Ritningar
2 Nefí 28


28. Kapítuli

Margar falskirkjur verða reistar á síðustu dögum — Þær munu kenna falskar, hégómlegar og fávísar kenningar — Fráhvarf verður vegna falskennara — Djöfullinn mun ólmast í hjörtum manna — Hann mun kenna alls kyns falskenningar. Um 559–545 f.Kr.

1 Og sjá nú, bræður mínir. Ég hef talað til yðar eins og andinn hefur hvatt mig til. Þess vegna veit ég, að það hlýtur vissulega að koma fram.

2 Og það, sem ritað verður úr bókinni, mun hafa mikið gildi fyrir mannanna börn og sér í lagi fyrir niðja vora, sem eru leifar Ísraelsættar.

3 Því að þann dag mun svo fara um þær kirkjur, sem reistar eru, en ekki fyrir Drottin, að ein segir við aðra: Sjá, ég tilheyri Drottni. Og hinar munu segja: Ég, ég tilheyri Drottni. Og þetta mun hver og einn segja, sem reisir kirkju, en ekki fyrir Drottin —

4 Og þeir munu deila hver við annan, og prestar þeirra munu deila hver við annan. Og þeir munu kenna að sínum eigin lærdómi, en afneita heilögum anda, sem orðin gefur.

5 Og þeir afneita krafti Guðs, hins heilaga Ísraels, og segja við fólkið: Hlustið á oss og heyrið setning vora. Því að sjá. Í dag er enginn Guð til, því að Drottinn og lausnarinn hefur lokið verki sínu, og hann hefur gefið mönnunum vald sitt —

6 Sjá. Hlýðið á setning mína. Segi þeir, að kraftaverk sé unnið af hendi Drottins, þá trúið því ekki, því að í dag er hann ekki Guð kraftaverka. Hann hefur lokið verki sínu.

7 Já, margir munu segja: Etið, drekkið og verið kát, því á morgun deyjum vér. Og oss mun farnast vel.

8 Og enn munu margir segja: Etið, drekkið og verið kát. En óttist samt Guð — hann mun réttlæta, þótt menn syndgi lítils háttar. Já, ljúgið örlítið, færið yður í nyt orð annarra og grafið náunga yðar gröf. Það kemur ekki að nokkurri sök. Gjörið allt þetta, því að á morgun deyjum vér. Og verðum vér sek fundin, mun Guð láta nokkur svipuhögg á oss dynja, en að lokum munum vér hólpin í Guðs ríki.

9 Já, þeir verða margir, sem þannig munu kenna falskar, hégómlegar og fávísar kenningar, og verða hrokafullir í hjarta og leggjast lágt til að dylja ráð sín fyrir Guði. Og verk þeirra verða unnin í myrkri.

10 Og blóð hinna heilögu mun hrópa gegn þeim úr jörðunni.

11 Já, þeir hafa allir vikið af vegi: Þeir eru orðnir spilltir.

12 Vegna hroka, vegna falskennara og falskenninga, eru kirkjur þeirra orðnar spilltar, og kirkjur þeirra hreykja sér upp, já þær hreykja sér hátt í hroka sínum.

13 Þeir ræna hina fátæku vegna glæstra helgidóma sinna. Þeir ræna hina fátæku vegna skartklæða sinna, og þeir ofsækja þá hógværu og af hjarta lítillátu, vegna þess hve hrokafullir þeir eru.

14 Þeir ganga hnakkakertir og bera höfuðið hátt. Já, og vegna hroka, ranglætis, viðurstyggðar og hórdóms hafa þeir allir lent á villigötum, nema fáeinir, sem eru auðmjúkir fylgjendur Krists. En þeir eru engu að síður oft leiddir í villu, vegna þess að þeim eru kenndar mannasetningar.

15 Ó, hinir vitru, lærðu og ríku, sem eru hrokafullir í hjarta, og allir þeir, sem boða falskar kenningar, og allir þeir, sem drýgja hór og rangsnúa réttum vegi Drottins, vei, vei, vei sé þeim, segir Drottinn Guð almáttugur, því að þeim mun steypt niður til heljar.

16 Vei sé þeim, sem snúa hinum réttvísu frá fyrir enga sök og smána það, sem gott er, og segja það einskis virði. Því að sá dagur kemur, að Drottinn Guð vitjar skyndilega jarðarbúa. Og á þeim degi, þegar misgjörðir þeirra ná hámarki sínu, munu þeir farast.

17 En sjá. Ef íbúar jarðar iðrast ranglætis síns og viðurstyggðar, mun þeim ekki tortímt, segir Drottinn hersveitanna.

18 En sjá. Hin mikla og viðurstyggilega kirkja, vændiskona allrar jarðarinnar, mun hrynja til grunna, og mikið hlýtur fall hennar að verða.

19 Því að ríki djöfulsins hlýtur að leika á reiðiskjálfi og þeir, sem því tilheyra, að vakna til iðrunar, ella smeygir djöfullinn ævarandi hlekkjum sínum á þá, og þeir eru reittir til reiði og farast —

20 Því að sjá. Á þeim degi mun hann ólmast í hjörtum mannanna barna og reita þau til reiði gegn því, sem gott er.

21 Og aðra mun hann hvetja til værðar og andvaraleysisdvala holdlegs öryggis, svo að þeir segi: Allt er eins og vera ber í Síon. Já, Síon dafnar, og allt er gott — Og þannig svíkst djöfullinn að sálum þeirra og leiðir þá lævíslega niður til heljar.

22 Og sjá. Enn aðra dregur hann burt með skjalli og segir þeim, að ekkert víti sé til. Og hann segir þeim: Ég er ekki djöfullinn, því að enginn djöfull er til — Og þannig hvíslar hann í eyru þeirra, þar til hann smeygir skelfingarhlekkjum sínum á þá, sem enginn losnar úr aftur.

23 Já, dauðinn og hel munu þrífa þá til sín. Og dauðinn, hel og djöfullinn og allir, sem í klóm þeirra lenda, verða að standa frammi fyrir hásæti Guðs og verða dæmdir af verkum sínum, og þaðan verða þeir að fara á þann stað, sem þeim hefur verið fyrirbúinn, í sjálft díki elds og brennisteins, sem er óendanleg kvöl.

24 Vei sé þess vegna þeim, sem lifir grandvaralaus í Síon!

25 Vei sé þeim, sem hrópar: Allt er eins og vera ber!

26 Já, vei sé þeim, sem hlustar á mannasetningar, en afneitar krafti Guðs og gjöf heilags anda!

27 Já, vei sé þeim, sem segir: Vér höfum þegar meðtekið, vér þörfnumst einskis meira!

28 Og vei sé loks öllum þeim, sem nötra af reiði vegna sannleika Guðs! Því að sjá. Sá, sem byggir á bjargi, tekur á móti honum með gleði, en sá, sem byggir á sandi, nötrar af ótta við að falla.

29 Vei sé þeim, sem segja munu: Vér höfum þegar tekið við orði Guðs og þörfnumst ekki orðs Guðs frekar, því að vér höfum nóg!

30 Því að sjá. Svo segir Drottinn Guð: Ég mun gefa mannanna börnum orð á orð ofan og setning á setning ofan, örlítið hér, örlítið þar. Og blessaðir eru þeir, sem hlusta á setningar mínar og ljá ráðum mínum eyra, því að þeir munu öðlast visku. Því að þeim, sem tekur á móti, mun ég meira gefa, en frá þeim, sem segjast hafa nóg, mun tekið verða, jafnvel það sem þeir hafa.

31 Bölvun hvílir yfir þeim, sem leggur traust sitt á manninn og gjörir holdið að armlegg sínum eða hlustar á mannasetningar, nema að setningar þeirra séu gefnar með krafti heilags anda.

32 Vei sé Þjóðunum, segir Drottinn Guð hersveitanna! Því að þrátt fyrir það, að ég rétti fram arm minn til þeirra lengra og lengra með degi hverjum, munu þeir samt afneita mér. En ég mun engu að síður reynast þeim miskunnsamur, segir Drottinn Guð, vilji þeir iðrast og koma til mín, því að armur minn er útréttur allan liðlangan daginn, segir Drottinn Guð hersveitanna.