2010–2019
Hlutverk Mormónsbókar í trúskiptum
Október 2018


Hlutverk Mormónsbókar í trúskiptum

Við erum að safna saman Ísrael í síðasta sinn og það gerum við með Mormónsbók, einu áhrifaríkasta hjálpartæki til trúarlegrar umbreytingar.

Margir efast um raunveruleika Guðs í dag og samband okkar við hann. Margir vita lítið eða alls ekkert um hina miklu hamingjuáætlun hans. Fyrir yfir 30 árum sagði Ezra Taft Benson forseti að „stærsti hluti … heimsins hafnaði guðleika frelsarans. Fólk efaðist um undursamlega fæðingu hans, fullkomið líf hans og raunveruleika hinnar dýrðlegu upprisu hans.“1

Á okkar tíma beinast spurningar ekki aðeins að frelsara okkar, heldur líka að kirkju hans – Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu – sem hann endurreisti fyrir tilstilli spámannsins Josephs Smith. Þær spurningar taka oft mið af sögu, kenningum eða trúariðkun kirkju frelsarans.

Mormónsbók gerir okkur kleift að vaxa að vitnisburði

Í Boða fagnaðarerindi mitt, má lesa: „Hafið í huga að þekking okkar [á himneskum föður og hamingjuáætlun hans] kemur frá nútíma spámönnum – Joseph Smith og eftirmönnum hans – sem hlutu opinberun beint frá Guði. Þess vegna ætti fyrsta spurningin sem menn ættu að fá svar við, að vera hvort Joseph Smith hafi verið spámaður, og viðkomandi getur fengið svar við þessari spurningu með því að lesa Mormónsbók og biðjast fyrir vegna hennar.“2

Vitnisburður minn um guðlega köllun spámannsins Josephs Smith hefur styrkst af því að læra Mormónsbók: Annað vitni um Jesú Krist af kostgæfni. Ég hef farið að boði Morónís um að „spyrja Guð, hinn eilífa föður, í nafni Krists,“ til að fá vitneskju um sannleiksgildi Mormónsbókar.3 Ég ber vitni um að ég veit að hún er sönn. Sú vitneskja, sem þið getið líka hlotið, barst mér „fyrir kraft heilags anda.“4

Í formála Mormónsbókar segir: „Þeir, sem öðlast þennan guðlega vitnisburð frá hinum heilaga anda, munu einnig fá að vita með sama krafti, að Jesús Kristur er frelsari heimsins, að Joseph Smith er opinberari hans og spámaður á þessum síðustu dögum og að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er ríki Drottins, stofnað enn á ný á jörðu til undirbúnings síðari komu Messíasar.“5

Mér lærðist, sem ungum trúboða á leið til Síle, lífsmótandi lexía um trúarmátt Mormónsbókar. Herra Gonzalez þjónaði í mörg ár í virðingarstöðu í kirkju sinni. Hann hafði mikila trúarlega þjálfun, þar með talda gráðu í guðfræði. Hann var nokkuð stoltur af sérþekkingu sinni á Biblíunni. Okkur var augljóst að hann var trúarlegur fræðimaður.

Hann vissi vel af trúboðum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, er þeir fóru um heimaborg hans, Lima í Perú, í verkum sínum. Hann hafði alltaf langað að hitta þá til að kenna þeim úr Biblíunni.

Dag einn, næstum sem gjöf frá himni, eða svo taldi hann vera, heilsuðu tveir trúboðar honum á götu og spurðu hvort þeir mættu koma heim til hans og segja honum frá ritningunum. Þetta var draumi líkast! Hann hafði verið bænheyrður. Hann gæti nú loks leiðrétt þessa afvegaleiddu pilta. Hann sagðist hafa sanna ánægju af því að fá þá heim til sín til að ræða ritningarnar.

Hann hlakkaði óskaplega til komu þeirra. Hann var tilbúinn með Biblíuna til að afsanna trú þeirra. Hann var fullviss um að Biblían myndi skýrt og skorinort sýna fram á villu þeirra. Tilsett kvöld rann upp og trúboðarnir knúðu dyra. Hann var glaðhlakkalegur. Stund hans hafði loks runnið upp.

Hann opnaði dyrnar og bauð trúboðunum inn fyrir. Annar trúboðinn rétti honum bláa bók og gaf einlægan vitnisburð um að hann vissi að bókin geymdi orð Guðs. Hinn trúboðinn bætti við sínum máttuga vitnisburði um bókina og bar vitni um að hún hefði verið þýdd af nútíma spámanni Guðs, að nafni Joseph Smith, og að hún kenndi um Krist. Trúboðarnir afsökuðu sig síðan og hurfu á braut.

Herra Gonzalez varð afar vonsvikinn. Hann tók þó bókina upp og fletti síðum hennar. Hann las fyrstu síðuna. Hann las síðu eftir síðu og hætti ekki lestrinum fyrr en síðdegis daginn eftir. Hann las alla bókina og vissi að hún var sönn. Hann vissi hvað hann þurfti að gera. Hann hringdi í trúboðana, tók á móti lexíunum og sagði skilið við lífið sem hann þekkti til að verða meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Þessi maður var kennari minn í trúboðsskólanum í Provo, Utah. Frásögnin um trúskipti bróður Gonzalez og mátt Mormónsbókar, hafði mikil áhrif á mig.

Þegar ég koma til Síle, bauð trúboðsforseti minn, Royden J. Glade, okkur að lesa í hverri viku vitnisburð spámannsins Josephs Smith í Sögu Josephs Smith. Hann kenndi okkur að vitnisburður um fyrstu sýnina myndi tengjast beint eigin vitnisburði um fagnaðarerindið og vitnisburði um Mormónsbók.

Ég tók þessu boði alvarlega. Ég hef lesið frásögnina um fyrstu sýnina; ég hef lesið Mormónsbók. Ég hef beðist fyrir, líkt og Moróní hvetur til, og spurt „Guð, hinn eilífa föður, í nafni Krists,“6 hvort Mormónsbók sé sönn. Í dag ber vitni um að ég veit að Mormónsbók er, líkt og spámaðurinn Joseph Smith sagði, „réttasta bók á allri jörðu og burðarsteinn trúar okkar og að maðurinn [kemst] nær Guði með því að hlíta kenningum hennar, fremur en nokkurrar annarrar bókar.“7 Spámaðurinn Joseph sagði einnig: „Hver væru trúarbrögð okkar, ef Mormónsbók og opinberanirnar yrðu teknar í burtu? Þau væri engin.“8

Persónuleg trúskipti

Ef við skiljum betur hver við erum og tilgang Mormónsbókar, mun trúarleg umbreyting okkar verða dýpri og varanlegri. Við verðum staðráðnari í því að halda sáttmálana sem við gerðum við Guð.

Megin tilgangur Mormónsbókar er að safna saman hinum dreifða Ísrael. Sú samansöfnun veitir öllum börnum Guðs kost á að fara inn á sáttmálsveginn og, með því að heiðra þessa sáttmála, snúa aftur til dvalar í návist föðurins. Þegar við kennum iðrun og skírum fólk, erum við að safna saman hinum dreifða Ísrael.

Í Mormónsbók er vísað 108 sinnum í hús Ísraels. Nefí kenndi í upphafi Mormónsbókar: „Tilgangur minn er sá, og sá einn, að geta talið fólk á að koma til Guðs Abrahams, og Guðs Ísaks, og Guðs Jakobs og frelsast.“9 Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs er Jesús Kristur, Guð Gamla testamentisins. Við frelsumst þegar við komum til Krists, með því að lifa eftir fagnaðarerindi hans.

Nefí ritaði síðar:

„Já, faðir minn talaði mikið um Þjóðirnar og einnig um Ísraelsætt, sem líkja mætti við olífutré, sem greinarnar mundu brotnar af og þeim tvístrað um allt yfirborð jarðar. …

Og eftir að Ísraelsætt hefði verið tvístrað, yrði henni safnað saman á ný. Eða, eftir að Þjóðirnar hefðu tekið á móti fyllingu fagnaðarboðskaparins, mundu hinar náttúrlegu greinar olífutrésins, eða leifarnar af Ísraelsætt, að lokum vera græddar á, með öðrum orðum, þeir fengju vitneskju um hinn sanna Messías, Drottin sinn og lausnara.“10

Spámaðurinn Moróní segir líkt þessu í lok Mormónsbókar: „Svo að þú verðir ei framar smáð og sáttmálarnir, sem hinn eilífi faðir hefur við þig gjört, ó Ísraelsætt, nái að uppfyllast.“11

Sáttmálar hins eilífa föður

Hverjir eru sáttmálar hins eilífa föður, sem Moróní vísar í? Í Bók Abrahams er ritað:

„Nafn mitt er Jehóva, og ég þekki endalokin frá upphafinu. Fyrir því mun hönd mín vera yfir þér.

Og ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig ómælanlega, og gjöra nafn þitt mikið meðal allra þjóða, og þú munt verða eftirkomandi niðjum þínum blessun, svo að þeir færi í höndum sér öllum þjóðum þessa helgu þjónustu og þetta prestdæmi.“12

Nelson forseti kenndi nýlega í heimslægri útsendingu að „nú væru vissulega hinir síðari dagar og að Drottinn væri að hraða því verki að safna saman Ísrael. Sú samansöfnun er það mikilvægasta sem á sér stað á jörðunni í dag. Ekkert annað er sambærilegt að umfangi, mikilvægi og mikilfengleika. Þið getið tekið aukinn þátt í henni, ef við viljið og kjósið. Þið getið skipað mikilvægu hlutverki í því sem er stórfenglegt, stórbrotið og tignarlegt!

„Þegar við tölum um samansöfnun, erum við einfaldlega að staðhæfa þennan sannleika: „Öll börn okkar himneska föður, báðum megin hulunnar, verðskulda að hlýða á boðskap hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists. Þau ákveða sjálf hvort þau vilji vita meira.“13

Þetta er það sem við erum að gera sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu: Við reynum að fá heiminn til að skilja – og trúa á – fagnaðarerindi Jesú Krists. Við erum hinir „síðari daga samansafnarar.“14 Hlutverk okkar er skýrt: Bræður og systur, við skulum láta auðkennast af því að hafa tekið á móti fyrirheiti Morónís, beðist fyrir og verið svarað um að Mormónsbók sé sönn og síðan að miðla öðrum þeirri vitneskju í orði, og það sem mikilvægara er, í verki.

Hlutverk Mormónsbókar í trúskiptum

Mormónsbók geymir fyllingu fagnaðarerindis Jesú Krists.15 Hún leiðir okkur að sáttmálum föðurins, sem, ef við höldum þá, tryggja okkur æðstu gjöf hans – eilíft líf.16 Mormónsbók er burðarsteinn trúskipta allra sona og dætra himnesks föður.

Ég vitna aftur í Nelson forseta: „Ef þið … lesið daglega í Mormónsbók, munið þið læra kenningu samansöfnunar, sannleika um Jesú Krist, friðþægingu hans og fyllingu fagnaðarerindis hans, sem ekki finnst í Biblíunni. Mormónsbók er þungamiðja samansöfnunar Ísraels. Ef Mormónsbók væri ekki til, gæti hin fyrirheitna samansöfnun Ísraels í raun ekki átt sér stað.“17

Ég ætla að ljúka með orðum frelsarans, er hann kenndi Nefítum um hinar fyrirheitnu blessanir: „Þér eruð börn spámannanna og af húsi Ísraels, og þér tilheyrið sáttmálanum, sem faðirinn gjörði við feður yðar, er hann sagði við Abraham: Af þínu afkvæmi skulu allar ættkvíslir jarðar blessun hljóta.“18

Ég ber vitni um að við erum synir og dætur Guðs, afkvæmi Abrahams, af húsi Ísraels. Við erum að safna saman Ísrael í síðasta sinn og það gerum við með Mormónsbók – bók sem, með anda Drottins, er áhrifaríkasta hjálpartæki til trúarlegrar umbreytingar. Við erum leidd af spámanni Guðs, Russell M. Nelson forseta, sem stjórnar samansöfnun Ísraels á okkar tíma. Mormónsbók er sönn. Hún hefur breytt lífi mínu. Ég lofa ykkur, líkt og Moróní og margir aðrir spámenn hafa gert í áranna rás, að hún getur breytt lífi ykkar.19 Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Teachings of Presidents of the Church: Ezra Taft Benson (2014), 129.

  2. What Is the Role of the Book of Mormon?Preach My Gospel: A Guide to Missionary Service, uppfærð (2018), lds.org/manual/missionary.

  3. Moró 10:4.

  4. Moró 10:4.

  5. Formáli Mormónsbókar.

  6. Moró 10:4.

  7. Formáli Mormónsbókar.

  8. Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith (2007), 196.

  9. 1 Ne 6:4.

  10. 1 Ne 10:12, 14.

  11. Moró 10:31.

  12. Abraham 2:8–9.

  13. Russell M. Nelson, “Hope of Israel” (heimslæg æskulýðssamkoma, 3. júní 2018), 4, broadcasts.lds.org.

  14. Sjá Jakob 5:72.

  15. Ezra Taft Benson forseti kenndi: „Drottinn hefur sjálfur sagt að Mormónsbók geymi ,fyllingu fagnaðarerindis Jesú Krists‘ (K&S 20:9). Það merkir ekki að hún geymi sérhverja kenningu sem hefur eða mun verða opinberuð. Það merkir öllu heldur að í Mormónsbók finnum við fyllingu þeirra kenninga sem krafist er okkur til sáluhjálpar. Þær eru kenndar skýrt og skorinort, svo jafnvel öll börn geti lært veg sáluhjálpar og upphafningar“ (Teachings: Ezra Taft Benson, 131).

  16. Sjá Kenning og sáttmálar 14:7.

  17. Russell M. Nelson, “Hope of Israel,” 7.

  18. 3 Ne 20:25.

  19. Sjá t.d. Henry B. Eyring, “The Book of Mormon Will Change Your Life,” Liahona, feb. 2004, 12–16.