2010–2019
Dauðinn mun ekki framar til vera
Apríl 2016


Dauðinn mun ekki framar til vera

Upprisan er uppspretta mikillar vonar fyrir alla þá sem hafa misst og syrgt ástvin.

Vika er liðin frá páskum og hugsanir okkar beinast enn á ný að friðþægingu og upprisu Drottins Jesú Krists. Síðastliðið ár hef ég hugleitt og ígrundað upprisuna meira en að öllu jöfnu.

Fyrir næstum ári lést dóttir okkar, Alisa. Hún hafði tekist á við krabbamein í næstum átta ár, gengist undir nokkrar skurðaðgerðir, margar ólíkar meðferðir, upplifað dásamleg sigra og mikil vonbrigði. Við sáum þegar henni hrakaði og nær dró að lokum lífs hennar. Það var óbærilegt að horfa upp á ástand okkar yndislegu dóttur – þetta bjarteyga litla barn, sem hafði vaxið upp og orðið að hæfileikaríkri og dásamlegri konu, eiginkonu og móður. Mér fannst hjarta mitt bresta.

Ljósmynd
Alisa Johnson Linton

Á páskunum í fyrra, rétt rúmum mánuði áður en hún dó, skrifaði Alisa: „Páskarnir minna mig á allt það sem ég þrái fyrir sjálfa mig. Að einhvern tíma muni ég læknast og verða heil. Að einhvern tíma muni ég ekki hafa járn- eða plasthluti í líkama mínum. Að einhvern tíma muni hjarta mitt verða óttalaust og hugur minn kvíðalaus. Ég bið þess ekki að það gerist fljótt, heldur gleðst ég innilega yfir því að trúa einlæglega á dásamlegt framhaldslíf.“1

Upprisa Jesú Krists tryggir einmitt það sem Alisa vonast eftir og hvert okkar „krefst raka … fyrir voninni, sem í [okkur] er.“2 Gordon B. Hinckley forseti sagði upprisuna vera „dásamlegasta atburð allrar sögu mannkyns.“3

Upprisan er gerð raunveruleg fyrir tilverknað friðþægingar Jesú Krists og er kjarni hinnar miklu sáluhjálparáætlunar.4 Við erum andabörn himneskra foreldra.5 Þegar við komum til þessarar jarðar, sameinast andi okkar líkamanum. Við upplifum alla þá gleði og áskoranir sem fylgja dauðlegu lífi. Þegar menn deyja, þá yfirgefur andinn líkamann. Upprisan gerir mögulegt að andinn og líkaminn sameinist aftur, en eftir það verður sá líkami ódauðlegur og fullkominn6 – ekki háður sársauka, sjúkdómum eða öðrum þrautum.

Eftir upprisuna verður andinn aldrei aftur aðskilinn líkamanum, því upprisa frelsarans kom til leiðar endanlegum sigri yfir dauðanum. Til að geta hlotið okkar eilífa hlutskipti, þá þurfum við að búa yfir slíkri ódauðlegri sál – anda og líkama – sameinaða að eilífu. Þegar andinn og líkaminn eru þannig óaðskiljanlega tengdir, þá getum við hlotið fyllingu gleði.7 Við gætum í raun alls ekki hlotið fyllingu gleði án upprisunnar og yrðum ævarandi vansæl.8 Jafnvel þeir sem eru réttlátir líta á aðskilnað anda síns við líkamann sem ástand ánauðar. Við erum leyst undan því ástandi með upprisunni, sem er endurlausn frá hlekkjum eða helsi dauðans.9 Það er engin sáluhjálp án bæði andans og líkamans.

Öllu búum við að líkamlegum, andlegum og tilfinningalegum annmörkum og veikleikum. Þessar áskoranir, sem nú virðast svo erfiðar, munu hverfa að lokum. Engar slíkar þrautir munu plaga okkur eftir upprisu okkar. Alisa kannaði lífslíkur þeirra sem þjáðust af sama krabbameini og hún og niðurstaðan var ekki upplífgandi: Hún skrifaði: „Það er til lækning, svo ég er óttalaus. Jesús hefur þegar læknað mig og þig af krabbameini. … Mér mun batna. Ég gleðst yfir þessari vitneskju.“10

Við getum sett annað orð í stað krabbameins, eða alla aðra líkamlega, andlega eða tilfinningalega kvilla sem við gætum upplifað. Þeir hafa þegar verið læknaðir sökum upprisunnar. Hin dásamlega upprisa, hin endanlega lækning, er ekki á valdi læknavísindanna. Hún er þó á valdi Guðs. Við vitum að hún er möguleg, því frelsarinn er upprisinn og hefur gert upprisu mögulega fyrir sérhvert okkar.11

Upprisa frelsarans sannar að hann er sonur Guðs og að það sem hann kenndi er raunverulegt. „Hann er upp risinn, eins og hann sagði.“12 Engin sönnun fyrir guðleika hans er máttugri en sú að hann reis úr gröfinni með ódauðlegan líkama.

Við þekkjum þá sem urðu vitni að upprisunni á tíma Nýja testamentisins. Auk þeirra kvenna og karla, sem við lesum um í guðspjöllunum, þá erum við fullvissuð um að hundruð hafi í raun séð hinn upprisna Drottin.13 Mormónsbók segir að auki frá hundruðum annarra: „Mannfjöldinn gekk fram og þrýsti höndum sínum á síðu hans … og allir sáu með augum sínum og fundu með höndum sínum og vissu með öruggri vissu og báru því vitni, að þetta var sá, sem spámennirnir höfðu ritað um, að koma mundi.14

Við þessi vitni til forna, bætast svo vitni síðari daga. Joseph Smith sá í raun hinn upprisna frelsara með föðurnum, við innleiðingu þessarar ráðstöfunar.15 Lifandi spámenn og postular hafa borið vitni um raunveruleika hins upprisna, lifandi Krist.16 Við getum því sagt: „Vér erum umkringdir slíkum fjölda votta.“17 Öll getum við talist meðal þeirra vitna, sem vita fyrir kraft heilags anda, að það sem við minnumst á páskum hafi raunverulega gerst – að upprisan er raunverulega.

Raunveruleiki upprisu frelsarans vekur von fram yfir sorg, því hún vekur fullvissu um sama raunveruleika allra annarra fyrirheita fagnaðarerindisins – fyrirheita, engu síður dásamlegri en upprisan. Við vitum að hann hefur máttinn til að hreinsa okkur af allri synd. Við vitum að hann hefur tekið á sig bresti okkar og sársauka og allt óréttlæti sem við höfum þolað.18 Við vitum að hann hefur „[risið] upp frá dauðum með lækningarmátt í vængjum sínum.“19 Við vitum að hann getur læknað okkur, hversu brostin sem við erum. Við vitum að hann „mun þerra hvert tár af augum [okkar]. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“20 Við vitum að við getum verið „[fullkomin gjör] fyrir Jesú , … sem leiddi til lykta þessa fullkomnu friðþæginu.“21 Við þurfum aðeins að sýna trú og fylgja honum.

Í lok hinnar innblásnu óratoríu Messías, gæðir Handel orð Pálls postula fallegri tónlist, til að fagna yfir upprisuninni.

„Sjá, ég segi yður leyndardóm: Vér munum ekki allir sofna, en allir munum vér umbreytast

í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður. Því lúðurinn mun gjalla og þá munu hinir dauðu upp rísa óforgengilegir, og vér munum umbreytast.

Þetta forgengilega á að íklæðast óforgengileikanum og þetta dauðlega að íklæðast ódauðleikanum,

… þá mun rætast orð það, sem ritað er: Dauðinn er uppsvelgdur í sigur.

Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?

„Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist!“22

Ég er þakklátur fyrir þær blessanir sem við njótum sökum friðþægingar og upprisu Drottins Jesú Krists. Allir þeir sem séð hafa á eftir barni sínu í gröfina eða grátið yfir kistu maka síns eða syrgt dauða foreldris eða ástvinar, geta átt bjarta von sökum upprisunnar. Hve dásamleg upplifun þegar við sjáum þau aftur – ekki aðeins sem anda, heldur með upprisna líkama.

Ég þrái að sjá móður mína aftur, finna hennar ljúfu snertingu og horfa í ástúðleg augu hennar. Ég þrái að sjá föður minn brosa, hlusta á hlátur hans og sjá hann upprisinn og fullkominn. Með auga trúar, sé ég Alisu fyrir mér, algjörlega óháða jarðneskum erfiðleikum og broddi dauðans – upprisna og fullkomna Alisu, sigrihrósandi og fyllta gleði.

Fyrir nokkrum árum skrifaði hún: „Lífið í hans nafni, er björt von, alltaf, Í einu og öllu. Það er dásamlegt að minnast þess á páskum.“23

Ég ber vitni um raunveruleika upprisunnar. Jesús Kristur lifir og sökum hans munum við öll lifa aftur. Í nafni Jesú Krists, amen.