2012
Gefa sér tíma til að tala saman og hlusta
Apríl 2012


Heimili okkar, fjölskyldur okkar

Gefa sér tíma til að tala saman og hlusta

Ræða haldin 24. október 2010 á stikuráðstefnu í Salt Lake City, gervihnattaútsending.

Tilraunir okkar nú til að bæta samskiptin munu verða fjölskyldum okkar til eilífrar blessunar.

Ljósmynd
Rosemary M. Wixom

Í hinni fullkomnu umgjörð er tekið fagnandi á móti barninu, þegar það kemur heim úr skóla, með nýbakaðri súkkulaðiköku og mjólkurglasi og móðirin gefur sér tíma til að tala við og hlusta á barnið sitt segja frá atburðum dagsins. Þar sem umgjörð okkar er ekki fullkomin gætum við sleppt kökunni og mjólkinni, ef okkur byði svo við, en þó ekki sleppt „að gefa [okkur] tíma til að tala saman og hlusta.“

Fyrir 29 árum harmaði James E. Faust forseti (1920–2007), annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, að fjölskyldur eyddu of litlum tíma saman. Hugsið ykkur að fyrir—29 árum—sagði hann á aðalráðstefnu: „Einn mesti vandi fjölskyldna í dag er sá að þær eyða stöðugt minni tíma saman. … Sá tími sem við erum saman er dýrmætur—tími til að tala saman og hlusta og hvetja hvert annað og sýna hvernig á að gera hitt og þetta.“1

Þegar við eyðum tíma saman og ræðum við börn okkar, munum við þekkja þau og þau munu þekkja okkur. Það sem við skynjum í hjarta okkar verður forgangur okkar og hluti af umræðum okkar við sérhvert barnanna.

Hvaða efni væri ykkur kærast að ræða um við börn ykkar?

Spámaðurinn Móse kenndi í 5. Mósebók:

„Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.

Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst.

Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur (5 Mós 6:5–7; skáletrað hér).

Og ég bæti við: „Og þegar þú neytir matar þíns við kvöldverðarborðið.“

Ef við þráum að fjölskyldur okkar verði saman að eilífu, þurfum við hefja ferlið nú þegar. Að gefa sér tíma til að ræða við börnin okkar kemur okkur til góða sem eilíf fjölskylda, er við fetum veginn saman til eilífs lífs.

Móðir ein frá Illinois í Bandaríkjunum sagði frá því hvernig hún hafði gefið sér tíma til að ræða við börnin sín:

„Þegar börnin okkar voru ung festist ég í þeim vana að horfa á fáeina uppáhalds sjónvarpsþætti. … Því miður voru þættirnir sýndir á sama tíma og börnin fóru í rúmið.

… Á ákveðnum tímapunkti varð mér ljóst að ég hafði sett þættina efst á forgangslistann og börnin mín þar á eftir. Um tíma reyndi ég að lesa barnasögur með kveikt á sjónvarpinu, en í hjarta mínu vissi ég að það var ekki besta lausnin. Þegar mér varð hugsað um dagana og vikurnar sem ég hafði glatað vegna sjónvarpsglápsins fylltist ég sektarkennd og ákvað að breyta um. Það tók mig nokkurn tíma að sannfæra sjálfa mig um að ég gæti í raun slökkt á sjónvarpinu.

„Eftir að hafa haft slökkt á sjónvarpinu í um tvær vikur fann ég byrðinni nokkuð af mér létt. Mér varð ljóst að mér leið betur, jafnvel hreinni að einhverju leyti, og ég vissi að ég hafði tekið rétta ákvörðun.“2

Háttatíminn er tilvalinn til að tala saman.

Helaman sagði um stríðsmennina ungu: „Og þeir endurtóku fyrir mér orð mæðra sinna og sögðu: Við efum ekki, að mæður okkar vissu það“ (Alma 56:48).

Það voru „orð mæðra“ þeirra sem kenndu þeim. Mæður þessar kenndu orð Guðs er þær ræddu við börn sín.

Efla persónuleg samskipti

Margt gott kemur út úr umræðum og andstæðingnum er ljós sá máttur sem felst í hinu talaða orði. Hann hefði yndi af að veikja þann anda sem á heimilum okkar getur ríkt þegar við tölum saman, hlustum á og hvetjum hvert annað og gerum margt saman.

Satan tókst ekki að halda aftur af hinu endurreista fagnaðaerindi Jesú Krists á þessum ráðstöfunartíma, er hann reyndi að koma í veg fyrir hið mikilvæga samtal milli Josephs Smith og Guðs föðurins og sonar hans Jesú Krists.

Lýst með orðum Josephs: „Ég hafði varla gert þetta, þegar einhver kraftur gagntók mig og bugaði gersamlega og hafði þau furðulegu áhrif á mig að lama tungu mína, svo að ég mátti ekki mæla“ (Joseph Smith—Saga 1:15).

Andstæðingurinn hefði unun af því að binda tungu okkar—að gera allt til að koma í veg fyrir að við tjáum tilfinningar okkar munnlega manna á milli. Hann hefur unun af fjarlægð og ónæði; hann hefur unun af hávaða; hann hefur unun af ópersónulegum samskiptum—öllu því sem kemur í veg fyrir ástúðlegar umræður og þær innilegu tilfinningar sem myndast í umræðum manna á milli.

Hlusta á hjörtu barna okkar

Að hlusta er ekki síður mikilvægt en að tala. Öldungur Jeffrey R. Holland í Tólfpostulasveitinni sagði: „Ef við hlustum í kærleika, þurfum við ekki að velta fyrir okkur hvað skal segja. Það mun okkur gefið … af andanum.“3

Þegar við hlustum kynnumst við hjartalagi þeirra sem umhverfis eru. Himneskur faðir hefur áætlun fyrir hvert barn sitt. Hugsið ykkur ef við fengjum séð brot af þeirri áætlun sem ætluð er hverju barna okkar. Hvað ef við gætum skilið hvernig þroska ætti andlegar gjafir þeirra? Hvað ef við gætum skilið hvernig örva ætti börn okkar til að ná möguleikum sínum? Hvað ef við gætum skilið hvernig hjálpa ætti hverju barni að þroskast frá barnatrú sinni til vitnisburðar?

Hvernig getum við hlotið slíkan skilning?

Við getum byrjað að skilja með því að hlusta.

Síðari daga faðir nokkur sagði: „Ég geri meira gott þegar ég hlusta á börn mín, en þegar ég tala við þau. … Mér hefur smám saman lærst að börnum mínum stendur stuggur af mínum klæðskerasniðnu, hefðbundnu og skynsamlegu svörum. … Þeim finnst mikilvægara að spurt sé og rætt um vandamál þeirra, heldur en að hlusta á svörin mín. Þegar þau hafa fengið nægju sína af því að tala, þurfa þau í raun ekki svörin mín, ef ég hef hlustað nógu vel og lengi. Þau hafa þegar fundið svarið.“4

Það þarf tíma til að komast að því sem mestu skiptir. Umræða, hlustun og hvatning gerast ekki í einu vettfangi. Ekki er hægt að ýta á eftir slíku eða ákveða það fyrirfram—slíkt gerist best dag frá degi. Slíkt gerist þegar við gerum margt saman: Störfum saman, sköpum saman og skemmtum okkur saman. Slíkt gerist þegar við slökkvum á sjónvarpinu, hverfum frá ónæði heimsins og snúum okkur að hvert öðru.

Það getur reynst okkur erfitt. Þegar við stöldrum við og hverfum frá ónæðinu, þurfum við að vera reiðubúin fyrir það sem næst gerist. Í fyrstu kann þögnin að vera þrúgandi; óþægileg tómleika tilfinning kann að gera vart við sig. Verið þolinmóð, andið djúpt að ykkur og leyfið ykkur að gleðjast. Beinið allri athygli ykkar að þeim sem umhverfis eru með því að spyrja og síðan að leggja við hlustir. Foreldrar, ræðið um áhugamál barna ykkar. Hlægið að því sem áður hefur gerst—og ræðið um framtíðardrauma. Kjánalegar umræður geta jafnvel orðið innihaldsríkar.

Forgangsraða okkar eilífa tilgang

Síðastliðið vor, þegar ég heimsótti námsbekk Stúlknafélagsins, bað kennarinn stúlkurnar að skrifa 10 forgangsatriði. Ég tók líka að skrifa. Ég verð að viðurkenna að fyrsta hugsun mín um „Atriði 1: Hreinsa hnífaparaskúffuna í eldhúsinu.“ Þegar við höfðum lokið við listann, bauð þessi leiðtogi Stúlknafélagsins okkur að miðla því sem við höfðum skrifað. Abby, sem nýverið varð 12 ára, sat mér við hlið. Listinn hennar Abby var eftirfarandi:

  1. Fara í framhaldsskóla.

  2. Verða innanhússhönnuður.

  3. Fara í trúboð til Indlands.

  4. Gifta mig heimkomnum trúboða í musterinu.

  5. Eignast fimm börn og heimili.

  6. Senda börnin mín í trúboð og framhaldsskóla.

  7. Verða amma sem bakar kökur.

  8. Ofdekra barnabörnin.

  9. Læra meira um fagnaðarerindið og njóta lífsins.

  10. Dvelja að nýju hjá himneskum föður.

Ég segi: „Þakka þér fyrir, Abby. Þú hefur kennt mér að sjá áætlun himnesks föður fyrir okkur öll í nýju ljósi. Þegar þið vitið að þið eruð á veginum, mun allt fara vel, þrátt fyrir allar hjáleiðirnar. Þegar þið eruð á veginum og einblínið á lokatakmarkið—á upphafningu og að komast til himnesks föður, munuð þið ná þangað.“

Hvar hlaut Abby slíka sýn á eilífan tilgang? Hún hefst á heimilum okkar. Hún hefst í fjölskyldum okkar. Ég spurði hana: „Hvað gerir þú í fjölskyldu þinni sem fær þig til að forgangsraða þannig?“

Þetta var svar hennar: „Auk þess að lesa ritningarnar, lásum við Boða fagnaðarerindi mitt.“ Hún bætti síðan við: „Við tölum oft saman—á fjölskyldukvöldum, við kvöldverðarborðið og þegar við erum á ferð í bílnum.“

Nefí ritaði: „Og vér tölum um Krist, vér fögnum í Kristi, vér prédikum um Krist.“ Hvers vegna? „Svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna“ (2 Ne 25:26).

Að tala saman, hlusta á og hvetja hvert annað, og gera ýmislegt saman sem fjölskylda, mun færa okkur nær frelsaranum, sem elskar okkur. Þegar við leggjum á okkur að bæta samskiptin—einmitt í dag—mun það verða fjölskyldum okkar til eilífrar blessunar. Ég ber vitni um að þegar við tölum um Krist munum við líka fagna í Kristi og í gjöf friðþægingarinnar. Börn okkar munu þá vita „til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna.“

Heimildir

  1. James E. Faust, „Enriching Family Life,“ Ensign, maí 1983, 41.

  2. Susan Heaton, „Talk Time Instead of TV Time,“ Ensign, okt. 1998, 73.

  3. Jeffrey R. Holland, „Witnesses unto Me,“ Líahóna, júlí 2001, 16.

  4. George D. Durrant, „Pointers for Parents: Take Time to Talk,“ Ensign, apríl 1973, 24.

Ljósmynd af systur Wixom © Busath Photography; teikningar eftir Bradley Slade