Ritningar
Bók Móse 5


5. Kapítuli

(Júní — október 1830)

Adam og Eva eignast börn — Adam færir fórn og þjónar Guði — Kain og Abel fæðast — Kain gerir uppreisn, elskar Satan meira en Guð, og verður Glötunin — Morð og ranglæti breiðist út — Fagnaðarerindið prédikað frá upphafi.

1 Og svo bar við, að eftir að ég, Drottinn Guð, hafði rekið þau burt, hóf Adam að yrkja jörðina og drottna yfir öllum dýrum merkurinnar og neyta brauðs síns í sveita andlitis síns, eins og ég, Drottinn, hafði boðið honum. Og Eva, eiginkona hans, erfiðaði einnig með honum.

2 Og Adam kenndi konu sinnar og hún ól honum syni og dætur og þau tóku að margfaldast og uppfylla jörðina.

3 Og frá þeim tíma fóru synir og dætur Adams að dreifa sér, tvö og tvö um landið, og yrkja landið og gæta hjarðanna og þau gátu einnig syni og dætur.

4 Og Adam og Eva, eiginkona hans, ákölluðu nafn Drottins, og þau heyrðu rödd Drottins tala til sín í átt frá aldingarðinum Eden, en þau sáu hann ekki, því að þau voru útilokuð úr návist hans.

5 Og hann gaf þeim boðorð um að tigna Drottin Guð sinn og fórna frumburðum hjarða sinna og færa Drottni þá fórn. Og Adam var hlýðinn boðorðum Drottins.

6 Og eftir marga daga birtist engill Drottins Adam og sagði: Hvers vegna færir þú Drottni fórnir? Og Adam svaraði honum: Ég veit það ekki, aðeins að Drottinn bauð mér það.

7 Og þá talaði engillinn og sagði: Þetta er í líkingu fórnar hins eingetna föðurins, sem er fullur náðar og sannleika.

8 Þess vegna skalt þú gjöra allt, sem þú gjörir, í nafni sonarins, og þú skalt iðrast og ákalla Guð í nafni sonarins að eilífu.

9 Og þann dag kom heilagur andi, sem ber vitni um föðurinn og soninn, yfir Adam og sagði: Ég er hinn eingetni föðurins frá upphafi, héðan í frá og að eilífu, til þess að þú, vegna falls þíns, verðir endurleystur ásamt öllu mannkyni, já, öllum þeim, sem vilja.

10 Og á þeim degi vegsamaði Adam Guð og fylltist og hóf að spá varðandi allar fjölskyldur jarðarinnar og sagði: Blessað sé nafn Guðs, því að vegna brots míns hafa augu mín lokist upp, og í þessu lífi mun ég gleði njóta, og í holdinu mun ég aftur sjá Guð.

11 Og Eva, eiginkona hans, heyrði allt þetta og gladdist og sagði: Ef ekki væri fyrir brot okkar, hefðum við aldrei eignast afkvæmi og aldrei þekkt gott frá illu, né gleði endurlausnar okkar og eilíft líf, sem Guð gefur öllum þeim, sem hlýðnast.

12 Og Adam og Eva vegsömuðu nafn Guðs og fræddu syni sína og dætur um alla hluti.

13 En Satan kom til þeirra og sagði: Ég er einnig sonur Guðs, og hann bauð þeim og sagði: Trúið þessu ekki. Og þau trúðu því ekki og elskuðu Satan meira en Guð. Og frá þeim tíma tóku menn að verða holdlegir, munúðarfullir og djöfullegir.

14 Og Drottinn Guð vitjaði manna alls staðar með heilögum anda og bauð þeim að iðrast —

15 Og að allir þeir, sem trúðu á soninn og iðruðust synda sinna, mundu hólpnir verða, en allir þeir, sem trúðu ekki og iðruðust ekki, mundu fordæmdir verða. Og orðin gengu fram af munni Guðs sem föst ákvörðun og hljóta því að uppfyllast.

16 Og Adam og Eva, eiginkona hans, hættu ekki að ákalla Guð. Og Adam kenndi Evu konu sinnar og hún varð þunguð og fæddi Kain og sagði: Sveinbarn hef ég eignast frá Drottni, þess vegna má hann ekki hafna orði hans. En sjá, Kain hlýddi ekki og sagði: Hver er Drottinn að ég ætti að þekkja hann?

17 Og enn varð hún þunguð og fæddi bróður hans, Abel. Og Abel hlýddi rödd Drottins. Og Abel varð hjarðmaður, en Kain jarðyrkjumaður.

18 Og Kain elskaði Satan meira en Guð. Og Satan bauð honum og sagði: Færðu Drottni fórn.

19 Og er fram liðu stundir bar svo við, að Kain færði Drottni fórn af ávexti jarðar.

20 En Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og af feiti þeirra. Og Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans —

21 En til Kains og fórnar hans leit hann ekki með velþóknun. Satan vissi þetta og það gladdi hann. En Kain reiddist ákaflega og varð niðurlútur.

22 Þá mælti Drottinn til Kains: Hví reiðist þú? Hví ert þú niðurlútur?

23 Gjörir þú rétt, ert þú mér þóknanlegur. En gjörir þú ekki rétt, liggur syndin við dyrnar og Satan þráir að eignast þig. Og ef þú hlýðir ekki boðorðum mínum, mun ég eftirláta honum þig, og fyrir þér fer eins og hann þráir. Og þú munt drottna yfir honum —

24 Því að héðan í frá skalt þú verða faðir lyga hans. Þú skalt kallast Glötunin, því að þú varst einnig áður en heimurinn varð.

25 Og sagt mun verða, er fram líða stundir — að þessi viðurstyggð sé frá Kain komin, því að hann hafnaði hinu stærra ráði, sem frá Guði kom, og þetta er bölvun, sem ég mun leggja á þig, iðrist þú ekki.

26 Og Kain var reiður og hlustaði ekki lengur á rödd Drottins, og ekki heldur á Abel bróður sinn, sem gekk í heilagleika frammi fyrir Drottni.

27 Og Adam og kona hans hryggðust gagnvart Drottni vegna Kains og bræðra hans.

28 Og svo bar við, að Kain tók eina bróðurdóttur sína fyrir konu, og þau elskuðu Satan meira en Guð.

29 Og Satan sagði við Kain: Legg eið að því við háls þinn, og segir þú frá því munt þú deyja. Og lát bræður þína sverja við höfuð sitt og við lifanda Guð að segja það engum, svo að faðir þinn fái það ekki að vita, því að segi þeir frá því, munu þeir vissulega deyja, en í dag mun ég selja þér Abel bróður þinn í hendur.

30 Og Satan sór Kain, að hann mundi fara að boðum hans. Og allt þetta gjörðist í leynum.

31 Og Kain sagði: Vissulega er ég Mahan, herra þessa mikla leyndarmáls, að ég geti myrt og hagnast af. Þess vegna var Kain kallaður meistarinn Mahan, og hann miklaðist af ranglæti sínu.

32 Og Kain fór út á akurinn og Kain talaði við Abel bróður sinn. Og svo bar við, að er þeir voru á akrinum, réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann.

33 Og Kain miklaðist af því, sem hann hafði gjört og sagði: Ég er frjáls, vissulega falla hjarðir bróður míns í mínar hendur.

34 Þá sagði Drottinn við Kain: Hvar er Abel bróðir þinn? En hann mælti: Það veit ég ekki, á ég að gæta bróður míns?

35 Og Drottinn mælti: Hvað hefur þú gjört? Blóð bróður þíns hrópar til mín úr jörðunni.

36 Og nú skalt þú bölvaður og burt rekinn af jörðunni, sem opnað hefur munn sinn til að taka á móti blóði bróður þíns af hendi þinni.

37 Þegar þú yrkir jörðina skal hún eigi framar gefa þér styrk sinn. Landflótta og flakkandi skalt þú vera á jörðunni.

38 Og Kain sagði við Drottin: Satan freistaði mín vegna hjarða bróður míns. Og ég var einnig reiður, því að fórnir hans voru þér þóknanlegar en ekki mínar. Refsing mín er meiri en svo, að ég fái borið hana.

39 Sjá, á þessum degi rekur þú mig burt frá augliti Drottins, og ég mun hulinn augliti þínu og vera landflótta og flakkandi á jörðunni. Og svo ber við, að hver sem finnur mig mun drepa mig vegna misgjörða minna, því að þetta er ekki hulið Drottni.

40 Og ég, Drottinn, sagði við hann: Hver sem drepur þig mun sæta sjöfaldri refsingu. Og ég, Drottinn, setti merki á Kain, svo að þeir, sem finna hann, drepi hann ekki.

41 Og Kain útilokaðist úr návist Drottins, og hann settist að í landinu Nód fyrir austan Eden ásamt konu sinni og mörgum bræðra sinna.

42 Og Kain kenndi konu sinnar og hún varð þunguð og fæddi Henok og hann gat einnig marga syni og dætur. Og hann byggði borg og nefndi borgina eftir nafni sonar síns, Henok.

43 Og Henoki fæddist Írad og aðrir synir og dætur. Og Írad gat Mehújael og aðra syni og dætur. Og Mehújael gat Metúsael og aðra syni og dætur. Og Metúsael gat Lamek.

44 Og Lamek tók sér tvær konur. Hét önnur Ada en hin Silla.

45 Og Ada ól Jabal. Hann varð ættfaðir þeirra, sem í tjöldum búa, og þeir voru hjarðmenn. Og bróðir hans hét Júbal, sem var ættfaðir allra þeirra, sem leika á gígjur og hjarðpípur.

46 Og Silla ól einnig Túbal-Kain, sem kenndi kopar- og járnsmíði. Og systir Túbal-Kains var nefnd Naama.

47 Og Lamek sagði við konur sínar, Ödu og Sillu: Heyrið orð mín, þér konur Lameks, gefið gaum að ræðu minni. Mann hef ég vegið fyrir hvert mitt sár og ungmenni fyrir hverja skeinu mína.

48 Verði Kains hefnt sjö sinnum þá mun Lameks hefnt sjötíu og sjö sinnum —

49 Því að Lamek hafði gjört sáttmála við Satan að hætti Kains, og varð þannig meistari Mahan, herra hins mikla leyndarmáls, sem Satan veitti Kain. Og Írad, sonur Henoks, sem einnig þekkti leyndarmálið, hóf að kunngjöra það sonum Adams —

50 Og Lamek, sem var reiður, drap hann vegna þessa, ekki eins og Kain drap bróður sinn Abel til að hagnast af því, heldur drap hann vegna eiðsins.

51 Því að frá því á dögum Kains voru uppi leynisamtök og verk þeirra voru unnin í myrkri og hver maður þekkti samherja sinn.

52 Þess vegna lagði Drottinn bölvun á Lamek og hús hans og alla þá, sem gjört höfðu sáttmála við Satan, því að þeir héldu ekki boðorð Guðs og Guði mislíkaði það, og hann veitti þeim enga helga þjónustu, og verk þeirra voru viðurstyggð og tóku að breiðast út á meðal allra mannanna sona. Og þetta var meðal mannanna sona.

53 En meðal mannanna dætra var ekki um þetta talað, en vegna þess að Lamek hafði sagt konum sínum leyndarmálið, risu þær gegn honum og sögðu vægðarlaust frá þessu hvar sem var —

54 Þess vegna var Lamek fyrirlitinn og honum var vísað burt og hann varð að halda sig frá mannanna sonum, svo að hann yrði ekki drepinn.

55 Og þannig urðu myrkraverkin ráðandi meðal allra mannanna sona.

56 Og Guð lagði sára bölvun yfir jörðina og var reiður hinum ranglátu, öllum mannanna sonum, sem hann hafði gjört —

57 Því að þeir vildu hvorki hlýða rödd hans né trúa á hans eingetna son, já, hann, sem hann boðaði að koma ætti á hádegisbaugi tímans og fyrirbúinn var áður en grundvöllur heimsins var lagður.

58 Og þannig var fagnaðarerindið prédikað frá upphafi, boðað með heilögum englum, sem sendir voru úr návist Guðs, og með hans eigin röddu og með gjöf heilags anda.

59 Og þannig var allt staðfest fyrir Adam með heilagri helgiathöfn og fagnaðarerindið var prédikað og ákvörðun gefin, að það yrði í heiminum allt til enda hans, og þannig var það. Amen.