðja lagi skírn með niðurdýfingu til fyrirgefningar synda; í fjórða lagi handayfirlagning til veitingar á gjöf heilags anda.“10

Ljósmynd
Trú á Drottin Jesú Krist

Sönn trú beinist að Drottni Jesú Kristi – á hann sem hinn guðlega frumgetna son föðurins og á hann og endurlausnarverkið sem hann uppfyllti. „Því að hann hefur uppfyllt lögmálið og krefst allra þeirra, sem á hann trúa. Og þeir, sem á hann trúa, halda sér við allt, sem gott er. Þess vegna talar hann máli mannanna barna, og hann dvelur eilíflega á himnum.“11 Að iðka trú á Krist, er að treysta og reiða sig á hann sem frelsara okkar, á nafn hans og loforð hans.

Ljósmynd
Iðrun

Fyrsta og eðlilega afleiðing þess að treysta á Drottin er að iðrast og láta af hinu illa. Þegar við iðkum trú á Drottin, snúum við okkur eðlilega að honum, komum til hans og reiðum okkur á hann. Iðrun er því að treysta og reiða sig á að frelsarinn geri fyrir okkur það sem við getum ekki gert sjálf. Sérhvert okkar þarf að treysta í einu og öllu á verðleika hans, sem máttinn hefur til að frelsa,“12 því einungis „fyrir verðleika, miskunn og náð heilags Messíasar13 megnum við að verða nýsköpun í Kristi14 og fáum að lokum snúið til dvalar í návist Guðs.

Ljósmynd
Skírn

Helgiathöfn niðurdýfingarskírnar til fyrirgefningar syndanna krefst þess að við treystum á hann, reiðum okkur á hann og fylgjum honum. Nefí sagði: „Ég [veit] að ef þér fylgið syninum af hjartans einlægni og án þess að hræsna fyrir Guði eða hafa blekkingar í frammi, heldur með sönnum ásetningi, með því að iðrast synda yðar og vitna fyrir föðurnum, að þér eruð fúsir til að taka á yður nafn Krists með skírn – já, með því að fylgja Drottni yðar og frelsara ofan í vatnið eins og orð hans mæla fyrir, sjá, þá munuð þér meðtaka heilagan anda. Já, þá kemur skírn eldsins og heilags anda. Og þá getið þér talað með tungu engla og lofsungið hinum heilaga Ísraels.“15

Ljósmynd
Staðfesting

Helgiathöfn handayfirlagningar til gjafar heilags anda krefst þess að við treystum á hann, reiðum okkur á hann, fylgjum honum og sækjum fram í honum, með liðsinni hans heilaga anda. Líkt og Nefí útskýrði: „Og af þessu veit ég … að fylgi maðurinn ekki staðfastlega fordæmi sonar hins lifanda Guðs allt til enda, getur hann ekki frelsast.“16

Ljósmynd
Safna undir eitt

Fjórða trúaratriðið staðfestir ekki aðeins frumreglur og helgiathafnir hins endurreista fagnaðarerindis. Þessi innblásna trúarstaðfesting sýnir söfnun alls undir eitt höfuð í Kristi: að treysta á hann, reiða sig á hann, fylgja honum og sækja fram með honum – já, í honum.

Dæmi 2. Ég ætla nú að greina frá því hvernig öllum viðfangsefnum og verkefnum kirkjunnar er safnað undir eitt höfuð í Kristi. Nota mætti margar aðrar frásagnir, en ég mun einungis nota fáeinar.

Ljósmynd
Byggja upp og efla Síon

Árið 1978 bauð Spencer W. Kimball forseti meðlimum kirkjunnar að byggja upp veldi Síonar um heim allan. Hann bauð að hinir heilögu yrðu áfram í heimalöndum sínum og stofnuðu öflugar stikur með því að safna saman fjölskyldu Guðs og kenna fólkinu hætti Drottins. Hann sagði ennfremur að fleiri musteri yrðu byggð og lofaði hinum heilögu blessunum hvar sem þeir byggju í heiminum.17

Ljósmynd
Þrjár sleitulausar klukkustundir
Ljósmynd
Fjölskylduyfirlýsingin

Eftir því sem fjöldi stika óx, varð mikil þörf á því að heimili meðlima „yrðu [staðir] þar sem fjölskyldumeðlimir hefðu [unun af] því að dvelja á, þar sem [mögulegt] væri að efla líf þeirra og þeir finndu elsku, stuðning og hvatningu.“18 Af því leiddi árið 1980 að sunnudagssamkomur voru hafðar saman í þrjár sleitulausar klukkustundir til að „leggja enn frekar áherslu á þá ábyrgð einstaklinga og fjölskyldna að læra, lifa eftir og kenna fagnaðarerindið.“19 Þessi áhersla á fjölskylduna og heimilið var staðfest með „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ sem kynnt var af Gordon B. Hinckley forseta árið 1995.20

Ljósmynd
Musterisbyggingar

Í apríl árið 1998 tilkynnti Hinckley forseti um byggingu margra smærri mustera, sem varð til að færa helgiathafnir húss Drottins nær einstaklingum og fjölskyldum Síðari daga heilagra um heim allan.21 Samhliða og tengt þessum auknu tækifærum til andlegs vaxtar og þroska varð stundleg sjálfbærni aukin með kynningu Menntunarsjóðs kirkjunnar árið 2001.22

Ljósmynd
Annast fátæka og þurfandi

Í stjórnartíð sinni hvatti Thomas S. Monson forseti hina heilögu endurtekið að „koma öðrum til bjargar“ og lagði áherslu á að umönnun hinna fátæku og þurfandi væri ein af hinum guðlegu tilnefndu ábyrgðarskyldum kirkjunnar. Áhersla var áfram lögð á stundlegan undirbúning með stofnun og verkefnum Sjálfsbjargarþjónustunnar árið 2012.

Ljósmynd
Gera hvíldardaginn að feginsdegi

Síðastliðin ár hefur verið lögð áhersla á að styrkja og efla mikilvægar reglur um að gera hvíldardaginn að feginsdegi á heimilinu og í kirkju, sem hefur búið okkur undir breytingar á samkomuhaldi á sunnudögum, sem kynntar voru á þessum hluta aðalráðstefnunnar.23

Ljósmynd
Melkísedeksprestdæmissveitir lagaðar að aðildarfélögum

Fyrir sex mánuðum voru sveitir Melkísedeksprestdæmisins efldar og lagaðar betur að aðildarfélögunum til að æðri og heilagri nálgun hirðisþjónustu næði fram að ganga.

Ljósmynd
Eitt alhliða og heildstætt verk

Ég trúi að framsetning og tímasetning þessara framkvæmda yfir marga áratugi geri okkur kleift að sjá eitt yfirgripsmikið og heilsteypt verk, en ekki einungis sjálfstæð og aðgreind verkefni. „Guð hefur opinberað fyrirmynd andlegrar framþróunar fyrir einstaklinga og fjölskyldur, með helgiathöfnum, kenningum, áætlunum og framkvæmdum, sem eru heimilismiðaðar og kirkjustyrktar. Félög og áætlanir kirkjunnar eru fyrir hendi til að blessa einstaklinga og fjölskyldur og eru í sjálfu sér ekki lokatakmörk.“24

Ég bið þess að við fáum séð verk Drottins sem eitt undursamlegt heimslægt verk, sem hefur aldrei áður verið jafn heimilismiðað og kirkjustyrkt. Ég veit og ber vitni um að Drottinn er að opinbera og mun „opinbera margt stórfenglegt og mikilvægt varðandi Guðs ríki.“25

Fyrirheit og vitnisburður

Ég hóf mál mitt á því að undirstrika þann styrk sem felst í því flétta einstaka efnisþræði saman í reipi. Á líkan hátt lofa ég að aukinn skilningur, tilgangur og máttur munu sýna sig er við lærum og lifum eftir hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists og keppum að því að safna öllu undir eitt höfðu í Kristi – já, í honum.

Öll tækifæri og blessanir af eilífum uppruna eru möguleg og eiga sér tilgang, sökum Drottins Jesú Krists, og eru viðvarandi fyrir hann. Líkt og Alma vitnaði um: „Engin önnur leið eða ráð til frelsunar [er til], nema í og fyrir Krist. Sjá, hann er líf og ljós heimsins.“26

Af gleði ber ég vitni um guðleika og lifandi raunveruleika hins eilífa föður og hans ástkæra sonar, Jesú Krists. Í frelsara okkar finnum við gleði. Í honum finnum við fullvissu um „frið í þessum heimi, og eilíft líf í komanda heimi.“27 Um það vitna ég í heilögu nafni Drottins Jesú Krists, amen.