2010–2019
Mikilhæfasti leiðtoginn er mikilhæfasti fylgjandinn
Apríl 2016


Mikilhæfasti leiðtoginn er mikilhæfasti fylgjandinn

Þeir tímar koma að vegurinn framundan virðist dimmur, en haldið samt áfram að fylgja frelsaranum. Hann þekkir veginn, því hann er í raun vegurinn.

Þegar ég var 12 ára gamall, fór ég með föður mínum á veiðar til fjalla. Við vöknuðum klukkan 3 að nóttu, söðluðum hestana okkar og héldum upp skógivaxna fjallshlíðina í niðamyrkri. Þótt ég hefði unun af því að vera með föður mínum við veiðar, þá var svolítill beygur í mér er við lögðum af stað. Fjöllin voru mér ókunnug og ég fékk ekki greint slóðina – og varla nokkuð annað, ef því var að skipta! Ég fékk aðeins séð dauft vasaljós sem faðir minn hélt á og furutrén framundan sem það lýsti upp. Hvað ef hestinum mínum skrikaði fótur og hann félli – sá hann í raun fram fyrir sig? Ég lét þó huggast af þessari hugsun: „Pabbi veit hvert hann er að fara. Ef ég fylgi honum, fer all vel.“

Allt fór vissulega vel. Sólin kom loks upp og við áttum saman dásamlegan dag. Þegar við lögðum af stað heim, benti faðir minn á tignarlegt, aflíðandi fjall, sem var hærra en þau sem umhverfis voru. „Þetta er Windy Ridge,“ sagði hann. „Þar er best að veiða.“ Um leið varð ég staðráðinn í því að koma einhvern tíma aftur og klífa fjallið Windy Ridge.

Eftir þetta heyrði föður minn oft ræða um Windy Ridge, en við fórum aldrei aftur til baka – ekki fyrr en dag einn, 20 árum síðar, er ég hringdi í hann og sagði: „Förum upp á Windy.“ Enn á ný söðluðum við hestana og héldum upp fjallshlíðina. Ég var þá reyndari reiðmaður á þrítugsaldri, en mér til furðu þá fann ég samt sama beyginn og ég hafði fundið 12 ára gamall. Faðir minn þekkti þó leiðina og ég fylgdi honum.

Við komumst loks upp á fjallstind Windy. Útsýnið var stórbrotið og ég upplifði sterka löngun til að fara aftur þangað – og þá með eiginkonu minni og börnum. Ég vildi að þau fengju að upplifa það sem ég hafði upplifað.

Í áranna rás hef ég oft farið með syni mína og aðra unga menn upp á fjallstoppa, rétt eins og faðir minn fór með mig. Þau tilefni hafa fengið mig til að hugleiða hvað í því felst að leiða aðra – og hvað í því felst að fylgja öðrum.

Jesús Kristur er hvort tveggja í senn mikilhæfasti leiðtoginn og fylgjandinn

Ef ég spyrði ykkur: „Hver er mikilhæfasti leiðtoginn sem lifað hefur?“ – hvert væri þá svar ykkar? Svarið væri auðvitað Jesús Kristur. Hann setti fullkomið fordæmi á öllum hugsanlegum sviðum leiðtogans.

Ef ég hins vegar spyrði ykkur: „Hver er mikilhæfasti fylgjandinn sem lifað hefur?“ – væri þá ekki svarið aftur Jesús Kristur? Hann er mikilhæfasti leiðtoginn, sökum þess að hann er mikilhæfasti fylgjandinn – því hann fylgdir föður sínum fullkomlega, í einu og öllu.

Hemurinn kennir að leiðtogar skuli vera máttugir, en Drottinn kennir hins vegar að leiðtogar skuli vera auðmjúkir. Leiðtogar heimsins hljóta áhrif og mátt fyrir tilverknað eigin hæfileika, kunnáttu og auðæfa. Leiðtogar að hætti Krists hljóta áhrif og mátt vald „með fortölum einum, með umburðarlyndi, með mildi og hógværð og með fölskvalausri ást.“1

Í augum Guðs, þá eru mikilhæfustu leiðtogarnir ætíð mikilhæfustu fylgjendurnir.

Ég ætla að segja frá tveimur tilvikum þar sem ég átti samskipti við unga menn í kirkjunni, sem hafa sýnt mér hvað í því felst að leiða og fylgja.

Við erum allir leiðtogar

Ég og eiginkona mín fórum nýlega á sakramentissamkomu annarsstaðar en í heimadeild okkar. Rétt áður en samkoman hófst, kom ungur maður til mín og spurði hvort ég gæti hjálpað til við að útdeila sakramentinu. Ég sagði: „Það væri mér sönn ánægja.“

Ég settist meðal djáknanna og spurði þann sem sat næst mér: „Hvað er það sem ég á að gera?“ Hann sagði mig eiga að byrja á því að útdeila aftast í miðhluta kapellunnar og að hann yrði á móti mér í sama hluta og þannig útdeildum við fram að fremsta bekk.

Ég sagði: „Ég hef ekki gert þetta í langan tíma.“

Hann svaraði: „Það er allt í lagi. Þú átt eftir að standa þig með sóma. Mér leið líka þannig þegar ég byrjaði.“

Síðar hélt yngsti djákninn í sveitinni, sem hafði verið vígður nokkrum vikum áður, ræðu á sakramentissamkomu. Að samkomu lokinni hópuðust hinir djáknarnir umhverfis hann til að segja honum hve stoltir þeir væru af þessum félaga sínum í sveitinni.

Þegar ég var með þeim þennan dag, komst ég að því að í hverri viku hafa allir meðlimir þessarar Aronsprestdæmissveitar samband við aðra unga menn og bjóða þeim að vera með í sveitinni þeirra.

Allir þessir ungu menn voru mikilhæfir leiðtogar. Þeir höfðu augljóslega einhverja dásamlega baksviðs Melkísedeksprestdæmishafa, foreldra og fleiri sem kenndu þeim skyldur þeirra. Umhyggjusamir fullorðnir einstaklingar eins og þessir sjá ungu mennina ekki eins og þeir eru, heldur eins og þeir geta orðið. Þegar þeir ræða við eða um ungu mennina, þá dvelja þeir ekki við ófullkomleika þeirra. Þess í stað þá leggja þeir áherslu á hina miklu leiðtogahæfni sem þeir sýna.

Ungu menn, þannig sér Drottinn ykkur. Ég hvet ykkur til að sjá ykkur sjálfa í þessu ljósi. Sá tími mun koma að þið verðið kallaðir til að leiða. Öðrum stundum er þess vænst að þið fylgið. Skilaboð mín til ykkar í dag eru að þið eruð ætíð hvort tveggja leiðtogar og fylgjendur, sama hver köllun ykkar er. Að leiða er tjáning lærisveinsins – það sem sannir lærisveinar gera er einfaldlega að hjálpa öðrum að koma til Krists. Ef þið keppið að því að vera fylgjendur Krists, þá getið þið hjálpað öðrum að fylgja honum og orðið leiðtogar.

Hæfni ykkar til að leiða felst ekki í mannblendni, leikni til að fá aðra til að gera eitthvað eða jafnvel hæfileikanum til að tala til almennings. Hún felst í skuldbindingu ykkar til að fylgja Jesú Kristi. Samkvæmt orðum Abrahams, þá felst hún í því að „verða betri fylgjandi réttlætisins.“2 Ef þið getið gert það – jafnvel þótt þið séuð ekki fullkomnir í því – þá eruð þið leiðtogar.

Prestdæmisþjónusta felst í því að vera leiðtogi

Af öðru tilefni var ég í Nýja-Sjálandi að heimsækja einhleypa móður með þrjá unglinga. Elsti sonur hennar var 18 ára og hafði tekið á móti Melkísedeksprestdæminu sunnudeginum áður. Ég spurði hvort hann hefði átt kost á að nota prestdæmið. Hann sagði: „Ég er ekki viss hvað það merkir.“

Ég sagði honum að hann hefði nú vald til að gefa prestdæmisblessun til huggunar og lækningar. Mér var litið á móður hans, sem ekki hafði haft Melkísedeksprestdæmið á heimilinu í mörg ár. „Ég held að það væri dásamlegt,“ sagði ég, „ef þú gæfir móður þinni blessun.“

Hann svaraði: „Ég veit ekki hvernig.“

Ég útskýrði að hann gæti lagt hendur á höfuð móður sinnar, sagt nafn hennar, lýst yfir að hann sé að veita henni blessun með valdi Melkísedeksprestdæminu, sagt hvað eina sem andinn vekti upp í huga hans og hjarta og lokið í nafni Jesú Krists.

Daginn eftir sendi hann mér tölvupóst. Þar sagði að hluta: „Í kvöld blessaði ég mömmu. … Ég var afar órólegur og óöruggur, svo ég baðst stöðugt fyrir til að tryggja að andinn væri með mér, því án hans gæti ég ekki gefið blessun. Þegar ég byrjaði, þá gleymdi ég mér og ófullkomleika mínum algjörlega. … Ég átti ekki von á hinum mikla andlega og tilfinningalega krafti sem kom yfir mig. … Að blessun lokinni, upplifði ég anda kærleikans svo yfirþyrmandi að ég fékk ekki stjórnað tilfinningum mínum og faðmaði móður mína að mér og grét eins og barn. … Jafnvel nú, er ég skrifa þetta, finn ég andann svo ríkulega að ég hef enga löngun til að syndga framar. … Ég elska fagnaðarerindið.“3

Er það ekki dásamlegt að sjá hvernig venjulegur ungur maður getur komið miklu til leiðar með prestdæmisþjónustu, jafnvel þegar honum finnst hann óöruggur? Ég komst nýlega að því að þessi ungi öldungur hlaut trúboðsköllun og fer í trúboðsskóla í næsta mánuði. Ég trúi að hann muni leiða margar sálir til Krists, því honum hefur lærst að fylgja Kristi í prestdæmisþjónustu sinni – sem hófst á hans eigin heimili, þar sem fordæmi hans hefur djúp áhrif á 14 ára bróður hans.

Bræður, hvort sem við áttum okkur á því eða ekki, þá lítur fólk upp til okkar – fjölskyldumeðlimir, vinir og jafnvel ókunnugir. Okkur nægir ekki, sem prestdæmishafar, að koma til Krists, því skylda okkar er að „bjóða öllum að koma til Krists.“4 Við getum ekki látið okkur nægja að taka sjálfir á móti andlegum blessunum. Við verðum að leiða þá sem við elskum til þessara sömu blessana – og sem lærisveinar Jesú Krists, þá verðum við að elska alla. Boð frelsarans til Péturs, er líka boð til okkar: „Styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við.“5

Fylgja manninum frá Galelíu

Þeir tímar koma að vegurinn framundan virðist dimmur, en haldið samt áfram að fylgja frelsaranum. Hann þekkir veginn. Hann er í raun vegurinn.6 Því einlægar sem þið komið til Krists, því sterkari verður þrá ykkar til að hjálpa öðrum að upplifa það sem þið hafið upplifað. Annað orð yfir slíkar tilfinningar, er kærleikur, „sem [faðirinn] hefur gefið öllum sönnum fylgjendum sonar síns, Jesú Krists.“7 Þið munuð þá skilja að þegar þið keppið að því að fylgja Kristi, þá eruð þið líka að leiða aðra til hans, því með orðum Thomas S. Monson forseta: „þegar við fylgjum manninum frá Galelíu – já, Drottni Jesú Kristi – þá munu okkar persónulegu áhrif alltaf finnast, hver sem köllun okkar er.“8

Ég ber vitni um að þetta er hin sanna kirkja. Við erum leitt af spámanni Guðs, Monson forseta – mikilhæfum leiðtoga, sem líka er sannur fylgjandi frelsarans. Í nafni Jesú Krists, amen.