Ritningar
Formáli
Neðanmálstilvísanir

Hide Footnotes

Þema

Formáli

Hin dýrmæta perla er úrval af völdu efni varðandi mörg mikilvæg trúaratriði og kenningar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Efni þetta var þýtt og gefið út af spámanninum Joseph Smith og meirihlutinn birtist í tímaritum kirkjunnar á hans dögum.

Fyrsta safnritið undir heitinu Hin dýrmæta perla gerði öldungur Franklin D. Richards árið 1851, en hann var þá í ráði hinna tólf og forseti breska trúboðsins. Tilgangurinn var að skapa greiðari aðgang að nokkrum mikilvægum atriðum, sem hlotið höfðu takmarkaða útbreiðslu á tímum Josephs Smith. Þegar meðlimafjöldi kirkjunnar jókst um alla Evrópu og Ameríku, þurftu þessi atriði að vera tiltæk. Hin dýrmæta perla var mikið notuð og varð þar af leiðandi eitt af höfuðritum kirkjunnar samkvæmt ákvörðun Æðsta forsætisráðsins og aðalráðstefnunnar í Salt Lake City 10. október 1880.

Nokkrar endurbætur hafa verið gerðar á efni bókarinnar, samkvæmt þörfum kirkjunnar. Árið 1878 var hluta af bók Móse, sem ekki birtist í fyrstu útgáfunni, bætt við. Árið 1902 var ákveðnu efni úr Hinni dýrmætu perlu, sem einnig er í Kenningu og sáttmálum, sleppt. Efninu var skipt í kapítula og vers, með neðanmálstilvísunum, árið 1902. Fyrsta útgáfan með tveggja dálka blaðsíðum ásamt efnislykli kom út árið 1902. Engar aðrar breytingar voru gerðar fram að apríl 1976, þegar tveimur opinberunum var bætt við. Árið 1979 voru þessar opinberanir fluttar úr Hinni dýrmætu perlu og settar í Kenningu og sáttmála, en þar birtast þær nú sem 137. og 138. kafli. Í núverandi útgáfu hafa nokkrar breytingar verið gerðar til að samræma textann við frumskjöl.

Hér á eftir er stutt yfirlit yfir núverandi innihald bókarinnar:

  1. Úrval úr Bók Móse. Útdráttur úr 1. Mósebók eftir þýðingu Josephs Smith á Biblíunni, sem hann hóf í júní 1830.

  2. Bók Abrahams. Innblásin þýðing á ritum Abrahams. Joseph Smith hóf þýðingu þeirra árið 1835 eftir að hafa áskotnast nokkur egypsk papýrusrit. Þýðingin birtist í hlutum í Times and Seasons [Tímar og tíðir], fyrst 1. mars 1842, í Nauvoo, Illinois.

  3. Joseph Smith — Matteus. Útdráttur úr vitnisburði Matteusar í þýðingu Josephs Smith á Biblíunni (sjá Kenningu og sáttmála 45:60–61 varðandi þá guðlegu áminningu, að hefja þýðingu á Nýja testamentinu).

  4. Joseph Smith — Saga. Ágrip af opinberum vitnisburði og sögu Josephs Smith, sem hann og ritarar hans skrifuðu á árunum 1838–1839 og birtist í hlutum í Times and Seasons í Nauvoo, Illinois, fyrst 15. mars 1842.

  5. Trúaratriði Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Yfirlýsing Josephs Smith, sem birtist í Times and Seasons 1. mars 1842, með ágripi af sögu kirkjunnar, almennt þekkt sem Wentworth-bréfið.