2012
Umræðustund
Apríl 2012


Umræðustund

„Ég heiðra foreldra mína og geri mitt til að efla fjölskyldu mína“ (Trúarreglur mínar).

„Jæja öll sömul, við skulum hafa umræðustund,“ kallaði mamma.

Jóna hafði allan daginn hlakkað til umræðustundarinnar. Öll kvöld komu Jóna og tveir litlu bræður hennar, Benni og Villi, saman í stofunni með mömmu og pabba til að ræða dagleg verkefni allra.

Pabbi hafði sagt að hann ætlaði að hjálpa Jónu að æfa handritið hennar fyrir tilkynningar morgundagsins. Að lesa tilkynningar morgundagsins voru sérstök forréttindi í skóla Jónu. Á morgun átti Jóna að leika hluta af uppáhaldslagi sínu í hátalarakerfi skólans og tilkynna í hljóðnemann athafnir dagsins og hádegismatseðilinn.

Jóna hljóp inn í stofuna, spennt yfir að æfa handritið sitt.

„Þarna kemur uppáhalds kynnirinn okkar!“ sagði pabbi þegar Jóna hoppaði upp í sófann við hlið hans. „Hvernig leggst morgundagurinn í þig?“

„Ég er spennt, en svolítið kvíðin. Ég óttast að ég geri einhver mistök frammi fyrir öllum skólanum,“ sagði Jóna.

„Þess vegna æfum við okkur,“ sagði pabbi. „Lestu nú handritið í gegn og ég skal hlusta eftir einhverju sem bæta má.“

„Takk fyrir, pabbi,“ sagði Jóna.

Jóna og pabbi fóru svo oft í gegnum handritið að hún hafði ekki á því tölu. Jóna stóð síðan upp og æfði handritið í síðasta sinn fyrir fjölskyldu sína. Mamma og pabbi fögnuðu. Benni fagnaði líka og Villi brosti og klappaði saman lófunum.

Jóna fór glöð og full sjálfstrausts í háttinn.

Daginn eftir gekk allt eins og í sögu. Jafnvel þótt Jóna væri kvíðin, brosti hún þegar lagið hennar hljómaði um skólann. Hún var ánægð yfir að hafa æft handritið með pabba sínum og las það hægt og skýrt án nokkurs hiks.

„Þú stóðst þig mjög vel,“ sagði Byrna aðstoðarskólastjóri.

Í lok skóladags stóð Jóna í röðinni við skólavagninn. Eldri drengur sneri sér við og spurði: „Ert þú sú sem las tilkynningarnar í dag?“

Jóna brosti. „Já,“ sagði hún.

„Af hverju valdir þú þetta lag?“ spurði drengurinn. „Þetta var asnalegt lag. Þú klúðraðir algjörlega tilkynningunum.“ Hann uppnefndi hana síðan og hló að henni með vinum sínum.

Jóna sat einsömul fremst í vagninum. Hún fann til óþæginda í maganum.

Þegar Jóna kom heim, sá hún mömmu að leik með Villa.

„Mamma, ég veit að það er ekki komið að umræðustund, en mig langar að tala einmitt núna.“ sagði Jóna.

„Auðvitað, Jóna mín,“ sagði mamma. „Hvað gerðist?“ Fór eitthvað úrskeiðis við tilkynningarnar?

„Nei,“ sagði Jóna. „Allt var fullkomið. Ég hélt það að minnsta kosti, þar til einn drengurinn sagði lagið mitt vera asnalegt. Hann uppnefndi mig líka.“

Mamma klappaði með lófanum á gólfið næst henni. Jóna gekk til hennar og settist. Mamma vafði hana örmum. Jóna og mamma ræddu um allt sem gerðist yfir daginn, líka hrós frú Byrnu.

„Mér þykir leitt að drengurinn og vinir hans komu illa fram við þig,“ sagði mamma. „En mér sýnist að aðrir sem þú lítur upp til, eins og frú Byrna, hafi verið ánægðir með hvernig þú stóðst þig við lestur tilkynninganna. Ég og pabbi erum afar stolt af þér. Þú lagðir mikið á þig og það skilaði sér!“

Jóna faðmaði mömmu aftur. „Takk fyrir, mamma,“ sagði Jóna. „Mér líður mun betur.“ Jóna var glöð yfir að umræðustundir geta verið hvenær sem er.

Teikning eftir Jared Beckstrand