2010–2019
Leggja grundvöll að miklu verki
Október 2018


Leggja grundvöll að miklu verki

Lexíurnar sem við kennum í gegnum þær heimilisvenjur sem við komum á, eru afar mikilvægar í heimi okkar, þótt smáar og einfaldar séu.

Við, sem foreldar í Síon, höfum þá helgu ábyrgð að vekja með börnum okkar eldmóð og trúfesti við gleði, ljós og sannleika fagnaðarerindis Jesú Krists. Við uppeldi barna okkar, komum við á venjum á heimilum okkar og reglum um samskipti og hegðun innan fjölskyldunnar. Í þeirri viðleitni ættu venjurnar sem við komum á að innræta börnum okkar sterka og staðfasta persónueiginleika gæsku og góðmennsku, sem gera þeim kleift að takast á við áskoranir lífsins.

Í mörg ár hefur fjölskylda mín notið þeirrar árlegu venju að fara í útilegu hátt upp í Uintah-fjöllum í norðausturhluta Utah. Við ökum 32 kílómetra á rykugum malarvegi inn í grænan og fallegan dal, með háum klettaveggjum, sem um rennur tær og köld á. Á hverju ári, í von um að staðfesta ennfrekar gildi kenningar fagnaðarerindisins í hjörtum barna okkar og barnabarna, biðjum ég og Susan hvern okkar sex sona og fjölskyldur þeirra að undirbúa stuttan boðskap um undirstöðu hins kristilega heimilis, sem þeim finnst mikilvægur. Við komum síðan saman á afskekktum stað og hver kynnir sinn boðskap.

Ljósmynd
Boðskapur ritaður á steina

Þetta árið rituðu barnabörn okkar efni boðskapar síns á steina og grófu þá síðan saman hvern af öðrum, til tákns um hina öruggu undirstöðu sem hamingjuríkt líf byggist á. Samofinn boðskapur allra sex var hinn óbreytanlegi eilífi sannleikur að Jesús Kristur er hornsteinn þeirrar undirstöðu.

Líkt og Jesaja sagði: „Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn svo: Sjá, ég legg undirstöðustein á Síon, traustan stein, óbifanlegan, ágætan hornstein. Sá sem trúir, er eigi óðlátur.“1 Jesús Kristur er þessi dýrmæti hornsteinn í undirstöðu Síonar. Það var hann sem opinberaði spámanninum Joseph Smith: „Þreytist þess vegna ekki á að gjöra gott, því að þér eruð að leggja grunninn að miklu verki. Og af hinu smáa sprettur hið stóra.“2

Lexíurnar sem við kennum í gegnum þær heimilisvenjur sem við komum á, eru afar mikilvægar í heimi okkar, þótt smáar og einfaldar séu. Hvað er hið smáa og einfalda, sem innrætt er börnum okkar, er getur komið miklu til leiðar í lífi þeirra?

Russel M. Nelson forseti talaði nýlega til fjölmenns safnaðar nærri Toronto, Kanada, og minnti foreldra einlæglega á þá helgu ábyrgð þeirra að kenna börnum sínum. Af mörgum auðkenndum ábyrgðarverkum okkar, lagði Nelson forseti áherslu á þá skyldu foreldra að kenna börnum sínum ástæðu þess að við meðtökum sakramentið, merkingu þess að fæðast í sáttmálanum, mikilvægi þess að búa sig undir og taka á móti patríarkablessun og vera leiðandi í því að lesa saman ritningarnar sem fjölskylda.3 Okkar ástkæri spámaður hvetur okkur til alls þessa og að gera heimili okkar að „helgistað trúar.“4

Í Mormónsbók segir Enos frá sínu mikla þakklæti fyrir fordæmi föður síns, því „hann kenndi [honum] á tungu sinni og fræddi [hann] einnig um umhyggju og áminningar Drottins.“ Af mikilli tilfinningu sagði Enos: „Og blessað sé nafn Guðs míns fyrir það.“5

Ég ann hinum smáu og einföldu venjum sem við höfum innleitt í fjölskyldu okkar í okkar 35 ára hjónabandstíð. Margar venjur okkar eru smáar en samt mikilvægar. Dæmi:

  • Á kvöldin, er ég var að heiman, vissi ég alltaf að elsti sonur okkar tæki að sér að leiða fjölskylduna, undir leiðsögn Susan, í ritninganámi og fjölskyldubæn.6

  • Önnur venja – við förum aldrei að heiman eða ljúkum símtali án þess að segja: „Ég elska þig.“

  • Við höfum notið blessana af því að ræða reglubundið við hvern sona okkar persónulega. Í einu slíku viðtali spurði ég son minn um þrá hans og undirbúning til að þjóna í trúboði. Eftir nokkrar umræður varð hann þögull og íhugull um stund, síðan hallaði hann sér fram og sagði af íhygli: „Pabbi, manstu eftir því er við byrjuðum þessi viðtöl þegar ég var lítill?“ „Já,“ sagði ég. Hann sagði: „Ég lofaði þér þá að þjóna í trúboði og þú og mamma hétuð mér að þið færuð í trúboð er þið yrðuð eldri.“ Nú varð önnur þögul stund. „Er einhvað sem kemur í veg fyrir að þið getið þjónað – ef svo er, gæti ég kannski hjálpað ykkur?“

Reglulegar, heilbrigðar fjölskylduvenjur, sem fela í sér bæn, ritningalestur, fjölskyldukvöld og kirkjusókn, stuðla að kærleika, virðingu, einingu og öryggi, þótt þær virðast smáar og einfaldar. Börn okkar hafa, fyrir þann anda sem af þessu stafar, notið verndar frá glóandi örvum andstæðingsins, sem eru svo inngrónar í heimsmenningu okkar tíma.

Við erum minnt á hin vitru orð Helamans til sona sinna: „Munið og hafið hugfast, að það er á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs, sem þið verðið að byggja undirstöðu ykkar. Að þegar djöfullinn sendir sína voldugu storma, já, spjót sín í hvirfilvindinum, já, þegar allt hans hagl og voldugur stormur bylur á ykkur, mun það ekkert vald hafa til að draga ykkur niður í djúp vansældar og óendanlegs volæðis, vegna þess að það bjarg, sem þið byggið á, er öruggur grundvöllur, og ef menn byggja á þeim grundvelli, geta þeir ekki fallið.“7

Fyrir mörgum árum, er ég var ungur og þjónaði sem biskup, bað eldri maður mig að ræða við sig. Hann lýsti brotthvarfi sínu úr kirkjunni og réttlátum venjum foreldra sinna í æsku hans. Hann lýsti nákvæmlega sorginni sem hann upplifði er hann reyndi árangurslaust að leita varanlegrar gleði í stundaránægju heimsins. Nú, á efri árum, upplifði hann hina ljúfu og hljóðu og stundum seiðandi rödd anda Guðs, sem rifjaði upp fyrir honum kennslu, trúariðkanir, tilfinningar og hið andlega öryggi æskuára hans. Hann lét þakklæti í ljós fyrir venjur foreldra sinna og endurómaði á nútíma máli orð Enos: „Blessað sé nafn Guðs míns fyrir það.“

Að mínu viti, er viðsnúningur þessa kæra manns til fagnaðarerindisins dæmigerður fyrir marga og á sér oft stað meðal þeirra barna Guðs sem um tíma fara frá, einungis til að snúa aftur til kennslu og trúariðkunar æskuára sinna. Á slíkum stundum verðum við vitni að viskuorðum Orðskviðanna, sem brýna fyrir foreldrum: „Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“8

Allir foreldrar upplifa stundir vonbrigða og allan skala staðfestu og styrks við uppeldi barna sinna. Þegar foreldrar hins vegar iðka trú með því að kenna börnum sínum stöðugt, einlæglega og ástúðlega og gera allt sem þau geta til að liðsinna þeim áfram, hljóta þeir aukna von um að sáðkornin munu taka að skjóta rótum í hjarta og huga barna sinna.

Móse skildi vel algjöra nauðsyn þess að kenna stöðugt og endurtekið. Hann leiðbeindi: „Þú skalt brýna [þessi orð] fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“9

Við krjúpum við hlið barna okkar í fjölskyldubæn, við sýnum þeim umhyggju með því að hafa innihaldsríkan ritningalestur, við sýnum þeim umhyggju og þolinmæði er við tökum saman þátt í fjölskyldukvöldi og við úthellum sál okkar í þeirra þágu á hnjánum í einkabænum okkar til himins. Hve við þráum að sáðkornin sem við höfum sáð taki að skjóta rótum í huga og hjarta barna okkar.

Ég held að það sé síður mikilvægara hvort börn okkar séu að „ná þessu“ í kennslu okkar, en að við séum að reyna að lesa ritningarnar eða hafa fjölskyldukvöld eða sækja ungmennafélagið og aðrar kirkjusamkomur. Það er síður mikilvægara að þau skilji á þessum stundum mikilvægi þessara athafna, en að við sem foreldrar séum að iðka nægilega trú til að fylgja leiðsögn Drottins um að lifa af kostgæfni eftir fagnaðarerindi Jesú Krists, kenna, áminna og gera væntingar sem eru innblásnar af því. Það er viðleitni knúin af trú – trú um að dag einn muni sáðkornin sem sáð voru í æsku þeirra taka að skjóta rótum, spíra og vaxa.

Það sem við tölum um og prédikum og kennum, ákvarðar það sem gerist meðal okkar. Þegar við komum á heilbrigðum venjum, sem kenna kenningar Krists, mun heilagur andi bera vitni um sannleiksgildi boðskapar okkar og næra hin trúarlegu sáðkorn sem hafa verið gróðursett djúpt í hjörtum barna okkar, fyrir stöðuga viðleitni okkar. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Jes 28:16.

  2. Kenning og sáttmálar 64:33.

  3. Sjá Neil L. Andersen’s Facebook síða, póstað 19. ágúst 2018, facebook.com/lds.neil.l.andersen.

  4. Í Sarah Jane Weaver, “President Nelson Urges ‘Teach the Children,’” Church News, 23. sept. 2018, 11.

  5. Enos 1:1.

  6. Sjá Dallin H. Oaks, “Priesthood Authority in the Family and the Church,” Liahona, nóv. 2005, 24–27.

  7. Helaman 5:12.

  8. Okv 22:6.

  9. 5 Mós 6:7.