2012
Undursamleg náð
Apríl 2012


Við tölum um Krist

Undursamleg náð

Ég reiði mig hvern dag á náð Jesú Krists.

„Við ræðum ekki oft um náð á samkomum okkar,“ sagði trúarfræðikennari minn við Brigham Young háskólann, „en við sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu höfum trú á náð.“

Í raun gat ég ekki munað eftir nokkurri sunnudagaskólalexíu í Stúlknafélaginu um náð, en hugur minn reikaði til baka er miðskólakórinn sem ég var í söng: „Undursamleg náð.“

Undursamleg náð! (hve dásamlegur hljómur!)

Er mig auman frelsað fékk!

Því eitt sinn týndur, en fundinn nú;

blindur var, nú sjáandi er.1

„Náð er máttur Guðs af friðþægingu Jesú Krists,“ útskýrði kennarinn minn. „Ég flokka náð í fjögur svið: Upprisu, endurlausn, lækningu og eflingu.“ Hann hélt áfram að úskýra hvert sviðanna, en hugur minn reikaði aftur til minninganna.

Þessi sami miðskólakór fór eitt sinn til Kaliforníu í Bandaríkjunum til að keppa á tónlistarhátíð. Ég veiktist rétt áður en leggja átti af stað og hálssærindin ollu því að ég gat ekki sungið með kórnum á hátíðinni—eða ef ég gerði það, mundi ég syngja illa og jafnframt finna til særindanna. Ég bað föður minn um prestdæmisblessun og baðst fyrir daginn eftir um lækningu.

Kannski skildi ég ekki fyllilega, þegar ég söng „Undursamleg náð,“ fullum hálsi á hátíðinni, að ég var einmitt að syngja um máttinn sem hafði læknað mig daginn áður. Dag þennan naut ég blessunar friðþægingar frelsarans; náð hans var ástæða bata míns.

„Og hann mun ganga fram og þola alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar. Og svo mun verða, til að orðið megi rætast, sem segir, að hann muni taka á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns.“ (Alma 7:11).

Líkt og á við um marga nýnema að loknum grunnskóla, þá fannst mér námið yfirþyrmandi, auk þess að þurfa að takast á við þá áskorun að búa utan heimilis míns með fimm herbergisfélögum.

Á þeim tíma lærðist mér að skilja þann mátt og kraft sem felst í náð Krists. Ég vann og lærði alla daga og reiddi mig á daglega bænagjörð, þar sem ég bað himneskan föður um getu til að ljúka nauðsynlegum verkefnum. Þegar leið á skólaárið komst ég að því mér til mikillar gleði að með mætti og krafti náðar friðþægingar Krists, stóð ég mig ekki aðeins vel, heldur reyndist mér það fremur auðvelt.

„Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir“ (Fil 4:13).

Þótt ég ætti enn eftir að upplifa hin tvö svið náðar hans—upprisuna og fyllingu endurlausnar hans—reiði ég mig enn dag hvern á friðþægingu Jesú Krists. Náðin, máttur Guðs frá friðþægingu Jesú Krists, hefur læknað og styrkt mig. Þegar ég reyni að halda boðorð Guðs og fara að vilja hans, hlýt ég himneska hjálp langt umfram eigin getu.

„Vér vitum, að vér frelsumst fyrir náð, að afloknu öllu, sem vér getum gjört“ 2 Ne 25:23).

Heimildir

  1. John Newton, „Amazing Grace,“ Olney Hymns (1779), nr. 41.

Ljósmynd eftir Ash Ram