2010–2019
Til vegsemdar þeim sem bjarga
Apríl 2016


Til vegsemdar þeim sem bjarga

Þegar við tileinkum okkur elsku frelsarans, mun hann vissulega blessa og efla okkar réttlátu tilraunir til að bjarga hjónabandi okkar og efla fjölskyldna.

Fyrir mörgum árum, var ég í Frankfurt musterinu, Þýskalandi, þegar ég sá eldri hjón leiðast. Sú vinsemd og ástúð sem þau sýndu hvort öðru bræddi hjarta mitt.

Ég er ekki viss um af hverju þessi sýn hafði slík djúpa áhrif á mig. Kannski var það sú einlæga ást sem þessi hjón höfðu á hvort öðru – hið óyggjandi tákn um þolgæði og skuldbindingu. Það var augljóst að þessi hjón höfðu verið lengi saman og enn sýndu þau hvort öðru innilega ástúð.

Einnota samfélag

Ég held að önnur ástæða þess að þetta ljúfa atvik hefur verið mér minnisstætt svo lengi, sé vegna að það stakk í stúf við ríkjandi viðhorf okkar tíma. Í svo mörgum samfélögum heimsins virðist allt vera einnota. Um leið og það tekur að sjá á einhverju og það fer að lýjast – eða jafnvel þegar við verðum þreytt á því – þá losum við okkur við það og fáum okkur annað, eitthvað nýrra og meira glansandi.

Þetta er gert við farsíma, fatnað, bíla – og því miður líka sambönd.

Þótt það kunni að vera gild ástæða að baki þess að skipta út veraldlegum hlutum sem við þörfnumst ekki lengur, þá gildir ekki það sama um það sem hefur eilíft gildi – hjónaband okkar fjölskyldu og lífsgildi – því sú afstaða að skipta út gömlu fyrir nýtt í því samhengi getur síðar valdið mikilli eftirsjá.

Ég er þakklátur fyrir að tilheyra kirkju sem hefur hjónabandið og fjölskylduna í hávegum. Meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu eru kunnir víða um heim fyrir að búa að einhverjum bestu hjónaböndum og fjölskyldum sem fyrirfinnast. Ég trúi að það sé að hluta vegna hins dýrmæta sannleika sem endurreistur var fyrir tilverknað Josephs Smith um að hjónaböndum og fjölskyldum er ætlað að vara að eilífu. Fjölskyldur eru ekki bara til að láta hlutina ganga betur fyrir sig hér á jörðu, til að verða síðan uppleystar þegar til himins er komið. Þær eru öllu heldur regla himins. Þær eru spegilmynd himneskrar fyrirmyndar, eftirlíking hinnar eilífu fjölskyldu Guðs.

Sterk hjónabönd og fjölskyldusambönd verða ekki til bara af því að við erum meðlimir kirkjunnar. Þau kalla á stöðugt og meðvitað verk. Kenningin um eilífar fjölskyldur þarf að hafa slík áhrif á okkur að við gerum okkar besta til að bjarga og auðga hjónaband okkar og fjölskyldu. Ég dáist að og hrósa þeim sem hafa varðveitt og nært þessi mikilvægu, eilífu sambönd.

Í dag ætla ég að vegsama þá sem bjarga.

Bjarga hjónabandi okkar

Í áranna rás hef ég framkvæmt helgiathöfn innnsiglunar fyrir mörg vongóð og kærleiksrík hjón. Ég hef enn ekki hitt nein hjón sem horfast í augu yfir altarið og finnst líklegt að sambandi þeirra ljúki með sorg eða skilnaði.

Því miður gerist það þó hjá sumum.

Einhvern veginn, þegar dagar og stundir líða og ástin og rómantíkin dofna, hætta sumir smám saman að huga að hamingju hvors annars og taka að finna að hinu smæsta. Við slíkar aðstæður hættir sumum til þess að draga þá ömurlegu ályktun að maki þeirra sé ekki nógu gáfaður, skemmtilegur eða ungur. Einhvern veginn læðist að þeim sú hugmynd að þetta sé nægileg réttlæting til að finna sér annan.

Bræður, ef þetta er eitthvað í líkingu við ykkur, þá segi ég ykkur umbúðalaust að þið eruð á þeim vegi sem leiðir til upplausnar hjónabands og heimilis og brostinna hjartna. Ég sárbæni ykkur um að gæta að ykkur, taka aðra stefnu og koma aftur á hinn örugga veg ráðvendni og sáttmálshollustu. Auðvitað gildir sama reglan um ykkur, kæru systur.

Ég mæli nú fáein orð til þeirra einhleypu bræðra sem lifa í þeirri blekkingu að þeir þurfi fyrst að finna sér hina „fullkomnu konu“, áður en þeir fara að íhuga tilhugalíf og hjónaband af fullri alvöru.

Kæru bræður, ég minni ykkur á, ef hin fullkomna kona er einhverstaðar til, haldið þið þá virkilega að hún hefði áhuga á ykkur?

Samkvæmt hamingjuáætlun Guð, þá er ekki lagt svo mikið upp úr því að við finnum einhvern fullkominn, heldur að við finnum einstakling sem við gætum hugsað okkur að deila lífinu með og skapa ástúðlegt og varanlegt samband og vinna að fullkomnun okkar. Það er markmiðið.

Bræður, þeir sem leggja rækt við hjónaband sitt skilja að það verk er tímafrekt og krefst þolgæðis og umfram allt friðþægingar Jesú Krists. Það krefst þess að þið séuð langlyndir, leitið ekki ykkar eigin, reiðist ekki auðveldlega, hugsið ekkert illt og samgleðjist sannleikanum. Með öðrum orðum, þá krefst það kærleika, hinnar hreinu ástar Krists.1

Allt þetta gerist ekki í einu vettvangi. Dásamleg hjónabönd eru byggð stein fyrir stein, dag eftir dag, heila lífstíð.

Það eru góð tíðindi.

Því hversu innantómt sem samband ykkar kann að vera á líðandi stundu, þá mun það byggjast upp og verða líkt og tignarlegur pýramídi, ef þið haldið áfram að hlaða upp steinum góðvildar, samúðar, hlustunar, fórnar, skilnings og óeigingirni.

Ef þetta kann að virðast seinlegt verk, minnist þá þess: Hjónabandinu er ætlað að vara að eilífu! „Þreytist því ekki á að gjöra gott, því að þér eruð að leggja grunninn að [dásamlegu hjónabandi]. „Og af hinu smáa sprettur hið stóra.“2

Þetta kann að vera hægfara verk, en það þarf ekki að vera gleðisnautt. Í raun þá staðhæfi ég hið augljósa, að hjónaskilnaðir eiga sér sjaldnast stað þegar bæði hjónin eru hamingjusöm.

Verið því hamingjusöm!

Bræður, komið eiginkonu ykkar á óvart með því að gera eitthvað sem gleður hana.

Þeir sem rækta hjónaband sitt velja hamingjuna. Þótt satt séð að meðhöndla þarf sérstaklega þrálátt þunglyndi, þá hef ég uppgötvað ákveðna visku í þessum orðum Abrahams Lincoln: „Flestir eru jafn hamingjusamir og þeir ákveða að vera.“ Þetta fer ágætlega saman við þessa ritningu: „Leitið og þér munuð finna.“3

Ef við leitum að ófullkomleika í maka okkar eða einhverju sem skapraunar okkur í hjónabandinu, munum við vissulega finna það, því allir hafa eitthvað af slíku. Ef við aftur á móti leitum að því góða, munum við vissulega finna það, því allir hafa líka marga góða kosti.

Þeir sem rækta hjónaband sitt plokka af þyrnana og leggja rækt við blómin. Þeir fagna hinum smáu náðarverkum sem tendra ljúfar kærleikstilfinningar. Þeir sem rækta hjónabandið bjarga komandi kynslóðum.

Bræður, minnist þess afhverju þið urðuð ástfangnir.

Keppið að því dag hvern að efla hjónabandið og stuðla að hamingju þess.

Kæru vinir, gerum allt sem við getum til að geta talist meðal hinna heilögu og hamingjusömu sálna sem varðveita hjónaband sitt.

Rækta fjölskyldu okkar

Í dag ætla ég líka að vegsama þá sem leggja rækt við fjölskyldubönd sín. Allar fjölskyldur þarfnast björgunar.

Eins dásamlegt og það sé að þessi kirkja sé kunnug fyrir sterkar fjölskyldur, gæti okkur oft fundist það eiga við allar aðrar Síðari daga heilagra fjölskyldur nema okkar eigin. Raunveruleikinn er þó sá að engar fullkomnar fjölskyldur eru til.

Allar fjölskyldur eiga sinn ólánstíma.

Líkt og þegar foreldrar ykkar biðja ykkur að taka sjálfsmynd af þeim eða þegar ömmusystir ykkar segir ykkur vera einhleypa því þið séuð of vandlátir eða þegar kreddufasti mágur ykkar telur sínar pólitísku skoðanir samræmast fagnaðarerindinu eða þegar faðir ykkar ráðgerir fjölskyldumyndir þar sem allir skulu klæddir eins og persónur eftirlætis kvikmyndar hans.

Og þið fáið apabúninginn.

Þannig eru fjölskyldur.

Þótt við deilum sömu erfðavísum, þá erum við ekki eins. Andi okkar er einstæður. Upplifanir móta okkur á ólíkan hátt. Niðurstaðan verður sú að við verðum ólíkir persónuleikar.

Við getum valið að fagna yfir slíkum fjölbreytileika, í stað þess að reyna að þvinga alla í sama mótið og metið þau fyrir að auðga líf okkar og koma okkur stöðugt á óvart.

Stundum velja þó fjölskyldumeðlimir eða gera eitthvað sem ekki telst gott, er særandi eða ósiðlegt. Hvað ber að gera í slíkum tilvikum?

Engin ein lausn fellur að öllum aðstæðum. Þeir sem koma fjölskyldum sínum til bjargar eru farsælir því þeir ráðgast við maka sinn og fjölskyldur, leita vilja Drottins og hlusta eftir innblæstri heilags anda. Þeim er ljóst að það sem hentað gæti einni fjölskyldu gæti verið óhentugt fyrir aðra fjölskyldu.

Það er þó eitt alltaf er rétt í öllum aðstæðum.

Í Mormónsbók er sagt frá fólki sem uppgötvaði leyndardóm hamingjunnar. Um kynslóðir „voru engar deilur. … Og vissulega gat ekki hamingjusamara fólk á meðal allra þeirra, sem Guð hafði skapað.“ Hvernig fór það að þessu? „Vegna elsku Guðs, sem bjó í hjörtum fólksins.“4

Hver sem vandinn er sem fjölskylda okkar stendur frammi fyrir og hvað það er sem við þurfum að gera til að leysa hann, þá verður lausnin ætíð að byggjast á kærleikanum, hinni hreinu ást Krists. Án ástar hans, munu jafnvel fjölskyldur sem virðast fullkomnar lenda í basli. Með ást hans, munu jafnvel fjölskyldur sem glíma við miklar áskoranir njóta velsældar.

„Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“5

Hann gildir við björgun hjónabanda! Hann gildir við björgun fjölskyldna!

Láta af drambi

Hinn mikli óvinur kærleikans er drambið. Dramb er ein algengasta ástæða þess að hjónabönd og fjölskyldur berjast í bökkum. Dramb er bráðlyndi, illvilji og öfund. Dramb hreykir sér af eigin styrk og hunsar dyggðir annarra. Dramb er óeigingirni og stutt er í það. Dramb gerir ráð fyrir slæmum ásetningi þar sem hann er ekki fyrir hendi og hylur eigin veikleika með útsmoginni réttlætingu. Dramb er kaldhæðni, svartsýni, reiði og óþolinmæði. Ef kærleikurinn er hin hreina ást Krists, þá er drambið vissulega persónueinkenni Satans.

Dramb er hinn almenni veikleiki mannkyns. Hann er þó ekki hluti af okkar andlegu arfleifð og á hvergi heima meðal þeirra sem hafa prestdæmi Guðs.

Lífið er stutt, bræður. Eftirsjá kann að vara lengi – sum getur haft afleiðingar sem kunna að hljóma um eilífð.

Hvernig þið komið fram við eiginkonu ykkar, börn, foreldra eða systkini gæti haft áhrif á komandi kynslóðir. Hverskonar arfleifð viljið þið yfirfæra á afkomendur ykkar? Verður það hefnd, harka, reiði, ótti eða einsemd? Verður það elska, auðmýkt, fyrirgefning, samúð, andlegur vöxtur og eining?

Við þurfum allir að hafa þetta í huga: „dómurinn verður miskunnarlaus þeim, sem ekki auðsýndi miskunn.“6

Sökum fjölskyldusambands ykkar, sökum sálar ykkar, verið miskunnsamir, „því miskunnsemin gengur sigri hrósandi að dómi.“7

Látið af drambi.

Að biðja börn ykkar, eiginkonu, fjölskyldu eða vini einlægrar afsökunar er ekki merki um veikleika, heldur styrk. Er mikilvægara að hafa rétt fyrir sér, heldur en að stuðla að aðstæðum til góðs uppeldis, lækningar og kærleika?

Byggið brýr, rífið þær ekki niður.

Látið elsku sigra dramb – jafnvel þegar þið eigið ekki sökina – og kannski einkum þegar þið eigið ekki sökina.

Ef þið gerið það, mun allt mótlæti taka enda, og sökum elsku Guðs í hjarta ykkar, munu þrætur fjara út. Þessar reglur um varðveislu sambanda eiga við um okkur alla, hvort sem við erum giftir, höfum skilið, erum ekklar eða einhleypir. Við getum allir stuðlað að sterkum fjölskyldum.

Mesta elskan

Bræður, í þeirri viðleitni okkar að bjarga hjónabandi okkar og fjölskyldu, skulum við fara að fordæmi þess sem frelsar okkur. Frelsarinn hefur bjargað „sálum okkar með kærleika.“8 Jesús Kristur er meistari okkar. Verk hans er okkar verk. Það er björgunarverk og hefst á heimilum okkar.

Elska, sem ofin er sáluhjálparáætluninni, er óeigingjörn og hefur farsæld annarra í fyrirrúmi. Þannig er elskan sem himneskur faðir ber til okkar.

Þegar við tileinkum okkur elsku frelsarans, mun hann vissulega blessa og efla okkar réttlátu tilraunir til að bjarga hjónabandi okkar og efla fjölskyldna.

Megi Drottinn blessa ykkur í hinu óþreytandi og réttláta starfi við að teljast meðal þeirra sem koma til bjargar. Það er bæn mín, í nafni Jesú Krists, amen.