2010–2019
Set traust þitt á þann anda, sem leiðir til góðra verka
Apríl 2016


Set traust þitt á þann anda, sem leiðir til góðra verka

Við komumst nær frelsaranum þegar við þjónum öðrum af hreinni ást í hans þágu.

Ég er þakklátur fyrir að vera meðal ykkar á þessari tilbeiðslu- og helgistund. Við höfum beðist fyrir saman. Okkar kærleiksríki himneski faðir hefur hjálpað okkur. Við höfum minnst frelsara okkar, Drottins Jesú Krists, og notið þess að lofsyngja hann með sálmasöng. Við höfum verið innblásin til að gera meira til að hjálpa meistara okkar í þessu verki, til að lyfta öðrum og liðsinna börnum himnesks föður.

Þrá okkar til að þjóna öðrum eflist með þakklæti okkar fyrir það sem frelsarinn gerði fyrir okkur. Af þeirri ástæðu upplifum við fögnuð hjartans, er við heyrum sungið: „Af Drottins náð var gefið mér, þá gef ég þér.“1 Benjamín konungur gaf fyrirheit um slíka þakklætistilfinningu í sinni miklu ræðu sem skráð er í Mormónsbók (sjá Mósía 2:17–19).

Þegar trú okkar á Jesú Krist fær okkur til að verðskulda gleði fyrirgefningar hans, munum við finna þrá til að þjóna öðrum. Benjamín konungur kenndi að fyrirgefning hlytist ekki á einu augabragði.

Hann orðaði það svo: „En vegna þess, sem ég hef sagt yður – það er að segja vegna fyrirgefningar synda yðar dag frá degi, svo að þér megið ganga fram fyrir Guð án sektar – vildi ég, að þér gæfuð fátækum af eigum yðar, hver maður í samræmi við það, sem hann hefur, eins og til dæmis að gefa hungruðum mat, klæðlausum klæði, vitja sjúkra og liðsinna þeim, bæði andlega og stundlega, í samræmi við þarfir þeirra“ (Mósía 4:26).

Amúlek, félagi Alma, kenndi líka þann sannleika að við verðum að halda áfram í þjónustu okkar við hann til að hljóta fyrirgefningu: „Og sjá nú, ástkæru bræður mínir. Ég segi ykkur, ætlið ekki að þetta sé allt. Því að ef þið, eftir að hafa gjört allt þetta, snúið hinum þurfandi frá eða hinum klæðlausu og vitjið ekki hinna sjúku og aðþrengdu, og gefið ekki af því, sem þið eigið, til þeirra, sem þurfandi eru – ég segi ykkur, ef þið gjörið ekkert af þessu, sjá, þá er bæn ykkar til einskis og gjörir ykkur ekkert gagn, og þið eruð sem hræsnarar, er afneita trúnni“ (Alma 34:28).

Í kvöld hef ég hugsað til kvennanna í mínu lífi. Frá eiginkonu minni talið, þá eru þrjátíu og ein kona og stúlka í fjölskyldu okkar, sem fer fjölgandi, og nýfæddar langafastelpurnar mínar eru þrjár. Sumar eru hér meðal okkar í kvöld. Fimm þeirra hafa ekki náð 12 ára aldri. Þetta kann að vera þeirra fyrsta samkoma í Ráðstefnuhöllinni með systrum sínum í kirkju frelsarans. Hver og ein þeirra mun í kvöld upplifa ólíkar minningar og gera eigin skuldbindingar, sökum þessarar reynslu.

Það er þríþætt minning sem og skuldbinding sem ég bið þess að þær hljóti og njóti alla ævi og handan hennar. Minningarnar snúast um tilfinningar. Skuldbinding snýst um það sem gera skal.

Mikilvægast að upplifa kærleikann. Þið hafið skynjað kærleika hinna dásamlegu systraleiðtoga sem hér hafa talað. Þið hafið skynjað með andanum að þær elska ykkur, án þess jafnvel að þekkja ykkur, því þær hafa skynjað elsku himnesks föður og frelsarans til ykkar. Af þeirri ástæðu þrá þær heitt að þjóna ykkur og vilja að þið hljótið þær blessanir sem Guð óskar að veita ykkur.

Í kvöld hafið þið fundið elsku til annarra – til vina, skólafélaga, nágranna og jafnvel einhvers ókunnugs sem þið hafið hitt. Sú kærleikstilfinning er gjöf frá Guði. Ritningarnar segja hana vera „kærleika“ og „hina hreinu ást Krists“ (Moró 7:47). Í kvöld hafið þið fundið þessa elsku og þið getið fundið hana oftar, ef við leitið hennar.

Önnur tilfinning sem þið hafið upplifað í kvöld, eru áhrif heilags anda. Systurnar hafa í dag lofað ykkur því að heilagur andi muni leiða ykkur til að finna þá þjónustu sem Drottinn óskar að þið veitið öðrum í hans þágu. Fyrir áhrif andans hafið þið skynjað að loforð þeirra eru frá Drottni og að þau eru sönn.

Drottinn sagði: „Og sannlega, sannlega segi ég þér nú, set traust þitt á þann anda, sem leiðir til góðra verka – já, til að breyta rétt, til að ganga í auðmýkt, til að dæma réttlátlega, og þetta er andi minn“ (K&S 11:12).

Þið gætuð hafa öðlast þá blessun í kvöld. Þið gætuð, til að mynda, séð fyrir ykkur nafn eða andlit einhvers í neyð á meðan á þessari samkomu stendur. Það gæti hafa verið óljós hugsun, en vegna þess að hún barst nú í kvöld, munuð þið biðja vegna hennar og reiða ykkur á að Guð muni leiða ykkur til að koma því góða til leiðar sem hann óskar þeim Þegar slíkar bænir verða reglubundnar í lífi okkar, munuð þið og aðrir breytast til hins betra.

Þriðja tilfinningin sem þið hafið upplifað í kvöld, er sú að þið viljið komast nær frelsaranum. Jafnvel yngsta stúlkan meðal okkar hér hefur skynjað raunveruleika boðsins í þessum söng: „‚Fylg þú mér,‘ sagði frelsarinn. Fótspor hans þræðum glöggt með sinn.“2

Það fyrsta sem þið þurfið að gera, fylltar slíkum tilfinningum, er að einsetja ykkur að láta til skarar skríða með þjónustu, vitandi að þið eruð ekki einsamlar. Þegar þið huggið og þjónið í þágu frelsarans, mun hann fara fyrir ykkur. Líkt og þær ykkar sem komið hafa heim af trúboði geta sagt ykkur, þá merkir það ekki að sérhver sá sem opnar dyr sínar muni fúslega taka á móti ykkur eða að sérhver sá sem þið þjónið muni færa ykkur þakkir. Drottinn mun þó fara fyrir ykkur og greiða leiðina.

Oft og mörgum sinnum hefur Thomas S. Monson forseti sagt að hann sé kunnugur raunveruleika þessa loforð Drottins: „Og hjá hverjum þeim, sem veitir yður viðtöku, mun ég einnig vera, því að ég mun fara fyrir yður. Ég mun verða yður til hægri handar og til þeirrar vinstri, og andi minn mun vera í hjörtum yðar og englar mínir umhverfis yður, yður til stuðnings“ (K&C 84:88).

Einn sá háttur sem hann hefur á, með að fara fyrir okkur, er að undirbúa hjarta þess einstaklings sem hann hefur boðið ykkur að þjóna. Hann mun líka undirbúa hjarta ykkar.

Þið munuð líka komast að því að Drottinn hefur hjálparengla við hlið ykkar – ykkur til hægri og vinstri handar, og allt umhverfis. Þið farið ekki einsamlar til að þjóna öðrum í hans þágu.

Í kvöld gerði hann það fyrir mig. Drottinn sá okkur fyrir „fjölda votta“ (Hebr 12:1), bæði í orði og söng, til að magna og margfalda kraft þeirra orða sem hann vildi að ég segði. Ég varð bara að tryggja það að ég gerði mitt í verki hans. Ég vona og bið þess að þið munuð finna til þakklætis og gleði, er Drottinn sameinar ykkur öðrum til að þjóna í hans þágu.

Ef þið upplifið það oft, og það munuð þið gera, þá munuð þið brosa af kunnugleik, eins og ég geri, alltaf þegar við syngjum: „Dásamlegt er verkið.“3

Þið munuð líka brosa er þið minnist þessa vers: „Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér“(Matt 25:40).

Annað sem þið þurfið að gera, er að minnast Drottins í þjónustu ykkar við hann. Drottinn fer ekki aðeins fyrir okkur og sendir okkur engla, til að þjóna okkur, heldur upplifir hann líka þá hughreystingu sem við veitum öðrum, líkt og hún hafi verið veitt honum.

Sérhver dóttir Guðs, sem heyrir og trúir boðskap þessarar samkomu, mun spyrja: „Hvað vill Drottinn að ég geri til að hjálpa honum að liðsinna hinum nauðstöddu? Aðstæður hverrar systur er einstakar. Það á við um minn litla dætrahóp, tengdadætur, afastelpur og langafastelpur. Við þær, og allar dætur himnesks föður, legg ég áherslu á hina góðu leiðsögn systur Lindu K. Burton.

Hún hefur boðið ykkur að biðja í trú, til að fá vitneskju um vilja Drottins í samræmi við ykkar aðstæður. Hún ræddi síðan um loforðið um þá ljúfu huggun sem Drottinn sjálfur veitti konunni sem sætti gagnrýni fyrir að hafa smurt höfuð hans með dýrindis olíu, en mögulegt var að selja hana til hjálpar hinum fátæku.

„En Jesús sagði: Látið hana í friði! Hvað eruð þér að angra hana? Gott verk gjörði hún mér.

Fátæka hafið þér jafnan hjá yður og getið gjört þeim gott, nær þér viljið, en mig hafið þér ekki ávallt.

Hún gjörði það, sem í hennar valdi stóð. Hún hefur fyrirfram smurt líkama minn til greftrunar.

„Sannlega segi ég yður: Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess, sem hún gjörði, til minningar um hana“(Mark 14:6–9).

Þetta stutta ritningarvers er ljúf og vitur leiðsögn fyrir hinar trúföstu systur í ríki Drottins á róstursömum tímum. Þið munuð biðjast fyrir til að fá vitað hverjum faðirinn vill að þið þjónið af elsku til hans og í þágu frelsarans. Þið munuð ekki vænta opinbers minnisvarða, er þið fylgið fordæmi konunnar í þessari frásögn Markúsar í ritningunum, þar sem hið helga verk hennar til að heiðra frelsara heimsins er vegsamað, en ekki nafn hennar.

Von mín er sú að systurnar í fjölskyldu minni muni leggja sig fram við að þjóna hinum nauðstöddu, sökum elsku sinnar til Guðs. Hið þriðja sem ég vona að þær geri, er að vera hógværar yfir verkum sínum. Ég bið þess þó að þær muni fylgja þeirri leiðsögn Drottins – sem ég tel þarflega fyrir okkur öll – þar sem segir:

„Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum, þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum.“

Hann sagði síðan:

En þegar þú gefur ölmusu, viti vinstri hönd þín ekki, hvað sú hægri gjörir,

svo að ölmusa þín sé í leynum, og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér“ (Matt 6:1–4).

Bæn mín fyrir systrunum í ríkinu, hvar sem þær eru og hverjar sem aðstæður þeirra eru, er sú að trú þeirra á frelsarann og þakklætið fyrir friðþægingu hans muni leiða þær til að gera allt sem þær geta fyrir þá sem Guð býður þeim að þjóna. Ef þær gera það, heiti ég þeim að þær muni komast nær því að verða heilagar konur, sem frelsarinn og himneskur faðir munu taka fúslega á móti og umbuna ríkulega.

Ég ber vitni um að þetta er kirkja hins upprisna Jesú Krists. Hann er upp risinn. Hann reiddi gjaldið af höndum fyrir allar syndir okkar. Ég veit að sökum hans munum við rísa upp og geta hlotið eilíft líf. Thomas S. Monson forseti er lifandi spámaður Drottins. Himneskur faðir heyrir bænir okkar og svarar þeim. Ég ber vitni um að við komum til frelsarans þegar við þjónum öðrum af hreinni ást í hans þágu. Um það ber ég öruggt vitni í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. „Because I Have Been Given Much,“ Hymns, nr. 219.

  2. „Come, Follow Me,“ Hymns, nr. 116.

  3. „Sweet Is the Work,“ Hymns, nr. 147.