2010–2019
Þarfirnar fyrir framan okkur
Október 2017


Þarfirnar fyrir framan okkur

Sumar af helstu þörfunum sem við þurfum að þjóna eru að finna innan eigin fjölskyldna, meðal vina okkar, deilda og samfélags.

Undanfarna daga höfum við orðið vitni að fjölda náttúruhamfara í Mexíkó, Bandaríkjunum, Asíu, Karíbahafinu og Afríku. Það hefur leitt það besta fram í fólki er tugþúsundir hafa tekið sig saman og hjálpað þeim sem eru í hættu, í nauð og hafa misst mikið. Ég var hæstánægð að sjá ungar stúlkur í Texas og Flórída klæðast hinum gulu bolum Hjálparhanda og ásamt öðrum, hjálpa til við að fjarlægja brak í húsum eftir nýafstaðna fellibylji. Fleiri þúsundir í viðbót myndu fúslega fara til hjálparstöðvanna ef fjarlægðin hefði ekki verið eins mikil. Þess í stað hafið þið gefið rausnarlega til að lina þjáningar. Örlæti ykkar og samúð er hvetjandi og kristilegt.

Ljósmynd
Stúlkur með Eyring forseta

Í dag langar mig að minnast á þátt þjónustu sem mér finnst vera mikilvægur öllum - sama hvar við erum stödd. Fyrir öll þau okkar sem höfum horft á fréttir af nýliðnum atburðum og ekki vitað hvernig bregðast ætti við, þá gæti svarið hreinlega verið beint fyrir framan okkur.

Frelsarinn kenndi: „Hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því.”1 Thomas S. Monson forseti tjáði sig um þessa ritningu: „Ég trúi því að frelsarinn sé að segja okkur að ef við týnum okkur ekki í þjónustu við aðra, þá sé lítill tilgangur með okkar eigin lífi. Þeir sem eingöngu lifa fyrir sjálfa sig munu að lokum skrælna og týna lífi sínu, á táknrænan hátt, meðan þeir sem týna sér í þjónustu við aðra munu vaxa og dafna og í raun bjarga lífi sínu.”2

Við búum í menningu þar sem við einblínum sífellt meira á litla, skjáinn í höndum okkar í stað fólksins í kringum okkur. Við höfum skipt texta og tísti út fyrir að horfa framan í fólk og brosa og það sem er enn fátíðara, að tala við fólk augliti til auglitis. Oft á tíðum höfum við meiri áhyggjur af því hve marga „fylgjendur“ og „læk“ við höfum í stað þess að faðma vin og sýna kærleik, láta sér annt um og hafa áþreifanlegan áhuga. Eins stórkostleg og nútíma tækni getur verið í því að breiða út boðskap fagnaðarerindis Jesú Krists og til að hjálpa okkur að hafa samskipti við fjölskyldu og vini, þá verðum við að vera vakandi í notkun þessara persónulegu tækja, að við hverfum ekki inn á við og gleymum því að kjarni þess að lifa eftir fagnaðarerindinu er þjónustan.

Ég hef mikla trú og kærleika gagnvart þeim ykkar sem eruð á unglingsárum og ykkar sem eruð ung og einhleyp. Ég hef séð og skynjað þrá ykkar til að þjóna og verða að gagni í heiminum. Ég trúi því að flestir kirkjuþegnar líti á þjónustu sem kjarna sáttmála þeirra og starfs sem lærisveinar. Ég tel hinsvegar einnig að stundum er auðvelt að missa af bestu tækifærunum til að þjóna öðrum, sökum þess að við verðum fyrir truflunum eða vegna þess að við erum að leita að metnaðarfullum leiðum til að breyta heiminum, svo við sjáum ekki að mesta þörfin er meðal eigin fjölskyldu, vina, deilda og samfélags. Við erum snortin er við sjáum þjáningar og þarfir fólks hinu megin á hnettinum, en við tökum ekki eftir því að manneskjan sem situr við hlið okkar í námsbekknum þarfnast vináttu okkar.

Systir Linda K. Burton sagði sögu um Líknarfélagsforseta sem var, ásamt öðrum, að safna teppum fyrir fólk í nauðum á tíunda áratug síðustu aldar. „Hún og dóttir hennar keyrðu trukk fullan af teppum frá London til Kosóvó. Á leið hennar heim fékk hún mjög sterka tilfinningu sem snerti hjarta hennar djúpt. Tilfinningin var þessi: ,Það sem þú hefur gert er góður hlutur. Farðu nú heim, gakktu yfir götuna og þjónaðu nágranna þínum!“3

Hvað gott gerum við er við björgum heiminum, ef við vanrækjum þarfir þeirra sem næst okkur standa og þeirra sem við elskum mest? Hversu mikils virði er það að bjarga heiminum, ef fólkið í kringum okkur er að brotna niður og við tökum ekki eftir því? Himneskur faðir gæti hafa sett þá sem þarfnast okkar, næst okkur, vitandi að við erum þau sem best getum sinnt þörfum þeirra.

Ljósmynd
Sarah og systir hennar á gangi

Allir geta fundið leiðir til að veita kristilega þjónustu. Ráðgjafi minn, systir Carol F. McConkie, sagði mér nýlega frá Sarah, 10 ára barnabarni sínu, sem ákvað sjálf að hjálpa til þegar hún sá að móðir hennar veiktist. Hún kom litlu systur sinni á fætur, hjálpaði henni að klæðast, bursta tennurnar, laga hárið og borða morgunmat, þannig að móðir hennar gæti hvílst. Hljóðlega og óbeðin framkvæmdi hún einföld þjónustuverk, vegna þess að hún sá þörfina og vildi hjálpa. Sarah var móður sinni ekki bara til blessunar, heldur er ég viss um að hún hafi fundið fyrir gleði, vitandi að hún hafi létt byrðum einhvers sem hún elskaði og að sama skapi styrkt samband sitt við systur sína. James E. Faust sagði: „Hægt er að byrja að þjóna öðrum á nærri hvaða aldri sem er. … Það þarf ekki að vera stórt í sniðum, og það er göfugast innan fjölskyldunnar.”4

Ljósmynd
Sarah og systir hennar lesa bók

Gerið þið, börn, ykkur grein fyrir því hve þýðingarmikið það er fyrir foreldra og aðra í fjölskyldunni þegar þið leitið að leiðum til að þjóna heima hjá ykkur? Þau ykkar sem eru á táningsaldri, það að styrkja og þjóna fjölskyldu ykkar ætti að hafa algeran forgang, er þið leitið leiða til að breyta heiminum. Að vera vingjarnlegur og láta sér annt um systkini og foreldra hjálpar til við að skapa andrúmsloft einingar og býður andanum inn á heimilið. Að breyta heiminum byrjar á því að styrkja ykkar eigin fjölskyldu.

Annað sem við getum beint þjónustu okkar að, er deildarfjölskylda okkar. Stundum spurðu börnin okkar: „Af hverju þarf ég að mæta í Ungmennafélagið? Ég bara fæ ekki mikið út úr því.“

Ef ég ætti gott augnablik sem foreldri, myndi ég svara: „Af hverju heldurðu að þú sért að mæta í Ungmennafélagið vegna þess sem þú færð út úr því?”

Ungu vinir mínir, ég skal lofa ykkur því það mun ávallt vera einhver á kirkjufundi sem þið mætið á sem er einmana, sem er að takast á við erfiðleika og þarfnast vinar, eða sem finnst að hann eða hún tilheyri ekki. Þið hafið eitthvað mikilvægt upp á að bjóða á sérhverjum fundi eða viðburði, og Drottinn æskir þess að þið lítið á félaga ykkar í kringum ykkur og þjónið síðan eins og hann myndi gera.

Öldungur D. Todd Christofferson kenndi: „Ein meginástæða þess að Drottinn er með kirkju, er að skapa samfélag heilagra sem styðja hver annan á ‚hinum krappa og þrönga vegi sem leiðir til eilífs lífs.‘“ Síðan heldur hann áfram: „Þessu trúfélagi er ekki aðeins umhugað um sjálfið, meira um að við erum öll kölluð til að þjóna. Við erum augu, hendur, höfuð, fætur og aðrir líkamshlutar Krists.”5

Það er satt að við mætum á vikulegar kirkjusamkomur til að taka þátt í helgiathöfnum, læra kenningar og hljóta innblástur, en önnur mikilvæg ástæða til að mæta er að við, sem kirkjusystkini og lærisveinar frelsarans Jesú Krists, látum okkur annt um hvert annað, hvetjum hvert annað og finnum leiðir til að þjóna og styrkja hvert annað. Við erum ekki einungis þiggjendur og gefendur þess sem boðið er upp á í kirkjunni; það er einnig þörf á að við gefum og veitum. Ungar stúlkur og ungir piltar, næst þegar þið mætið í Ungmennafélagið viljið þið staldra við, horfa í kringum ykkur og spyrja: „Hver þarfnast mín í dag?“ í stað þess að taka upp símann til að athuga hvað vinir ykkar eru að gera? Þið gætuð verið lykillinn að því að teygja út hendur ykkar og snerta kunningja eða uppörva vin sem á í innri baráttu.

Biðjið himneskan föður að sýna ykkur þá sem þarfnast hjálpar umhverfis ykkur og veita ykkur innblástur um hvernig best sé að þjóna þeim. Minnist þess að oftast þjónaði frelsarinn einni manneskju í einu.

Ljósmynd
Ethan og fjölskylda hans

Barnabarn okkar, Ethan, er 17 ára. Ég var snortin í sumar er hann sagði mér frá því að hann biður alltaf þess að fá tækifæri til að þjóna einhverjum, eins og fordæmi móður hans hvetur hann til að gera. Þegar við vorum með fjölskyldu hans, tók ég eftir því að Ethan kom fram við bróður sinn og systur af þolinmæði, kærleik og vinsemd; hann hjálpaði foreldrum sínum og leitaði leiða til að ná til annarra. Ég er hrifin af því hve meðvitaður hann er um fólkið í kringum sig og af löngun hans til að þjóna því. Hann er mér fyrirmynd. Að gera það sem Ethan gerir - að bjóða Drottni að hjálpa okkur að uppgötva leiðir til að þjóna - mun leyfa andanum að opna augu okkar, svo að við tökum eftir þörfum þeirra sem í kringum okkur eru, til að taka eftir „þessum eina“ sem þarfnast okkar þann dag og að vita hvað á að gera fyrir hann eða hana.

Ljósmynd
Mynd af Ethan

Fyrir utan að þjóna fjölskyldu ykkar og meðlimum deildar ykkar, leitið að tækifæri til að þjóna í nágrenni ykkar og samfélagi. Þó að við séum stundum beðin um að hjálpa til eftir einhverjar stórar hamfarir, þá erum við hvött til að leita leiða hvernig við getum upplyft og hjálpað þeim sem eru í nauðum á okkar eigin svæði, dags daglega. Nýlega hlaut ég leiðbeiningar frá svæðisforseta, sem þjónar í landi þar sem margar stundlegar áskoranir eru fyrir hendi, að besta leiðin til að hjálpa þeim sem eru í nauðum í öðrum heimshluta er að greiða örláta föstufórn og styðja við Hjálparstarfssjóð kirkjunnar, sem og að leita leiða til að þjóna þeim sem búa í okkar eigin samfélagi. Ímyndið ykkur hvernig jörðin öll yrði blessuð ef allir myndu fylgja þessari leiðsögn!

Bræður og systur, og sérstaklega unglingarnir, þegar þið reynið að líkjast frelsaranum Jesú Kristi meir og lifið eftir sáttmálum ykkar, munuð þið áfram vera blessuð með þrá til að lina þjáningar og hjálpa þeim sem eru minna lánsamir. Minnist þess að hinar mestu þarfir gætu reynst beint fyrir framan ykkur. Hefjið þjónustu ykkar á eigin heimili og innan eigin fjölskyldu. Þetta eru sambönd sem geta orðið eilíf. Jafnvel þótt aðstæður fjölskyldunnar séu ekki fullkomnar – og kannski einkum þá – getið þið fundið leiðir til að þjóna, upplyfta og styrkja. Byrjið þar sem þið eruð, elskið þau eins og þau eru og búið ykkur undir fjölskylduna sem þið viljið eignast í framtíðinni.

Biðjið um aðstoð til að koma auga á þau deildarsystkini sem þarfnast kærleiks og uppörvunar. Í stað þess að mæta í kirkju með spurninguna „hvað mun ég fá út úr þessum fundi?“ spyrjið „hver þarfnast mín í dag?“ Hvað hef ég að gefa?

Þegar þið eruð ykkar eigin fjölskyldu og meðlimum deildarinnar til blessunar, leitið einnig leiða til að blessa þá sem í samfélagi ykkar. Hvort sem þið hafið tíma fyrir mikla þjónustu eða hafið bara nokkra klukkutíma á mánuði, mun verk ykkar vera öðrum til blessunar og mun einnig vera ykkur til blessunar á þann hátt sem þið fáið vart ímyndað ykkur.

Spencer W. Kimball forseti sagði: „Guð gefur okkur gaum og hann vakir yfir okkur, Það er samt venjulega í gegnum aðra manneskju sem hann mætir þörfum okkar.”6 Megum við öll gera okkur grein fyrir því hvaða forréttindi og blessun það er að taka þátt í verki himnesks föður þegar við sinnum þörfum barna hans, það er bæn mín í nafni Jesú Krists, amen.