2010–2019
Kom, heyrið spámann hefja raust
Október 2018


Kom, heyrið spámann hefja raust

Ef við tileinkum okkur af kostgæfni þann vana að hlusta á og hlíta rödd hins lifandi spámanns, munum við uppskera eilífar blessanir.

Drottinn sagði varðandi forseta Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu:

„Og enn fremur, skylda forseta hins háa prestdæmisembættis er að vera í forsæti allrar kirkjunnar, og vera líkt og Móse–

… Já, að vera sjáandi, opinberari, þýðandi og spámaður, og njóta allra gjafa Guðs, sem hann veitir yfirmanni kirkjunna“ (Kenning og sáttmálar 107:91–92; leturbreyting hér).

Ég hef hlotið þá blessun að sjá sumar gjafir Guðs til handa spámönnum hans. Má ég deila einni slíkri heilagri reynslu með ykkur? Áður en ég hlaut mína núverandi köllun, aðstoðaði ég við að finna og mæla með mögulegum musterislóðum. Eftir 11. september 2011, varð eftirlit við landamæri Bandaríkjanna stóreflt. Af því leiddi að það tók marga kirkjumeðlimi tvo til þrjá klukkutíma að komast yfir frá Vancouver, Kanada á för þeirra til Seattle-musterisins í Washington. Gordon B. Hinckley forseti, sem var forseti kirkjunnar á þeim tíma, benti á að musteri í Vancouver yrði meðlimum kirkjunnar til blessunar. Lóðarleit var heimiluð og eftir að við höfðum skoðað nokkrar lóðir í eigu kirkjunnar, voru aðrar lóðir skoðaðar, sem ekki voru í eigu kirkjunnar.

Falleg lóð fannst á trúalegu svæðisskipulagi við hlið kanadísku hraðbrautarinnar. Lóðin hafði mjög gott aðgengi, var þakin kanadískum furutrjám og var á mjög áberandi stað, þar sem það yrði sjáanlegt þúsundum ökumanna sem fóru um.

Við kynntum lóðina með ljósmyndum og kortum á hinum mánaðarlega fundi Musterislóða- og bygginganefndar. Hinckley forseti veitti leyfi fyrir því að við gerðum samning og lykjum nauðsynlegum rannsóknum. Í desember á sama ári greindum við nefndinni frá því að öllum vettvangsrannsóknum væri lokið og báðum um leyfi til að ganga frá kaupunum. Eftir að hafa hlýtt á greinargerð okkar, sagði Hinckley forseti: „Mér finnst að ég ætti að líta á lóðina.“

Síðar þennan mánuð, tveimur dögum eftir jól, fórum við til Vancouver, ásamt Hinckley forseta, Thomas S. Monson forseta og Bill Williams, musterisarkítekt. Þar tók á móti okkur Paul Christensen, stikuforseti staðarins, sem keyrði okkur á staðinn. Það var eilítið blautt og þokukennt þennan dag, en Hinckley forseti stökk út úr bílnum og tók að ganga fram og til baka um lóðina.

Eftir nokkra stund á lóðinni, spurði ég Hinckley forseta hvort hann vildi sjá eitthvað af hinum lóðunum sem til álita höfðu komið. Hann jánkaði og sagðist vilja það. Sjáið til, með því að líta á aðrar lóðir, gátum við borið saman kosti þeirra og galla.

Við fórum stóran réttsælis hring um Vancouver og skoðuðum aðrar lóðir, en enduðum að lokum á upphaflegu lóðinni. Hinckley forseti sagði: „Þetta er falleg lóð.“ Síðan spurði hann: „Getum við farið í samkomuhús kirkjunnar í um 400 hundruð metra fjarlægð?“

„Vitanlega, forseti,“ sögðum við.

Við fórum aftur í bílinn og ókum upp að nálægu samkomuhúsi. Þegar við komum að húsunu, sagði Hinckley forseti: „Beygðu til vinstri hér.“ Við beygðum og ókum eftir götunni eins og hann bað um. Gatan tók að sveigja örlítið upp í móti.

Í þann mund er við komum að efsta hlutanum, sagði Hinckley forseti: „Stoppaðu bílinn, stoppaðu bílinn.“ Síðan benti hann á jarðarskika hægra megin og spurði: „Hvað með þessa lóð? Hér á musterið að vera. Hér vill Drottinn að musterið verði. Getið þið fengið lóðina? Getið þið fengið hana?“

Við höfðum ekki skoðað þessa lóð. Hún var lengra í burtu og fjarri aðalgötunni og ekki skráð til sölu. Þegar við sögðumst ekki vita það, bendi Hinckley forseti á lóðina og sagði aftur: „Hér á musterið að vera.“ Við stöldruðum við í nokkrar mínútur og fórum síðan út á flugvöll til að fara heim.

Daginn eftir vorum ég og bróðir Williams boðaðir á skrifstofu Hinckleys forseta. Hann hafði gert uppdrátt af öllu á pappírsörk: Göturnar, kapelluna, vinstri beygju og merkt X við stað musterisins. Hann spurði að hverju við hefðum komist. Við sögðum að hann hefði ekki getað valið flóknari eign. Hún væri í eigu þriggja einstaklinga, eins frá Kanada, eins frá Indlandi og eins frá Kína! Hún væri auk þess ekki á hinu mikilvæga trúarskipulagða svæði.

„Jæja, gerið ykkar besta,“ sagði hann.

Síðan byrjuðu kraftaverkin að gerast. Innan nokkurra mánaða var kirkjan orðin eigandi lóðarinnar, og síðar veitti borgin Langley í Bresku Kólumbíu okkur leyfi til að reisa musteri.

Ljósmynd
Vancouver-musterið, Bresku-Kólumbíu

Þegar mér verður hugsað til þessarar reynslu, finn ég til auðmýktar við þá tilhugsun að þótt ég og bróðir Williams værum formlega menntaðir og hefðum áralanga reynslu af fasteignum og musterisbyggingum og Hinckley forseti hefði enga slíka formlega menntun, þá bjó hann yfir nokkru miklu fremra – gjöf spámanns og sjáanda. Hann fékk séð hvar musteri Guðs átti að vera.

Þegar Drottinn bauð hinum fyrri heilögu á þessum ráðstöfunartíma að reisa sér musteri, sagði hann:

„En lát reisa nafni mínu hús á þann hátt, sem ég mun sýna þeim.

Og reisi fólk mitt það ekki á þann veg, sem ég mun sýna … mun ég ekki veita því viðtöku“(Kenning og sáttmálar 115:14–15).

Svo á við um okkur, sem hina fyrri heilögu: Drottinn hefur opinberað og heldur áfram að opinbera forseta kirkjunnar hvernig stjórna skal ríki Guðs á okkar tíma. Að auki veitir hann sérhverju okkar persónulega leiðsögn um hvernig okkur ber að haga eigin lífi, svo breytni okkar megi á sama hátt verða Drottni þóknanleg.

Í apríl 2013 talaði ég um þá vinnu sem felst í því að tryggja undirstöðu allra mustera, til að tryggja að þau fái staðist storma og hamfarir sem yfir þau koma. Undirstaðan er þó aðeins upphafið. Musterið er byggt úr fjölmörgum einingum, sem settar eru saman í fyrirfram ákveðnu mynstri. Ef líf okkar á að verða að því musteri sem við öll reynum að reisa, eins og Drottinn hefur kennt okkur (sjá 1 Kor 3:16-17, gætum við allt eins spurt okkur sjálf: „Hvaða einingar ættum við nota til að gera líf okkar fagurt, tignarlegt og þolið gegn stormum heimsins?“

Svarið getum við fundið í Mormónsbók. Spámaðurinn Joseph Smith sagði um Mormónsbók: „Ég sagði bræðrunum, að Mormónsbók væri réttari en allar aðrar bækur á jörðinni og burðarsteinn trúar okkar, og að maðurinn kæmist nær Guði með því að fara eftir kenningum hennar, fremur en nokkurrar annarrar bókar“ (Formáli að Mormónsbók). Í Formála að Mormónsbók lærum við að þeir sem hljóta guðlegt vitni frá heilögum anda um að Mormónsbók sé orð Guðs, munu með sama krafti einnig vita að Jesús Kristur er frelsari heimsins, að Joseph Smith er hans opinberari og spámaður endurreisnarinnar og að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er ríki Drottins, enn á ný grundvallað á jörðu.

Hér eru nokkrar nauðsynlegar einingar okkar eigin trúar og vitnisburðar:

  1. Jesús Kristur er frelsari heimsins.

  2. Mormónsbók er orð Guðs.

  3. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er ríki Guðs á jörðu.

  4. Joseph Smith er spámaður og við höfum lifandi spámenn á jörðu í dag.

Síðastliðna mánuði hef ég hlustað á allar ræður Nelsons forseta, sem hann hefur flutt á aðalráðstefnu frá því að hann var fyrst kallaður sem postuli. Þessi iðkun hefur breytt lífi mínu. Er ég lærði um og ígrundaði 34 ára uppsafnaða visku Nelsons forseta, kom skýrt og endurtekið þema fram í kenningum hans. Sérhvert þessara þema tengdist þessum einingum sem ég minntist á eða er megin byggingarefnið fyrir okkar eigið persónulega musteri. Þær fela í sér trú á Drottin Jesú Krist, iðrun, skírn til fyrirgefningar syndanna, gjöf heilags anda, endurlausn hinna dánu og musterisverk, að halda hvíldardaginn heilagan, að skoða endinn í upphafi, að vera á sáttmálsveginum. Nelson forseti hefur rætt um allt þetta af kærleika og trúrækni.

Aðalhyrningarsteinn og byggingarefni kirkjunnar og lífs okkar er Jesús Kristur. Þetta er hans kirkja. Nelson forseti er spámaður hans. Kenningar Nelsons forseta vitna um og opinbera líf og eiginleika Jesú Krists, okkur til góðs. Hann talar af kærleika og þekkingu um eðli frelsarans og ætlunarverk hans. Hann hefur líka oft og innilega gefið vitnisburð um guðlega köllun hinna lifandi spámanna – forseta kirkjunnar – þeirra sem hann þjónaði.

Í dag eru það forréttindi okkar að styðja hann sem lifandi spámann Drottins á jörðu. Við erum vön því að styðja kirkjuleiðtoga með því að rétta upp hönd í vinkil, til að staðfesta samþykki okkar og stuðning. Við gerðum það fyrir örfáum mínútum. Sannur stuðningur er hins vegar miklu meira en áþreifanlegt tákn. Eins og fram kemur í Kenningu og sáttmálum 107:22, ætti að styðja Æðsta forsætisráðið „með trausti, trú og bænum kirkjunnar.“ Við styðjum hinn lifandi spámann einlæglega og á fullnægjandi hátt, er við leitumst við að treysta orðum hans, breytum eftir þeim í trú og biðjum þess síðan að blessanir Drottins verði stöðugt yfir honum.

Þegar ég hugsa um Russell M. Nelson forseta, hlýt ég huggun í orðum frelsarans, er hann sagði: „Og vilji fólk mitt hlýða rödd minni og rödd þjóna minna, sem ég hef útnefnt til að leiða fólk mitt, sjá, sannlega segi ég yður, þá skal það ekki flutt úr stað“ (Kenning og sáttmálar 124:45).

Að hlusta á og hlýða lifandi spámanni, mun hafa djúpstæð, jafnvel varanleg áhrif á líf okkar. Við hljótum styrk. Við verðum sjálfsöruggari í Drottni. Við heyrum orð Drottins. Við skynjum ást Guðs. Við munum vita hvernig haga á lífi okkar með tilgangi.

Ég elska og styð Russell M. Nelson forseta, sem og hina sem hafa verið kallaðir sem spámenn, sjáendur og opinberarar. Ég ber vitni um að hann hefur þær gjafir sem Drottinn hefur veitt á höfuð hans, og ég ber vitni um, að ef við tileinkum okkur af kostgæfni þann vana að hlusta á og hlíta rödd hins lifandi spámanns, munum við byggja líf okkar að guðlegum hætti Drottins fyrir okkur og uppskera hinar fyrirheitnu, eilífu blessanir. Þetta boð er til allra. Kom, heyrið spámann hefja raust, já, kom til Krists og lifið. Í nafni Jesú Krists, amen.