2012
Bláber og Mormónsbók
Apríl 2012


Bláber og Mormónsbók

Suellen S. Weiler, Georgíu, Bandaríkjunum

Fyrir nokkrum árum flutti fjölskylda mín úr þéttbýlli stórborg í afskekkt hús utan við lítið og friðsælt þorp. Þar nærri var yfirgefið bláberjabýli og með leyfi vina eigandans máttum við tína öll þau bláber sem við vildum.

Nokkra daga í viku þetta sumar, fórum við í bílinn drekkhlaðinn af körfum og pokum og áttum saman yndislega klukkustund við bláberjatínslu. Einn morguninn virtist yngsti sonur okkar, Hyrum, tregur til að fara með okkur. Hann þóttist viss um að við hefðum tínt öll berin og sagði það sóun á tíma að fara þangað aftur. Hann var því afar undrandi að finna fleiri bláber en nokkru sinni fyrr. Hann fann klasa á stöðum sem honum hafði áður yfirsést og sum safaríkustu berin héngu á greinum sem hann þóttist viss um að hafa áður skoðað.

Á þessum sama tíma höfðu leiðtogar æskufólksins hvatt það til að lesa alla Mormónsbók áður en skólinn hæfist í ágúst. Börnin okkar komu með áskorunina heim og fjölskyldan sameinaðist þeim við verkefnið.

Við höfðum rétt lokið við lestur Mormónabókar þegar 2005 ágústútgáfa Ensign barst okkur, með áskorun frá Gordon B. Hinckley forseta (1910–2008) um að lesa alla Mormónsbók fyrir árslok. Hyrum og bróðir hans, Joseph, voru yfir sig glaðir—í þeirri trú að við hefðum þegar hlítt leiðsögn spámannsins! Þá áminntu hin systkini þeirra, Seth og Bethany, þá um að Hinckley forseti hafði beðið okkur að lesa hana að nýju, burt séð frá því hversu oft við hefðum áður lesið hana.

„En af hverju?“ spurðu drengirnir. „Við lásum hvert orð og hvað annað getum við lært sem við höfum ekki þegar gert?“

Eftir andartaks þögn, tók einhver að minnast á bláberin. „Munið þið eftir þegar við héldum okkur hafa tínt öll bláberin? En þegar við fórum til baka, voru bláberin alltaf fleiri—alltaf! Það var alltaf fullt af bláberjum hversu oft og títt sem við fórum.“

Við skildum fljótt samhengið. Líkt og nærliggjandi býli gefur ríkulega af sér ljúffeng bláber, þá er Mormónsbók stöðug uppspretta andlegrar næringar og sannleika. Við hófum því enn á ný að lesa Mormónsbók.

Þegar ég tókst á við þessa áskorun spámannsins las ég í Mormónsbók það sem ég hafði margsinnis áður lesið, en hlaut nýjan og annan skilning á efninu þegar ég hagnýtti mér það við breyttar aðstæður. Ég veit að í hvert sinn sem við lesum Mormónsbók getum við hlotið nýjan skilning og komist nær frelsaranum.