2010–2019
Allir verða að taka á sig nafnið gefið af föðurnum
Október 2018


Allir verða að taka á sig nafnið gefið af föðurnum

Í nafni frelsarans býr einstakur og nauðsynlegur máttur. Það er aðeins það nafn sem gerir sáluhjálp mögulega.

Fyrir fáeinum vikum tók ég þátt í skírn nokkurra átta ára barna. Þau höfðu byrjað að læra um fagnaðarerindi Jesú Krists af foreldrum sínum og kennurum. Sáðkorn trúar á hann hafði tekið að spíra. Þau vildu nú fylgja honum ofan í skírnarvatnið, til að verða meðlimir í endurreistri kirkju hans. Þegar ég sá tilhlökkun þeirra, velti ég fyrir mér skilningi þeirra á einum mikilvægasta hluta skírnarsáttmálans: Þeirri skuldbindingu að taka á sig nafn Jesú Krists.

Allt frá upphafi hefur Guð lýst yfir sérstöðu nafns Jesú Krists í áætlun hans fyrir okkur. Engill kenndi fyrsta forföður okkar, Adam: „Þú [skalt] gjöra allt, sem þú gjörir, í nafni sonarins, og þú skalt iðrast og ákalla Guð í nafni sonarins að eilífu.“1

Benjamín konungur, spámaður í Mormónsbók, kenndi fólki sínu: „Ekkert annað nafn verður gefið og engin önnur leið eða aðferð, sem fært [getur] … sáluhjálp.“2

Drottinn lagði ennfrekari áherslu á þennan sannleika við spámanninn Joseph Smith: Sjá, Jesús Kristur er það nafn, sem faðirinn gefur, og ekkert annað nafn er gefið, sem frelsað getur manninn.“3

Á okkar tíma hefur Dallin H. Oaks forseti kennt að „þeir sem iðka trú á hið heilaga nafn Jesú Krists … taka á sig sáttmála hans … geta gert kröfu á friðþægingu Jesú Krists.“4

Faðir okkar á himnum vill gera okkur algjörlega ljóst að nafn sonar hans, Jesú Krists, er ekki bara eitt nafn af mörgum. Í nafni frelsarans býr einstakur og nauðsynlegur máttur. Það er aðeins það nafn sem gerir sáluhjálp mögulega. Okkar kærleiksríki himneski faðir fullvissar öll börn sín um að hægt sé að komast aftur til hans, með því að leggja áherslu á þennan sannleika á öllum ráðstöfunartímum. Að leiðin sé þegar greið, merkir þó ekki að við snúum sjálfkrafa til baka. Guð segir að við þurfum að láta verkin tala: „Þess vegna verða allir menn að taka á sig það nafn, sem faðirinn hefur gefið.“5

Til þess að fá aðgang að hinum frelsandi áhrifum sem einungis fást fyrir nafn Krists, verðum við að „auðmýkja [okkur sjálf] fyrir Guði og … koma með sundurkramin hjörtu og sáriðrandi anda og … [vera fús] til að taka á [okkur] nafn Jesú Krists,“ og gera okkur þannig hæf, líkt og hinir átta ára vinir mínir, til að „[vera tekin] með skírn inn í kirkju hans.“6

Allir sem af einlægni þrá að taka á sig nafn frelsarans, verða að gera sig hæfa fyrir og taka á móti helgiathöfn skírnar, sem er líkamleg staðfesting fyrir Guði um ákvörðun þeirra.7 Skírnin er þó aðeins upphafið.

Hugtakið að taka er ekki hlutlaust. Það felur í sér verknað og margþætta merkingu.8 Á líkan hátt, felur skuldbindingin um að taka á sig nafn Jesú Krists í sér verknað og margþættan skilning.

Ein merking hugtaksins að taka er t.d. að meðtaka af eða setja ofan í líkama sinn, t.d. er við tökum og súpum á drykk. Með því að taka á okkur nafn Krists, skuldbindum við okkur til að taka á móti kenningum hans, eiginleikum og að lokum elsku, djúpt í sálarvitund okkar, svo það geti orðið hluti af því sem við erum. Af þeim sökum er boð Nelsons forseta til unga fólksins mikilvægt, um að það „[reyni] af ítrustu kostgæfni að skilja merkingu allra hinna mörgu nafna [frelsarans] og hvaða þýðingu þau hafi fyrir [þau] persónulega9 og að það endurnærist á orðum Krists í ritningunum, einkum í Mormónsbók.10

Önnur merking hugtaksins að taka er að meðtaka einstakling í hans sérstaka hlutverki eða meðtaka sannleiksgildi hugmyndar eða reglu. Þegar við tökum á okkur nafn Krists, meðtökum við hann sem frelsara okkar og tileinkum okkur stöðugt kenningar hans, okkur til leiðsagnar í lífinu. Við getum meðtekið fagnaðarerindi hans sem sannleika, í öllum ákvörðunum sem við tökum, og lifað hlýðin eftir honum af öllu hjarta, mætti, huga og styrk.

Hugtakið að taka getur líka merkt að samhæfa sig nafni eða málstað. Flest höfum við upplifað að taka á okkur ábyrgð á vinnustaðnum eða taka upp málstað eða stefnu. Þegar við tökum á okkur sjálf nafn Krists, tökum við á okkur ábyrgð hins sanna lærisveins, við höldum málstað hans á lofti og „[stöndum] sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem [við kunnum] að vera.“11 Nelson forseti hefur boðið að „sérhver stúlka og sérhver piltur … skrái sig í liðsveit æskufólks Drottins, til að hjálpa til við samansöfnuð Ísraels.“12 Öll erum við þakklát fyrir að geta brugðist við því spámannlega ákalli að játa nafn hans endurreistu kirkju, eins og frelsarinn hefur sjálfur opinberað það: Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.13

Við verðum að skilja, er við tökum á okkur nafn frelsarans, að málstaður Krists og kirkju hans er einn og hinn sami. Hann getur ekki verið tvískiptur. Á líkan hátt, verður persónuleg lærisveinstryggð okkar við frelsarann ekki aðskilinn frá aðild okkar að kirkjunni. Ef við bregðumst í tryggð okkar við annað, mun það koma niður á tryggð við hitt, jafn örugglega og nótt fylgir degi.

Sumir eru ófúsir til að taka á sig nafn Jesú Krists og málstað hans, því þeir álíta hann óþarflega þröngan, takmarkaðan og einhæfan. Í raun er það bæði frelsandi og útvíkkandi að taka á sig nafn Krists. Það vekur upp þá þrá sem við fundum er við gengumst við áætlun Guðs fyrir trú á frelsarann. Við getum uppgötvað raunverulegan tilgang guðsgjafa okkar og hæfileika, sé sú þrá virk í hjörtum okkar, og upplifað umvefjandi elsku hans og vaxandi umhyggju fyrir velferð annarra. Þegar við tökum á okkur nafn frelsarans, gerum við kröfu til alls þess sem er gott og verðum líkari honum.14

Mikilvægt er að hafa í huga að það er sáttmálsheit að taka á sig nafn frelsarans – sem hefst með sáttmálanum sem við gerum við skírnina. Nelson forseti kenndi: „Skuldbinding [okkar] um að fylgja frelsaranum, með því að gera sáttmála við hann og síðan að halda þá sáttmála, mun ljúka upp dyrum sérhverrar andlegrar blessunar og forréttinda.“15 Að taka á sig nafn frelsarans með skírn, veitir líka undursamleg forréttindi að næstu helgiathöfn á sáttmálsveginum, staðfestingu okkar. Þegar ég eitt sinn spurði eina átta ára gamla vinkonu mína, að því hvaða merkingu það hefði fyrir hana að taka á sig nafn Krists, svaraði hún einfaldlega: „Það merkir að ég get haft heilagan anda með mér.“ Hún hafði á réttu að standa.

Gjöf heilags anda hlýst með staðfestingu, eftir að við höfum tekið á móti helgiathöfn skírnar. Þessi gjöf veitir rétt og tækifæri til að hafa heilagan anda sem stöðugan förunaut. Ef við hlustum á og hlýðum hinni hljóðu og kyrrlátu rödd, mun hann halda okkur á sáttmálsveginum sem við fórum inn á með skírn, aðvara okkur er við freistumst til að fara út af honum og hvetja okkur til að iðrast og bæta okkur. Að skírn lokinni keppum við að því að hafa heilagan anda alltaf með okkur, svo við getum haldið áfram að þróast á sáttmálsveginum. Heilagur andi getur aðeins verið með okkur að svo miklu leyti sem við viðhöldum eigin hreinleika og erum laus við synd.

Af þessari ástæðu, hefur Drottinn séð okkur fyrir leið til að endurnýja stöðugt hin hreinsandi áhrif skírnar okkar, með annarri helgiathöfn – sakramentinu. Í hverri viku getum við „[vitnað um] … að [við séum] fús til að taka á [okkur] nafn [sonarins]16 aftur, með því að rétta út hönd og taka á móti táknunum um hold og blóð Drottins – brauðinu og vatninu – og meðtaka af þeim ofan í sál okkar. Á móti gerir frelsarinn aftur kraftaverk hreinsunar og gerir okkur hæf til að njóta áfram áhrifa heilags anda. Er þetta ekki staðfesting um hina óendanlegu miskunn sem aðeins fæst í nafni Jesú Krists? Líkt og við tökum nafn hans á okkur, tekur hann okkar syndir og sorgir á sig og hönd hans er „ennþá útrétt“17 til að umlykja okkur hans elskandi örmum.18

Sakramentið er vikuleg áminning um að það er lífgandi og látlaus skuldbinding að taka á sig nafn Jesú Krists, en ekki einn einstæður atburður sem gerist við skírn okkar.19 Við getum stöðugt og endurtekið glaðst yfir „hinni helgu fórn, sem menn fá lítt skilið, að greitt var fyrir syndir, svo taka mætti af holdi hans og blóði.“20 Það skal því engan undra að börn Guðs gleðjist og þrái ætíð að gera sáttmála við Guð sinn, í hvert sinn sem þau skilja hinar miklu andlegu blessanir, sem bundnar eru því að taka á sig nafn Krists.21

Þegar við fylgjum þessum guðlega fyrirbúna sáttmálsvegi, mun skuldbinding okkar og viðleitni til að taka á okkur nafn Jesú Krists, veita okkur mátt til að „varðveita ætíð nafnið [hans] í hjörtum [okkar].“22 Við munum elska Guð og náunga okkar og finna þrá til að þjóna þeim. Við munum halda boðorð hans og þrá að komast nær honum, með því að gera fleiri sáttmála við hann. Þegar okkur finnst við vera vanmáttug og óhæf til að breyta að þrá okkar, munum við biðja um styrk, sem aðeins veitist fyrir nafn hans og hann mun liðsinna okkur. Á degi komandi tíðar munum við svo sjá hann, ef við stöndumst staðfastlega, og vera með honum og finna að við erum orðin eins og hann er, sem gerir okkur kleift að snúa aftur til dvalar í návist föðurins.

Loforð frelsarans er öruggt: Þeir sem „trúa á nafn Jesú Krists og tilbiðja föðurinn í hans nafni og standa stöðugir í trú á nafn hans allt til enda,“23 munu frelsast í Guðs ríki. Ég gleðst með ykkur yfir því að þessar óviðjafnanlegu blessanir eru gerðar mögulegar með því að taka á sig nafn Jesú Krists, sem ég ber vitni um og í hvers nafni ég vitna, amen.

Heimildir

  1. HDP Móses 5:8.

  2. Mósía 3:17.

  3. Kenning og sáttmálar 18:23.

  4. Dallin H. Oaks, “Taking upon Us the Name of Jesus Christ,” Ensign, maí 1985, 82.

  5. Kenning og sáttmálar 18:24; skáletrað hér.

  6. Kenning og sáttmálar 20:37; skáletrað hér.

  7. Dallin H. Oaks forseti kenndi: „Við tökum á okkur nafn frelsarans þegar við verðum meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. … Sem sannir trúaðir í Kristi, sem kristnir, tökum við nafn hans á okkur af gleði“ (“Taking upon Us the Name of Jesus Christ,” 80).

  8. Í netorðabókinni Merriam-Webster eru 20 mismunandi skilgreiningar á merkingu áhrifssagnorðsins taka, sem er merking sagnorðsins í orðtakinu „taka á sig nafn Jesú Krists“ (sjá merriam-webster.com/dictionary/take).

  9. Russell M. Nelson, “Prophets, Leadership, and Divine Law” (heimslæg trúarsamkoma fyrir ungt fólk, 8. jan. 2017), broadcasts.lds.org.

  10. Sjá Russell M. Nelson, “The Book of Mormon: What Would Your Life Be Like without It? Liahona, nóv. 2017, 60–63.

  11. Mósía 18:9

  12. Russell M. Nelson, “Hope of Israel” (worldwide youth devotional, 3. júní 2018), hopeofisrael.lds.org.

  13. „Drottinn hefur vakið upp í huga mínum mikilvægi þess nafns sem hann hefur opinberað fyrir kirkjuna sína, já, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Við höfum verk að vinna, að laga okkur að vilja hans“ (Russell M. Nelson, “The Name of the Church” [opinber yfirlýsing, 16. ágúst 2018], mormonnewsroom.org).

  14. Sjá Moró 7:19.

  15. Russell M. Nelson, “As We Go Forward Together,” Liahona, apríl 2018, 7.

  16. Kenning og sáttmálar 20:77; skáletrað hér.

  17. 3 Ne 9:14; sjá einnig Alma 5:33-34.

  18. Sjá 2 Ne 1:15.

  19. „Þegar við staðfestum fúsleika okkar til að taka á okkur nafn Jesú Krists, erum við að skuldbinda okkur til að gera allt sem við getum til að öðlast eilíft líf í ríki föður okkar. Við erum að sýna fúsleika okkar – staðfestan hug til að keppa að – upphafningu í himneska ríkinu. …

    „… Það sem við staðfestum, er ekki það að við tökum á okkur nafn hans, heldur að við séum fús til að gera það. Í þeim skilningi vísar staðfesting okkar til einhvers framtíðaratburðar eða stöðu sem ekki hlýst sjálfkrafa eða er sjálfgefin, heldur er það bundið vilja og ákvörðun frelsarans sjálfs“ (Dallin H. Oaks, “Taking upon Us the Name of Jesus Christ,” 82, 83).

  20. “O God, the Eternal Father,” Hymns, nr. 175.

  21. Sjá Mósía 5; 6; 18; 3 Ne 19.

  22. Mósía 5:12.

  23. Kenning og sáttmálar 20:29.