2012
„Hann er upp risinn‘—Vitnisburður spámanns
Apríl 2012


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins

„Hann er upp risinn“

Vitnisburður spámanns

Ljósmynd
Thomas S. Monson forseti

„Hið skýra boð kristindómsins,“ að sögn Thomasar S. Monson forseta, er að Jesús frá Nasaret reis upp frá dauðum. „Raunveruleiki upprisunnar veitir hverjum og einum frið sem er æðri öllum skilningi“ (sjá Fil 4:7).1

Í eftirfarandi útdrætti miðlar Monson forseti vitnisburði sínum og þakklæti fyrir upprisu frelsarans og lýsir yfir að þar sem sonurinn hafi sigrað dauðann geti öll börn föðurins sem koma til jarðar lifað að nýju.

Lífið handan dauðleikans

„Ég held að ekkert okkar fái skilið til fulls það sem Kristur gerði fyrir okkur í Getsemane, en hvern dag lífs míns er ég fullur þakklætis fyrir friðþægingu hans í okkar þágu.

Á efstu stundu hefði hann getað snúið frá. En hann gerði það ekki. Hann laut neðar öllu, svo að hann gæti frelsað allt. Með þeirri gjörð gaf hann okkur líf handan þessarar tilveru. Hann endurheimti okkur frá falli Adams.

Af allri minni sálu er ég honum þakklátur. Hann kenndi okkur hvernig á að lifa. Hann kenndi okkur hvernig á að deyja. Hann tryggði okkur hjálpræði.“2

Reka burtu myrkur dauðans

„Í ákveðnum tilvikum, t.d. miklum þjáningum og veikindum, birtist dauðinn sem miskunnsamur engill. En í flestum tilvikum teljum við hann standa í vegi fyrir hamingju mannkyns.

Ljós hins opinberaða sannleika getur rekið burtu myrkur dauðans. ‚Ég er upprisan og lífið,‘ sagði meistarinn. ‚Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.‘

Þessi fullvissuorð—jafnvel helga staðfesting—um lífið handan grafar, eru vel til þess fallin að veita þann frið sem frelsarinn lofaði lærisveinum sínum: ‚Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.‘ “3

Hann er ekki hér

„Frelsari okkar lifði á ný. Dýrðlegasti, huggunarríkasti og mest hughreystandi atburður mannkynssögunnar hafði gerst—sigurinn yfir dauðanum. Þjáningum og kvöl Getsemane og Golgata hafði verið sópað burt. Sáluhjálp mannkyns hafði verið tryggð. Fall Adams hafði verið endurheimt.

Tóm gröfin þennan fyrsta páskamorgun veitti svarið við spurningu Jobs: ‚Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?‘ Til allra sem heyra rödd mína boða ég, að þegar maðurinn deyr, þá mun hann lifa á ný. Við vitum það, því að við höfum ljós opinberaðs sannleika. …

Kæru bræður og systur, á stundum hinnar dýpstu sorgar getum við fundið djúpan frið í orðum engilsins þennan fyrsta páskamorgun: ‚Hann er ekki hér. Hann er upp risinn.‘ “4

Allir munu lifa aftur

„Við hlæjum, við grátum, við vinnum, við leikum, við elskum, við lifum. Og síðan deyjum við. …

Og dáin myndum við haldast, ef ekki væri fyrir einn mann og ætlunarverk hans, já, Jesú frá Nasaret. …

Af öllu hjarta og mætti sálar minnar hef ég upp raust mína og gef vitnisburð minn sem sérstakt vitni og lýsi því yfir að Guð lifir. Jesús er sonur hans, hinn eingetni föðurins í holdinu. Hann er lausnari okkar, meðalgöngumaðurinn hjá föðurnum. Hann er sá sem dó á krossinum og friðþægði fyrir syndir okkar. Hann varð frumgróður upprisunnar. Vegna þess að hann dó, munu allir lifa aftur.“5

Persónulegur vitnisburður

„Ég gef ykkur vitnisburð minn um að dauðinn er af velli lagður, sigur yfir gröfinni er staðreynd. Megi orðin er hann helgaði og uppfyllti verða öllum að raunverulegri vitneskju. Hafið þau í huga. Varðveitið þau. Heiðrið þau. Hann er upp risinn.6

Heimildir

  1. „Hann er risinn,“ Líahóna, apríl 2003, 7.

  2. „At Parting,“ Líahóna, maí 2011, 114.

  3. „Now Is the Time,“ Líahóna, jan. 2002, 68; sjá einnig Jóh 11:25–26; 14:27.

  4. „Hann er upprisinn,“ Líahóna Aðalráðstefna, apríl 2010, 89, 90; sjá einnig Job 14:14; Matt 28:6.

  5. „Ég veit minn lifir lausnarinn“ Aðalráðstefna, apríl 2007, 21.

  6. Líahóna, apríl 2003, 7.

Hvernig kenna á boðskapinn

Eftir að þið hafið miðlað tilvitnunum í boðskap Monsons forseta, leggið þá áherslu á vitnisburðinn sem hann gefur um sanna merkingu páskanna. Þið ættuð að spyrja fjölskylduna eftirfarandi spurninga: „Hvaða merkingu hefur það fyrir ykkur að lifandi spámaður vitnar um þennan sannleika í dag? Hvernig getið þið nýtt þennan sannleika í lífi ykkar?“ Íhugið að bæta við ykkar vitnisburði.

Tómas hinn efagjarni, eftir Carl Heinrich Bloch