2012
Að fá meira út úr aðalráðstefnu
Apríl 2012


Að fá meira út úr aðalráðstefnu

Þótt við höfum sagt „amen“ við lok síðustu aðalráðstefnu, þýðir það ekki að hin andlega veisla sé yfirstaðin. Hún getur haldið áfram þegar við lærum og hagnýtum okkur kenningar ráðstefnunnar. Í gegnum árin hafa spámenn hvatt okkur til að gera einmitt það. Dæmi: Árið 1946 hvatti Harold B. Lee forseti (1899–1973) meðlimi til að láta aðalráðstefnuræður „verða leiðarvísir að gjörðum þeirra og orðum næstu sex mánuðina.“ Hann útskýrði: „Í þeim er hið mikilvæga efni sem Drottinn sér ástæðu til að opinbera fólki sínu á þeim tíma.“1

Árið 1988 endurtók Ezra Taft Benson forseti (1899–1994) þá leiðsögn, er hann sagði: „Næstu sex mánuðina ætti aðalráðstefnuritið að vera við hlið helgiritanna og mikið notað.“2

Við lok aðalráðstefnu í október 2008 staðfesti Thomas S. Monson forseti mikilvægi þess að læra ráðstefnuræðurnar. Hann sagði: „Megum við muna um langa tíð það sem við höfum heyrt á þessari aðalráðstefnu. Allar ræðurnar sem hafa verið fluttar munu verða prentaðar í næsta tölublaði tímaritanna Ensign og Líahóna. Ég hvet ykkur til þess að lesa þær og íhuga kenningar þeirra.“3

Hvernig getið þið gert ræðuefnið innihaldsríkara í lífi ykkar, er þið lærið og ígrundið það? Hér eru nokkrar ábendingar til að hjálpa ykkur að búa ykkur undir að taka á móti hinum innblásnu orðum og hagnýta ykkur þau:

Búið ykkur undir að hljóta innblástur. Hvort sem þið horfið eða hlustið á eða lesið aðalráðstefnuræður, verðið þið að ljúka upp hjarta ykkar og huga fyrir guðlegum innblæstri. Öldungur David A. Bednar í Tólfpostulasveitinni kenndi að engu skipti hve tilkomumikil kennsla ræðumanns er, „efni boðskapar og vitni heilags anda hrífa ekki hjartað nema hlustandi leyfi það.“ Hann sagði það „krefjast andlegrar, huglegrar og líkamlegrar einbeitingar, en ekki aðeins óvirkrar mötunar, að hljóta innblástur.“4

Eftirfarandi hugmyndir geta hjálpað að búa ykkur undir að hljóta kennslu andans:

  1. Ákveðið tíma og skapið ótruflað andrúmsloft þar sem þið getið hlotið andlegan innblástur.

  2. Leitið guðlegrar leiðsagnar í bæn.

  3. Skráið spurningar eða íhugunarefni sem þið leitið svara við.

Að skilja boðskapinn. Lifandi spámenn og postular kenna, túlka, hvetja, aðvara og vitna. Að lesa ræður þeirra vandlega eykur skilning okkar á boðskap þeirra. Hér eru nokkrar árangursríkar námsaðferðir:

  • Spyrjið spurninga. Dæmi: Hvað vill Drottinn að ég læri af þessum boðskap? Hvernig eykur þessi ræða skilning minn á trúarkenningu, trúarreglu eða ritningargrein? Hvaða frásagnir eru notaðar til að útskýra trúarreglur og hvað læri ég af þeim?

  • Skrifið samantekt. Skoðið vandlega það sem virðist meginatriði ræðumanns. Skiptið ræðu í hluta og skrifið samantekt á meginhugmyndum hvers hluta.

  • Tilgreinið hina ýmsu efnisþætti ræðunnar. Takið sérstaklega eftir kenningum, ritningarversum, sögum, aðvörunum, upptalningum, vitnisburðum, boði um aðgerðir og lofuðum blessunum fyrir að hlíta leiðsögn.

  • Lærið ræðu oftar en einu sinni. Nauðsynlegt er að læra trúarsannleika oftar en einu sinni til að fá skilið hann fyllilega. Skrifið athugasemdir um nýjan skilning sem þið hljótið í hvert sinn er þið lærið.

Breytið samkvæmt því sem þið lærið. Ef þið lærið ræðurnar vandlega, munuð þið sjá hvernig boðskapur þeirra fellur að lífi ykkar. Þið getið komist að því hvernig gera á mikilvægar breytingar með því að spyrja spurninga líkt og: Hvað vill Drottinn að ég geri með það sem ég lærði? Hvað hef ég lært sem kemur mér að gagni í fjölskyldu minni, starfi eða kirkjuköllun? Skrifið hugljómanir, svo þið gleymið þeim ekki. Þegar þið gerið það munuð þið hljóta innblástur um að lifa eftir kenningunum og hljóta lofaðar blessanir.

Drottinn opinberar vilja sinn varðandi ykkur með þjónum sínum á aðalráðstefnu. Spencer W. Kimball forseti (1895–1985) kenndi: „Ekkert ritverk eða ritmál, utan helgirita kirkjunnar, ætti að vera okkur mikilvægara í okkar persónulega bókasafni—ekki vegna fagurs stílbragðs eða mælsku, heldur vegna hins efnislega innihalds sem vísar veginn til eilífs lífs.“5

Heimildir

  1. Harold B. Lee, í Conference Report, apríl 1946, 68.

  2. Ezra Taft Benson, „Come unto Christ, and Be Perfected in Him,“ Ensign, maí 1988, 84.

  3. Thomas S. Monson, „Uns við hittumst á ný,“ Aðalráðstefna, okt. 2008, 118.

  4. David A. Bednar, „Seek Learning by Faith,” Líahóna, sept. 2007, 17, 20.

  5. Spencer W. Kimball, In the World but Not of It, Brigham Young University Speeches of the Year (14. maí 1968), 3.