2010–2019
Trúa, elska, gera
Október 2018


Trúa, elska, gera

Við hljótum ríkulegt líf með því að vera sannir lærisveinar Jesú Krists – með því að feta í fótspor hans og vinna verk hans.

Kæru bræður og systur, það er dásamlegt að vera meðal ykkar á þessum undraverða aðalráðstefnuhluta í dag; að hlusta á hinn innblásna boðskap; að hlusta á þennan dásamlega trúboðakór, sem er fulltrúi þúsunda trúboða um allan heim – dætra okkar, sona okkar – og einkum að vera enn á ný sameinuð í trú í dag, um að styðja okkar ástkæra spámann, Russell M. Nelson forseta, Æðsta forsætisráðið og aðalvaldhafa kirkjunnar. Hve dásamlegur dagur að vera meðal ykkar í dag.

Hinn forni Salómon konungur var á ytra borði einn farsælasti maður sögunnar.1 Hann virtist njóta alls – auðs, aðdáunar, valds, virðingar. Hvað fannst svo Salómon konungi um eigið líf, eftir áratuga sjálfsdekur, frægð og óhóf?

„Allt er hégómi,“2 sagði hann.

Þessi maður varð að lokum vonsvikinn, vansæll og bölsýnn, þrátt fyrir velmegun og allar heimsins alsnægtir.3

Orðið Weltschmerz er til á þýskri tungu. Gróflega merkir það hryggð yfir því að heimurinn sé lakari en okkur finnist hann eiga að vera.

Kannski er svolítið Weltschmerz í okkur öllum.

Þegar þögul sorgin læðist inn í afkima lífsins, Þegar hryggðin fyllir daginn og kastar dimmum skuggum yfir kvöldið. Þegar ranglæti og hörmung fylla heiminn og líf ástvina okkar. Þegar ferðin liggur um fáfarinn stíg ógæfu og ófara og kvalir trufla kyrrð og sálarfrið – gætum við freistast til þess að vera sammála Salómon um að lífið sé merkingarlaus hégómi.

Vonin mikla

Góðu tíðindin eru þau að það er von. Það er til leið frá tómleika, hégóma og lífsins Weltschmerz. Það er til leið frá jafnvel mesta hugsanlega vonleysi og vonbrigðum.

Sú von finnst í umbreytingarmætti fagnaðarerindis Jesú Krists og líknarmætti frelsarans, til að græða sálarkvalir okkar.

Jesús sagði: „Ég er kominn til þess, að [menn] hafi líf, líf í fullri gnægð.“4

Við hljótum líf í fullri gnægð með því að vera sannir lærisveinar Jesú Krists, en ekki með því að einblína á eigin vöntun og velgengni – með því að feta í fótspor hans og vinna verk hans. Við hljótum líf í fullri gnægð með því að gleyma okkur sjálfum og helga okkur hinum mikla málstað Krists.

Hver er málstaður Krists? Að trú á hann, elska hann og gera eins og hann gerði.

Jesús „gekk um [og] gjörði gott.“5 Hann gekk um meðal fátækra, útskúfaðra, sjúkra og forsmáðra. Hann þjónaði vanmáttugum, veikum og vinalausum. Hann varði tíma með þeim og ræddi við þá. „Og alla læknaði hann.“ 6

Hvar sem frelsarinn fór um, kenndi hann hin „góðu tíðindi“7 fagnaðarerindisins. Hann miðlaði eilífum sannleika, sem gerði fólk frjálst, bæði andlega og stundlega.

Þeir sem helga sig þessum málstað [Krists], munu uppgötva sannleika þessa fyrirheits frelsarans: „Hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það.“8

Salómon hafði rangt fyrir sér, kæru bræður mínir og systur – lífið er ekki „hégómi.“ Það getur þvert á móti verið ríkt tilgangi, merkingu og friði.

Græðandi hendur Jesú Krists ná til allra sem leita hans. Ég hef komist að því, án nokkurs vafa, að við getum umbreyst í hjarta af því að trúa á og elska Guð og reyna að fylgja Kristi,9 mildað sársauka okkar og fyllst „ákaflega miklum fögnuði.“10

Trúa, elska, gera

Við verðum auðvitað að gera meira en auka aðeins við vitsmunalegan skilning okkar á fagnaðarerindinu, til að finna græðandi áhrif þess í lífi okkar. Við verðum að tileinka okkur það – gera það að hluta af tilveru okkar og breytni.

Ég legg til þrjú orð sem fyrstu skref lærisveinsins:

Trúa, elska og gera.

Að treysta Guði leiðir til trúar á hann og fullvissu um orð hans. Trúin gerir hjörtum okkar kleift að elska Guð og aðra heitar. Þegar sú elska eykst, erum við hvött til að líkja eftir frelsaranum á hinni miklu vegferð lærisveinsins.

Þið segið kannski: „Það virðist nokkuð óraunhæft. Erfiðleikar lífsins – vissulega mínir erfiðleikar – eru alltof flóknir til að falla að þessari einföldu forskrift. Það er ekki hægt að lækna Weltschmerz með hinum þremur einföldu orðum: Trúa, elska, gera.“

Það er ekki spakmælið eitt og sér sem læknar. Það er elska Guðs sem endurleysir, endurheimtir og endurlífgar.

Guð þekkir ykkur. Þið eruð börn hans, Hann elskar ykkur.

Þótt þið teljið ykkur ekki elsku hans virði, réttir hann ykkur hönd.

Einmitt í dag – sérhvern dag – réttir hann ykkur hönd í þeirri þrá að græða ykkur, að lyfta og fylla ykkur varanlegri gleði í stað tómleikans. Hann þráir að sveipa burtu öllu þrúgandi myrkri lífs ykkar og fylla það hinu helga og skæra ljósi sinnar óendanlegu dýrðar.

Sjálfur hef ég upplifað þetta.

Ég ber vini um það sem postuli Drottins Jesú Krists, að allir þeir sem koma til Guðs – allir sem sannlega trúa, elska og gera – geta upplifað það sama.

Við trúum

Ritningarnar kenna okkur að „án trúar er ógerlegt að þóknast [Guði], því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til.“11

Sumum finnst erfitt að trúa. Dramb okkar þvælist stundum fyrir. Við gætum kannski talið að við getum einfaldlega ekki trúað á Guð, af því að sem við erum gáfuð, menntuð eða lífsreynd. Við tökum þá að líta á trúarbrögð sem heimskulega arfsögn.12

Mín reynsla er sú, að trú er sjaldan eins og fallegt málverk sem við dáumst að, tjáum okkur um og skilgreinum. Hún er fremur eins og plógur sem við beitum á akrinum í sveita andlits okkar og yrkjum landið til sáningar og uppskeru varanlegra ávaxta.13

Nálgist Guði, og þá mun hann nálgast yður.14 Þetta er loforðið til allra sem vilja trúa.

Við elskum

Ritningarnar kenna að við verðum því hamingjusamari sem við elskum Guð og börn hans heitar.15 Sú elska sem Jesús talaði um verður ekki tjáð með gjafakorti, með því að fara úr einu í annað og henni verður ekki kastað í burtu. Hún er ekki elska sem talað er um og fellur síðan í gleymsku. Hún verður ekki tjáð með því að segja „láttu mig vita ef ég get gert eitthvað.“

Elskan sem Guðs talar um er sú sem fyllir hjartað er við vöknum á morgnana, dvelur með okkur yfir daginn og svellur í brjóstum okkar er við biðjumst fyrir af þakklæti að kvöldi dags.

Það er sú ólýsanlega elska sem himneskur faðir ber til okkar.

Það er þessi takmarkalausa samkennd sem gerir okkur kleift að sjá aðra í réttara ljósi. Í gegnum sjóngler hreinnar ástar sjáum við ódauðlegar, óendanlega dýrmætar verur, endalausra möguleika og ástkæra synir og dætur almáttugs Guðs.

Þegar við höfum eitt sinn horft í gegnum það sjóngler, getum við ekki vanmetið, vanvirt eða virt að vettugi nokkurn mann.

Við gerum

Oft er það svo í verki frelsarans að fyrir hið smáa og einfalda „verður hið stóra að veruleika.“16

Við vitum að það krefst stöðugrar endurtekningar að verða góður í einhverju. Hvort sem það er að leika á klarínett, sparka bolta í mark, gera við bíl eða jafnvel fljúga flugvél, þá verðum við stöðugt betri ef við æfum okkur.17

Samfélagið sem frelsarinn stofnaði á jörðu – Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu – hjálpar okkur einmitt við það. Hún er staður til að æfa þann lífsmáta sem hann kenndi og blessa aðra eins og hann gerði.

Okkur, sem kirkjumeðlimum, eru veittar kallanir, ábyrgðarverk og tækifæri til að liðsinna og líkna öðrum af samkennd.

Kirkjan hefur nýlega lagt ennfrekari áherslu á hirðisþjónustu, eða að þjóna eða elska aðra. Vandlega var ígrundað hvað nefna ætti þessa sérstöku þjónustu.

Eitt af þeim nöfnum sem komu til greinar var fjárgæsla, sem væri tilvísun í boð Krists: „Gæt sauða minna.“18 Það hafði þó hið minnsta einn ókost: Að nota það hugtak hefði gert mig að þýskum smala. Ég er því nokkuð sáttur við hugtakið hirðisþjónusta.

Þetta verk er fyrir alla

Auðvitað er þessi áhersla ekki ný af nálinni. Hún er einungis nýtt og betra tækifæri til að fara að boði frelsarans um að „[elska] hver annan,“19 fáguð leið til að framkvæma og iðka ætlunarverk kirkjunnar.

Hugsið bara um trúboðsverk: Að miðla fagnaðarerindinu af hugrekki, auðmýkt og sjálfsöryggi, er dásamlegt fordæmi um þjónustu við andlegar þarfir annarra, hverjir sem þeir eru.

Að gera musterisverk er það líka – að finna nöfn áa sinna og gera þeim blessanir eilífðar mögulegar. Þvílíkt guðleg leið til að þjóna.

Hugleiðið þá gjörð að leita hinna fátæku og þurfandi, styrkja máttvana hendur eða blessa sjúka og aðþrengda. Er þetta ekki einmitt kjarni þeirrar þjónustu sem Drottinn innti af hendi er hann gekk um á jörðu?

Ég býð ykkur, sem ekki eruð meðlimir kirkjunnar, að „koma og sjá.“20 Komið og gangið til liðs við okkur. Ef þið eruð meðlimir kirkjunnar, en eruð ekki virk á þessari stundu, býð ég ykkur að koma til baka. Við þörfnumst ykkar!

Komið, leggið ykkar styrk við okkar.

Þið munið hjálpa okkur að verða betri og hamingjusamari, vegna ykkar sérstöku hæfileika, getu og persónuleika. Við munum þess í stað hjálpa ykkur að verða betri og hamingjusamari.

Komið og hjálpið okkur að byggja upp og styrkja menningu góðvildar, lækningar og miskunnar fyrir öll börn Guðs. Því við erum öll að reyna að verða nýsköpun, þar sem „hið gamla [verður] að engu“ og „nýtt er orðið til.“ 21 Frelsarinn sýnir okkur hvert á að stefna – áfram og upp. Hann segir: „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín.“22 Við skulum öll vinna saman að því að verða að því fólki sem Guð ætlaði okkur að verða.

Það er sú trúarmenning sem við þráum að leggja rækt við hvarvetna í kirkju Jesú Krists. Við reynum að styrkja kirkjuna sem stað þar sem við fyrirgefum hvert öðru. Þar sem við sigrumst á þeirri freistingu að slúðra og finna að og gera lítið úr öðrum. Þar sem við lyftum öðrum, í stað þess að benda á bresti, og hjálpum þeim að verða að því besta sem við getum orðið.

Ég ætla að bjóða ykkur aftur. Komið og sjáið. Gangið til liðs við okkur. Við þörfnumst ykkar.

Ófullkomið fólk

Þið munuð komast að því að þessi kirkja er fyllt einhverju besta fólki sem þessi heimur hefur að geyma. Það er félagslynt, ástúðlegt, vingjarnlegt og einlægt. Það er duglegt, fórnfúst og jafnvel stundum hetjulegt.

Það er líka hræðilega ófullkomið.

Það gerir mistök.

Stundum segir það eitthvað sem betur hefði mátt kyrrt liggja og það gerir hluti sem það sér eftir.

Því er þó þetta sameiginlegt – það vill bæta sig og komast nær Drottni, frelsara okkar, já Jesú Kristi.

Það reynir að ná réttum tökum á þessu.

Það trúir. Það elskar. Það gerir.

Það vill verða óeigingjarnara, samúðarfyllra, fágaðra, líkara Jesú.

Forskrift að hamingju

Já, lífið getur stundum verið erfitt. Vissulega eigum við öll okkar stundir örvæntingar og vonbrigða.

Fagnaðarerindi Jesú Krists vekur þó von. Í kirkju Jesú Krists komum við saman með öðrum sem leita staðar til að finna sig heimkomna – stað vaxtar, þar sem við getum trúað, elskað og gert saman.

Burt séð frá því sem skilur okkur að, þá reynum við að meðtaka hvert annað sem syni og dætur okkar kærleiksríka Guðs.

Ég er ólýsanlega þakklátur fyrir að vera meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og að vita að Guð elskar börn sín nægilega mikið til að sjá þeim fyrir forskrift að hamingju og lífstilgangi og leið til að upplifa eilífa gleði í dýrðarsölum komandi lífs.

Ég er þakklátur fyrir að Guð hefur séð okkur fyrir leið til að græða sálarangist og lífsins Weltschmerz.

Ég ber vitni um að við munum finna lækningu og frið, hamingju og lífstilgang, er við trúum á Guð, er við elskum hann og elskum börn hans, af öllu hjarta, og er við reynum að gera eins og Guð hefur boðið okkur. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Könnun á msn.com sýndi að Salómon hefði verið fimmti ríkasti maðurinn sem hefði lifað. „Samkvæmt Biblíunni, ríkti Salómon konungur frá 970 f.Kr. til 931 f.Kr. og á þessum tíma er sagt að hann hafi fengið í hendur 15 tonn af gulli á hverju ári í 39 ára stjórnartíð sinni, sem væri milljarða dollara virði árið 2016. Að meðtöldu hinu gífulega ríkidæmi sem honum hlotnaðist frá sköttum og viðskiptum, hefðu persónulegar eignir þessa forna konungs verið yfir 2. trilljóna dollara virði í nútíma peningum“ (“The 20 Richest People of All Time,” 25. apríl 2017, msn.com).

  2. Sjá Préd 1:1–2.

  3. Sjá Préd 2:17.

  4. Jóh 10:10.

  5. Post 10:38.

  6. Matt 12:15; sjá einnig Matt 15:30.

  7. Hugtakið fagnaðarerindi á rætur í grísku hugtaki sem bókstaflega merkir „góð tíðindi,“ (sjá Bible Dictionary, “Gospels”).

  8. Matt 16:25.

  9. Sjá Ese 36:26; Jer 24:7.

  10. 1 Ne 8:12.

  11. Hebr 11:6.

  12. Sjá 2 Ne 9:28.

  13. Sjá Jóh 15:16.

  14. Sjá Jakbr 4:8.

  15. Sjá 4 Ne 1:15–16.

  16. Alma 37:6.

  17. Aristotle trúði að „réttlátur maður verði til einungis af verkunum“ (The Nicomachean Ethics, þýtt af David Ross, uppfært af Lesley Brown [2009], 28).

  18. Sjá Jóh 21:15-17.

  19. Jóh 15:12.

  20. Jóh 1:39.

  21. 2 Kor 5:17.

  22. Jóh 14:15.