2010–2019
Hann býður okkur að vera hendur sínar
Apríl 2016


Hann býður okkur að vera hendur sínar

Sönn kristilega þjónusta er óeigingjörn og beinist að öðrum.

„Sem ég hef elskað, elskið hver annan.“1 Þessi orð, sem hinn merkilegi kór söng, voru mælt af Jesú, fáeinum stundum fyrir hina miklu friðþægingarfórn hans – fórn sem öldungur Jeffrey R. Holland lýsti sem „stórbrotnustu staðfestingu á mesta kærleiksverki allrar sögu mannkyns.“2

Jesús kenndi okkur ekki aðeins að elska, heldur lifði hann eftir því sem hann kenndi. Alla þjónustutíð sína „gekk [Jesús] um, gjörði gott“3 og „hvatti alla til að fylgja fordæmi sínu.“4 Hann kenndi: „ Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því.“5

Thomas S. Monson forseti, sem hefur skilið þetta og lifað eftir boðinu um að elska, sagði: „Ég trúi að frelsarinn sé að segja okkur að ef við týnum okkur ekki í þjónustu við aðra, sé lítill tilgangur í okkar eigin lífi. Þeir sem aðeins lifa fyrir sig sjálfa, munu að lokum skreppa saman og í óeiginlegri merkingu glata eigin lífi, en þeir sem gleyma sjálfum sér í þjónustu við aðra, munu vaxa og blómstra og í raun bjarga lífi sínu.“6

Sönn kristilega þjónusta er óeigingjörn og beinist að öðrum. Kona nokkur sem annaðist örkumla eiginmann sinn, sagði: „Hugsið ekki um verkefni ykkar sem byrði, heldur sem tækifæri til að læra sanna merkingu kærleikans.“7

Systir Sondra D. Heaston hélt trúarræðu í BYU og spurði: „Hvað ef þið gætuð í raun greint hjörtu hvers annars? Mynduð þið skilja hvert annað betur? Mynduð þið gefa ykkur tíma til að þjóna öðrum, ef þið fynduð það sem aðrir finna og heyrðuð það sem aðrir heyra, og nálgast þá á annan hátt? Myndum við sýna þeim meiri þolinmæði, meiri góðvild og meira umburðarlyndi?“

Systir Heaston sagði frá atviki sem hún upplifði þegar hún þjónaði í Stúlknafélagsbúðum. Hún sagði:

„Ein af þeim sem hélt … trúaræðu … kenndi um reglu þess ‚að verða.‘ Eitt af því sem hún sagði … var: ‚Verið sá eða sú sem leggur á sig að þekkja aðra og þjóna þeim – leggið frá ykkur spegilinn og horfið út um gluggann.‘

Ljósmynd
Viðræður eru erfiðar á milli stúlku og leiðtoga, ef horft er í spegil

Til að útskýra þetta, þá bað hún eina stúlkuna að koma og standa fyrir framan sig. Hún tók síðan fram spegil og setti hann á milli sín og stúlkunnar, svo að hún sjálf horfði í spegilinn meðan hún reyndi að ræða við stúlkuna. Það koma ekki á óvart að þessi viðræðuaðferð reyndist hvorki áhrifarík eða innihaldsrík. Þetta var áhrifarík sýnikennsla, sem kenndi hve erfitt getur reynst að eiga samskipti við aðra og þjóna þeim, ef við einblínum of mikið á okkur sjálf og eigin þarfir. Hún lagði síðan frá sér spegilinn, dró fram gluggarúðu og setti hann á milli sín og stúlkunnar. … Við fengum nú séð að stúlkan varð miðpunktur hennar og skilið að sönn þjónusta krefst þess að við einblínum á þarfir og tilfinningar annarra. Oft erum við svo upptekin af sjálfum okkur og okkar eigin annasama lífi – að við horfum í spegilinn meðan við leitum tækifæra til þjónustu – og sjáum því ekki greinilega í gegnum glugga þjónustu.“8

Ljósmynd
Viðræður eru auðveldar á milli stúlku og leiðtoga, ef horft er í gegnum gluggarúðu

Monson forseti hefur oft minnt okkur á að við erum „umkringd þeim sem þarfnast athygli okkar eða hvatningar, stuðnings, huggunar eða vinsemdar okkar - hvort sem þeir eru fjölskyldumeðlimir, vinir, kunningjar eða ókunnugir.“ Hann sagði: „Við erum hendur Drottins hér á jörðu og okkur er boðið að þjóna og lyfta börnum hans. Hann treystir á sérhvert okkar.“9

Ljósmynd
Börnum er boðið að þjóna og vera hendur Drottins

Í janúar á síðasta ári, buðu tímaritin Friend og Liahona börnum hvarvetna um heim að fylgja leiðsögn Monson forseta – um að vera hendur Drottins. Börnunum var boðið að gera þjónustuverk – stór og smá. Þau voru síðan hvött til að draga útlínur handa sinna á blað, klippa út, skrifa þjónustuverkið sem þau gerðu á úrklippuna og senda hana tímaritunum. Þið sem hlýðið á í kvöld gætuð verið meðal hinna þúsunda barna sem gerðu ástúðlegt þjónustuverk og senduð inn úrklippu.10

Ljósmynd
Börn skrá þjónustuverk á útklippu af höndum
Ljósmynd
Þúsundir barna sendu tímaritunum umsögn um þjónustuverk sín

Þegar börnin læra að elska og þjóna öðrum á unga aldri, eru þau að tileinka sér fyrirmynd þjónustu fyrir lífstíð. Oft kenna börnin okkur hinum að þjónusta og kærleiksverk þurfa ekki að vera stórbrotin til að vera innihaldsrík og gera gæfumuninn.

Barnafélagsforseti sagði frá eftirfarandi dæmi: „Í dag,“ sagði hún, „bjuggu fimm og sex ára börnin til kærleikshálsfesti. Öll börnin teiknuðu myndir á blaðræmur: Eina sjálfsmynd, eina mynd af Jesú og aðrar af einhverjum fjölskyldumeðlimum og ástvinum. Við límdum ræmurnar saman svo þær mynduðu hringi og festum þá saman svo úr varð keðja, sem átti að vera kærleikskeðja. Meðan börnin teiknuðu, ræddu þau um fjölskyldu sína.

„Heather sagði: ‚Ég held að systir mín elski mig ekki. Við erum alltaf að rífast. … Meira að segja ég hata sjálfa mig. Líf mitt hefur ekki verið auðvelt.‘ Hún setti síðan höfuðið á milli handa sér.

Mér varð hugsað til fjölskylduaðstæðna hennar og fannst vissulega að hún hefði getað átt erfitt líf. Eftir að Heather hafði sagt þetta, svaraði Anna frá hinum enda borðsins: ‚Heather, ég ætla að setja þig í hálsfestina mína, á milli mín og Jesú, af því að hann elskar þig og ég elska þig.‘

Þegar Anna hafði sagt þetta, skreið Heather undir borðið, fór til Önnu og faðmaði hana að sér.

Þegar kennslu lauk og amma Heather kom til að ná í hana, sagði hún: ‚Veistu hvað, amma? Jesús elskar mig.‘“

Þegar við sýnum kærleika og þjónum, jafnvel á smæsta hátt, munu hjörtu breytast og mildast, er aðrir finna elsku Drottins.

Stundum er það þó svo, vegna hinna ótal mörgu umhverfis okkur sem þarfnast hjálpar og huggunar, að erfitt getur reynst að uppfylla brýnar þarfir annarra.

Systur, sumar ykkar sem leggja við hlustir gætu fundið ykkur knúnar til að rétta fjölskyldumeðlim hjálparhönd. Minnist þá þess að í hinu venjulega og oft hversdagslega verki, eruð þið „í þjónustu Guðs ykkar.“11

Aðrar gætu fundið til tómleika sem hægt væri að ráða bót á með því að huga að nánasta samfélagi ykkar og leita að tækifærum til að liðsinna og létta byrðum annarra.

Allar getum við látið einhverja þjónustu í té í okkar daglega lífi. Við lifum í síbreytilegum heimi. Við þjónum með því að gagnrýna ekki, forðast slúður, dæma ekki, með því að brosa, þakka fyrir okkur og sýna þolinmæði og góðvild.

Önnur þjónusta er tímafrekari, sem krefst ráðagerðar og meiri vinnu. Hún er þó alls erfiðis virði. Við gætum kannski byrjað á því að spyrja okkur þessara spurninga:

  • Hverjum get ég þjónað nú sem stendur mér næst?

  • Hvenær get ég gert það og hvaða hjálp býðst mér?

  • Hvernig get ég notað hæfileika mína og hæfni til að blessa aðra?

  • Hvað getum við gert sem fjölskylda?

Dieter F. Uchtdorf forseti sagði:

„Þið verðið að gera … það sem lærisveinar Krist hafa gert á öllum ráðstöfunartímum: Ráðgast saman, nota alla fáanlega hjálp, leita innblásturs heilags anda, biðja Drottin um staðfestingu og bretta síðan upp ermar og takast á við verkið.

Ég færi ykkur loforð,“ sagði hann. „Ef þið fylgið fordæmi hans, munuð þið hljóta sérstaka leiðsögn varðandi hverjum, hvernig, hvenær og hvar þið getið þjónað að hætti Drottins.“12

Alltaf þegar ég hugleiði hvernig aðstæður verða þegar frelsarinn kemur aftur, þá verður mér hugsað til þess er hann vitjaði Nefítanna og sagði:

„Eru nokkrir sjúkir yðar á meðal? Færið þá hingað. Eru einhverjir lamaðir, blindir, haltir, særðir, holdsveikir, tærðir, daufir eða þjáðir á einhvern hátt? Færið þá hingað, og ég mun gjöra þá heila, því að ég hef samúð með yður. Hjarta mitt er fullt miskunnar. …

… [Frelsarinn] læknaði þá, hvern og einn.“13

Að sinni býður hann okkur að vera hendur sínar.

Ég hef komist að því að það er elska til Guðs og náungans sem gefur lífinu gildi. Megum við fylgja fordæmi frelsara okkar og boði hans um að sýna öðrum kærleika.

Ég ber vitni um raunveruleika fyrirheits Henrys B. Eyring forseta um að „ef við viljum nota gjafir okkar til að þjóna öðrum, munum við skynja elsku Drottins til þess sem við þjónum. Við munum líka skynja elsku hans til okkar.“14 Í nafni Jesú Krists, amen.

Ath: Systir Esplin var leyst af sem fyrsti ráðgjafi í aðalforsætisráði Barnafélagsins 2. apríl 2016.

Heimildir

  1. Jóh 13:34.

  2. Jeffrey R. Holland, „Where Justice, Love, and Mercy Meet,“ Liahona, maí 2015, 106.

  3. Post 10:38.

  4. „The Living Christ: The Testimony of the Apostles,“ Liahona, apríl 2000, 2.

  5. Lúk 9:24.

  6. Thomas S. Monson, „What Have I Done for Someone Today?“Liahona, nóv. 2009, 85.

  7. Lola B. Walters, „Sunshine in My Soul,“ Ensign, ágúst 1991, 19.

  8. Sondra D. Heaston, „Keeping Your Fingers on the PULSE of Service“ (trúarræða haldin í Brigham Young háskóla, 23. Júní 2015), 1, 5, speeches.byu.edu. Ræðumaður í Stúlknafélagsbúðum er systir Virginia H. Pearce.

  9. Thomas S. Monson, „What Have I Done for Someone Today?“ 86.

  10. Sjá „Give Us a Hand!“ Liahona, jan. 2015, 64–65.

  11. Mósía 2:17.

  12. Dieter F. Uchtdorf, „Providing in the Lord’s Way,“Liahona, nóv. 2011, 55.

  13. 3 Ne 17:7, 9.

  14. Henry B. Eyring, To Draw Closer to God (1997), 88.