2010–2019
Kraftur guðleikans
Apríl 2016


Kraftur guðleikans

Hvert musteri er heilagt hús Guðs og þar getum við lært og þekkt kraft guðleikans.

Aðeins nokkrum mánuðum fyrir dauða spámannsins Josephs Smith, komu hann postularnir Tólf saman til að ræða brýnustu mál kirkjunnar á þessum erfiðu tímum. Hann sagði við þá: „Okkar brýnasta nauðsyn er musterið.“1 Á okkar erfiðu tímum er musterið vissulega það sem við öll og fjölskyldur okkar þörfnumst mest af öllu.

Í nýlega afstaðinni musterisvígslu var ég afar ánægður með allt sem ég upplifði þar. Ég hafði unun af því að fara í opið hús, heilsa mörgum gestunum, sem komu til að líta musterið augum; fara á menningarviðburði hins fjöruga og uppörvandi æskufólks; og að vera viðstaddur hina dásamlegu vígsluathafnir. Andinn var ljúfur. Margir voru blessaðir. Morguninn eftir fórum ég og eiginkona mín síðan í skírnarfontinn, til að taka þátt í skírnum fyrir nokkur ættmenni okkar. Þegar ég lyfti hendi til að hefja helgiathöfnina, var kraftur andans yfirþyrmandi. Mér var aftur ljóst að hinn raunverulegi kraftur musterisins fælist í helgiathöfnunum.

Líkt og Drottinn hefur opinberað, þá er fyllingu Melkísedeksprestdæmisins að finna í musterinu og helgiathöfnum þess, „því að þar í eru lyklar hins heilaga prestdæmis vígðir, svo að þér fáið meðtekið heiður og dýrð.“2 „ Í helgiathöfnum þess opinberast því kraftur guðleikans.“3 Þetta fyrirheit er fyrir ykkur og fjölskyldu ykkar.

Ábyrð okkar er að „taka við því“ sem faðirinn býður.4 „Því að þeim sem tekur á móti skal gefast enn ríkulegar, jafnvel kraftur“:5 Kraftur til að taka við öllu því sem hann getur og er fús til að gefa okkur – nú og að eilífu;6 kraftur til að verða synir og dætur Guðs,7 til að þekkja „[kraft] himins“8; kraftur til að mæla í hans nafni9 og til að taka við „[krafti anda hans].“10 Slíkan kraft geta allir hlotið fyrir tilverknað helgiathafna og sáttmála musterisins.

Nefí sá okkar tíma í hinni miklu sýn sinni: „Ég, Nefí, sá vald Guðslambsins. Það féll yfir hina heilögu í kirkju lambsins og yfir sáttmálsþjóð Drottins, sem dreifð var um allt yfirborð jarðar. Og þeir voru vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð.11

Ég naut nýlega þeirra forréttinda að vera í opnu húsi musteris með Russell M. Nelson forseta og fjölskyldu hans. Hann fékk þau til að koma umhverfis innsiglunaraltarið og útskýrði fyrir þeim að allt sem við gerðum í kirkjunni – á öllu samkomum, í öllu starfi, kennslu og þjónustu – væri til að búa okkur undir að fara í musterið og krjúpa við altarið, til að taka á móti öllum hinum fyrirheitnu blessunum föðurins fyrir eilífðina.12

Þegar við skynjum blessanir musterisins í lífi okkar, munu hjörtu okkar snúast til ættmenna okkar, bæði lifandi og látinna.

Ég upplifði nýlega fjölskyldu þriggja kynslóða taka saman þátt í skírnum fyrir ættmenni sín. Amman tók jafnvel þátt í þessu – þótt henni hefði staðið nokkur beygur af því að fara sjálf ofan í vatnið. Þegar hún kom upp úr vatninu og tók utan um eiginmann sinn, sáust gleðitár. Afinn og faðirinn skírðu síðan hvor annan og mörg barnabörnin. Getur fjölskylda upplifað meiri gleði saman? Í öllum musterum er forgangstími fyrir fjölskyldur, sem gerir fjölskyldum kleift að panta tíma í skírnarsalnum.

Stuttu fyrir dauða sinn hlaut Joseph F. Smith forseti sýn um endurlausn hinna dánu. Hann sagði að þeir sem væru í andaheimum væru algjörlega háðir þeim helgiathöfnum sem við framkvæmdum í þeirra þágu. Ritningarnar segja: „Hinir dánu, sem iðrast, munu endurleystir fyrir hlýðni við helgiathafnir Guðs húss.“13 Við tökum á móti helgiathöfnum í þeirra þágu, en þeir gera og eru ábyrgir fyrir öllum sáttmálum sem fylgja hverri helgiathöfn. Hulan er vissulega þunn hvað okkur varðar og hverfur algjörlega fyrir þau í musterinu.

Hver er þá persónuleg ábyrgð okkar við að taka þátt í þessu verki, bæði sem gestir og musterisþjónar? Spámaðurinn Joseph Smith kenndi hinum heilögu árið 1840: „það krefst mikillar áreynslu og efnis ‒ og þar sem hraða þarf verki þessu [að reisa musteri] í réttlæti, ber hinum heilögu að meta í huga sínum mikilvægi þessara hluta, … og síðan að taka nauðsynleg skref til að hefjast handa við verkið; girða sig hugrekki og einsetja sér að gera allt hvað þeir geta og finna til áhuga líkt og það sé aðeins undir þeim sjálfum komið að því ljúki.“14

Í Opinberunarbókinni lesum við:

„Þessir, sem skrýddir eru hvítu skikkjunum, hverjir eru þeir og hvaðan eru þeir komnir?

… Hann sagði við mig: Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.

Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá, sem í hásætinu situr, mun tjalda yfir þá.“15

Fáið þið ekki séð fyrir ykkur þá sem þjóna í musterum okkar tíma?

Það eru yfir 120.000 musterisþjónar sem starfa í 150 musterum víða um heim. Samt eiga fleiri kost á að upplifa þessa dásamlegu reynslu. Þegar Gordon B. Hinckley tilkynnti hugmyndina um mörg smærri musteri um allan heim, sagði hann að „allir musterisþjónar yrðu heimafólk, sem þjónaði á öðrum sviðum í deildum og stikum.“16 Yfirleitt eru musterisþjónar kallaðir til að þjóna í tvö eða þrjú ár, með möguleika á framlengingu. Þegar þið eruð kölluð, þá er þess ekki vænst að þið dveljið eins lengi og framast er unt. Margir musterisþjónar sem þjónað hafa lengi, bera elsku til musterisins við aflausn sína og gera öðrum nýjum kleift að þjóna.

Fyrir um 100 árum kenndi John A. Widtsoe postuli: „Við þurfum fleiri musterisþjóna til að vinna [þetta] dásamlega verk. … Við þurfum fleiri trúaða í musterisstarfið, á öllum aldri. … Sá tími er upprunninn, … í þessari nýju musterisvakningu, að fá alla á öllum aldri til virkrar þjónustu. … Musterisstarfið er …ungum og athafnasömum til mikillar farsældar, sem og hinum öldruðu, er þegar hafa tekist á við margar lífsins byrðar. Mikilvægara getur verið að hinn ungi maður upplifi musterið, en faðir hans eða afi, því þeir hafa þegar fundið fótfestu fyrir lífsins reynslu; og mikilvægt er að hin unga kona, sem á lífið framundan, upplifi andann, áhrifin og fræðsluna sem hljótast af því að taka þátt í helgiathöfnum musterisins.“17

Í mörgum musterum, taka musterisforsetar á móti ný kölluðum trúboðum, ungum mönnum og konum, sem hlotið hafa musterisgjöf sína, þar sem þau fá að starfa litla stund sem musterisþjónar áður en þau fara í trúboðsskólann. Þetta unga fólk er ekki aðeins blessað með því að þjóna, heldur „bætir það upp fegurð og anda allra sem þjóna í musterinu.“18

Ég bað unga menn og konur, sem þjónuðu sem musterisþjónar, bæði fyrir og eftir trúboð sitt, að segja frá þeirri reynslu sinni. Þau tjáðu sig eins og eftirfarandi, til að lýsa upplifun sínni í musterinu:

Þegar ég þjóna í musterinu:

  • Þá finnst mér „ég komast nær föður mínum og frelsaranum“;

  • Ég upplifi „fullkominn frið og hamingju“;

  • Mér finnst ég vera „komin heim“;

  • Ég upplifi „heilagleika og hlýt kraft og styrk“;

  • Ég skynja „mikilvægi minna helgu sáttmála“;

  • Musterið er orðið hluti af mér“;

  • „Þau sem við þjónum eru nálæg meðan helgiathafnir eru framkvæmdar“;

  • „Það veitir mér styrk til að sigrast á freistingum“; og

  • „Musterið hefur haft varanleg áhrif á mig.“19

Að þjóna í musterinu er auðgandi og áhrifamikil reynsla fyrir fólk á öllum aldri. Jafnvel nýgift hjón þjóna þar saman. Nelson forseti sagði: „Musterisþjónusta … er dásamleg fyrir fjölskylduna.“20 Auk þess að taka á móti helgiathöfnum fyrir ættmenni ykkar, þá getið þið líka sem musterisþjónar framkvæmt helgiathafnir fyrir þau.

Wilford Woodruff forseti sagði:

„Hvaða mikilvægari köllun geta karlar [eða konur] haft á jörðu, en þá að hafa kraft og vald til að þjóna í helgiathöfnum sáluhjálpar? …

… Þið verðið verkfæri í höndum Guðs til sáluhjálpar einhverrar tiltekinnar sálar. Ekkert af því sem mannanna börnum er gefið jafnast á við það.“21

Hann sagði ennfremur:

„Hin ljúfa lágværa rödd heilags anda mun veitast ykkur og himins perlur, samfélag engla, munu endrum og eins bætast þar við.“22

„Það er allra okkar fórna virði, þau fáu ár sem við fáum varið hér í holdinu.“23

Thomas S. Monson forseti minnti okkur nýlega á að „blessanir musterisins eru ómetanlegar.“24 „Þær eru allra fórna virði.“25

Farið til musterisins. Farið þangað oft. Farið með fjölskyldu ykkar og fyrir ættmenni ykkar. Farið, og hjálpið líka öðrum að fara þangað.

„Þessir, sem skrýddir eru hvítu skikkjunum, hverjir eru þeir?“ Bræður og systur, það eruð þið – sem hafið tekið á móti helgiathöfnum musterisins og haldið sáttmála ykkar, já, með fórnarlund; þið sem hjálpið fjölskyldu og ættmennum ykkar að hljóta blessanir musterisþjónustu og liðsinnt öðrum á leiðinni. Þakka ykkur fyrir þjónustu ykkar. Ég ber vitni um að sérhvert musteri er Guðs heilaga hús, þar sem við getum öll fræðst um og þekkt kraft guðleikans, í nafni Jesú Krists, amen.