2010–2019
Standa með leiðtogum kirkjunnar
Apríl 2016


Standa með leiðtogum kirkjunnar

Standið þið með leiðtogum kirkjunnar í stöðugt dimmari heimi, svo þið getið miðlað ljósi Krists?

Við bjóðum velkomin hina ný kölluðu aðalvaldhafa svæðishafa Sjötíu og hið dásamlega nýja aðalforsætisráð Barnafélagsins. Við færum þeim líka innilegar þakkir sem hafa verið leystir af. Við elskum hvert ykkar.

Kæru bræður og systur, við höfum nú verið þátttakendur í afar dásamlegri upplifun með því að rétta upp hönd til stuðnings spámönnum, sjáendum og opinberurum og öðrum leiðtogum og yfirmönnum sem kallaðir hafa verið af Guði á þessum efstu dögum. Ég hef aldrei tekið því af léttúð að styðja og taka á móti leiðsögn þjóna Drottins. Þar sem aðeins fáeinir mánuðir hafa liðið frá því að ég var ný kallaður sem meðlimur Tólfpostulasveitarinnar, þá finn ég til auðmýktar yfir stuðningi ykkar og trausti. Ég met mikils fúsleika ykkar til að styðja mig og alla þessa dásamlegu leiðtoga.

Stuttu eftir að ég var studdur síðastliðinn októbermánuð, fór ég til Pakistan í erindagjörðum og þar kynntist ég hinum dásamlegu og tryggu heilögu þess lands. Þeir eru fáir en andlega sterkir. Stuttu eftir að ég kom heim aftur, barst mér eftirfarandi orðsending frá bróður Shakeel Arshad, kærum meðlim sem ég kynntist í heimsókn minni: „Öldungur Rasband, þakka þér fyrir komu þína til Pakistan. Ég vildi láta þig vita að meðlimir kirkjunnar hér styðja og elska þig. [Við erum] afar blessuð að fá þig hingað og hlýða á boðskap þinn. Það var gullin dagur fyrir fjölskyldu mína að vera í návist postula.“1

Það var mér yndisleg og auðmjúk reynsla að kynnast hinum heilögu, líkt og Arshad, og ég get líka sagt að það hafi verið mér „gullin dagur.“

Í janúar tóku kirkjuleiðtogar þátt í útsendingunni Face to Face með unga fólkinu, leiðtogum þess og foreldrum víða um heim. Sent var beint út á netinu til margra staða í 146 löndum; sumstaðar voru áheyrendur margir í kapellum og annarsstaðar var ein ung manneskja á heimili sínu sem hlustaði, en samtals voru það mörg hundruð þúsund sem tóku þátt.

Ljósmynd
Face to Face með öldungi Rasband, systur Oscarson og bróður Owen

Systir Bonnie Oscarson, aðalforseti Stúlknafélagsins; bróðir Stephen W. Owen, aðalforseti Piltafélagsins; og ég sjálfur – ásamt stuðningi hinna ungu gestgjafa, tónlistarfólks og annarra – svöruðum spurningum unga fólksins.

Ljósmynd
Sameiginlegt þema 2016

Ætlun okkar var að kynna þema unga fólksins fyrir árið 2016: „Sækið fram staðföst í Kristi,“ í 2. Nefí, kapítula 31, versi 20, sem hljómar svo: „Þess vegna verðið þér að sækja fram, staðfastir í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna. Ef þér þess vegna sækið fram, endurnærðir af orði Krists og standið stöðugir allt til enda, sjá, þannig fórust föðurnum orð: Þér munuð öðlast eilíft líf.”2

Hvað hefur okkur lærst á því að lesa ótal spurningar æskufólksins? Okkur hefur lærst að unga fólkið elskar Drottin, styður leiðtoga sína og þráir að fá svör við spurningum sínum! Að spyrja er vísbending um löngun til að læra, til að auka við þann sannleika sem við þegar eigum vitnisburð um og vera betur í stakk búin til að „sækja fram, [staðföst] í Kristi.“

Endurreisn fagnaðarerindisins hófst á því að hinn ungi Joseph Smith ígrundaði spurningu. Oft þegar frelsarinn kenndi, varpaði hann fyrst fram spurningu. Þið munið eftir þessari spurningu til Péturs: „Hvern segið þér mig vera?“3 og Pétur svaraði: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“4 Við þurfum að hjálpa hvert öðru að finna svör himnesks föður með leiðsögn andans.

Á þessari ráðstefnu, sagði ég við unga fólkið:

„Þessir leiðtogar kirkjunnar eru ekki ókunnugir ykkar málum, áhyggjum og áskorunum.

Við eigum börn. Við eigum barnabörn. Við eigum oft samskipti við æskufólk víða um heim. Við biðjum fyrir ykkur, ræðum um ykkur á afar helgum stöðum og við elskum ykkur.“5

Ég ætla að deila með ykkur einu af þeim mörgu svörum sem við fengum frá þessum atburði.

Lisa frá Grand Prairie, Alberta, Kanada skrifaði: „Þessi Face to Face atburður var dásamlegur. Hve hann efldi vitnisburð minn og sannfæringu um fagnaðarerindið. Við erum svo blessuð að hafa innblásna leiðtoga, sem hafa verið kallaðir til að þjóna í hinum mörgu ólíku hlutverkum.“6

Liz, frá Pleasant Grove, Utah, skrifaði í fyrri póst: „Ég er þakklát fyrir trú mína og að eiga kost á að styðja spámann Guðs og þá karla og konur sem þjóna með honum.“7

Í dag höfum við stutt leiðtoga sem með guðlegum innblæstri hafa verið kallaðir til að kenna og leiða okkur og hvetja okkur til að varast stöðugar hættur okkar tíma – allt frá því að vanrækja að virða hvíldardaginn, til hættunnar sem steðjar að fjölskyldunni og trúfrelsinu og jafnvel þess að síðari daga opinberanir séu dregnar í efa. Bræður og systur, erum við að hlusta á leiðsögn þeirra?

Oft höfum við sungið á ráðstefnum, sakramentissamkomum og í Barnafélaginu hin ljúfu orð: „Leið mig, viltu vísa mér á veg sem treysta má.“8 Hvaða merkingu hafa þessi orð fyrir ykkur? Hver kemur í hug ykkar, er þið hugsið um þessi orð? Hafið þið einhvern tíma fundið áhrif réttlátra leiðtoga, þessara leiðtoga Jesú Krists, sem á liðnum tíma og líðandi stundu hafa blessað ykkur og gengið með ykkur veg Drottins? Þeir geta staðið nærri ykkur. Þeir geta verið í heimasöfnuðum eða talað frá ræðustól aðalráðstefnu. Þessir leiðtogar eiga sameiginlegt með okkur að eiga vitnisburð um Drottin Jesú Krist, leiðtoga þessarar kirkju, leiðtoga sálar okkar, sem hefur lofað: „Verið þess vegna vonglaðir og óttist ei, því að ég, Drottinn, er með yður og mun standa með yður.“9

Ég man eftir frásögn Thomas S. Monson forseta um það þegar honum var boðið á heimili stikuforseta síns, Pauls C. Child forseta, til að hljóta Melkísedeksprestdæmið. Hve dásamleg blessun fyrir Child forseta, sem á þessum tíma gat ekki vitað að hann var að kenna ungum Aronsprestdæmishafa sem yrði spámaður Guðs, er fram liðu stundir.10

Ég hef átt mínar kennslustundir með okkar kæra spámanni, Monson forseta. Ég efast hvorki í huga né hjarta um að hann sé spámaður Drottins á jörðu; ég hef tekið á móti leiðsögn hans af auðmýkt, er hann hefur hlotið opinberun og breytt samkvæmt henni. Hann hefur kennt okkur að ná til annarra, vernda hvert annað og bjarga hvert öðru. Það fólst líka í kennslunni við Mormónsvötn. Þeir sem þráðu að „kallast hans lýður“ voru fúsir til að „bera hvers annars byrðar,“ að „syrgja með syrgjendum“ og „standa sem vitni Guðs.“11

Í dag stend ég sem vitni Guðs föðurins og sonar hans, Jesú Krists. Ég veit að frelsari okkar lifir og elskar okkur og leiðir þjóna sína, ykkur og mig, til að uppfylla sinn máttuga tilgang á þessari jörðu.“12

Þegar við sækjum áfram og veljum að fylgja leiðsögn og aðvörunum leiðtoga okkar, þá veljum við að fylgja Drottni, meðan heimurinn fer í aðra átt. Við veljum að halda fast um járnstöngina, að vera Síðari daga heilög, að vera erindrekar Drottins og vera fyllt „ákaflega miklum fögnuði.“13

Sú spurning sem stöðugt verður mikilvægari er skýr: Standið þið með leiðtogum kirkjunnar í stöðugt dimmari heimi, svo þið getið miðlað ljósi Krists?

Samband við leiðtoga er afar þýðingarmikið og mikilvægt. Sama hver aldur leiðtoga er, hve nálægir eða fjarlægir þeir eru, eða hvenær þeir hafa haft áhrif á líf okkar, þá endurspeglast áhrif þeirra í orðum bandaríska skáldsins Edwins Markham, sem ritaði:

Örlögin binda okkur bræðraböndum:

Engin sína ferð fer einn:

Allt sem við öðrum gerum,

endurgoldið við fáum.14

Shakeel Arshad, vinur minn í Pakistan, sendi mér stuðning sinn, bróður sínum og vini. Mörg ykkar hafið líka gert það. Þegar við stígum fram til að lyfta öðrum, þá staðfestum við þessi máttugu orð: „Engin sína ferð fer einn.“

Við þörfnumst þó mest af öllu frelsara okkar, Drottins Jesú Krists. Ein af frásögnum ritninganna, sem alltaf hefur andleg áhrif á mig, er þegar Jesús Kristur gekk út á vatnið til móts við lærisveina sína, sem sigldu á báti á Galelíuvatni. Þetta voru nýlega kallaðir leiðtogar, eins og mörg okkar á pallinum eru nú í dag. Sú saga er skráð í Matteusarguðspjalli:

„En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum, því að vindur var á móti.

„En er langt var liðið nætur kom [Jesús] til þeirra, gangandi á vatninu.

Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu, varð þeim bilt við og … [þeir] æptu af hræðslu.

En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: ‚Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.‘“15

Pétur heyrði þessi dásamlegu hvatningarorð Drottins.

Pétur svaraði honum: ‚Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.‘

Jesús svaraði:, Kom þú!‘“16

Nokkuð djarft. Pétur var fiskimaður og þekkti því hættur stöðuvatnsins. Hann var þó staðráðinn í því að fylgja Jesú – að nóttu sem degi, á bát sem þurru landi.

Ég sé Pétur fyrir mér fara út úr bátnum, án þess að bíða eftir öðru boði, og taka að ganga á yfirborði vatnsins. Ritningin segir vissulega: „Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans.“17 Þegar vindurinn varð sterkari og öldurnar uxu við fætur Péturs, varð hann hræddur “og tók að sökkva. Þá kallaði hann: ‚Herra, bjarga þú mér!‘

Jesús rétti þegar út höndina [og] tók í hann.“18

Afar áhrifarík lexía. Drottinn var til staðar fyrir hann og það er hann líka fyrir þig og mig. Hann rétti Pétri hönd sína og lyfti honum örugglega upp til sín.

Ég hef ótal sinnum þurft að reiða mig á hjálparhönd frelsarans. Ég þarfnast hans nú aldrei sem fyrr og það gerið þið líka. Stundum hef ég verið nógu sjálfsöruggur til að stökkva yfir bátssíðuna, í óeiginlegri merkingu, á ókunnar slóðir, einungis til að gera mér grein fyrir því að ég gat ekki gert þetta einsamall.

Líkt og við sögðum í Face to Face, þá reynir Drottinn oft að ná til okkar fyrir tilstuðlan fjölskyldu okkar og leiðtoga, og býður okkur að koma til sín – á sama hátt og hann rétti Pétri hjálparhönd til að koma honum til bjargar.

Ykkur mun líka gefast mörg tækifæri til að svara hinu stöðuga boði: „Komið til Krists.“19 Er það ekki tilgangur þessa jarðlífs? Það gæti verið að koma fjölskyldumeðlim til bjargar; koma og þjóna í trúboði; koma aftur í kirkju; koma í hið heilaga musteri; og, líkt og við upplifðum nýlega frá okkar dásamlega æskufólki í Face to Face, að koma til að svara spurningum einhvers. Sá tími mun koma að hvert okkar mun heyra kallið „kom heim.“

Ég bið þess að við stígum fram – og tökum í útrétta hönd frelsarans, oft fyrir tilverknað hans guðlega kölluðu leiðtoga og fjölskyldumeðlimi okkar – og hlustum á boðið hans um að koma til sín.

Ég veit að Jesús Kristur lifir; ég elska hann og veit af öllu hjarta að hann elskar sérhvert okkar. Hann er okkar mikla fyrirmynd og guðlegur leiðtogi allra barna föðurins. Um þetta ber ég mitt helga vitni, í nafni Jesú Krists, amen.