2010–2019
Nú er tíminn
Október 2018


Nú er tíminn

Ef það er eitthvað sem þú þarft að íhuga í lífi þínu, þá er þetta rétti tíminn.

Fyrir mörgum árum síðan fór ég að upplifa brjóstverki er ég undirbjó mig fyrir viðskiptaferð. Þar sem konan mín hafði áhyggjur ákvað hún að hún myndi fylgja mér í ferðina. Í upphafi ferðarinnar varð verkurinn svo sterkur að á tímapunkti átti ég erfitt með öndun. Þegar við lentum, yfirgáfum við flugvöllinn og fórum á næsta sjúkrahús þar sem vakthafandi læknir lýsti því yfir, eftir ýmsar rannsóknir, að það væri óhætt fyrir okkur að halda ferð okkar áfram.

Við fórum aftur á flugvöllinn og um borð í flugvélina sem flutti okkur á leiðarenda. Þegar við vorum að lenda, kom flugmaðurinn í kallkerfið og bað mig að gefa mig fram. Flugþjónninn nálgaðist og sagði að þau hefðu fengið neyðarhringingu og sögðu mér að sjúkrabíll biði eftir mér á flugbrautinni til að flytja mig á sjúkrahúsið.

Við fórum í sjúkrabílinn og vorum flutt í flýti á bráðamóttökuna á næsta spítala. Þar hittum við tvo áhyggjufulla lækna sem útskýrðu fyrir okkur að ég hefði fengið ranga greiningu og í raun væri ég með alvarlegan blóðtappa í lunganu, sem þyrfti bráðaaðgerð. Læknarnir sögðu okkur að margir sjúklingar lifðu ekki þessa aðgerð af. Vitandi að við værum langt að heiman og ekki viss um það hvort við værum undirbúin fyrir slík atvik sem geta breytt lífi manns, þá sögðu læknarnir okkar að ef það væri eitthvað sem við þyrftum að takast á við í lífi okkar, þá væri þetta tíminn til þess.

Ég man vel hve viðhorf mitt breyttist nær samstundis á þessari kvíðaþrungnu stundu. Það sem hafði verið svo mikilvægt augnabliki áður, skipti litli máli núna. Hugur minn flaug í burtu frá þægindum og málefnum þessa lífs að sjónarmiði eilífðarinnar - hugsunum um fjölskyldu, börn, eiginkonu mína og að lokum gildismat á mínu eigin lífi.

Hvernig stóðum við okkur sem fjölskylda og sem einstaklingar? Vorum við að lifa lífi okkar í samræmi við þá sáttmála sem við höfðum gert og væntingar Drottins, eða höfðum við kannski óafvitandi leyft málefnum heimsins að draga okkur frá því sem skipti mestu máli.

Mig langar að bjóða ykkur að íhuga mikilvæga lexíu sem lærðist af þessari reynslu, að stíga skref aftur á bak, úr úr heiminum og meta líf ykkar. Eða með orðum læknisins, ef það er eitthvað sem þú þarft að íhuga í lífi þínu, þá er þetta rétti tíminn.

Eigið lífsmat

Við lifum í heim upplýsingaflæðis, stýrt af síauknum truflunum sem gera það sífellt erfiðara að greina í sundur háreysti þessa lífs og einblína á það sem hefur eilíft gildi. Daglegt líf okkar er undir reglulegri árás athyglisfrekra fyrirsagna, sem koma til okkar í gegnum síbreytilega tæknimiðla.

Nema að við tökum okkur tíma til að hugleiða, þá gerum við okkur kannski ekki grein fyrir áhrifum þessa hraða umhverfis á daglegt líf okkar og á ákvarðanir okkar. Við kunnum að standa frammi fyrir því að líf okkar sé uppfullt af upplýsingum, innpökkuðum í skilaboðum, myndböndum og áberandi fyrirsögnum. Þó að þetta sé allt áhugavert og skemmtilegt, þá hafa þessir hlutir lítið að gera með eilífa framþróun okkar og samt móta þeir sýn okkar á hið jarðneska líf.

Það væri hægt að líkja þessum veraldlegu truflunum við þær sem var að finna í draumi Lehís. Þegar við höldum niður sáttmálsveginn með hönd okkar þétt á járnstönginni, þá heyrum við og sjáum þá sem „[hæða og benda] á“ aðra frá hinni stóru og rúmmiklu byggingu (1 Ne 8:27). Kannski ætlum við ekki að gera þetta af ásettu ráði, en stundum þá hikum við og litum til hliðar til að horfa á það sem er að gerast. Sum okkar sleppa jafnvel höndinni af járnstönginni og færum okkur nær til að sjá betur til. Aðrir falla kannski alveg frá því þeir „ blygðuðust … sín fyrir þeim, sem hæddu þá” (1 Ne 8:28).

Lúkas varaði okkur við að „[hafa] gát …, að hjörtu yðar þyngist ekki við … áhyggjur þessa lífs“ (Lúk 21:34). Nútíma opinberanir minna okkur á að margir eru kallaðir, en fáir eru útvaldir. Þeir eru ekki útvaldir „vegna þess að hjörtu þeirra beinast … að því, sem þessa heims er, og leita sér svo mannlegrar upphefðar“ (K&S 121:35; sjá einnig vers 34). Að meta líf okkar veitir okkur tækifæri til að stíga tilbaka frá heiminum, íhuga hvar við stöndum á sáttmálsveginum og ef það er nauðsynlegt, að gera þá þær breytingar sem treysta gripið og framtíðarsýnina.

Nýlega bauð Russel M. Nelson forseti æskufólki, á heimslægri kvöldvöku, að stíga aftur á bak frá heiminum, aftengjast samfélagsmiðlum með því að halda sjö daga föstu. Í gær setti hann fram samskonar boð fyrir systurnar sem hluta af kvennafundinum á ráðstefnunni. Hann bað þau svo að taka eftir því hvort að það væri einhver breyting á því hvernig þeim liði, hvað þau hugsuðu eða hvernig þau hugsuðu. Hann bauð þeim svo að „gera ítarlega úttekt á lífi sínu með Drottni … til að tryggja það að fætur þeirra væru örugglega vel staðsettir á sáttmálsveginum.“ Hann hvatti þau áfram og sagði ef það væri eitthvað í lífi þeirra sem þyrfti að laga þá „væri dagurinn í dag besti dagurinn til að breyta því.“1

Þegar við erum að endurskoða líf okkar með hliðsjón af því sem þarf að breyta, þá gætum við viljað spyrja okkur hagnýtrar spurningar: Hvernig rísum við ofar truflunum heimsins og einbeitum okkur að eilífðarsýninni fyrir framan okkur.

Á ráðstefnu árið 2007, flutti Dallin H. Oaks forseti ræðu undir heitinu „Góður, betri, bestur,“ um það hvernig er best að forgangsraða vali okkar mitt í stríðandi kröfum heimsins. Hann ráðlagði: „Við þurfum að sleppa sumu góðu til þess að velja annað sem er betra eða best, vegna þess að það eykur trú á Drottin Jesú Krist og styrkir fjölskyldu okkar.“2

Má ég leggja til að það besta sem lífið hefur upp á að bjóða hefur Jesú Krist að þungamiðju sinni og skilning á eilífum sannleika þess hver hann er og hver við erum í tengslum við hann.

Leita sannleika

Er við leitumst við að kynnast frelsaranum ættum við ekki að horfa fram hjá grundvallarsannleika þess sem við erum og hvers vegna við erum hér. Amúlek minnti okkur á að „þetta líf er [tíminn] … til að búa sig undir að mæta Guði,“ tími „gefinn til að búa okkur undir eilífðina“ (Alma 34:32-33). Eins og hin vel þekktu frumsannindi minna okkur á: „Við erum ekki mannlegar verur að upplifa andlega reynslu. Við erum andlegar verur að upplifa mannlega tilvist.“3

Skilningur á guðlegum uppruna okkar er nauðsynlegur fyrir eilífa framþróun okkar og getur frelsað okkur frá truflunum þessa lífs. Frelsarinn kenndi:

„Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir;

og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa“ (Jóh 8:31–32).

Josehp F. Smith, foreti, sagði: Mesta afrek sem mannkynið getur gert fyrir þennan heim er að kynna sér guðlegan sannleika svo vel, svo fullkomlega, að ekkert fordæmi eða hegðun nokkurs manns sem lifir í heiminum, getur nokkru sinni snúið þeim aftur frá þeirri þekkingu sem þeir hafa öðlast.“ 4

Í heiminum í dag hefur umræðan um sannleikann náð ákafri stigmögnun, þar sem allar hliðar halda því fram að þær hafi sannleikann, eins og að hann væri afstætt hugtak sem væri opið fyrir túlkun. Hinn ungi drengur, Joseph Smith, fann að „glundroði og barátta var svo hörð“ í lífi hans „að ógerningur … var að komast að nokkurri öruggri niðurstöðu um það, hverjir hefðu rétt fyrir sér og hverjir rangt“ (Joseph Smith - Saga 1:8). Það var „í miðri þessari orrahríð orða og deilna“ að hann leitaði guðlegrar leiðsagnar með því að leita sannleikans (Joseph Smith - Saga 1:10).

Á ráðstefnunni í apríl, kenndi Nelson forseti okkur: „Ef okkur á einhvern veginn að takast að sjá í gegnum ógrynni radda og hugmyndafræði manna sem gera aðför að sannleikanum, verðum við að læra að meðtaka opinberun.“5 Við verðum að læra að treysta á anda sannleikans „sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir“ (Jóh 14:17).

Er þessi heimur færist hratt í átt að annarskonar raunveruleika, þá verðum við að muna orð Jakobs, „að andinn segir sannleikann, en lýgur ekki. Þess vegna talar andinn um hlutina eins og þeir í raun eru og eins og þeir í raun munu verða. Þess vegna eru oss sýndir þessir hlutir greinilega, að það verði sálum vorum til hjálpræðis“ (Jakob 4:13).

Er við stígum tilbaka frá heiminum og metum líf okkar, þá er dagurinn í dag sá rétti til að íhuga þær breytingar sem við þurfum að gera. Við getum fundið mikla von í því að vita að fyrirmynd okkar, Jesús Kristur, hefur enn á ný, leitt okkur veginn. Fyrir dauða hans og upprisu, er hann var að vinna í því að aðstoða þá sem í kringum hann voru, að skilja guðlegt hlutverk hans, þá minnti hann þá á að „þér eigið frið í mér Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn“ (Jóh 16:33). Ég ber vitni um hann, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Russell M. Nelson, “Hope of Israel” (heimslæg trúarsamkoma æskufólks, 3. júní, 2018), hopeofisrael.lds.org.

  2. Dallin H. Oaks, “Good, Better, Best,” Liahona, nóv. 2007, 107.

  3. Tilvitnun oft eignuð Pierre Teilhard de Chardin.

  4. Teachings of Presidents of the Church: Joseph F. Smith (1998), 42.

  5. Russell M. Nelson, “Revelation for the Church, Revelation for Our Lives,” Liahona, maí 2018, 96.