2010–2019
Feður
Apríl 2016


Feður

Í dag legg ég áherslu á hið góða sem karlar gætu gert í sínum æðstu karlhlutverkum – að vera eiginmaður og faðir.

Í dag ræði ég um feður. Feður eru nauðsynlegir í hinni guðlegu hamingjuáætlun og ég hyggst veita þeim hvatningu sem reyna að sitt best til að framfylgja þeirri köllun. Að vegsama og upphefja föðurhlutverkið og feður, er ekki að vansæma eða kasta rýrð á einhvern annan. Í dag legg ég einfaldlega áherslu á hið góða sem karlar gætu gert í sínum æðstu karlhlutverkum – að vera eiginmaður og faðir.

David Blankenhorn, höfundur Fatherless America, sagði: „Á okkar tíma er hið bandaríska samfélag tvískipt í grundvallaratriðum og á báðum áttum með ímynd föðurhlutverksins. Sumum rennur ekki minni til þess. Aðrir láta það misbjóða sér. Enn aðrir, og fleiri en fáeinir fjölskyldufræðingar, vanrækja eða vanvirða það. Margir aðrir eru ekki sérlega fráhverfir því, né heldur styðja þeir það. Mörgum finnst við eiga að virkja það, en telja samfélagið hvorki vilja né geta það lengur.“1

Ljósmynd
Við höfum trú á feðrum.
Ljósmynd
Feður eiga að stjórna í kærleika og réttlæti.

Við, sem kirkja, höfum trú á feðrum . Við höfum trú á þeirri „hugsjón að faðir hafi fjölskyldu sína í fyrirrúmi.“2 Við höfum trú á að „samkvæmt guðlegri áætlun [eigi] feður að sitja í forsæti fjölskyldu sinnar í kærleika og réttlæti og bera þá ábyrgð að sjá henni fyrir nauðsynjum lífsins og vernda hana.“3 Við höfum trú á að samkvæmt sameiginlegri fjölskylduábyrgð „[beri] feðrum og mæðrum skylda til að hjálpa hvort öðru sem jafningjar.“4 Við höfum trú á að feður séu sérstakir og ómissandi og langt frá því að vera óþarfir.

Ljósmynd
Á foreldrum hvílir helg ábyrgð.
Ljósmynd
Feður eru óbætanlegir.

Sumir sjá kosti föðurhlutverksins hvað varðar félagslegu hliðina, sem eitthvað sem skuldbindur menn við eigin afkvæmi, hvetur þá til að vera góðir samfélagsþegnar, huga að þörfum annarra og efla í börnum „móðurlega og föðurlega eiginleika. … Í stuttu máli, þá er lykilatriði að karlar verði feður. Börnum er lykilatriði að eiga föður. Samfélagslegt lykilatriði er að skapa feður.“5 Þótt þessar ábendingar séu vissulega sannar og mikilvægar, þá vitum við að föðurhlutverkið er mun meira en félagsleg sköpun eða þróunarafurð. Föðurhlutverkið er guðlegt og á uppruna í himneskum föður og, hvað þetta jarðneska svið varðar, í föður Adam.

Hin fullkomna guðlega fyrirmynd föðurhlutverksins er himneskur faðir. Hans persónuleiki og eiginleikar fela í sér gnægð góðleikans og fullkomna elsku. Verk hans og dýrð eru framþróun, hamingja og eilíft líf barna hans.6 Feður í þessum fallna heimi geta ekki gert tilkall til neins sem líkist hinni óviðjafnanlegu æðstu hátign, en þegar þeir reyna sitt besta, keppa þeir að því að líkjast honum, og eru þá vissulega verkamenn hans. Þeir eru heiðraðir með mikilvægu og dásamlegu trausti.

Hvað karla varðar, þá afhjúpar feðrahlutverkið veikleika þeirra og það sem þarf að bæta í eigin fari. Feðrahlutverkið krefst fórnar, en veitir óviðjafnanlega ánægju og gleði. Ég undirstrika aftur að æðsta fyrirmynd okkar er himneskur faðir, sem elskaði okkur, andabörn sín, svo heitt að hann gaf son sinn eingetinn, okkur til hjálpræðis og upphafningar.7 Jesús sagði: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“8 Feður staðfesta þá elsku með því að leggja líf sitt í sölurnar dag hvern og erfiða við að þjóna og styðja fjölskyldu sína.

Hugsanlega er mikilvægasta verkefni feðra að snúa hjörtum barna sinna til föður þeirra á himnum. Ef faðir getur sýnt börnum sínum, í orði og verki, hvað felst í því að vera trúfastur Guði dag hvern, þá hefur sá faðir veitt börnum sínum lykilinn að friði í þessu lífi og að eilífu lífi í komandi heimi.9 Sá faðir sem les ritningarnar með börnum sínum, gerir þau kunnug rödd Drottins.10

Ljósmynd
Faðir les ritningarnar

Í ritningunum er endurtekið lögð áhersla á skyldur foreldar til að kenna börnum sínum:

„Og enn fremur, að því leyti sem foreldrar, er eiga börn í Síon eða einhverri skipulagðri stiku hennar, kenna þeim ekki, þegar þau eru átta ára að aldri, að skilja kenninguna um iðrun, trú á Krist, son hins lifanda Guðs, og um skírn og gjöf heilags anda með handayfirlagningu, fellur syndin á höfuð foreldranna. …

Og þeir skulu einnig kenna börnum sínum að biðja og ganga grandvör frammi fyrir Drottni.“11

Árið 1833 áminnti Drottinn meðlimi Æðsta forsætisráðsins, fyrir slælega skyldurækni við að kenna börnum sínum: Við einn þeirra sagði hann ákveðið: „Þú hefur ekki kennt börnum þínum ljós og sannleika, samkvæmt boðunum, og hinn illi hefur enn vald yfir þér, og þetta er orsök þrenginga þinna.“12

Feðrum ber að kenna lögmál Guðs viðhalda því hjá hverri kynslóð. Sálmahöfundurinn segir:

„Hann setti reglu í Jakob og skipaði lögmál í Ísrael, sem hann bauð feðrum vorum að kunngjöra sonum þeirra,

til þess að seinni kynslóð mætti skilja það og synir þeir er fæðast mundu, mættu ganga fram og [síðan] segja sonum sínum frá því,

og setja traust sitt á Guð og eigi gleyma stórvirkjum Guðs, heldur varðveita boðorð hans,13

Ljósmynd
Faðir og dóttir dansa saman

Vissulega eru kennsla fagnaðarerindisins sameiginlegt verkefni föður og móður, en skýrt er að Drottinn væntir þess að feður séu leiðandi í því að gera það að algjöru forgangsverkefni. (Og við skulum muna eftir því að óformlegar samræður, að starfa og leika saman og hlusta eru mikilvægir þættir í kennslu.) Drottinn væntir þess að feður aðstoði við að móta börn sín, og börn vilja og þurfa fordæmi.

Ljósmynd
Father and son working together

Sjálfur var ég blessaður með fyrirmyndar föður. Ég minnist þess þegar ég var um 12 ára, að faðir minn varð frambjóðandi til borgarráðs í fremur litlu samfélagi. Hann fór ekki í umfangsmikla kosningabaráttu – ég minnist þess einungis að faðir minn fékk mig og bræður mína til að dreifa auglýsingapésum í hús, til að hvetja fólk til að kjósa Paul Christofferson. Þeir voru fjölmargir meðal hinna fullorðnu sem ég afhendi pésana sem létu þau orð falla að Paul væri góður og ráðvandur maður og að þeim væri ekkert að fyrirstöðu að kjósa hann. Mitt unga piltshjarta sló hratt af stolti yfir föður mínum. Það vakti mér tiltrú og löngun til að feta í fótspor hans. Hann var ekki fullkominn – það er engin – en hann var heiðarlegur og ljúfur og metnaðarfyrirmynd fyrir son sinn.

Ögun og leiðrétting eru hluti af því að kenna. Líkt og Páll sagði: „Því að Drottinn agar þann, sem hann elskar.“14 Þegar faðir agar þarf hann að gæta vandlega að sér, því aldrei er hægt að réttlæta illa meðferð. Þegar faðir leiðréttir þarf hann að láta stjórnast af elsku og leiðsögn heilags anda:

„Vanda um tímanlega með myndugleik, þegar heilagur andi hvetur til þess, og auðsýna síðan vaxandi kærleik þeim, sem þú hefur vandað um við, svo að hann telji þig ekki óvin sinn–

Svo að hann megi vita, að tryggð þín er sterkari en bönd dauðans.“15

Ögun að hætti guðleikans snýst minna um refsingu og meira um að liðsinna ástvini á vegi sjálfsstjórnar.

Ljósmynd
Faðir að störfum
Ljósmynd
Viðurværis aflað

Drottinn hefur sagt: „Öll börn eiga kröfu á foreldra sína um framfærslu, þar til þau eru myndug.“16 Brauðstritið er heilagt verk. Að sjá fyrir fjölskyldu sinni, er ekki í andstöðu við föðurhlutverkið, jafnvel þótt að krefjist fjarveru frá fjölskyldunni – það er kjarni þess að vera góður faðir. „Vinnan og fjölskyldan eru svið sem skarast á“17 Það réttlætir auðvitað ekki að menn vanræki fjölskyldu sína fyrir starfsframann eða, á hinn veginn, að þeir séu ófúsir til að leggja sig fram og varpa þess í stað ábyrgð sinni yfir á aðra. Með orðum Benjamíns konungs:

„Og þér munuð ekki leyfa, að börn yðar gangi hungruð og nakin, né munuð þér heldur leyfa þeim að brjóta lögmál Guðs, takast á og munnhöggvast hvert við anna, …

heldur munuð þér kenna þeim að ganga á vegi sannleika og hófsemi. Þér munuð kenna þeim að elska hvert annað og þjóna hvert öðru.“18

Við skiljum þjáningar þeirra manna sem ekki finna leiðir eða aðferðir til að geta fyllilega séð fjölskyldu sinni farborða. Það felst engin skömm í því að geta ekki uppfyllt allar skyldur og væntingar föður, á einhverjum tilskildum tíma, eftir að hafa gert allt sitt besta. „Sjúkdómar, andlát eða aðrar aðstæður geta gert persónulega aðlögun nauðsynlega. Ættingjar ættu að veita stuðning þegar með þarf.“19

Ljósmynd
Ástúðlegir foreldrar
Ljósmynd
Hjón dansa saman

Að elska móður barnanna sinna – og að sýna þá elsku – er tvennt að því mikilvægasta sem faðir getur gert fyrir börnin sín. Það eflir og styrkir hjónabandið, sem leggur grunn að lífi og öryggi þeirra í fjölskyldunni.

Ljósmynd
Faðir með unglingssyni sínum

Sumir menn eru einhleypir feður, fósturfeður eða stjúpfeður. Margir hverjir leggja mikið á sig og reyna sitt besta í oft erfiðum aðstæður. Við heiðrum þá sem gera allt sem hægt er af elsku, þolinmæði og sjálfsfórn, til að uppfylla þarfir hins einstaka og allrar fjölskyldunnar. Þess má geta að Guð sjálfur treysti fósturföður fyrir sínum eingetna syni. Vissulega á Jósef einhverjar þakkir skildar fyrir þá staðreynd að í uppvexti sínum þá „þroskaðist [Jesú] að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum.“20

Því miður þá hafa sum börn ekki föður, sökum dauða hans, fjarveru eða skilnaðar. Sumir eiga feður sem eru til staðar líkamlega, en tilfinningalega fjarlægir eða á annan hátt áhugalausir eða óvirkir. Við skorum á feður að bæta sig og standa sig betur. Við skorum á fjölmiðla og afþreyingarmiðla að segja oftar frá trúföstum og hæfum feðrum sem sannlega elska eiginkonur sínar og leiða börn sín í visku, í stað þeirrar ímyndar sem svo oft er dreginn upp af þeim sem liðleskjum og ónytjungum eða „manna er stöðugt skapa vandamál.“

Við þau börn sem búa við erfiðar fjölskylduaðstæður segjum við: Þið eruð engu minna virði þrátt fyrir þær. Áskoranir gefa oft til kynna að Drottinn reiðir sig á ykkur. Hann getur liðsinnt ykkur, með beinum hætti og fyrir milligöngu annarra, í því sem þið standið frammi fyrir. Þið getið orðið sú kynslóð, kannski fyrst í fjölskyldu ykkar, til að höndla sannlega þá guðlegu fyrirmynd sem Guð hefur ætlað fjölskyldum og blessa þar með allar kynslóðir sem á eftir ykkur koma.

Við ungu mennina vil ég segja: Takið á móti því hlutverki að vera fyrirvinnur og verndarar og búið ykkur nú vandlega undir það með því að vera góðir námsmenn í skóla og ráðgera enn frekari menntun. Menntun er lykill að því að þróa nauðsynlega kunnáttu og hæfni, hvort sem hún er sótt í háskóla, tækniskóla eða iðnskóla. Grípið tækfæri til að eiga samskipti við fólk á öllum aldri, líka börn, og leggið á ykkur að stofna heilbrigð og gefandi sambönd. Það felur yfirleitt í sér að þurfa að ræða við aðra í eigin persónu og stundum að gera eitthvað saman, en ekki aðeins fullkomna getuna til að senda textaskilaboð. Lifið þannig að þið glæðið hjónaband og börn ykkar hreinleika.

Við alla hina upprennandi kynslóð segjum við: Hvaða einkunn sem þið gefið föður ykkar, á mælikvarðanum góður, betri, bestur (og ég geri ráð fyrir að sú einkunnargjöf verði hærri eftir því sem þið verðið eldri og vitrari), einsetjið ykkur þá að heiðra hann og móður ykkar með eigin lífi. Hafið í huga þessa einlægu von föður, sem tjáð er af Jóhannesi: „Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra, að börnin mín lifi í sannleikanum.“21

Við bræður mína, sem eru feður í þessari kirkju, segi ég: Ég veit að þið þráið að vera betri og fullkomnari feður. Ég veit að ég óska þess sjálfur. Við skulum þó sækja áfram, þrátt fyrir annmarka okkar. Við skulum leiða hjá okkur hina yfirdrifnu hugmyndafræði um einstaklingshyggju og sjálfsforræði í menningu okkar og láta hamingju og velferð annarra vera í fyrirrúmi. Himneskur faðir mun vissulega efla okkur í ófullkomleika okkar og sjá til þess að okkar smæsta framlag beri ávöxt. Ég ætla að segja frá grein sem birtist í New Era fyrir nokkrum árum og hafði hvetjandi áhrif á mig. Höfundur sagði svo frá:

„Þegar ég var drengur bjó litla fjölskyldan okkar í tveggja herbergja íbúð á annarri hæð. Ég svaf í sófanum í stofunni. …

Faðir minn, sem var járniðnaðarmaður, fór dag hvern afar snemma til vinnu. Á hverjum morgni var hann vanur … að breiða yfir mig teppið og staldra aðeins við. Ég var hálfsofandi þegar skynjaði föður minn standa við sófann horfandi á mig. Þegar ég vaknaði hægt upp, fannst mér vandræðalegt að hann væri þar. Ég reyndi að látast sofandi. … Mér varð smám saman ljóst að þar sem hann stóð við sófann, var hann var að biðja af allri sálu og styrk, fyrir mér.

Alla morgna bað hann fyrir mér. Hann bað þess að dagurinn yrði mér góður, að ég nyti verndar, að ég lærði og byggi mig undir framtíðina. Hann bað líka fyrir kennurunum og vinum mínum, sem yrðu með mér þann dag, þar sem hann gat ekki verið með mér fyrr en um kvöldið. …

Í fyrstu skildi ég ekki alveg hvað föður mínum gekk til með því að biðja fyrir mér alla morgna. Með aldrinum varð mér ljóst að hann elskaði mig og lét sig skipta allt sem ég tók mér fyrir hendur. Þetta er ein mín besta minning. Það var svo ekki fyrr en árum síðar, eftir að ég gifti mig, eignaðist börn og fór inn í herbergið þeirra til að biðja fyrir þeim, þar sem þau voru sofandi, að ég skildi fyllilega hvað föður mínum fannst um mig.“22

Alma bar syni sínum vitni:

„Sjá, ég segi þér, að það er [Kristur], sem örugglega kemur … og boðar fólki sínu fagnaðartíðindi um hjálpræði.

Og sonur minn. Til þessarar helgu þjónustu varst þú kallaður, að boða þessu fólki þessi fagnaðartíðindi, til að undirbúa hugi þeirra, eða öllu heldur til að … þeir búi hugi barna sinna undir að heyra orðið á komutíma hans.“23

Þetta er hlutverk feðra okkar tíma. Guð blessi þá og geri þá hæfa til þess, í nafni Jesú Krists, amen.