2012
Spurningar og svör
Apríl 2012


Spurningar og svör

„Hvers vegna þarf ég að fara í trúarskóla, ef ég get lært ritningarnar á eigin spýtur?“

Þið getið lært ritningarnar alla ykkar ævi á eigin spýtur, en ef ykkur stendur til boða að fara í trúarskóla, nýtið ykkur þá tækifærið til að læra ritningarnar nú með úrvals kennara og vinum.

Að læra með leiðsögn góðs kennara hjálpar ykkur að skilja betur það í ritningunum sem þið áður skilduð ekki til fulls. Kennarinn getur líka rætt um kenningar spámanna og annarra kirkjuleiðtoga, sem eykur skilning ykkar á ritningunum.

Það er líka oftast ánægjulegra að læra með bekkjarfélögum. Ykkur gefst þannig kostur á að ræða efnið og það sem þið uppgötvið við lesturinn. Samnemendur ykkar kunna að hafa ákveðnar ritningargreinar sem höfða til þeirra vegna reynslu sem þeir hafa átt. Að hlusta á reynslu þeirra getur aukið skilning ykkar á ákveðnum ritningarversum. Þið lærið fagnaðarerindið með öðrum og getið því notið þessarar lofuðu blessunar: „Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, … þar verð ég mitt á meðal þeirra“ (K&S 6:32).

Trúarskólinn leggur líka grunn að námi ykkar. Ykkur er boðið að ljúka lestrarefni á ákveðnum tíma, sem gerir ykkur kleift að ljúka lestri hverrar ritningarbókar. Ykkur gefst kostur á að ræða og læra utanbókar valritningargreinar. Þið getið verið viss um að fá meira út úr ritningunum í trúarskólanum, en á næstum allan annan hátt á þessum tíma í lífi ykkar.

Nýir vinir, nýjar hugmyndir

Í trúarskólanum kynnist þið nýjum vinum og verðið nánari hvert öðru, líkt og fjölskylda. Þið lærið heilmargt sem þið gætuð ekki lært á eigin spýtur. Það er skemmtilegt og afar andríkt. Trúarskólinn tryggir að þið hefjið daginn á réttan hátt. Ef þið eruð ekki þegar í trúarskóla, byrjið þá núna, það mun breyta lífi ykkar.

Katarina B., 16 ára, Kalifornía, Bandaríkjunum

Hamingja

Trúarskólinn markar daginn fyrir mig. Hann gerir mig hamingjusamari og fúsari til að ræða fagnaðarerindið við aðra. Við köfum dýpra í ritningarnar og ég hlýt aukinn skilning.

Madi S., 15 ára, Kóloradó, Bandaríkjunum

Fullkomin samblanda

Trúarskólinn er ánægjuleg upplifun. Stundum nægir hreinlega ekki að læra á eigin spýtur. Sjálfsnám og trúarskólanám er fullkomin samblanda. Kennararnir eru frábærir og ef þið hafið spurningar geta kennarinn og samnemendur hjálpað ykkur að svara þeim.

Dawson D., 15 ára, Idaho, Bandaríkjunum

Aukinn skilningur

Þegar ég læri hinar helgu ritningar í einrúmi, nýt ég ekki sömu ánægju og þegar ég læri með öðrum. Auk þess geta aðrir miðlað áhugaverðum hugmyndum þegar við lærum saman. Ég hef fræðst um margar áhugaverðar frásagnir í trúarskólanum og þekki ritningarnar mun betur, og það gerir námið ánægjulegra. Ég gleðst yfir að hafa farið í trúarskólann.

Rebecca M., 16 ára, Schleswig-Holstein, Þýskalandi

Sterkari vitnisburður

Í fyrsta lagi segir Drottinn að þar sem tveir eða þrír eru saman komnir í hans nafni, verði hann mitt á meðal þeirra (sjá Matt 18:20; K&S 6:32). Þegar við skynjum anda hans reynist okkur auðveldara að ígrunda það sem hann hefur gert fyrir okkur. Í öðru lagi hljótum við betri skilning á hinu ritaða máli þegar við lærum ritningarnar með öðrum. Þegar við hlustum hvert á annað, getur eitthvað komið fram sem við höfum ekki sjálf áttað okkur á, og aðrir geta líka haft sama gagn af því þegar við miðlum af þekkingu okkar. Í þriðja lagi styrkist vitnisburður minn þegar ég fer í trúarskólann. Trúarskólinn er vettvangur til að miðla vitnisburði okkar og hlýða á vitnisburði annarra. Hann hjálpar okkur að vera á vegi réttlætis.

Dmitri G., 16 ára, Dnipropetrovs’k, Úkraínu

Læra af öðrum

Mér er það algjör nauðsyn að fara í trúarskólann. Áhugsamur kennari minn kennir ekki aðeins og útskýrir sannleika ritninganna, heldur læri ég afar mikið af umræðum samnemenda minna. Samnemendur mínir miðla mér af reynslu sinni varðandi námsefnið og hafa hjálpað mér að þekkja betur fagnaðarerindið og frelsarann og friðþægingu hans. Mér nægir ekki að læra á eigin spýtur, því í umræðum trúarskólans hef ég fundið svör við sumum vandamálum mínum. Ég get borið vitni um að trúarskólinn gegnir mikilvægu hlutverki í að næra vitnisburð minn um hina sönnu kirkju Jesú Krists.

Denzel J., 15 ára, Vestur-Samóaeyjum

Ljós og sannleikur

Þegar ég fer í trúarskólann leita ég ljóss og sannleika og íklæðist alvæpni Guðs (sjá K&S 27:15–18). Alvæpnið gerir mér kleift að þekkja rödd hans alls staðar og öllum stundum. Daglegur ritningarlestur styrkir trú mína og vitnisburð og gerir mér kleift að takast á við erfiðleika mína. Trúarskólinn er ein besta leiðin til að finna ljós og sannleika og ígrunda og læra ritningarnar.

Nohemi M., 17 ára, Puebla, Mexíkó

Þrjár ástæður

Fyrsta: Ég sæki trúarskóla af því að ég hyggst þjóna í trúboði. Trúboðar þurfa að vakna snemma á morgnana til að læra fagnaðarerindið. Trúarskólinn hjálpar mér að temja mér þann góða sið að fara árla á fætur. Önnur: Á morgnana er hugsun okkar skýr, svo við eigum betur með að einbeita okkur að námsefninu. Skynsamlegt er að nýta bestu stundir dagsins til að læra um Guð. Þriðja: Ef ég læri á eigin spýtur, er óvíst að ég hljóti sama djúpa skilninginn og kennari minn býr yfir. Ég get lært mun meira með leiðsögn hans og kennslu en ef ég lærði á eigin spýtur.

H. Chen Yuan, 16 ára, T’ai-chung, Taívan