2010–2019
Staðföst og óhagganleg í trú á Krist
Október 2018


Staðföst og óhagganleg í trú á Krist

Staðföst og óhagganleg trú á Krist krefst þess að fagnaðarerindi Jesú Krists fylli hjarta okkar og sál.

Í Gamla testamentinu er sagt frá tímabilum er Ísraelsmenn heiðruðu sáttmála sinn við Jehóva og tilbáðu hann og öðrum tímabilum er þeir vanvirtu þann sáttmála og tilbáðu skurðgoð eða Balim.1

Stjórnartíð Akabs var eitt tímabil fráhvarfs í Norður-Ísraelsríki. Spámaðurinn Elía bauð Akab konungi eitt sinn að stefna Ísraelsmönnum, sem og spámönnum og prestum Baals, til Karmelfjalls. Þegar fólkið hafi safnast saman, sagði Elía við það: „Hversu lengi ætlið þér að haltra til beggja hliða? [eða með öðrum orðum: „Hvenær ætlið þið að gera varanlega upp hug ykkar?“] Sé Drottinn hinn sanni Guð, þá fylgið honum, en ef Baal er það, þá fylgið honum. En lýðurinn svaraði honum engu orði.“2 Elía bauð þá að bæði hann sjálfur og spámenn Baals hlutuðu naut í sundur og settu það á viðinn á sitthvort altarið, en „leggja eigi eld að.“3 „Ákallið síðan nafn yðar guðs, en ég mun ákalla nafn Drottins. Sá guð, sem svarar með eldi, er hinn sanni Guð. Þá svaraði allur lýðurinn og sagði: Þetta er vel mælt.“4

Þið munið að prestar Baals ákölluðu hástöfum falsguð sinn í margar klukkustundir um að senda niður eld, en „þar var steinhljóð og ekkert svar.“5 Þegar að Elía kom, reisti hann við niðurrifið altari Drottins, lagði viðinn og fórnina á það og bauð síðan að allt skildi ausið vatni, ekki einu sinni, heldur þrisvar. Augljóst var að hvorki hann, né nokkurt mannlegt vald gæti kveikt þar eld.

„En í það mund, er matfórnina skyldi fram bera, gekk Elía spámaður fram og mælti: Drottinn, Guð Abrahams, Ísaks og Ísraels! Lát í dag kunnugt verða, að þú ert Guð í Ísrael og ég þjónn þinn og að ég hefi gjört alla þessa hluti að þínu boði. …

Þá féll eldur Drottins niður og eyddi brennifórninni, viðnum, steinunum og grassverðinum, og vatnið í skurðinum þurrkaði hann einnig upp.

„Og er allur lýðurinn sá það, féllu þeir fram á ásjónur sínar og sögðu: Drottinn er hinn sanni Guð, Drottinn er hinn sanni Guð!“6

Í dag hefði Elía getað sagt:

  • Annaðhvort er himneskur faðir raunverulegur eða ekki, en sé hann raunverulegur, tilbiðjið hann þá.

  • Annaðhvort er Jesús Kristur sonur Guðs, hinn upprisni frelsari mannkyns, eða ekki, en sé hann það, fylgið honum þá.

  • Annaðhvort er Mormónsbók orð Guðs eða ekki, en sé hún það, „[komið þá] nær Guði með því að [lesa hana og] fara eftir kenningum hennar.“7

  • Annaðhvort sá Joseph Smith og ræddi við föðurinn og soninn á vordeginum árið 1820 eða ekki, en hafi hann gert það, fylgið þá hinni spámannlegu skipan og einnig lyklum innsiglunar, sem ég, Elía, fól honum.

Á síðustu aðalráðstefnu sagði Russell M. Nelson forseti: „Þið þurfið ekki að velta vöngum yfir því hvað er sannleikur [sjá Moró 10:5]. Þið þurfið ekki að velta vöngum yfir því hverjum má örugglega treysta. Fyrir tilstilli persónulegrar opinberunar, getið þið sjálf hlotið staðfestingu um að Mormónsbók er orð Guðs, að Joseph Smith er spámaður og að þetta er kirkja Drottins. Burt séð frá því hvað aðrir gætu sagt eða ekki sagt, þá getur engin afmáð staðfestingu sannleika sem á rætur í hjarta og huga.“8

Þegar Jakob lofaði að Guð „[gæfi] öllum [þeim] örlátlega og átölulaust“ sem leita visku hans,9 áminnti hann líka:

„En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.

Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla,

að hann fái nokkuð hjá Drottni.“10

Frelsari okkar var hins vegar fullkomið fordæmi um staðfestu: Hann sagði: „[Faðirinn] hefur ekki látið mig einan, því ég gjöri ætíð það sem honum þóknast.“11 Hugleiðið þessar frásagnir í ritningunum um karla og konur sem voru staðföst og óhagganleg, líkt og frelsarinn:

Þau „sem snúist höfðu til hinnar sönnu trúar og vildu ekki víkja frá henni, því að þeir voru staðfastir, trúir og óhagganlegir og fúsir til að halda boðorð Drottins af fullri kostgæfni.12

„Hugir þeirra eru staðfastir, og þeir [lögðu] traust sitt stöðugt á Guð.“13

„Og sjá. Þér vitið sjálfir, því að þér hafið orðið vitni að því, að jafn margir þeirra og leiddir hafa verið til vitneskju um sannleikann … eru ákveðnir og staðfastir í trúnni og því, sem gjört hefur þá frjálsa.“14

„Þeir ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.“15

Staðföst og óhagganleg trú á Krist krefst þess að fagnaðarerindi Jesú Krists fylli hjarta okkar og sál, sem merkir að fagnaðarerindið verði ekki aðeins einn áhrifaþáttur af mörgum í lífi einstaklings, heldur hið auðkennandi afl persónuleika hans og lífs. Drottinn sagði:

„Og ég mun gefa yður nýtt hjarta og leggja yður nýjan anda í brjóst, og ég mun taka steinhjartað úr líkama yðar og gefa yður hjarta af holdi.

Og ég mun leggja yður anda minn í brjóst og koma því til vegar, að þér hlýðið boðorðum mínum og varðveitið setninga mína og breytið eftir þeim.

Og þá munuð þér vera mín þjóð, og ég mun vera yðar Guð.“16

Þetta er sá sáttmáli sem við gerum í skírninni og með helgiathöfnum musterisins. Sumir hafa þó ekki enn tekið algjörlega á móti fagnaðarerindi Jesú Krists. Þótt Páll hafi sagt að slíkir væru „greftraðir með [Kristi] í skírninni,“ þá eru þeir ekki að „lifa nýju lífi, eins og Kristur var upp vakinn frá dauðum.“17 Þeir auðkennast ekki enn af fagnaðarerindinu. Þeir hafa Krist enn ekki að þungamiðju. Þeir eru vandlátir yfir kenningum og boðorðum sem þeir fylgja og hvernig og hvenær þeir þjóna í kirkjunni. Hins vegar, með því að halda sáttmála sína nákvæmlega, eru það „hinir kjörnu samkvæmt sáttmálanum“18 sem ekki láta blekkjast og eru staðfastir og óhagganlegir í Kristi.

Flest sjáum við okkur sjálf einhversstaðar á þeim skala að vera annars vegar félagslega örvuð af þátttöku í trúarsiðum og hins vegar að vera algjörlega kristilega skuldbundin vilja Guðs. Einhversstaðar á þessum skala ná hin góðu tíðindi fagnaðarerindis Jesú Krists að snerta hjörtu okkar og gegnsýra sál okkar. Það þarf ekki að gerast skyndilega, en við ættum öll að vera á leið að því blessunarríka ástandi.

Það er krefjandi en mikilvægt að við séum staðföst og óhagganleg er við erum hreinsuð „í brennsluofni þrengingarinnar,“19 nokkuð sem við öll upplifum fyrr eða síðar í jarðlífinu. Án Guðs geta þessar erfiðu upplifanir vakið örvæntingu, uppgjöf og jafnvel biturð. Með Guði kemur huggun í stað sársauka, friður í stað ófriðar og von í stað sorgar. Að vera staðfastur í trú á Krist, mun veita okkur lífgandi náð hans og liðsinni.20 Hann mun gera raunir að blessunum og með orðum Jesaja: „Gefa … höfuðdjásn í stað ösku.“21

Ég ætla að segja frá þremur dæmum sem ég þekki persónulega:

Kona nokkur þjáist af erfiðum þrálátum sjúkdómi, þrátt fyrir læknismeðferð, prestdæmisblessanir og föstu og bænir. Trú hennar er þó óskert á mátt bænarinnar og raunveruleika kærleika Guðs til hennar. Hún sækir fram dag fyrir dag (og stundum stund fyrir stund) og þjónar eins og henni er boðið og brosir eins og hún getur er hún annast ung börn sín, ásamt eiginmanni sínum. Hún hefur djúpa samúð með öðrum, í hreinsunareldi eigin þjáninga, og týnir sér oft í þjónustu við aðra. Hún sækir staðföst fram og fólk gleðst í návist hennar.

Karlmaður nokkur, sem ólst upp í kirkjunni, þjónaði í trúboði og giftist dásamlegri konur, furðaði sig á því er sum systkini hans tóku að gagnrýna kirkjuna og spámanninn Joseph Smith. Að nokkrum tíma liðnum yfirgáfu þau kirkjuna og reyndu að snúa honum frá kirkjunni. Eins og oft er raunin í slíkum tilvikum, rigndu þau yfir hann greinum, þáttum og myndböndum frá gagnrýnendum, sem flestir voru óánægðir fyrrverandi meðlimir kirkjunnar. Systkini hans hæddust að trú hans og sögðu hann auðtrúa og afvegaleiddan. Hann átti ekki svör við öllum fullyrðingum þeirra og draga tók úr trú hans við stöðugt andstreymið. Hann velti fyrir sér hvort hann ætti að sækja kirkju. Hann ræddi við eiginkonu sína. Hann ræddi við fólk sem hann bar traust til. Hann baðst fyrir. Er hann varð djúpt hugsi í þessu hugarstríði, mundi hann eftir því þegar hann hafði fundið fyrir heilögum anda og hlotið vitni andans um sannleikann. Hann dró þessa ályktun: „Ef ég á að vera alveg einlægur, verð ég að játa að andinn hefur snert mig oftar en einu sinni og að vitnisburður andans er raunverulegur.“ Hann er aftur hamingjusamur og friðsæll og deilir því með eiginkonu sinni og börnum.

Hjón nokkur sem af gleði og staðfestu hafa fylgt leiðsögn bræðranna, voru sorgmædd yfir því að hafa ekki eignast börn. Þau vörðu umtalsverðu fé í meðferð hæfra lækna og voru blessuð með syni að nokkrum tíma liðnum. Að ári liðnu gerðist þó sú hörmung að barnið lenti í slysi, sem engum var um að kenna, svo það fatlaðist og hlaut umtalsverðan heilaskaða. Barnið hefur hlotið bestu umönnun, en læknar geta ekki sagt til um hver þróun þess muni verða. Barnið, sem þessi hjón höfðu lagt svo mikið á sig við að koma í heiminn, hafði í vissum skilningi verið tekið frá þeim og þau vissu ekki hvort það kæmi til baka. Þau reyna nú að sinna nauðsynlegum þörfum barnsins samhliða öðrum ábyrgðarverkum sínum. Á þessum afar erfiða tíma hafa þau snúið til Drottins. Þau reiða sig á „hið daglega brauð“ sem hann gefur þeim. Þau fá aðstoð samúðarfullra vina og fjölskyldumeðlima og hljóta styrk af prestdæmisblessunum. Af þessu hafa þau orðið nánari, samlyndari og hugsanlega heilstæðari en ella hefði verið mögulegt.

Hinn 23. júlí 1837 veitti Drottinn Thomas B. Marsh, sem þá var forseti Tólfpostulasveitarinnar, opinberun. Efni hennar var meðal annars:

„Og bið fyrir bræðrum þínum af hinum tólf. Áminn þá af festu vegna nafns míns og lát ávíta þá fyrir allar syndir þeirra. Og ver þú nafni mínu trúr frammi fyrir mér.

Og eftir freistingar þeirra og mikið andstreymi, sjá, þá mun ég, Drottinn, leita þeirra, og ef þeir herða ekki hjörtu sín og gjörast ekki harðsvíraðir gegn mér, munu þeir snúast til trúar og ég mun lækna þá.“22

Ég trúi að sú forskrift sem fram kemur í þessum versum eigi við um okkur öll. Freistingarnar og þrengingarnar sem við upplifum, auk allra prófraunanna sem Drottni þóknast að leggja á okkur, geta leitt til fullnægjandi umbreytingar og lækningar. Það getur þó aðeins gerst, ef við herðum ekki hjörtu okkar eða verðum harðsvíruð gegn honum. Ef við verðum staðföst og óhagganleg, þá komi það sem koma má, og við munum ná þeirri trúarlegu umbreytingu sem frelsarinn vænti, er hann sagði við Pétur: „Styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við,“23 svo algjörri umbreytingu að henni verður ekki snúið til baka. Hin lofaða lækning er hreinsun og helgun sálar okkar sem er sköðuð af synd, að gera okkur heilög.

Upp í hugann kemur ráðgjöf móður minnar: „Borðaðu grænmetið. Það verður þér til góðs.“ Mæður okkar hafa rétt fyrir sér og í samhengi staðfastrar trúar, mætti líkja því að „borða grænmetið“ við að biðja án afláts, endurnærast daglega á ritningunum, þjóna og tilbiðja í kirkjunni, meðtaka sakramentið verðuglega í viku hverri, elska náunga sinn og taka upp kross sinn dag hvern af hlýðni við Guð.24

Hafið ætíð í huga loforðið um hið góða sem kemur, bæði hér og hér eftir, fyrir hina staðföstu og óhagganlegu í trú á Krist. Hafið í huga „eilíft líf og gleði heilagra.“25 „Ó lyftið höfðum yðar, allir þér, sem hjartahreinir eruð, og takið við hugljúfu orði Drottins og endurnærist af elsku hans, því að það getið þér að eilífu, sé hugur yðar staðfastur.“26 Í nafni Jesú Krists, amen.