2010–2019
Gleði óeigingjarnar þjónustu
Október 2018


Gleði óeigingjarnar þjónustu

Við höfum lofað föður okkar á himnum að þjóna honum og öðrum af elsku og að gera vilja hans í öllu.

Að lokinni síðustu aðalráðstefnu, komu margir til mín og spurðu sömu spurningar: „Eru þessi sæti þægileg?“ Í hvert sinn var svar mitt hið sama: „Þeir væru afar þægilegir, ef maður þyrfti ekki að flytja ræðu.“ Það er rétt, ekki satt? Sætið mitt hefur ekki verið svo þægilegt þessa ráðstefnu, en ég er sannlega þakklát fyrir þá blessun og þann heiður að fá að tala til ykkar í kvöld.

Stundum fáum við að sitja í hinum ýmsu sætum þegar við þjónum. Sum eru nokkuð þægileg og önnur ekki, en við höfum lofað föður okkar á himnum að þjóna honum og öðrum af elsku og að gera vilja hans í öllu.

Fyrir nokkrum árum lærði unga fólkið í kirkjunni að „er þér ,gangið í þjónustu Guðs’ [Kenning og sáttmálar 4:2], tökumst við á hendur dásamlegustu ferð allra. Þið eruð að flýta verki Guðs og það er dásamleg og gleðileg upplifun.“1 Það er ferð sem öllum stendur til boða – á öllum aldri – og er líka ferð á því sem okkar ástkæri spámaður hefur nefnt „sáttmálsveginn.“2

Við lifum þó því miður í eigingjörnum heimi, þar sem fólk spyr í sífellu: „Hvað fæ ég út úr þessu?“ í stað þess að spyrja: „Hverjum get ég hjálpað í dag?“ eða „hvernig get ég þjónað Drottni betur í köllun minni“ eða „er ég að gera mitt besta fyrir Drottin?“

Ljósmynd
Systir og bróðir Antonietti
Ljósmynd
Victoria Antonietti

Dásamlegt dæmi um óeigingjarna þjónustu í lífi mínu, er systir Victoria Antonietti. Victoria var einn af kennurum Barnafélagsins í greininni minni á uppvaxtarárum mínum í Argentínu. Á hverju þriðjudagssíðdegi, er við komum saman í Barnafélaginu, kom hún með súkkulaðiköku. Allir elskuðu kökuna – allir nema ég. Ég hataði súkkulaðiköku! Þótt hún hefði reynt að gefa mér af kökunni, hafnaði ég alltaf boði hennar.

Dag einn, eftir að hún hafði gefið hinum krökkunum súkkulaðikökuna, spurði ég: „Af hverju kemurðu ekki með annað bragð – eins og appelsínu eða vanillu?“

Eftir að hafa hlegið aðeins, sagði hún: „Af hverju færðu þú þér ekki smá bita? Þessi kaka er búin til úr sérstöku hráefni og ef þú smakkar hana, lofa ég að þér mun finnast hún góð!“

Ég leit í kringum mig og mér til undrunar virtust allir njóta kökunnar. Ég samþykkti að smakka. Hvað haldið þið að hafi gerst? Mér fannst hún góð! Þetta var í fyrsta sinn sem ég naut þess að borða súkkulaðiköku.

Það var svo ekki fyrr en mörgum árum síðar að ég komst að því hvaða leyniefni systir Antonietti notaði í kökuna. Ég og börnin mín heimsóttum móður mína í hverri viku. Í einni slíkri heimsókn gæddum ég og móðir mín okkur á súkkulaðiköku og ég sagði henni frá því hvernig ég komst fyrst á bragðið með kökuna. Hún sagði mér síðan það sem í söguna vantaði.

„Sjáðu til,“ sagði móðir mín, „Victoria og fjölskyldan hennar höfðu ekki úr miklu að moða og í hverri viku þurfti hún að velja á milli þess að borga í strætó fyrir sig og fjögur börn sín í Barnafélagið eða kaupa hráefni til að baka súkkulaðiköku fyrir námsbekkinn sinn í Barnafélaginu. Hún tók alltaf súkkulaðikökuna fram yfir strætóinn og hún og börnin hennar gengu ríflega [3 kílómetra] hvora leið, hvernig sem viðraði.“

Þennan dag kunni ég enn betur að meta súkkulaðikökuna hennar. Það sem var meira um vert, þá komst ég að því að leyniefnið í köku Victoriu var kærleikur hennar til þeirra sem hún þjónaði og óeigingjörn fórn hennar í okkar þágu.

Þegar ég hugsa til baka um kökunna hennar Victoriu, vaknar hugsun um ódauðlega kennslu frelsarans um óeigingjarna fórn, er hann gekk á móts við fjárhirslu musterisins. Þið þekkið söguna. Öldungur James E. Talmage kenndi að hirslurnar hefðu verið 13 „og fólk gefið í þær í eyrnamerktum [ólíkum] tilgangi, sem tilgreindur var á hverri hirslu. Jesús fylgdist með röðum þeirra sem gáfu í hirslurnar og var þar fjöldi ólíkra einstaklinga. Sumir gáfu af „einlægum ásetningi,“ en aðrir létu klingja í „miklum upphæðum gulls og silfurs,“ í von um eftirtekt og skjall fyrir gjöf sína.

„Meðal hinna mörgu var blásnauð ekkja, sem … lét í eina hirsluna tvo smápeninga, kallaða mítur. Framlag hennar var minna virði en sem nemur hálfu senti bandarísks gjaldmiðils. Drottinn kallaði til sín lærisveina sína, beindi athygli þeirra að hinni blásnauðu ekkju og góðverki hennar og sagði: ,Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.‘ [Mark 12:43–44].“3

Ljósmynd
Eyrir ekkjunnar

Ekkjan virtist ekki hafa mikilvæga stöðu í samfélagi þess tíma. Hún bar þó annað mikilvægara með sér. Ásetningur hennar var einlægur og hún gaf allt sem hún átti til að gefa. Hún gaf kannski minna en aðrir og var látlausari og öðruvísi. Í augum sumra var gjöf hennar ómerkileg, en í augum frelsarans, sem „greinir hugsanir og áform hjartans,“4 gaf hún allt sitt.

Systur, gefum við Drottni allt okkar skilyrðislaust? Erum við að gefa af tíma okkar, svo að hin upprennandi kynslóð fái lært að elska Drottin og haldið borðorð hans? Erum við að þjóna bæði þeim sem umhverfis okkur eru og þeim sem okkur er úthlutað af umhyggju og kostgæfni – að helga þeim tíma og orku sem hægt væri að nota í öðrum tilgangi? Erum við að lifa eftir æðstu boðorðunum tveimur – að elska Guð og elska börn hans?5 Oft staðfestist sú elska í þjónustu.

Dallin H. Oaks forseti kenndi: „Frelsari okkar helgaði sig óeigingjarnri þjónustu. Hann bauð öllum að fylgja sér með því að láta af eigingjörnum áhugamálum og þjóna öðrum þess í stað.

Hann hélt áfram:

„Kunnuglegt dæmi um að týna sjálfum sér í þjónustu annarra … er sú fórn sem foreldrar færa í þágu barna sinna. Mæður upplifa sársauka og verða af eigin áhugamálum og þægindum við burð og uppeldi hvers barns. Feður breyta eigin lífi og forgangi til að styðja fjölskylduna. …

… Við gleðjumst líka yfir þeim sem annast fatlaða fjölskyldumeðlimi og aldraða foreldra. Engin sem þjónar þannig spyr: Hvað fæ ég út úr þessu? Allt þetta krefst þess að persónuleg þægindi víki fyrir óeigingjarnri þjónustu. …

Allt þetta felur líka í sér hina eilífu reglu að við verðum hamingjusamari og ánægðari í verkum okkar og þjónustu með því að gefa, en ekki að þiggja.

Frelsari okkar býður okkur að fylgja sér með því að færa nauðsynlegar fórnir til að týna okkur í óeigingjarnri þjónustu við aðra.“6

Thomas S. Monson forseti kenndi einnig: „Þegar við verðum augliti til auglitis við skapara okkar, verðum við kannski ekki spurð: ,Hversu mörgum stöðum gegndir þú,‘ heldur fremur: ,Hversu mörgum komst þú til hjálpar?‘ Í raun getið þið aldrei elskað Drottinn fyrr en þið takið að þjóna honum með því að þjóna fólki hans.“7

Með öðrum orðum, systur, þá skiptir ekki máli hvort við sitjum í þægilegu sæti eða reynum að þrauka í gegnum samkomuna á gömlum fellingastól í öftustu röð. Það skiptir jafnvel ekki máli þótt við skryppum í anddyrið til að hugga grátandi barn, ef nauðsyn krefði. Það sem skiptir máli er að við komum af þrá til að þjóna, að við sýndum þeim athygli sem við þjónum og heilsuðum þeim fagnandi og kynntum okkur fyrir þeim sem sitja með okkur í fellingarstólaröðinni – að við sýndum vináttu, jafnvel þótt okkur hafi ekki verið úthlutað að þjóna þeim. Það skiptir líka miklu máli að við gerum allt sem við gerum með hinu sérstaka hráefni þjónustu, blandað elsku og fórnfýsi.

Ég hef komist að því að við þurfum ekki að baka súkkulaðiköku til að verða góðir eða árangursríkir Barnafélagskennarar, því þetta snérist ekki um kökuna. Það var kærleikurinn sem fólst í verkinu.

Ég ber vitni um að slík elska helgast af fórninni – fórn kennara og jafnvel enn meira af hinni eilífu lokafórn sonar Guðs. Ég ber vitni um að hann lifir! Ég elska hann og þrái að láta af eigingjörnum þrám til að geta elskað og þjónað eins og hann gerir. Í nafni Jesú Krists, amen.